Hetja í Landnámssetrinu í Borgarnesi: Á als oddi

Hetja – Gleðileikur byggður á Bárðarsögu Snæfellsáss

Sýning í Landnámssetrinu, Borgarnesi

Höfundur: Kári Viðarsson
Leikjstóri: Víkingur Kristjánsson
Lýsing og hljóð: Gunnar
Leikari: Kári Viðarsso


Landnámssetrið í Borgarnesi

Ég sagði sem svo í leikdómi um Dísu ljósálf í seinustu viku, að Kára Viðarssyni hefði tekist að gera froskinn Jeremías að algeru sjarmatrölli. Ég var því að velta því fyrir mér á leiðinni upp í Borgarfjörð í gær, hvort þessi sjarmi mundi fylgja Kára yfir í aðrar persónur, kannski ögn flóknari en froskurinn Jeremías. Ég varð ekki fyrir vonbrigðum. Í gærkvöldi varð ég vitni að því, að Kára Viðarssyni tókst að blása lífi í löngu gengna þjóðsagnapersónu af tröllakyni, sem tók sér bólfestu í Snæfellsjökli á landnámsöld og varð með tímanum átrúnaðargoð Snæfellinga.

Ég sé þetta alveg fyrir mér. Kári er Snæfellingur. Og þegar hann var lítill drengur, sagði pabbi honum söguna af Bárði Snæfellsás. Sagan greiptist í huga drengsins, fékk líf í hugskoti hans. Á hverju kvöldi vildi hann heyra söguna aftur, vildi fá meira að heyra um Bárð og örlög hans. Hann sat við gluggann og virti fyrir sér jökulinn, bústað hinna framliðnu. Stundum fannst honum hann sjá Bárði bregða fyrir. Í augum barnsins var þetta allt raunverulegt.

Engin furða þótt Kári vildi ekki gerast nuddari eins og pabbi krafðist. Pabbi getur sjálfum sér um kennt. Drengurinn vildi halda áfram að lifa í þeim sýndarveruleika, sem pabbi hafði kveikt með honum. Hann vildi gefa Bárði Snæfellsás líf og til þess að það gæti orðið, varð hann að læra þá list að leika – jafnvel froska – snúa sér alfarið að leiklistinni, þessu “helvítis leikarakjaftæði”, eins og pabbi hans orðaði það.

Ég geri ráð fyrir, að flestir kunni söguna af Bárði Snæfellsás betur en ég, en hann ku hafa valið sér Hellna til búsetu, kvæntur maður og heimkominn eftir giftusamlega stúdíóreisu til Noregs, þar sem hann stundaði líkamsrækt og galdrakukl hjá tengdaföður sínum, Dofra, árum saman. Að hann skyldi setjast að á Hellnum segir okkur, að Bárður hafi verið fagurkeri og rómantískur í meira lagi. Hver vill ekki eiga athvarf á Hellnum? Nema hvað þegar honum varð á að drepa tvo bróðursyni sína í bræðiskasti, þá ákvað hann að ganga í jökulinn til að refsa sjálfum sér – sem sýnir líka að Bárður var réttlátur maður og heiðarlegur Enda naut hann virðingar í sveitinni sinni – sigldur maðurinn. (Það er munur en heimaalningsdýrkunin, sem nú tröllríður öllu).

Fjórtán persónur koma fram í þessum gleðileik, sem spannar þrjár – ef ekki fjórar – kynslóðir landnámsmanna. Kári leikur þær allar og tekst að draga upp litskrúðuga flóru karla og kellinga, barna og unglinga, sem hver og einn fær líf og lit og karakter í meðförum hans. Kári er jafnframt sögumaður, sem dettur stundum út úr rullunni af ásettu ráði, áhorfendum til mikillar skemmtunar. Ræðst á Gunna tæknimann alveg að ósekju og minnir okkur stöðugt á, að við erum í leikhúsi.

Eins og í öllum góðum leikritum fjallar það aðallega um ástir til kvenna og þau vandræði, sem af þeim hljótast.Við fylgjumst spennt með afdrifum Bárðar í upphafi, en ég verð að viðurkenna, að það sljákkaði eilítið á áhuganum undir lokin, þegar fleiri persónur fóru að skerast í leikinn. Í rauninni eru þetta tvær sögur, og Gestur er ekki dreginn jafn skýrum dráttum og Bárður faðir hans – þess vegna ekki eins áhugaverður. Mér finnst eins og það hefði mátt stytta verkið og þjappa því betur saman. Það hefði styrkt heildina.

Kára tekst hins vegar að hleypa ólgandi lífi í landnámsmanninn – eins og ég byrjaði að segja í upphafi – gera hann að sjarmatrölli. Honum tekst að gera hálfröllið að mennskri veru með holdi og blóði. Það stafar mikil hlýja og gleði frá Kára, sem smitar út í salinn. –(Hann hefði eflaust orðið ágætur nuddari, en fleiri fá að njóta hæfileika leikarans, hafðu það í huga, Kárapabbi) – þar að auki hefur Kári fína fysík , býr yfir glæsilegri tækni, hefur sterka og þægilega rödd og getur bæði sungið, spilað og dansað. Hann hefur svo sannarlega lært ýmislegt í útlandinu – ekki síður en Bárður Snæfellsás á sínum tíma. Nú er bara að vita, hvort landinn kunni að meta sigldan manninn – rétt eins og Snæfellingar kunnu að meta Bárð á sínum tíma – og taki honum opnum örmum.