SAGAN ENDURTEKUR SIG

Ritað dagana sem heimsókn forseta, ráðherra og borgarstjóra Eystrasaltríkjanna stóð yfir í Reykjavík, þann 25.8. – 27.8.2022

  • Jón Baldvin var hunsaður frá upphafi.

Ég man það eins og það hefði gerst í gær. Þetta var um miðja nótt í janúar 1991. Niðamyrkur allt um kring. Og síminn hringdi. Kunnugleg rödd sagði: „Jón Baldvin, nú er stundin runnin upp. Þetta er neyðarkall frá Vilníus.“ Þessa rödd átti Vytautas Landsbergis, forseti Þjóðþingsins í Vilníus. Honum var mikið niðri fyrir. Ég heyrði hvert orð sem hann sagði: „Rússarnir hafa ákveðið að láta til skarar skríða“. Ég man, að það fór um mig hrollur við tilhugsunina – Rússarnir – til skarar skríða!

„Þú verður að koma strax – nærvera NATO-ráðherra skiptir máli.  En enginn þeirra hefur svarað ákalli mínu“.

Þessir örlagaríku dagar í Litáen í janúar 1991, þegar farsímar og tölvur voru enn óþekkt fyrirbæri, heyrði ég ekkert í manninum mínum, frá því hann kvaddi mig með kossi um niðdimma nótt og þar til hann sneri til baka –  heill á húfi – sjö dögum seinna.

 Ég vissi, að einhverjir fréttamenn voru í för með honum. Strax fyrsta kvöldið var aðalfréttin í sjónvarpinu sú, að Jón Baldvin hefði tapað skjalatöskunni sinni á leiðinni. Það var gefið í skyn, að sennilega hefði JBH bara dottið í‘ða og þess vegna týnt töskunni sinni! Seinna var sú skýring fundin upp, að líklega hefði KGB stolið þessari umræddu tösku. Hvort tveggja staðleysustafir – tóm vitleysa. Alla vega er taskan enn á sínum stað.

Og svona eftir á að hyggja: Var þetta það sem þótti fréttnæmast við þessa örlagaríku ferð?  Who Cared!

Og sagan endurtekur sig í dag.  

  • Einn gegn öllum.

Sumarið 1990 var haldin fjölþjóðleg ráðstefna um mannréttindamál í Kaupmannahöfn.

Þar voru samankomnir utanríkisráðherrar Evrópuríkja, Bandaríkjnna og Kanada. Og meðal gesta voru utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna, sem hafði verið boðið sérstaklega sem nýfrjálsum þjóðum.

Þegar fulltrúar Sovétríkjanna sáu hvers kyns var, stóðu þeir upp og hótuðu að yfirgefa salinn, nema „þessum mönnum“ yrði vísað á dyr. Þeirra lönd væru hluti af Sovétríkjunum og þess vegna ættu þeir ekkert erindi á þennan fund. Til þess að halda friðinn lúffaði Uffe, utanríkisráðherra Dana, sem var gestgjafinn. Fulltrúum Eystrasaltsþjóða var  vísað á dyr.

Þar með var eiginlega botninn sleginn úr þessari ráðstefnu um mannréttindi í lok Kalda stríðsins.

Salurinn var þéttskipaður ráðherrum og sérfræðingum þeirra. Og nú átti að halda áfram, eins og ekkert hefði í skorist. En það fór á annan veg. Þegar kom að Jóni Baldvini í ræðustól, lagði hann frá sér fyrirframsamda ræðu og talaði eins og hugurinn bauð – beint frá hjartanu. Hann tók upp vörn fyrir þessi smáríki og fór hörðum orðum um ófyrirgefanlega framkomu stórveldanna. Svokölluð mannréttindi væru greinilega bara orðin tóm og einskis metin, þegar á reyndi – og brotin á þeim, sem síst skyldi.

 Enginn annar lagði honum lið né tjáði sig um málið.

En enginn hinna viðstöddu – né þeirra brottreknu – gat heldur gleymt þessu augnablíki í sögunni.  Þessi atburður í Kaupmannahöfn  var eflaust það, sem Landsbergis hafði í huga, þegar hann sagði í símann við Jón Baldvin:“Ef þú meinar eitthvað…… komdu strax. Við væntum hjálpar frá NATO, en þeir þora ekki“.

Í ágúst þetta sama ár (1991) var gerð tilraun til stjórnarbyltingar í Moskvu. Allt fór upp í loft.Við munum eftir mynd af glaðhlakkalegum og gleiðfættum Boris Yeltsin uppi á skriðdreka með krepptan hnefa – „Nú er það ég sem ræð“.

En var það svo?

Hvort var það Gorbachev, Yeltsin eða gamla KGB-klíkan, sem fór með völdin þessa viku? Allt var í óvissu.

Og nú var um að gera að nota tímann – nota sér tómarúmið, sem hafði skapast.

NATO boðaði til skyndifundar í Brussel. Niðurstaðan af þeim fundi var sú að bíða og sjá, hverju fram yndi. Jón Baldvin lýsti því yfir í stuttri ræðu, að hann væri ekki á sama máli. Nú væri lag – annað hvort að hrökkva eða stökkva. Pólitískt tómarúm – upplausnarástand í Kreml.

En Nato vildi bara sitja hjá og  – bíða átekta.

Þegar ég lít til baka, finnst mér  eins og ég hafi  verið með honum þennan dag í Brussel – og sérstaklega þetta kvöld í Kaupmannahöfn á heimleiðinni. En auðvitað var ég það ekki nema í huganum.

Það má eiginlega segja, að Jón Baldvin hafi hertekið sendiráð Íslands þetta kvöld –  og fram á nótt. Hann settist við símann. Það tók alla nóttina að ná sambandi við hinar hersetnu höfuðborgir, Tallinn, Riga  og Vilníus. Þar biðu menn milli vonar og ótta eftir tíðindum frá Moskvu. Enginn vissi, hver staðan yrði að morgni næsta dags – hver hefði völdin.

Undir morgun höfðu allir utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna þegið boð Íslands um að mæta til fundar í Reykjavík innan þriggja daga.

Lyklinum var skilað til sendiherra með þakklæti fyrir lánið. Svo var stokkið upp í næstu flugvél og flogið heim.

Þegar ég lít til baka, hvarflar það að mér, að enginn – eða fáir – hafi áttað sig á mikilvægi þessa fundar, eða hvað þessi fundur – eða athöfn – átti eftir að draga langan slóða á eftir sér, breyta miklu Í lífi okkar sjálfra og annarra. Mér var ekki boðið að vera viðstödd – ætli ég hafi ekki bara gleymst.

En þegar ég skoða myndir frá athöfninni í Höfða, þá má lesa það af svip gestanna þriggja – og gestgjafans – að þeir voru mjög hamingjusamir þennan dag.

Þeir „brosa gegnum tárin“.  Langþráðum áfanga náð.

Fengelsismúrarnir endanlega að hrynja.

Þessi saga byrjaði með því, að fyrir þrjátíu árum stóð einn maður upp – einn gegn öllum – og mótmælti rangsleitni og þöggun. Þrjátíu árum síðar, þegar þessi saga er rifjuð upp og fulltrúar hinna hernumdu þjóða vilja þakka fyrir sig, þá er einum manni úthýst. Þeim hinum sama og mótmælti í upphafi.

Einn gegn öllum

  • Mér er óglatt.

Ég var að enda við að lesa athugasemdir 57 Íslendinga á fésbók um grein mína, sem birtist á visir.is í gær. Og ég verð að segja, að mér er flökurt og mig svimar. Inn í hvers konar heim horfi ég? Illskan , hatrið, og ljótleikinn blasa við. Er þetta rödd almennings á Íslandi? Ég tek það fram, að þrátt fyrir háan aldur hef ég aldrei kynnst svona hugsunarhætti, heyrt þessa rödd ljótleikans. Hvers á ég að gjalda?

En allar þessar ljótu sögur um mig og manninn minn minntu mig samstundis óþyrmilega á eitthvað úr fortíðinni. Já, einmitt, það var sumarið 2018. Fyrir fjórum árum. Þá upplifði ég eitthvað svipað – á mínu eigin heimili, hugsið ykkur! Hún hét Laufey Ósk Arnórsdóttir. Kynni okkar hófust á Ísafjarðarárum okkar, og ég hafði boðið henni í heimsókn. Og nú sat hún við hlið mér við matarborð, sem var hlaðið veisluföngum og ljúfum drykk. Sólin skein og allt var svo undur fallegt.

En allt í einu dró ský fyrir sólu, og mig svimaði, sá allt svart. Þetta var óbærileg upplifun – jafnvel óhugnanleg, því að  Laufey byrjaði allt í einu að öskra á okkur úr sæti sínu við hlið mér. Hún æpti að manni mínum, sem sat við hinn borðsendann. Og þetta var í fyrsta sinn á ævinni, sem ég horfði inn í þennan heim haturs og illsku, ég lýg því ekki. Hún var stjórnlaus,  jós úr sér óþverranum – notaði jafnvel sömu orðin og lesendur á visir.is í morgun – perri, barnanýðingur, drullusokkur…. í það óendanlega. Hún var óstöðvandi, og þegar Jón Baldvin stóð upp frá borðum í vanþóknun sinni, hljóp hún æpandi á eftir honum og þagnaði ekki, fyrr en hann var búinn að henda henni út úr húsinu, gersamlega orðlaus og yfirkominn eins og ég.

Þennan morgun kynntist ég ljótleikanum, stjórnlausu hatri og ruddalegri framkomu í fyrsta sinn á ævinni.

 Og þessi dapurlegi lestur í morgun minnti mig óþyrmilega á þessa stund fyrir fjórum árum.

  • Ljótar sögur

Ég veit svo sem, að „Veislan á þakinu, sem aldrei varð“, er nú orðin fræg að endemum – meira að segja í sjálfu réttarkerfinu. Þegar Laufey Ósk byrjaði að ausa úr sér svívirðingum um Jón Baldvin, komst hún svo að orði: „Ég hef heyrt svo margar ljótar sögur um þig, Jón Baldvin“.  Merkilegt, segi ég, vegna þess að u.þ.b. hálfu ári seinna var það sjálfur almannatengill Sjálfstæðisflokksins, sem heitir því göfuga nafni Friðjón Friðjónsson,  sem notaði sama orðalag, þegar hann auglýsti opinberlega eftir „ljótum sögum“ um Jón Baldvin.  Það gerði hann sem slíkur –  almannatengill Sjálfstæðisflokksins og formanns hans –  á sinni eigin heimasíðu.

 Það er vitað, að Sjálfstæðisflokkurinn svífst einskis  í ófrægingarherferðum gegn  andstæðingum sínum, ef þeim finnst þeir vera hættulegir. þetta hefur meira að segja áunnið sér sérstaka nafngift í vitund almennings: „Skrímsladeildin“.  Nýlegt dæmi um þetta var skipulögð aðför á netinu að Katrínu Jakobsdóttur., sem þá var kölluð „Skatta Kata“. Það var svo gleymt og grafið, þegar Katrín gekk til liðs við þá í ríkisstjórn. En þetta er bara pólitík, eins og við þekkjum hana.

Hitt er nýmæli að auglýsa opinberlega eftir rógsögum, sem nota má til að ræna andstæðinga mannorðinu. Þeim hlýtur að þykja mikið við liggja, þótt maðurinn minn hafi hætt í pólitík fyrir meira en aldarfjórðungi.

Það er orðstírinn, sem þarf að eyðileggja.

 Hvað sagði ekki vinur okkar, Styrmir Gunnarsson?: „Þetta er ógeðslegt þjóðfélag. Það er allt jafn ógeðslegt – engar hugsjónir , bara

sérhagsmunir“. Kannski fer ég ekki með þetta orðrétt, en þetta er frægasta tilvitnunin í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um Hrunið. Kannski eru þetta einkunnarorð –  áhrínisorð –  íslenska lýðveldisins eftir Hrun.

. Í hvers konar samfélagi búum við?

  • Lygaþvaður

Sjálfstæðismanninum með fallega nafnið, Friðjóni Friðjónssyni, hafa væntanlega borist margar „ljótarsögur“ um mig og manninn minn,  sem hann lýsti eftir úr sorptunnum samfélagsins (og ég minntist á í gær). Það skyldi þó ekki vera, að helsta ástæðan  og réttlætingin fyrir útskúfun okkar úr íslensku samfélagi í dag séu þessar sögur, sem almannatengill Sjálfstæðisflokksins auglýsti eftir, í þeim tlgangi að dreifa á laun í afkimum þjóðfélagsins.

Það þorir bara enginn að segja það upphátt.

 En ég get sagt ykkur, að allar þessar ljótu sögur um okkur Jón Baldvin eru lygaþvaður – haturspóstur sem á sér enga stoð í raunveruleikanum.

Ég neyddist til þess að lesa þessar sögur á sínum tíma á síðum Stundarinnar þann 11. janúar, 2019. Mig sundlaði við þann lestur, rétt eins og mig sundlaði  undir öskrum og lygum Laufeyjar Óskar á heimili mínu sumarið áður.

Og ég þekkti ekki þetta fólk, sem verið var að lýsa. Voru þetta við Jón Baldvin?  Hann káfandi á lærum og rössum ókunnugra kvenna og ég þuklandi á kynfærum ungra karla? Alltaf sífull, flissandi drusla –  í einu orði sagt viðbjóðsleg? Um leið og ég las þessar lýsingar á sjálfri mér, þá vissi ég samstundis,  að sögurnar um manninn voru líka lygi.

Allar gróusögurnar um okkur, sem birtust í Stundinni 2019, voru gamlar og löngu fyrndar, nema ein: Veislan á þakinu –  sem aldrei varð – því henni lauk aður en hún hófst. Við stóðum upp frá borðum án þess að snerta mat né drykk.

Sú saga er lygi frá upphafi til enda. Það skal ég sverja við nöfn foreldra minna og dóttur, sem eru nú ekki lengur á meðal vor. Nú sitjum við hér sem sakborningar frammi fyrir dómstólum og bíðum örlaga okkar.

Í hvers konar samfélagi lifum við?