Faust: Eru lögfræðingar (líka) í helvíti?

FAUST, leikverkið er byggt á skálverki Goethes.
Frumsýnt í Borgarleikhúsinu 15. janúar 2010

Höfundar:
Björn Hlynur Haraldsson
Gísli Örn Garðarsson
Nína Dögg Filippusdóttir
Víkingur Kristjánsson og Carl Grose

Leikstjóri: Gísli Örn Garðarsson
Leikmynd: Axel Hallkell Jóhannesson
Búningar: Filippía Elísdóttir
Lýsing: Þóðður Orri Pétursson
Hljóðmynd: Thorbjörn Knudsen og Frank Hall
Leikgervi: Sigríður Rósa Bjarnadótti


Frá Borgarleikhúsinu

„Geggjuð flott sýning”, sagði gelgjan við hliðina á mér, um leið og hún stóð upp að lokinni forsýningu, sem ég sótti til að undirbúa mig. „Kjaftæðið í kallinum var að vísu hundleiðinlegt, en loftfimleikarnir voru cool.”

Einhvern veginn svona komst hún að orði, stelpan. Og ég fór að hugsa um það á leiðinni heim, að líklega væri þetta einmitt rétta leiðin til að pranga heimsbókmenntunum upp á gelgjur og göslara nútímans. Beita þau sömu aðferðum og í leikskólanum? Gera námið að leik? Og áður en þau vita af, hafa þau fengið áhuga á heimspekilegum vangaveltum Goethes – ég tala nú ekki um allra hinna, Shakespeares, Schiller eða Ibsens. Og þessi aðferð á auðvitað rétt á sér, ef hún nær tilætluðum árangri.

Atli Heimir vinur minn segir mér, að allir mögnuðustu tónsnillingar veraldarinnar hafi selt sálu sína til þess að láta drauminn rætast um fullkomnun í list sinni. Tölum við ekki um himneska fegurð? Það fegursta í hinni æðstu list, tónlistinni, er af því taginu. Það brýtur boðorð mennskrar tilveru, það er yfirskilvitlegt, ofurmannlegt. Þaðan kemur orðatiltækið: listamaður af Guðsnáð ? En ef forsjónin neitar þér um náðargáfuna, hvað er þá til ráða? Að semja við keppinautinn, húsbóndann í Neðra.

Fabúlan um Faust er ævaforn. Hún byrjar þar sem freistarinn leiðir frelsarann upp á ofurhátt fjall og sýnir honum dýrð heimsins og segir: Allt þetta skal veitast þér – ef þú fellur fram og tilbiður mig? Frelsarinn vísar freistingunni á bug með orðunum: Vík frá mér, Satan.
En frelsarinn var ekki venjulegur maður. Hann var sonur Guðs – sendur niður í Táradal mannlífsins til þess að bera syndir heimsins. Vald hans var ekki af þessum heimi. Með Guð að bakhjarli gat hann unnið kraftaverk. Haltir og lamaðir gengu sem heilir væru og blindir fengu sýn. Er nema von, að venjulegir dauðlegir menn freistist til þess að vilja ná slíku valdi á tilverunni?

En getur það gerst án fórna? Hverju viltu fórna fyrir það að losna úr álögum mennskrar tilveru? Til þess að rísa upp yfir mennsk takmörk, til að öðlast hlutdeild í himnesku valdi? Vísindamaðurinn sem vill skilja gangverk náttúrunnar (sköpunarverk Guðs)? Valdsmaðurinn sem vill beygja aðra undir vilja sinn? Auðkýfingurinn sem í krafti peninganna vill kaupa sér völd (og jafnvel hamingju)?

Allt vald spillir. Alræðisvald spillir algerlega. Þetta er mannkynssagan. Þetta er samtíminn. Þetta er Doktor Faustus – dæmisagan um fórnarkostnað þess að reyna að brjóta af sér hlekki mannlegra takmarka.

Fabúlan sem Goethe byggði á, er sögð vera þýsk frá 16. öld. Það tók hann 60 ár að reka smiðshöggið á þetta meistaraverk sitt, sem jafnframt er eitt af öndvegisverkum heimsbókmenntanna. Hann var rúmlega tvítugur þegar hann lagði fyrstu drög að verkinu, en lauk því rétt fyrir andlátið, 83 ára að aldri. Þetta var æviverk hans. Meistaraverk hins þýska þjóðskálds. Eiginlega er þetta ekki leikrit (það tekur um 22 klukkustundir í flutningi), heldur heimspekirit í ljóðstaf. Þeir fáu sem hafa lesið það, hafa sumir hverjir aldrei orðið samir eftir. Ótal skáld hafa reynt sig við þessa sígildu dæmisögu með misjöfnum árangri, en Faust Goethes er tindurinn sem gnæfir yfir alla.

Þeir sem leggja leið sína í Borgarleikhúsið til að upplifa Faust eftir höfundateymi undir stjórn Gísla Arnar Garðarsonar þurfa ekki að óttast að falla á prófi í þýskri heimspeki. Þetta er ekki Faust Goethes, en samkvæmt leikskránni er þetta verk innblásið af honum

Gamall leikari, sem lent hefur inni á elliheimili að loknum glæstum leikferli er þrátt fyrir forna frægð sokkinn í þunglyndi og efast um allt og allt. Til hvers er þetta líf? Vanitas vanitatis – allt er þetta helber hégómi. Af einhverjum ástæðum hafði hann aldrei lagt í að leika Faust. En sæta hjúkkan á elliheimilinu og aðrir aðdáendur stórleikarans mana hann upp í að gefa rullunni líf hér og nú. Og hann byrjar. Þetta er magnaður texti og maður hugsar gott til glóðarinnar til þess sem í vændum er: Sannleikurinn mun gera yður frjálsa… Þannig byrjar þetta. Og byrjar ansi vel. Það sem máli skiptir kemst til skila: Fánýti mannlegs lífs, hégómleiki, sjálfsblekking, vanmáttur, vonleysi, uppgjöf, bölmóður.

En einmitt þegar textinn er að byrja að hrífa okkur með, birtist gæslumaður ellinnar og rýfur flutninginn með eurovision lagi innihaldslausrar bjartsýni. Alvaran, angistin, örvæntingin, tilvistarkreppan hverfur út í buskann og ömurleg rútína gamalmennahælisins tekur við. Gæslumaður klappar saman lófunum, “heimsóknartíma lokið, smáæfingar í hjólastólunum, svo allir að hátta og lúlla.” Þetta endurtekur sig svo aftur og aftur allan leikinn í gegn. Við erum ýmist í skáldlegu algleymi eða lítilsvirðandi andrúmi hælisins.Við og leikendur eru hrifin á brott úr ímyndaðri veröld inn í raunveruleikann. Sum okkar neita að horfast í augu við staðreyndir.

Hinn hryssingslegi raunveruleiki er sá, að þegar fólk eldist, er tilhneigingin sú að umgangast það eins og börn. Tala niður til þess, hugsa fyrir það og gera því upp einhvern staðlaðan hugarheim, þröngan og fátæklegan. Óþolandi! Þessi framkoma er undirstrikuð í leikritinu og verður enn afkáralegri og ógeðfelldari einmitt vegna þess að eldra fólkið, vistmenn hælisins, bera af í andlegu atgervi, hugsa hátt og er enn að láta sig dreyma. Það er sagt: tvisvar verður gamall maður barn – en sumir verða aldrei annað en börn

Rúnar Freyr Gíslason er næstum fullkominn í hlutverki gæslumannsins (bróður Grétu). Útlit, framkoma og talsmáti hins hversdaglega gæslumanns verður svo ótrúlega fyndið í meðförum Rúnars. Á sinn látlausa hátt treður hann ömurlegheitunum miskunnarlaust oní kokið á okkur – heimsóknartíma er lokið.

Það má eiginlega segja, að nokkurn veginn hið sama gildi um restina af leikhópnum. Þegar fólk er búið að vinna svona lengi og náið saman og hefur ætíð sett markið hátt, ætíð valið krefjandi verkefni og væntanlega pælt dag og nótt, etið saman, rífist og hlegið, og jafnvel sofið saman – þá skyldi maður ætla, að fullkomnun væri á næsta leyti.

Björn Hlynur og Nína Dögg í kompaníi við Hilmi Snæ (sem er nýr í hópnum) eru ógleymanlegt tríó. Líkamlegt atgervi, fimi þeirra, fjör og lævís gamansemi er rauði þráðurinn í leikverkinu og heldur dampi allan tímann. Samdráttur Björns Hlyns og Unnar Aspar kom mér fyrir sjónir hvað eftir annað eins og bernsk málverk Chagalls, einkum þegar þau sigla með himinskautum í alsælu ástarinnar. En kannski var þetta einmitt of englapíkulegt til þess að vera trúverðugt. Til hvers hafði öldungurinn selt sálu sína um alla eilífð? Til þess að mega upplifa ofsafengna ástríðu æskuástarinnar, þótt ekki væri nema eitt augnablik. Þarna vantaði að gefa frumstæðum – eigum að segja jarðneskum – kenndum lausan tauminn, erótík, losta…
Víkingur er einlægur og lítillátur rithöfundur, en bestur í glímu sinni við hjólastólinn, flæktur í netinu ofar höfðum áhorfenda. Hanna María Karlsdóttir bregst ekki frekar en fyrri daginn. Hæðni og svartur húmor klæða hana vel, samt róleg og yfirveguð eins og konum á hennar aldri hæfir. Ofjarl flestra karlanna.

Þá er bara eftir að geta Þorsteins Gunnarssonar, sem ekki hefur sést á sviði árum saman. En hann hefur engu gleymt, og framsögn hans bar af, hvert orð heyrðist um allan sal. Þorsteini tekst að vekja samúð með gamla manninum. Eftirsjá hans, vonbrigði og löngun nísta merg og bein. Öllu þessu tekst Þorsteini að koma til skila.

Engu að síður er ég ekki sátt við endi verksins, sem er ekki sök Þorsteins heldur höfunda. Gamli maðurinn er látinn leggjast á bæn og biðja guð um miskunn. Og þar með fellur tjaldið. Bæninni er ósvarað. Heldur dauflegur endir, meira í ætt við kritniboð, sem er ekki beint í anda verksins. Hugmyndir Goethes voru miklu róttækari. Stundin er að renna upp. Hlið helvítis opnast og gamli maðurinn á engrar undankomu auðið. Hann brennur í logum vítis og þannig endar líf hans. Mér hefði fundist það rökrétt framhald og endir á magnþrunginni sýningu. Það er einum of billeg lausn að láta sjálfan Faustus leita athvarfs hjá Gunnari í Krossinum.

Sýningin var magnþrungin ekki síst fyrir beitingu ljósa, rimla, neta og hengilása, sem hvirfluðust um salinn og brutu niður hin hefðbundnu mörk leikhússins. Leikendur æddu um hvolfið yfir höfðum okkar, dunkuðu í netið eins og skotnar gæsir eða eins og púkar á fjósbita. Það hefði mátt halda, að þeir væru allir ballettdansarar eða hefðu unnið í sirkus frá barnsaldri. Þarna voru í hópnum að vísu tveir íþróttamenn, sem sýndu framúrskarandi fimi, þau Svava Björg Örlygsdóttir og Jóhannes Níels Sigurðsson.

Það er ekki hægt að ljúka þessum pistli um Faust í Borgarleikhúsinu án þess að fara orðum um umgerðina alla, aðbúnaðinn, búninga, hljóð og lýsingu. Manni skilst, að það sé annað leikrit í gangi baksviðs, þar sem sviðsmenn leika í myrkrinu á móti leikurunum og sjá um, að ekkert fari úrskeiðis. Það er ekki lítið traust, sem þeim er sýnt við þessar aðstæður. Og ekkert klikkaði á frumsýningu. Allt rann hnökralaust, jafnvel ljúflega.

Leikmynd Axels Hallkels er eins konar framhald af netinu í lofti aðalsalar. Netið afmarkar hælisveggina, svart myrkrið að baki ítrekar einangrunina og innilokun hælisfólksins. Gluggarnir standa hátt, fangelsi. Lýsing Þórðar Orra er óskiljanlegt víravirki og nær inn í hvern krók og kima án þess að vera yfirþyrmandi. Filippía hefur búninga ellinnar gráa og hversdagslega eins og vera ber, en Djöfullinn og fylgdarlið hans klæðast skartklæðum í anda pönkara og annarra stertimenna. Leikgervin eru frábær og á Sigríður Rósa hrós skilið fyrir karaktera sína. Ég hefði viljað sitja nær sviðinu til að geta séð betur framan í leikendur. Það hefði gefið verkinu nýja dýpt, er ég viss um.

Og ekki má gleyma tónlistinni, sem var samin sérstaklega fyrir þessa uppfærslu, að mér skilst. Tónlist sem uppfylling eða til áherslu hefur nokkra sérstöðu. Hún má ekki vera of yfirþyrmandi, stela sjóinu, en hún má heldur ekki fletjast út undir verkinu. Sumum snillingum tekst að þræða þennan milliveg. Nick Cave og Warren Ellins (sem ég þekki hvorugan) eru augljóslega í þeim hópi. Hvað eftir annað rann kalt vatn milli skinns og hörunds, Tónarnir fylgdu orðunum, gáfu þeim óvænt vægi og örvuðu ímyndunarafl njótenda.

Það var ekki annað að heyra í gærkvöldi en að Faust undir stjórn Gísla Arnar Garðarssonar hefði algerlega slegið í gegn. Meirihluti áhorfenda var ungt fólk, og sýningu var ekki fyrr lokið en allir viðstaddir stóðu upp og kölluðu leikara fram hvað eftir annað. Það var enn gleðiglampi í augum, þar sem gestir streymdu út í nýárssuddann, ögn dasaðir eftir spennu og tilhlökkun kvöldsins.

Þetta var geggjuð flott sýning, eins og gelgjan sagði. Og hvað viljið þið meira?