Góðir Íslendingar: Eins og í spegli

Góðir Íslendingar frumsýnt í Borgarleikhúsinu 22. janúar 2010 – finnst við ekki vera í tengslum við raunveruleikann –

Höfundar: Mindgroup
Jón Atli Jónasson
Jón Páll Eysteinsson
Hallur Ingólfsson

Myndband: Mindgroup

Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Leikgervi: Sigríður Rósa Bjarnadóttir og leikhópurinn
Búningar: Stefanía Adolfsdóttir og leikhópurinn

Leikendur:
Bergur Þór Ingólfsson
Dóra Jóhannsdóttir
Halldór Gylfason
Halldóra Gerimundsdóttir
Hallur Ingólfsson
Jón Atli Jónasson
Jón Páll Eysteinsso


Hallur Ingólfsson og Halldóra Geirharðsdóttir í hlutverkum sínum í sýningunni Góðir Íslendingar í Borgarleikhúsinu. Borgarleikhúsið

Fyrir nokkrum dögum sá ég kvikmyndina “Maybe I should have”. Aðalpersónan í myndinni hljóp út um víðan völl með kvikmyndavélina í eftirdragi, hvort sem það var í Reykjavík, Lúxemburg eða Tortolu, og spurði spurninga. Hann spurði erfiðra spurninga og heimtaði heiðarleg svör. Hann fékk svörin og okkur leið ekkert vel – fannst þó að við hefðum komist eitthvað nær kjarnanum – jafnvel fundið sökudólgana, gripið á meinsemdinni.

Leikritið sem ég sá í gærkvöldi fjallar um sama efni, en frá allt öðru sjónarhorni. Það fjallar líka um þolendur hrunsins, en að þessu sinni spyrja þolendur ekki spurninga, heldur eru þeir í afneitun – skilja ekki alvöruna. Eða eru bara í losti? Undir lokin var ég gripin lamandi vonleysi – vonleysi um framtíð þjóðar. Orðaskiptin á sviðinu drógu úr mér allan mátt – við hlógum að vísu eins og vitleysingar – en hvor var vitlausari, við eða þau á sviðinu?

Höfundarnir, þeir Jón Atli, Hallur og Jón Páll, draga íslensku þjóðina sundur og saman í háði, eru miskunnarlausir í gagnrýni sinni og benda á allt það versta í fari okkar – fáfengileika, heimsku, þröngsýni, fordóma, grimmd og eigingirni. Og þetta er ekki einu sinni skáldskapur. Þeir skálda kannski í eyðurnar, en efnið er allt sannleikanum samkvæmt – að þeirra eigin sögn. Þeir vinna efnið upp úr viðtölum og frásögnum Íslendinga í blöðum og tímaritum, í útvarpi og sjónvarpi. Þeir vafra um á netinu, pikka upp samræður á svokallaðri “face-book”, nefna oft youtube, ipod og idol, eurovision, metro og macdonalds. Hugarheimurinn nær ekkert upp fyrir veggi músarholunnar, sem birgir sýn. Þetta erum við sjálf í spegli, og spegillinn lýgur ekki. Þeir leggja á borð fyrir okkur sannleikann og nudda okkur upp úr honum, eins og salti í sár. Og þeir verða æ grimmari eftir því sem á leikinn líður. Þeir hægja á tempóinu, og við neyðumst til að hlusta grannt. Lokahnykkurinn er frásögn öryrkjans um dásemdir Thailands, eins fátækasta lands veraldar, þar sem allir eru svo glaðir og góðir, þótt þeir eigi hvorki til hnífs né skeiðar! Þeir vilja jafnvel ólmir láta ríða sér. Og það kostar eiginlega ekki neitt, eða mjög lítið!, segir hann. Sú frásögn flettir endanlega ofan af heimsku og fordómum litla mannsins, sem er eins og mús í holu sinni, veit ekkert, skilur ekkert. Íslendingar ættu að líta sér nær.

Þegar upp er staðið, er spurningin þessi: Er þetta ástand, sem höfundar lýsa undir rós, afleiðing hrunsins – eða kannski orsök hrunsins? Hvort kom á undan, eggið eða hænan? Varð hrunið, af því að við erum heimsk og fordómafull, eða urðum við skyndilega heimsk og fordómafull, þegar allt var farið til fjandans? Hvort finnst ykkur líklegra?

Leikmyndin er eins konar búr úr netadræsum, sem umlykur leikendur á alla vegu. Lýsingin leikur með og undirstrikar innilokunina og ógnina. Búrið er hátt og mjótt og með reglulegu millibili fellur þungt hlass af gluggapósti, reikningum og kröfum, ofan á höfuð fólksins, sem er lokað inni í þessu búri og veit ekki hvaðan á sig stendur veðrið. Í upphafi eru allir að reyna að hafa reglu á hlutunum, safna saman póstinum sínum, flokka hann og kannski borga líka. En eftir að hafa hlýtt á ræðu forseta Íslands, sem neitar að samþykkja Icesave-reikninginn, þá hættir fólkið í búrinu að sinna póstinum og að reyna að standa í skilum. Það liggur ekkert annað fyrir en að í leikslok muni þessi lýður drukkna í sínum eigin pósti og þar með væri málið leyst. En það er ekki því að heilsa. Í stað þess heldur fólkið áfram að tala og tala, án þess að segja nokkuð, það heldur áfram að afhjúpa músarholusjónarmið sín, fávisku og eymd. Það fer meira að segja að blaðra um það, að því líði miklu betur núna. Bla, bla, bla…

Sjónvarpið leikur veigamikið hlutverk í sýningunni. Það er partur af myndinni og spilar stóra rullu – er þó alltaf í bakgrunninum. Ég sá útundan mér litlar stelpur í fallegum brjóstahöldurum – svona höldurum, sem lyfta undir brjóstin. Og svo voru brjóstin mæld og haldararnir mærðir. Þeim var kennt að brosa og vera ánægðar með sjálfar sig. Mjög vinsælt sjónvarpsefni, sérstaklega meða ungra stúlkna. Ég sá ekki “Desperate Housewives” að þessu sinni, en ýmislegt í þeim dúr, og svo líka verur frá öðrum hnöttum – að mér sýndist.

Það hafði greinilega verið lögð mikil vinna í að raða inn “réttu” efni á dagskrá sjónvarpsins til að undirstrika viðfangsefni höfunda og sýna fram á, hvernig þessi miðill hefur áhrif og mótar hugsunarhátt heilla kynslóða. Einstaka sinnum var blasið í lúðra og þá þyrptust fangar búrsins að skjánum og hlustuðu af athygli. Fréttir og auglýsingar – algert “must.” Þjóðin fær að kjósa, ég skrifa ekki undir, nú verður þjóðin að sýna ábyrgð,” sagði forsetinn. Jesús minn! Fangarnir rönkuðu ekki við sér. Eða voru þeir bara í losti og afneitun? Þeir héldu áfram að blaðra um ekki neitt.

Alvöruumræða um hlutverk sjónvarpsins er löngu tímabær í okkar litla þjóðfélagi.

Þegar manni verður hugsað til þess, hvað sjónvarp skiptir miklu máli í uppeldi og fræðslu barna okkar, þá er niðurstaða hrollvekjandi. Og í alvöru mætti hugleiða það, hvort ríkissjónvarpið beri ekki töluverða ábyrgð á því, hvernig er fyrir okkur komið. Það menningarlausa ruslfæði, sem á borð er borið dag eftir dag, viku eftir viku, ár eftir ár, er mannskemmandi, svo ekki sé sterkara til orða tekið. Ég held, að höfundum þessa verks sé svipað innan brjósts og mér. Megi þeir halda áfram á þessari braut. Pólitísk leikverk eiga svo sannarlega erindi við þjóðina einmitt núna.

Leikmynd, lýsing, búningar, gervi og leikur – allt tvinnast þetta saman, og ef eitthvað klikkar, þá klikkar allt. En það var enginn sjáanlegur misbrestur á – nema hvað mér fundust sum gervin of ýkt, þannig að andlitin fengu ekki að njóta sín. Leikararnir eru greinilega mjög nánir hver öðrum. Hver öðrum betri, bæta hver annan upp – eins og einhver sagði. Ungir leikarar hafa líka til að bera ýmislegt, sem eldri og reyndari leikarar hafa ekki. Þeir búa yfir leikgleði, sem er gefandi og uppörvandi og berst eins og ilmur út í salinn. Þrátt fyrir harðneskjuleg og tæpitungulaus skilaboð höfundanna, þá gleðjumst við yfir listrænum árangri leikenda. Svo lengi sem höfundarnir hika ekki við að taka á kýlum samtímans og ungir leikarar koma boðskapnum til skila, gagnteknir leikgleði, er ástæðulaust að örvænta. Þá er enn von.