Tilbrigði við stef þrjár stjörnur: Sælla er að gefa en þiggja

Tilbrigði við stef eftir Þór Rögnvaldsson
Sýnt í Iðnó
1. stef
Eftir: August Strindberg
Leikstjóri: Inga Bjarnason
Aðstoðarleikstjóri: Hildur Sif Thorarensen
Búningar: Fitore Berisha
Lýsing: Bjarni Pálmason

Leikendur:
Lilja Þórisdóttir
Guðrún Þórðardóttir
Valgeir Skagfjörð
Gunnar Gunnsteinsson
Ólafur Þor Jóhannesso


Tilbrigði við stef

Hvar í heiminum nema á Íslandi getur maður farið í leikhús í hjarta borgar – þar sem þögnin í umhverfinu er slík, að gluggar standa galopnir og eina hljóðið sem berst inn, er gargið í gírugum gæsum – eða álftakvak í umvöndunartón? Hvergi, hugsa ég – en þannig er einmitt stemningin á efri hæðinni í Iðnó þessa dagana. Kaffileikhús – og það í orðsins fyllstu merkingu, því að það er boðið upp á kaffi, jafnvel heitt súkkulaði með rjóma og kruðeríi, í upphafi leiks og áhorfendur deila því með leikendum. Leikendur fá jafnvel eitthvað sterkara, þegar orðræðan verður of ágeng. Jarðgulur litur veggjanna heldur hlýlega utan um leikendur og gesti, þar sem þeir sitja í hnapp hver á móti öðrum. Svona var leikhús kannski einmitt hugsað í upphafi, staður þar sem maður talar við mann og segir sögu. Í svona þröngu rými fá orðin aukið vægi og það hentar mjög vel þeim, sem liggur mikið á hjarta og þurfa að veita tilfinningum sínum útrás.

Þannig finnst mér að hljóti að vera komið fyrir höfundi Tilbrigða við stef Strindbergs. Þór Rögnvaldsson er heimspekingur að upplagi og sérhvert atvik á leið um lífið veldur honum heilabrotum – kallar á íhygli og leit að lausnum. Þór hefur víða ratað, heima og erlendis og sækir hugmyndir sínar í sjóð lífsreynslunnar. Hann þekkir ástina og miskunnarleysi hennar, hann þekkir afbrýðisemi, öfund, ótta, vonbrigði og uppgjöf. Kannski hefur hann líka háð baráttu við Bakkus og orðið að lúta lægra haldi. Hann hefur gefið og hann hefur kannski líka stolið. Hann veit, að sá sem fyrirlítur sjálfan sig, hefur ekkert að gefa, getur ekki elskað aðra. Allt þetta leitar á huga heimspekingsins, hvílir á honum eins og mara. Og hann vill tala um það í þeirri von að finna svör og lausn. Svona lít ég á það.

Ég veit, að Þór hefur alla tíð fundið sálufélaga í August Strindberg, hinu óviðjafnanlega leikskáldi Svía, sem krufði tilfinningalíf mannskepnunnar á sinni tíð af fullkomnu miskunnarleysi við sjálfa sig og aðra. Þór sækir í sama farið og meistarinn eða heldur sig alla vega á svipuðum slóðum. Sænskt samfélag var á tímum Strindbergs miklu stséttskiptara en nú. Hin borgaralega yfirstétt lifði og hrærðist í eigin heimi, sem var hátt yfir hversdags tilveru lýðsins hafinn. Íslendingum sem ólust upp í frumstæðu sveitasamfélagi á tíð Strindbergs, hlýtur að hafa þótt veröld hans framandi. Kannski erum við farin að skilja hið fágaða borgaralega umhverfi í verkum hans betur nú til dags. Þess vegna er áhugavert að fylgjast með tilraun Þórs til að spila tilbrigði við stef Strindbergs – um ástina, hjónabandið, svik, framhjáhald og fyrirgefningu – og um öryggi og afkomu. Því hvort þráir konan meir: ást eða öryggi? Sá sem gerir öðrum illt, getur um leið neytt þann sem fyrir verður, til að horfast í augu við sjálfan sig og til að virkja sinn innri styrk. Loser wins? .Hvor er sterkari, sá sem þiggur eða sá sem gefur?

Þór hefur gott vald á íslensku máli. Leiktextinn er þjáll og liggur vel í munni, stundum jafnvel skáldlegur og myndrænn. Það er gaman að fara með og hlýða á góðan texta.

Leikritið hefst á stefi Strindbergs og síðan koma fjögur tilbrigði við það eftir Þór Rögnvaldsson. Tvær konur og tveir karlar eru í aðalhlutverkunum, en einnig kemur við sögu þjónustufólk, sem hefur í nógu að snúast í kringum gesti sína á kaffihúsinu. Í fyrsta stefinu eru línurnar lagðar og síðan er spunnið út frá þeim. Í fyrsta stefinu skarta konurnar síðum kjólum og klæðast hönskum og höttum. Það eru tvæ glæsilegar konur úr leikarastéttinni, þær Lilja Þórisdóttir og Guðrún Þórðardóttir. Kvenlegar og formfastar, svolítið tilgerðarlegar, bæði í leik og limaburði. Þannig var eflaust líka leikið á nítjándu öld, leikarar settu upp grímur og hlífðu sinni eigin persónu. Þetta var áður en áhrifa Stanislavskijs fór að gæta í leiklistarheiminum. Ég veit ekki, hvort þetta var ákvörðun leikstjóra eða af því að leikkonurnar lögðu ekki í að gefa sig hlutverkinu algerlega á vald.

Tilbrigði Þórs færa sig yfir í nútímann. Fatnaðurinn breytist, verður smekklaus og stingur í stúf við formfestu fyrri tíðar. Þjónstufólkið ber af í svörtu og hvítu, sem hæfir yfirstéttar kaffihúsi. Smekkleysið ríður ekki við einteyming og segir raunar allt sem segja þarf um hringlandahátt okkar tíma, bæði hvað varðar útlit og sálarlíf. Ég veit ekki, hvort þetta var óvart eða meðvitað hjá Fitore Berisha, sem sá um val á búningum leikenda. Mér fannst þetta gefa texta höfundar meiri dýpt fyrir vikið.

Merkilegt annars að bera saman ólíka leikstíla fyrr og nú, og hvað leiklistinni hefur farið fram, hvað túlkun varðar. Nú er lagt upp úr því að fíla persónuna sem þú ert að leika með hjartanum og heilanum. Bara vera þú sjálfur á sviðinu. Eins og mér fannst einmitt Valgeiri Skagfjörð takast svo vel. Í seinasta tilbrigðinu fer Þór svolítið út af línunni, karlarnir ræða drykkjuvandamál og hvernig menn forsóma eigin hæfileika – og visna af kulda í ástlausu sambandi. Gunnar Gunnsteinsson er glettilega góður í hlutverki sjóarans, afslappaður og sannfærandi, en Valgeir stelur senunni, án þess þó að segja eitt aukatekið orð. Og það er nú ekki lítið afrek í leikhúsi, þar sem orð skulu standa.

Mér fannst þetta notalegt kvöld og spennandi pælingar. Uppfærslan var einföld og látlaus, ekkert prjál né stælar. Gamla Iðnó gaf því rétta umgerð. Annað þurfti ekki, nema kjarkinn til að drífa í þessu, allslaus og auralaus. Takk fyrir, Þór og Inga.