Hamskiptin
Það var hálfgerður beygur í mér, þegar ég sneri heim úr leikhúsinu í gærkvöldi. Það var ekki laust við, að ég væri kvíðafull, hrædd við hið ókomna, veturinn og myrkrið – og hugsanlegt birtingarform angistarinnar í okkar heillum horfna þjóðfélagi. Angistin getur snúist upp í andhverfu sína, brotist út í hamslausri grimmd og miskunnarleysi. Þeir sem ekki falla inn í mynstrið, þeir sem skera sig úr, eru öðru vísi, ofbjóða blygðunarkennd (les: réttlætiskennd) okkar – skulu víkja. Um það fjallar nóvella Franz Kafka – Hamskiptin.
Einhvers staðar segir: “Gregor is a human being in an insect´s disguise, but his family are insects in the disguise of human beings.” Þetta er sú andhverfa og óhugnaður, sem situr í manni lengi á eftir, um það hvernig foreldrar, jafnvel elskuð systir, geta umbreyst í óargadýr, drepið ástvin sinn og fyrirvinnu og haldið áfram að lifa eins og ekkert hafi í skorist. Þau tryllast af fögnuði og hlaupa út í vorið, frelsuð undan oki sínu.
Að vísu er þeim hlíft við að myrða son sinn, því að Gregor fórnar lífi sínu sjálfviljugur og gefur þeim frelsi. Í stað þess að hafa samúð með föður og móður og systur Gregors, sem sitja uppi með skorkvikindi í íbúð sinni og vita ekki sitt rjúkandi ráð, þá er samúðin öll með manneskjunni í álagahamnum, sem enn elskar hið fagra og góða í lífinu, en hefur glatað hæfileikanum til að tjá sig á skiljanlegu máli. “A human being in an insect´s disguise”.
Getur verið að Kafka sé að skrifa um sjálfan sig? Um fjölskyldu sína og hið steingelda smáborgaralega umhverfi, sem hann ólst upp í – og bjó við alla tíð, því að hann fluttist aldrei að heiman? Hann gefur ímyndunaraflinu lausan tauminn og spinnur – spinnur um það sem hugsanlega hefði getað gerst – en gerðist samt ekki.
Óneitanlega verður manni hugsað til bréfsins, sem hann skrifaði föður sínum árið 1919, – en faðir hans aldrei sá. Þar lýsir hann á miskunnarlausan hátt sambandi föður og sonar. Hann lýsir (eins og segir í prógramminu) valdbeitingu, kúgun, fordómum, sektarkennd, örvæntingu, einangrun og firringu í samskiptum feðga.
Faðirinn í leikritinu gæti verið nákvæm eftirlíking kaupmannsins, Hermanns Kafka – smámunasamur og tilfinningalaus hrotti, en um leið undirdánug smeðja frammi fyrir valdinu og níðist á veikburða syni sínum. Móðir Franz Kafka hefur líklega ekki átt margra kosta völ í samskiptum við eiginmann sinn, harðstjórann á heimilinu. Í leikritinu er hún dregin upp sem einfeldningsleg undirlægja. Jafnvel systirin, Gréta, hin sterka og ráðagóða, snýst gegn honum í lokin. “Insects in the disguise of human beings”.
Var Kafka pólitísk persóna? Er lýsing hans á mannlegum samskiptum innan fjölskyldunnar, valdbeitingu, auðsveipni, hjarðhegðun og skorti á umburðarlyndi gagnvart hinu óvenjulega, dæmisaga, sem höfundurinn segir til að gegnumlýsa þjóðfélagið í heild? Sumir lesa vægðarlausa þjóðfélagsgagnrýni út úr verkum hans, þótt sögurnar sjálfar snúist bara um innhverfa sjálfsrýni, eins og t.d. Hamskiptin og Réttarhaldið. Sumir ganga meira að segja svo langt að lýsa hinum innhverfa og ómannblendna höfundi Hamskiptanna sem framsýnum spámanni, sem sá fyrir hrun evrópskrar siðmenningar og valdatöku nasista og kommúnista, sem þyldu enga gagnrýni og engin frávik frá staðlaðri hjarðhegðun ofstækisins.
Þessi skilningur á verkum Kafka, er sennilega venjuleg eftiráspeki, enda er fátt að finna í lífi og persónuleika höfundarins, sem rennir stoðum undir gáfnaljósakenningar af þessu tagi. Daginn sem fyrri heimstyrjöldin braust út, skrifar Kafka í dagbók sína: “Skrapp í sund”. En það er vitað, að Kafka hafði á árunum fyrir fyrra stríð óbeit á ráðandi hugmyndafræði, sem kennd var við “félagslegan Darwinisma”. Með vísan til yfirburða hinna hæfustu var talið réttmætt að útrýma öllu því, sem taldist veikburða, afbrigðilegt eða óheilbrigt.Vísindamenn mæltu með því að gelda hina þroskaheftu og jafnvel flytja þá, sem af einhverjum ástæðum féllu ekki inni í fjöldann, nauðungarflutningum í sérstakar fangabúðir. Þaðan er að vísu stutt í gúlagið og gasklefana.
Og hvað er svo um túlkun Vesturports að segja – margverðlaunaða sýningu úti í hinum stóra heimi?
Fyrsta sem kemur upp í hugann er orðið stílhreint og formfast. Byrjunin markaði stefnu, sem hélst alveg til loka. Hvergi stílbrot. Veisla fyrir augað. Hver hreyfing og hvert orð þaulhugsað.
Annað orð sem kemur upp í hugann er fimi – leikfimi (þaulhugsað orð). Gísli Örn er aldeilis ótrúlega leikfimur. Maður gleymdi því, að hann var ekki liggjandi í öngum sínum á alvöru gólfi eða í felum undir láréttu rúmi, heldur hékk á blánöglunum neðan úr loftinu eða veggnum og fór samt með textann eins og hann stæði á gólfinu og hefði eðlilegt rými fyrir lungun.
Og þrátt fyrir að Gísli Örn væri í gervi kvikindis öllum til ama, þá tókst honum með túlkun sinni að vekja slíka meðaukvun og samúð, að augun fylltust tárum hvað eftir annað. Hann var mennskur þrátt fyrir allt.
Mér fannst leikendur reyndar allir fágaði, en samt mátulega ruddalegir í túlkun sinni. Nína Dögg hefur þetta allt, hún getur bæði verið hörð og mjúk, var eldsnögg að skipta um ham og hugsun.
Ingvar sýndi snilldarbrögð hvað eftir annað, einkum í upphafi, og svo þegar hann var kominn í einkennisbúning undirtyllunnar, sem fór honum svo vel. Það getur verið erfitt að leika fulla menn, en hann fór fínt í það.
Elva Ósk býr yfir “das ewige weibliche,” þokkafull kona, sem aldrei verður gömul. Samt var hún mjög sannfærandi í hlutverki móðurinnar.
Svo fannst mér Ólafur Egill komast mjög vel frá sínu flókna hlutverki, sem varð reyndar mjög skýrt í meðferð hans.
Þau voru öll hárnákvæm í túlkun sinni, hver hreyfing og hvert orð höfðu djúpstæða merkingu og mátti ekki skeika.
Umgerðin var tekin beint úr raunveruleikanum og léði sýningunni dapurlegan og ógnvekjandi svip. Herbergi Gregors var frábær lausn á tæknilegum vanda. Og það var snilld, hvernig þeim tókst að varpa spegilmynd bjöllunnar á vegginn. Búningarnir áttu ekki hvað síst þátt í að gera sýninguna trúverðuga.
Tónlistin var mjög athyglisverð og spennandi framan af, en hins vegar kunni ég ekki að meta lokalagið, sem mér fannst einhvern veginn koma úr allt annarri átt, vera í mótsögn við það tímabil, sem sagan segir frá.
Og nú er kominn nýr dagur, og þá horfa hlutirnir öðru vísi við.
Ég er ekki lengur döpur, en samt er ekki laust við, að ég kvíði vetrinum.