Blessuð sé minning næturinnar: Frábær flutningur og samspil orða og tóna

Útvarpsleikhúsið: BLESSUÐ SÉ MINNING NÆTURINNAR eftir Ragnar Ísleif Bragason

Leikstjóri: Símon Birgisson
Leikendur: Guðlaug María Bjarnadóttir
Árni Tryggvason
Hjörtur Jóhann Jónsson
Sara Dögg Ásgeirsdóttir
Ólöf Haraldsdóttir

Tónlist: Anna Þorvaldsdóttir
Fytjendur: Anna Þorvaldsdóttir
Justin DeHart
Berglind Tómasdóttir
Daniel Shapira

Hljóðvinnsla: Georg Magnússo


Blessuð sé minning næturinnar

Það er kominn miðvikudagur, þegar ég loks sest niður í ró og næði til þess að skrifa nokkur orð um frumflutning Ragnars Ísleifs í ríkisútvarpinu á sunnudaginn – og biðst ég forláts á því. Ég hef fátt mér til afbötunar nema hvað á sunnudaginn stóð páskahelgin sem hæst með vinafjöld, veislum og tilheyrandi, ferming nýafstaðin, og mörg önnur bjóð framundan með freistingum og hættum bæði fyrir líkamann og andann.

Ég vék þó öllu öðru til hliðar og lét fara vel um mig í sófanum þennan eftirmiðdag, staðráðin í að hlýða á orð skáldsins. Það rifjuðust upp fyrir mér dagar í bernsku, þegar útvarpið var svo til eini tengillinn við mannlífið allt um kring og fjölskyldan safnaðist saman til að hlýða á útvarpsleikritið á hverjum fimmtudegi (að mig minnir). Mamma sat með prjónana í hægindastólnum, en við krakkarnir lágum á gólfinu allt um kring og máttum ekki missa af orði. Útvarpsleikritin voru meiriháttar institution, sem mótaði skoðanir okkar fyrir lífstíð og kveikti með okkur óljósar væntingar um eitthvað úti í hinum stóra heimi, sem við vissum ekki enn hvað var.

Útvarpið er ekki venjulegt leikhús, því að þar er það bara orðið sem gildir og röddin er eini túlkandinn. Allt það sem við getum sagt með hreyfingum, látbragði, andlitssvip, augnatilliti, lýsingu og leikmunum á leiksviðinu má sín einskis á bylgjum hljóðsins. Leikarinn verður að þrengja öllu því sem honum býr í brjósti inn í hljóm orðanna. Þetta er sérstök list, sem er ekki öllum gefin. Jafnvel góðir leikarar, sem eru í essinu sínu á sviðinu, eiga ekkert erindi í útvarp.

Blessuð sé minning næturinnar er fyrsta verk Ragnars Ísleifs, sem hann skrifar fyrir útvarp, og kannski eiga verk Ragnars einmitt miklu frekar erindi í útvarp en leikhús. Ragnar er fyrst og fremst ljóðskáld, sem veltir fyrir sér hrynjandi orðanna og samspili þeirra hvert við annað – eins og hljóma í ófullgerðu tónverki. Formið skiptir hann miklu máli, jafnvel svo miklu, að stundum er eins og það taki af honum völdin og hlaupi út um víðan völl. Maður missir þráðinn og skilur ekki alveg hvert skáldið er að fara. Það er eins og það gleymi sér í leik orðanna. Blessuð sé minning næturinnar er eins konar prósaljóð, byggt á stefi sem er endurtekið í sífellu, túlkað á mismunandi vegu. Það er fullt af “Weltschmerz” – óhamingju, ótta og sorg yfir einhverju sem aldrei varð. Konan syrgir barnið, sem aldrei fæddist, gamli maðurinn sér eftir því að vera ekki eins og hann ætlaði. Ungu raddirnar eru forvitnar, leitandi en vantar grunn til að standa á. Þær ná aldrei til botns. Þess vegna vantar botninn í verkið einhvern veginn. Ragnar Ísleifur er sveimhugi, hann svífur en staldrar sjaldan við. Hversu lengi kemst hann upp með það í hörðum heimi?

Það sem var ánægjulegast við þennan atburð í útvarpinu síðdegis á páskadag, var fyrst og fremst frábær flutningur og samspil orða og tóna. Símon Birgisson vissi alveg hvað hann var að fara með vali á leikendum og stefnumarki í flutningi. Það var enginn efi í hans huga, hann fór aldrei út af sporinu. Það gerði verkið spennandi þrátt fyrir vankanta. Raddirnar voru hver annarri magnþrungnari – bjartar og dökkar, daprar og glaðar á víxl. Serstaklega var gaman að hlýða á Guðlaugu Maríu spila á rödd sína eins og hárfínt hljóðfæri. Tilbrigðin voru svo mörg, sem orðin sem hún sagði, sársaukinn og sorgin lýstu reynslu og þroska, sem þarf einmitt í leikrit af þessari gerð. Ungu raddirnar leiftruðu af forvitni, spennu og lífsgleði , sem smitaði jafnvel áheyrandann heima í stofu, og manni hlýnaði um hjartarætur eða heyra aftur ljúflinginn Árna Tryggvason, sem fékk því miður allt of sjaldan tækifæri til að leika hinn alvöruþrungna mann á löngum leikaraferli.

Samspil orða og tóna, sagði ég hér áðan, því að það rann allt saman – orð og tónar – mynduðu eina samfellu, órjúfanlega. Flott. Við vorum á ferðalagi, líklega með lest, sem átti svo vel við texta Ragnars. Fljúgandi ferð, engin viðkoma.

Tónverk Önnu Þorvaldsdóttur lyfti verkinu í hæðir og gaf því aukinn styrk. Sellóleikur hennar sjálfrar var dulmagnaður og undurfagur.

Georg Magnússon á eflaust sinn þátt í óaðfinnanlegum flutningi þessa verka ungu mannanna. Árum saman hefur hann unnið af ómetanlegri vandvirkni og smekkvísi að hljóðupptökum ríkisútvarpsins. Hann er baksviðs og aleinn og því gleymist oftast að geta hans. Hér honum því þakkað í eitt skipti fyrir öll.

Ragnar Ísleifur er ungur, eiginlega bara barn. Hann á margt ólært og margt ólesið, en hann hefur gott veganesti og löngun og hæfileika til að gera sig gildandi sem skáld. Það kemur með vaxandi aldri og reynslu – en ekki vera of bráðlátur.