Íslenski dansflokkurinn: Fálmað í þyngdarleysi

Fálmað í þyngdarleysi. Íslenski dansflokkurinn frumsýnir í Borgarleikhúsinu

Heimur sem ekki er til – Transaquania – Into Thin Air
Ævintýraverk í sex köflum

Höfundar: Erna Ómarsdóttir. Damien Jalet. Gabríela Friðriksdóttir
Tónlist: Valdimar Jóhannsson, Ben Frost
Búningar: Gabríela Friðriksdóttir, Hranfhildur Hólmgeirsdóttir
Ljósahönnun: Kjartan Þórisson, Aðalsteinn Stefánsson
Hljóðtækni: Baldvin Magnússon
Myndband í forsal: Pierre Debusschere
Dansarar: Aðalheiður Halldórsdóttir, Ásgeir Helgi Magnússon, Cameron Corbett, Hannes Þór Egilsson, Hjördís Lilja Örnólfsdóttir, María Þórdís Ólafsdóttir, Steve Lorenz, Sigríður Soffía Níelsdóttir, Þyrí Huld Árnadótti


Fálmað í þyngdarleysi

“Það vantar alla mótivasjon,” sagði sjóarinn í BRIM – (sá þá mynd í vikunni – alger snilld) – og þess vegna dettur mér þetta orð í hug núna, þegar ég sest niður til að skrifa um nýjasta verkið í Borgarleikhúsinu – Heimur sem ekki er til. Það er engin bersýnileg mótivasjon að baki – enginn hvati, engin saga, ekkert upphaf, enginn endir – aðeins “lifandi skúlptúr, málverk og tónverk” – eins og höfundarnir, Gabríela og Erna, segja sjálfar.

Þar sem ég sat í gærkvöldi og fylgdist hugfangin með átta mannslíkömum á sviðinu, sem virtust hvorki hafa upphaf né endi, sýndust vera óháðir aðdráttarafli jarðar, lögmálum þyngdar og sveigjanleika, ýmist samanhnýttir eða útopnir, teygðir, stundum afskræmdir, jafnvel hrollvekjandi í sviplausum gervum ókunnra vera í heimi, sem ekki er til – þá fór ég að velta því fyrir mér, hvað þeir eru lánsamir, sem geta leitt hrollvekjur hins íslenska raunveruleika hjá sér, lokað sig af og skapað sér sinn eigin heim, óáreittir og þokkalega hamingjusamir, að manni sýnist.

Þannig eru Erna, og Gabríela og Valdimar og Damien og Ben og eflaust allir krakkarnir í danshópnum líka. Þau láta bara hverjum degi nægja sína þjáningu og halda áfram að sinna sínu. Kynlegar verur hafa verið Ernu og Gabríelu yrkisefni frá því þær hófu samstarf árið 2005 í Brussel. Sama vor voru þær báðar á Tvíæringnum í Feneyjum, ungar og spennandi listakonur. Straumur fólks lá í íslenska sýningarsalinn.

Ævintýraverk í sex þáttum varð til á eldhúsborðinu heima hjá Gabríelu. Spannst orð af orði. Gabríela dró línur á blað og Erna rissaði hreyfingar í minnisbókina. Og yrkisefnið var enn það sama, kynjaverur úr ókunnum heimi.Valdimar og Ben voru líka við borðið og tóku þátt í spunanum. En hvort kom á undan, tónlistin eða lifandi skúlptúr? Fékk Erna innblástur af tónlistinni eða öfugt? Ekkert þeirra hefur svar á reiðum höndum.

Tónarnir renna fram breiðir og seiðandi í upphafi, jafnvel dáleiðandi. Smám saman eykst hraðinn, skúlptúrinn tekst á flug, margfaldast eins og amaba eða hverfur inn í sig eins og rykhnoðri í sólskini. Ótrúlegur gjörningur, magnaður í fjölbreytileik sínum. Stundum ægifagur en líka forljótur – eða öllu heldur ægifagur í ljótleik sínum. Óþolið skríður upp eftir handleggjum og baki, mann langar til að standa upp, hlaupa út – og öskra. Ægifagurt, forljótt! Hvort er það? Hvort tveggja, er svarið.

Mér fannst þetta ægifögur upplifun sem ég hefði ekki viljað missa af. Frábærir listamenn koma þarna að verki. Erna er frumkvöðull, sem á vart sinn líka. Hún spilar á mannslíkamann eins og hljóðfæri, og í sameiningu tekst þeim Gabríelu og henni að skapa ógleymanlegar myndir, málverk og skúlptúra, sem hreyfast í sífellu, leggjast saman, leysast upp, þykkna upp aftur eins og ský í roki.

Og ekki eru þær sviknar af samstarfsfólki sínu. Það er sá leir, sem hnoðað er úr. Dansararnir sýna ótrúlega leikni, allir sem einn og einn sem allir. Það er ánægjulegt að sjá hópinn svona samstilltan og kraftmikinn. Dramatísk tónlist Valdimars og Bens á ekki síst þátt í áhrifum verksins, og ekki má gleyma að geta lýsingar Kjartans og Aðalsteins, sem leiðir okkur í gegnum sýninguna af listfengi og næmu auga.

Að öllu þessu sögðu, verð ég samt að gagnrýna grunninn að verkinu. Þær Gabríela og Erna virðast vera í eins konar álögum, sem þær geta ekki losað sig úr. Það eru fimm ár síðan þær “debuteruðu” með kynjaverur sínar á Biennalnum og þær hafa enn ekki vaxið frá þessum verum. Mér finnst kominn tími til að leita á ný mið, færa sig kannski nær okkur sjálfum, raunveruleikanum, nútímanum, inn í þjóðfélagið, fjalla um eitthvað sem kemur okkur öllum við og hefur áhrif á daglegt líf.

Hver er kveikjan að þessu verki? Hvað er það sem vekur dansinn til lífsins? Hvað er það sem egnir dansarann til að ofbjóða líkamanum í dýrslegri tjáningu? Fátt er fegurra en áreynslulaus orka æskunnar.Fátt er sorglegra en misnotkun hins fagra (og einlæga) í þjónustu flærðarinnar. Hvað sagði ekki strákurinn í BRIMI í lúkarnum, þar sem hann sat af sér frívaktina við að horfa á hundfúlt klám?. “Það vantar í þetta mótivasjón. Er það ekki málið?