Finnski hesturinn – „Finnst nokkrum gaman hérna?“

Höfundur: Sirkku Peltola
Leikstjóri: María Reyndal
Leikmynd: Ilmur Stefánsdóttir
Búningar: Margrét Einarsdóttir
Hljóðmynd og myndbandshönnun: Pierre-Alain Giraud
Tónlist: Angil and the Hiddentracks
Lýsing: Lárus Björnsson
Þýðing : Sigurður Karlsson

Ólafía Hrönn var stjarna kvöldsins, alger senuþjófur. Hún skyggði á alla aðra. Ég var svo heppin að sitja framarlega á annarri sýningu, svo að ég gat fylgst með hverri munnvipru, hverri augngotu, hverri hreyfingu þessa lúna líkama, sem silaðist eftir gólfinu, þyngslalegur, skakkur og skældur. Jafnvel þegar hún fær sér kríu í rúminu, eru allra augu á henni. Enda er hún höfuð fjölskyldunnar, mamma og amma, sem allir treysta á, þegar í harðbakkann slær. Hún ræður öllu og hefur leyfi til að skipa fyrir út og suður.

Jafnvel tengdasonurinn Lassi (Kjartan Guðjónsson) – sem er reyndar skilinn við dótturina Aili (Harpa Arnardóttir), en hefur ekki efni á að flytja út – er skíthræddur við þá gömlu. Hann lufsast um húsið með listamannsdrauma í maganum og nýja kærustu, Mervi (Þórunn Lárusdóttir) – sem er af allt öðru sauðahúsi en aðrir á heimilinu. – Undarlegt með þá stúlku annars, hún er svona eins og ljós í myrkrinu, hávaxin og ljóshærð borgardama (þótt hún segist vera fædd í þorpinu), langskólagengin og vinnur í banka. Þekkir jafnvel Leo Tolstoj, þegar allir aðrir standa á gati. Það er eiginlega erfitt að ímynda sér, hvernig svona fín dama hefur dregist inn í þessa mislukkuðu fjölskyldu. Og eins og amma segir, þá er hann Lassi ekki beinlínis spennandi elskhugi, geðlurða sem aldrei getur tekið ákvarðanir – og sköllóttur búskussi í þokkabót.

En amma á líka sínar veiku hliðar. Henni þykir vænt um barnabörnin Kai og Jönu (Jóhannes Haukur Jóhannesson og Þórunn Arna Kristjánsdóttir). Hún á erfitt með að fela það, lætur allt eftir þeim, hefur jafnvel lúmskt gaman af þeim innst inni. Kai er að vísu ólánlegur vandræðagemlingur. Hann hefur aldrei unnið ærlegt handtak og heldur að peningar vaxi á trjánum, þó svo að fjölskyldan eigi vart málungi matar. En Jaana systir hans er skemmtileg stelpa þrátt fyrir unglingaveikina og frekjuköstin. Hún og vinkona hennar Kirsikaija (Lára Sveinsdóttir) eiga skemmtilega spretti, og gefa okkur innsýn inn í heim ungu kynslóðarinnar og framtíð Finnlands.

Allt þetta unga fólk skilar sínum hlutverkum skýrt og skilmerkilega, eins og fram hefur komið í textanum hér á undan. Leikstíllinn fellur vel að þeim ramma, sem Sirkku Peltola býr þeim. Enginn skyggir á ömmuna – enda má enginn skyggja á hana. Amma er lykilpersóna, sem allt snýst um. Eins konar þjóðsaga í lifanda lífi.

Þegar ég var að hlusta á ömmuna skjóta föstum skotum (“það er eins og þú sért að gráta, þegar þú ert að hlæja og öfugt…”) og ráðskast með fjölskylduna, kom upp í hugann mynd af annarri ömmu, sem líka stýrði búi í skógum Finnlands um miðja síðustu öld. Sú amma rak reyndar stórt bú og átti eiginmann á lífi – og þar að auki íslenska tengdadóttur. Engu að síður var hún hinn mikli harðstjóri, skipaði fyrir verkum og allir urðu að lúta henni, jafnvel eiginmaðurinn og karlarnir í kringum hana. Hin íslenska tengdadóttir hét Ásta Sigurbrandsdóttir Peltola. Sama nafn – tilviljun? Ásta hafði kynnst berklaveikum finnskum hermanni á stríðsárunum, þegar hún vann á sjúkrahúsi í Danmörku.

Seinna fluttust þau til Finnlands og settust að á heimili foreldra hans – eins og tíðkaðist á þeim árum. (Í Finnlandi voru líka vistarbönd eins og hér heima). Móðirin var mjög óvægin, og ég minnist þess, að hún fór illa með vinnuhjúin. Þau máttu sofa í útihúsum með hálm í kojunni og enga sæng. Ástu var refsað grimmilega, þegar hún reyndi að gera líf þessa fólks léttbærara. (Sigurbjörg Árnadóttir, fyrrverandi fréttaritari RÚV í Finnlandi, skráði sögu þessarar konu, sem kom út undir nafninu “Hin hljóðu tár”, árið 1995).

Það sem ég vildi sagt hafa, er að amman, sem Sirkku lýsir af svo miklu næmi, er ekki bara skrýtin kerlingarskrukka, heldur eins konar þjóðartákn. Hún er ímynd finnsku konunnar, hún ræður ríkjum, er sterk, raunsæ og stjórnsöm. Hörð lífsbarátta, eilíf stríð og mótlæti öldum saman hafa laðað fram nýja eiginleika í fari konunnar.

Í seinustu viku var ég að skrifa um leikrit eftir unga íslenska konu, Auði Jónsdóttur. Auður fjallar um fólk, sem hún þekkir úr eigin lífi, fólk sem er sprottið upp úr sama jarðvegi og við öll og stendur okkur nærri. Við finnum samsvörun í persónum Auðar.
Í dag er ég að skrifa um leikrit eftir unga finnska konu. Hún fjallar líka um fólk, sem hún þekkir úr eigin lífi, fólk sem stendur henni lifandi fyrir hugskotssjónum og er sprottið upp úr rammfinnskum jarðvegi. En það er annars konar fólk en við þekkjum, annars konar hugarfar að baki.

Finnar eru engum líkir og þess vegna er mjög erfitt að setja sig í spor þeirra og átta sig á því, hvernig þeir hugsa. Finnski hesturinn er sagður vera farsi, en “öllu gamni fylgir nokkur alvara”, segir íslenskur málsháttur. Við þekkjum svokallaða þórðargleði, sem er bara nastí húmor og ekkert meira. Ég held að Sirkku Peltola sé að tala við okkur í dauðans alvöru – og beitir til þess svipuðum frásagnarstíl og Kaurismakibræður – fáránlegum og fyndnum, en beiskum og sárum.

Bak við hverja setningu er undirliggjandi tregi – jafnvel óhamingja. Sirkku er að tala um ástand sem var. En tilvísun í reglugerðarfár Evrópusambandsins skilur okkur eftir með spurninguna, hvort nokkuð hafi breyst innst inni á seinni árum. “Finnst nokkrum gaman hérna?”

Mér fannst tónlist Angil and the Hiddentrack kannski einum of glæsileg fyrir svona vonleysilegt umhverfi, en hins vegar tókst þeim að þreifa á hinni finnsku þjóðarsál. Finnar elska tangó. Þrátt fyrir bæði fallega og hugvitsamlega umgerð Ilmar Stefánsdóttur og raunsæislega búninga Margrétar Einarsdóttur var eitthvað, sem á vantaði til að gera sýninguna fullkomlega trúverðuga – ekta finnska. Kannski var hún of löng.

Sumar frásagnir drógust á langinn og misstu marks. Þeim mætti að ósekju sleppa. En það er líka þetta með finnsku þjóðarsálina. Ég veit ekki, hvort María Reyndal hefur búið með Finnum eða kynnst þeim í návígi. Eins og fyrr segir, þá eru þeir engum líkir , allt öðru vísi en allir aðrir (sumir segja, að þeim kippi helst í kynið til Japana). Ung finnsk kona, sem ég rakst á þetta sama kvöld vildi meina, að það vantaði finnskar þagnir í uppfærsluna. Sagðist reyndar ekki viss um, hvort Íslendingar hefðu þolinmæði til að hlusta á þögnina.

María sagði sjálf, að þetta væri farsi með svörtum húmor. Ef til vill lagði hún of mikla áherslu á húmorinn, án þess að skyggnast á bak við orðin og reyna að skynja sársaukann, óhamingjuna, söguna, menninguna – harðneskjuna. Hvað sagði ekki stelpan hún Jaana? “Algert jafnrétti í Finnlandi – jafnrétti í ömurleikanum”. Þetta er nú samt sem áður þjóðin sem slær öllum öðrum við á hinum samræmdu prófum þjóðanna (PISA), náttúrubörn, sem að mati tölfræðinga Sameinuðu þjóðanna njóta hvað bestra lífsgæða allra jarðarbúa. Í Evrópusambandinu hafa Finnar reyndar það orð á sér að vera fyrirmyndarþjóð.

Það er langur vegur frá útkjálkabænum hennar ömmu, sem er sögusviðið í þessum svarta farsa, til höfuðstöðva NOKIA í glerskýjakljúfunum í Espo fyrir utan Helsinki. Sumum finnst það reyndar vera skrýtin þversögn, að hinir fátöluðu Finnar skuli skara fram úr flestum örðum í fjarskiptatækni. En svona eru Finnar – frumstæð náttúrubörn og framúrstefnuhönnuðir í senn. Í “Finnska hestinum” hennar Sirkku Peltola gefst okkur innsýn í fortíðina sem framúrstefnutæknin er sprottin upp úr.