Dísa ljósálfur
Fyrirfram var ég satt að segja hálfkvíðin fyrir hönd Páls Baldvins, höfundar og leikstjóra Dísu ljósálfs. Hann hefur á undanförnum árum verið afkastamikill leiklistargagnrýnandi og hefur leyft sér að vera nokkuð dómharður á köflum. Það hefði því verið ankannalegt, ef endurkoma hans í hlutverki þolandans hefði mislukkast, og hann hefði sjálfur orðið fyrir barðinu á leiklistargagnrýnendum. Eiginlega óbærileg tilhugsun. En sem betur fer var kvíði minn ástæðulaus. Ég gat strax andað léttara. Frá því tjaldið var dregið frá, var augljóst, að höfundur og leikstjóri voru á réttri leið.
Dísa ljósálfur var eftirlætisbókin mín, þegar ég var sjö ára. Ég geymdi hana alltaf undir koddanum og dró hana fram, áður en ég sofnaði á kvöldin – oftast hágrátandi með hugann hjá Dísu. Örlög þeirrar bókar urðu það, að ég gaf hana bestu vinkonu minni, þegar hún var lögð inn á spítala í nokkra daga. Ekkert nema það besta var nógu gott handa bestu vinkonunni.
Páll Baldvin hefur valið þá leið að þétta söguna, draga fram helstu persónur hennar og semja samtöl upp á nýtt. Bregður jafnvel fyrir sig baldvinskum húmor – líklega svona til að minna okkur á ískaldan raunveruleikann. Frásögnin er einföld og látlaus og er sem betur fer laus við alla tilgerð, hávaða eða gassagang, eins og nú er mjög í tísku í uppfærslum fyrir börn. Það sýndi sig á þessari sýningu, að börn geta einbeitt sér og hlustað, án þess að það sé æpt á þau í sífellu.
Það er mikið mannval í íslenskri leikarastétt og ekki geta allir komist að við atvinnuleikhúsin. Þar er svo sem ekkert öryggi heldur, menn detta inn og út. Páll Baldvin hefur því úr nógu að moða, og er valinn maður í hverju rúmi. Hann þekkir allt þetta fólk og veit hvers það er megnugt. Ofbýður engum. Það vekur athygli í leikskrá, að flestir þeir sem fram koma í sýningu Páls Baldvins hafa fengið menntun sína í útlöndum, London, Berlín, Edinborg, Osló. Fólk sem kemur að utan á eflaust erfiðara með að komast að, er ekki í réttri klíku og fær ekki tækifæri til að sanna sig. Páll Baldvin er því að vinna þarft verk og vonandi hann láti ekki deigan síga við svo búið.
Álfrún Helga Örnólfsdóttir leikur sjálfa Dísu ljósálf. Álfrún ber svo sannarlega nafn með rentu, sannkölluð álfakona, með fima fætur og fallegar handahreyfingar. Hún er sakleysið uppmálað og á sér einskis ills von í hörðum heimi. Dísa verður viðskila við móður sína í skóginum og lendir í klónum á skógarverðinum og konu hans. Þau loka hana inni í dimmu búri og hugsa sér gott til glóðarinnar.
Í búrinu hittir hún hins vegar fluguna Fúsa, sem kennir henni sitt af hverju. Einhvern veginn fannst mér Steinn Ármann Magnússon ekki vera alveg sáttur við gervi býflugunnar. Steinn Ármann er frábær grínisti, sem lætur best að tjá sig með líkamanum öllum. Það var hálfpartinn eins og þunglamalegt gervið væri honum til trafala, að hann næði ekki í gegn – eða hefði kannski ekki vanist búningnum enn.
Hins vegar virtust músarungarnir og Skottlöng, mamma þeirra, vera alveg í essinu sínu. Það kom skemmtilega á óvart, hvað dansar í sýningunni og hreyfingar allar eru lifandi, fumlausar og jafnvel frumlegar frá hendi höfundar, Helenu Jónsdóttur. Mýslurnar eru svo innilega aðlaðandi og krúttlegar, að maður gleymir því, hvernig þessar elskur eiga það til að hræða líftóruna úr okkur kvenfólkinu. María Þórðardóttir er umhyggjusöm og glaðleg músamamma. Elskar gríslingana hvern og einn, þó svo að hún hafi ekki einu sinni tölu á þeim (og hafi stöðugar áhyggjur af grindarbotninum í sjálfri sér). Seinna bregður María sér í gervi dökkálfsins og er ekki síðri í hlutverki skrækróma púka.
Þegar moldvarpan er búin að binda Dísu ljósálf við eldavélina, halda áhorfendur, að nú sé fokið í flest skjól. Moldvarpan er ógnvekjandi, með stóran kjaft og grimmilegt augnaráð. Þórir Sæmundsson er glæsilegur á sviði, með þrumurödd og virðist til alls vís í framtíðinni.
En þá kemur til sögunnar Jeremías prins og bjargar lífi Dísu. Allir anda léttar og hrífast af frosknum Jeremías, sem Kára Viðarssyni tekst að gera að algeru sjarmatrölli. Jeremías bæði syngur og dansar af list, fyrir utan hvað hann er góður og ljúfur – batnandi froski er best að lifa. Hann sér ekki sólina fyrir Dísu ljósálfi.
Jeremías er sonur froskadrottningarinnar, sem Sólveig Arnarsdóttir leikur af miklum krafti Sólveig gerir sér aldeilis mat úr fremur litlu hlutverki, dregur upp skýra mynd af skapstórri dekurdrós, sem er bæði frek og fyndin án þess að ætla sér það. Samspil hennar og sonarins Jeremíasar er saga út af fyrir sig.
Ekki má gleyma að geta storksins, sem flýgur með Dísu yfir ána heim á leið. Gervi Þóris Sæmundssonar er frábært og sannfærandi í einfaldleik sínum – eins og reyndar öll gervin í leikritinu. Það er augljóst, að þarna hafa komið fagmenn að verki. Froskabúningarnir – að ég tali nú ekki um gervi drottningarinnar – voru snilld. María Ólafsdóttir og aðstoðarkonur hennar eiga svo sannarlega þakkir skyldar fyrir þeirra þátt í að varðveita ævintýraljóma sögunnar um Dísu ljósálf.
Nornin er auðvitað ómissandi í öllum ævintýrum og með töfrasprota sínum slær hún hugsanlegum framtíðaráformum frosksins á frest og stingur af með Dísu. Jafnvel Jeremías hinum hugprúða fallast hendur. Esther Talía Casey hefur fantagóða söngrödd og fer vel með texta. Flott í svörtum kjól með kolsvart hár. Hún var hins vegar hálfhversdagsleg í hlutverki móður Dísu, og mér finnst einhvern veginn að ungir áhorfendur hefðu viljað sjá meiri dramatík í endurfundum mæðgnanna í lokin.
Sumum fannst kannski, eins og mér, að Dísa hefði ekkert átt að snúa aftur í hversdaglega mannheima (eða álfheima). Því ekki að vera um kyrrt hjá froskunum, verða drottning í ríki sínu og sitja í hásæti við hlið Jeremíasar? Happy ever after! Gott ef Dísa var ekki líka í vafa. Mér sýndist það á svip hennar, um leið og hún hljóp á eftir mömmu.
Sviðið í Austurbæ er mjög grunnt og erfitt að koma þar fyrir leiktjöldum, svo að vel fari. Sólveig Pálsdóttir, sem annast myndlýsingarnar, leysir þetta vandamál á snjallan hátt. Hún notar ljósmyndir (Guðmundur Ingólfsson/Ímynd), sem hún varpar fram í salinn, til að gefa í skyn, hvar við erum stödd hverju sinni. Þessi aðferð gengur alveg upp, því að börn hafa óþrjótandi ímydunarafl. Ljósameistarinn Agnar Hermannsson og Sólveig spinna þetta mjög vel saman og eiga líka sinn þátt í ævintýrablæ sýningarinnar.
Og þá er bara eftir að geta ljúflingsins, Gunnars Þórðarsonar, tónskálds, sem settist niður og samdi fjölda laga við texta Páls Baldvins. Lög sem allir læra á svipstundu og óma úr hugskotinu löngu eftir að tjaldið fellur. (Meira að segja til á geisladisk núna – og á nótum) Páll Baldvin var heppinn að fá Gunnar til liðs við sig, því að tónlist hans, sem hann flytur ásamt Hauki Gröndal, Kjartani Valdimarssyni og Þóri Úlfarssyni gefur verkinu léttleika, fyllingu og styrk, sem er ómetanlegt.
Ég vildi óska þess, að sem flest börn ættu þess kost að kynnast Dísu ljósálfi í Austurbæ.