Jean Genet og Árni Pétur eiga það sameiginlegt að hafa ríka þörf fyrir að ganga fram af fólki, hneyksla, ofbjóða – eða eigum við kannski að nota orðið hrista upp í – með eftirminnilegum hætti. Það gerði alla vega Árni Pétur þessa nótt, sem ég hitti hann fyrst vestur á Ísafirði fyrir mörgum mörgum árum. Og mér finnst eiginlega, núna þegar ég lít til baka, að gjörningur hans á þeirri stundu hafi verið eins konar forleikur að því, sem hann nú býður upp á í Tjarnarbíói fjörutíu árum seinna.
Jean Genet eyddi heilli ævi í að ausa úr skálum reiði sinnar, stinga á kýlum og bera salt í sár. Og þegar þessir tveir sálufélagar, (Pierre og Jean), leggja saman í púkk, verður úr einn allsherjar “tilfinningarússíbani og hystería” (eins og Árni Pétur orðar það sjálfur í viðtali). Að sumu leyti má segja, að Árni Pétur sé kominn hringinn – gjörningurinn í rauða sófanum vestur á fjörðum forðum daga var eins konar forsmekkur að því, sem koma skyldi.
Að vísu hefur Árni Pétur í millitíðinni ferðast víða um vitsmunaheiminn, tekið margan slaginn, jafnan farið ótroðnar slóðir og fengist við verkefni, sem krefjast annars konar hugsunarháttar og gera annars konar kröfur. Hann lítur á leiklisina sem eins konar tilraun með manninn og sækir hugmyndir sínar langt út fyrir þann ramma, sem hið hefðbundna, borgaralega leikhús skorðar listina í. Enda hefur hann aldrei þrifist lengi í senn í atvinnuleikhúsunum. Árni Pétur er augljóslega “a free spirit” sem lætur ekki búksorgir hindra sig í leit að fullkomnun.
Þessi rauði sófi (sem ég minntist á) stóð í stofunni hennar Þuríðar á Ísafirði. Kennarar voru að gera sér glaðan dag. Árni Pétur, ungur strákur úr Reykjavík, hafði slegist óvænt í hópinn ásamt fjallmyndarlegri Reykjavíkurdömu, sem vann þennan vetur í Bolungarvík. Ég gerði ráð fyrir, að þau væru kærustupar. Partýið var að ná hámarki.. Mikið kneifað og skrafað. Stofan full af fólki, sem ýmist stóð eða sat. Árni Pétur og hin barmmikla vinkona höfðu lagt undir sig rauða sófann, og Árni lá með höfuðið í breiðri kjöltu konunnar.
Allt í einu sé ég útundan mér, að ungi maðuirnn er staðinn upp og er að tína af sér spjarirnar með leikrænum tilburðum. Hann leggur fötin frá sér í snyrtilega hrúgu á gólfið – buxur, vesti, brók og skó – og leggst síðan aftur allsnakinn í sömu kjöltu. Þessi óvænti gjörningur náði tilsettum árangri, því að það kom mikið fát á mannskapinn. Enginn trúði sinum eigin augum. Svo fóru allir að æpa hver upp í annan. “Hvað á að gera við manninn?” “Hendið honum út í snjóinn,” sagði einhver. Þetta var í janúar og svalirnar fullar af snjó. Einhverjir tóku undir höfuðið, aðrir undir fæturna og handlönguðu hann út á svalirnar, þar sem hann var lagður á ís. Árni Pétur lét eins og ekkert hefði í skorist. Hann reis upp, gekk inn.”Segið honum að klæða sig í aftur,” æpti einhver. Og það var eins og við manninn mælt. Árni Pétur teygði sig eftir brókinni og á örskömmum tíma var hann aftur orðinn einn af okkur, settlegur, eins og ekkert hefði í skorist. Faite accomplie!
Forsmekkur, sagði ég. Því að þarna á Ísafirði hætti Árni Pétur, þegar honum er sagt að hætta. Þetta var nóg í bili. Og hann lét sig aftur hverfa inn í hversdaglegan hóp gesta í samkvæmi.
En núna, öllum þessum árum seinna – þar sem hann stendur aleinn á sviðinu í Tjarnabíói í næstum tvo tíma – hættir hann ekki, þó svo að fólk æpi í hljóði: hættu, hættu, ekki meir, ekki meir. Hann heldur áfram og gengur eins langt og hann getur, eins langt og líkamlegir og andlegir burðir hans leyfa. Hann hristir duglega upp í okkur, gengur hvað eftir annað fram af okkur. Þjösnast á blygðunarkennd okkar, rífur og slítur miskunnarlaust, þar til við sitjum örmagna og uppgefin í leikhússtólunum og biðjum griða.
Þannig hefur þessi gjörningur Árna Péturs þróast með tímanum. Hún er þroskasaga leikarans og höfundarins. Grimm afhjúpun. Er Árni Pétur þá kominn að leiðarlokum? Hverju getur hann hugsanlega bætt við? Hann er búinn að afklæðast á sviðinu, búinn að afklæðast persónuleikaranum líka. Og hvað er þá eftir? Enginn getur gefið af engu.
Árni Pétur er augljóslega búinn að ganga lengi með þetta verk í maganum. Það var löngu fullskapað í huga hans. Hann vantaði bara einhvern, sem vildi leggja tíma og orku í að gera það að veruleika. Enginn var betur til þess fallinn en Rúnar Gunnarsson, sem er augljóslega andlega skyldur Árna Pétri og stefnir á sömu mið og hann. Hann lítur ekki á leikhúsið sem einhverja endastöð, heldur “orkustöð, þar sem lífskraftur manneskjunnar er beislaður og honum beint í farvegi tíma og rýmis” (Leikskrá).
En Árni Pétur þurfti ekki bara á Rúnari að halda til að sjá draum sinn rætast, því að ramminn, búningarnir og lýsingin, eru þriðja hjól undir vagni, og vagninn hefði aldrei runnið af stað, ef ekki hefði fundist fólk á borð við Filíppíu Elísdóttur og Garðar Borgþórsson. Filíppía er orðin eins konar merkimiði í leikhúsheiminum (svona svipað og Armani í tískuheiminum) – hún getur ekki klikkað. Henni tókst jafnvel með glæsilegu kjólavali að gera Árna Pétur kynþokkafullan á pörtum (hann hefur alla vega lögulega kálfa) og jafnvel hrollvekjandi, í svörtum pallíettukjól. Lýsingin skiptir líka miklu máli í svona eins manns sýningu, þar sem ljósin auðvelda áhorfendum að greina á milli þeirra persóna, sem leikurinn snýst um. Strákurinn lofar góðu.
Í sameiningu hefur öllu þessu fólki tekist aðskapa áreitið verk – ekki beinlínis fallegt, miklu heldur mjög gróft, hrottafengið, miskunnarlaust – forljótt á köflum. Við fáum innsýn í veröld, sem við þorum ekki að horfast í augu við í daglegu lífi. Veröld óréttlætis, grimmdar, sársauka, örvæntingu og bónar um betra líf.
Genet var sjálfur olnbogabarn síns tíma. Munaðarlaus frá unga aldri, misskilinn snillingur, sem lét reiði sína bitna á samfélaginu. Og galt þess dýru verði. Leikrit hans fjalla um misskiptinguna í þjóðfélaginu, hvernig hinni svokölluðu yfirstétt leyfist að traðka á alþýðu manna, skipa henni fyrir, auðmýkja og hæða, án þess að hinn allslausi fái borið hönd fyrir höfuð sér.
Svikarinn, leikritið, sem Árni Pétur hefur samið upp úr verkum Genet, ásamt innskotum úr eigin reynsluheimi, hefur svo sannarlega skírskotun í okkar eigið samfélag og þau vandamál, sem við höfum við að glíma. Við búum í rústum samfélags, sem einkennist af misskiptingu tekna og óréttlæti gagnvart hinum minni máttar.
Og í hörðum heimi verða hinir veiku verst úti. Nýlokið er ráðstefnu Barnaheilla um ömurlegt hlutskipti barna vegna ofbeldis á heimilum þeirra. Á ráðstefnunni var fjallað um konur sem flýja (oftast er það konur) maka sína og hvernig þær samkvæmt lögum verða að lúta í lægra haldi og skila börnunum til föðurins.
Þar sem ég sat í leikhúsinu þetta kvöld, varð mér aftur og aftur hugsað til drengsins sem skrifaði ákall til þjóðarinnar í seinustu viku. (Það var fjallað um skrif hans í nokkrum fjölmiðlum landsins – en hvað svo?). Móðir hans hefur fengið þann dóm hér á landi að senda þrjár litlar dætur sínar (3ja, fimm og sex ára) til baka til Danmerkur, til föður, sem sannanlega hefur beitt þær ofbeldi, bæði líkamlegu og andlegu.
Í þessu dæmi er það okkar eigið þjóðfélag, sem er að beita börn ofbeldi. Það er ekki hlustað á rödd þeirra. Þau eru hunsuð á sama hátt og Genet var hunsaður á sínum tíma. Hann eyddi allri sinni ævi og allri sinni orku í að afhjúpa óréttlætið, sem verið er að fremja allt í kring um okkur, en við erum jafn staðráðin í að leiða hjá okkur og þykjast ekki sjá.
Á þetta sviðsverk Genets, sem Árni Pétur hefur stolið og staðfært, erindi við mig og þig? Svo sannarlega, og aldrei ef ekki nú, þegar við megum ekki einu sinni opna fyrir fréttiirnar án þess að vera minnt á, að við lifum í ræningjabæli. Hrunið hefur opnað augu okkar fyrir því, að það sem áður virtist slétt og fellt á yfirborðinu, var bæði feyskt og fúið – og jafnvel rotið inn að beini.
Mun þessi nöturlega lífsreynsla – að upplifa afhjúpunina í okkar nánasta umhverfi – gefa okkur kjark til að horfast í augu við sjálf okkur? Ef þú ert ekki viss, væri kannski ekki úr vegi, að þú legðir leið þína í Tjarnarbíó til að kanna þitt eigið þanþol.