SEX AND SUCCESS

Ég var að lesa grein eftir Alison Wolf, þekktan félagsfræðing, Sex and Succes (The Spectator, 27.4.), en hún hefur verið að kanna breytingar á undanförnum árum á stöðu kvenna í Bandaríkjunum og Evrópu. Þessi grein vakti mikla athygli og mig til umhugsunar. Ég fór að hugsa heim og um stöðu kvenna þar.

Einu sinni var takmarkið, að konur nytu jafnréttis á við karlmenn. Konur stóðu saman þvert á stétt og stöðu. Og sú barátta bar árangur. Nú er svo komið, að konur eru í meirihluta þeirra, sem stunda framhaldsnám, háskólanám, sérhæft nám. Þessum konum standa allar dyr opnar. Þær eru fyrirvinnur alveg til jafns við eiginmenn sína. Þetta á við um landið okkar alveg eins og annars staðar meðal þróaðra þjóða.

En Alison bendir á, að nú er ekki lengur til umræðu samstaða kvenna þvert á stétt og stöðu, heldur stríð milli kvenna, stéttastríð („class war“). Konur standa ekki með konum (munið þið kjörorðið: Konur eru líka menn?), heldur skiptast þær í hópa, sem eiga ekki samleið, heldur fara hver sína leið. Það er hin nýja stéttaskipting.

Þessi skipting verður strax augljós á unglingsárunum. Með tilkomu pillunnar fengu konur frelsi, sem áður var óþekkt – þær gátu stundað kynlíf, án þess að eiga á hættu að verða barnshafandi. Þetta var bylting í lífi kvenna.

Meiri hluti stelpna, ein af hverjum þremur (í Bretlandi t.d.), byrja að stunda kynlíf undir lögaldri. Margar lenda í fóstureyðingu, detta út úr skóla, giftast ungar, sogast inn í fátæktargildru og lokast inni í undirstétt, sem á sér enga framtíð. Þetta þekkjum við allt úr okkar nánasta umhverfi.

Minnihluti kvenna – um það bil ein af hverjum fimm – hafnar kynlífi á unglingsárum. Þessar stelpur stunda nám af fullri alvöru gegnum framhaldsskóla, háskóla og sérhæfingu. Þetta eru svokallaður Alfakonur (við könnumst við Alfamenn, ekki satt?). Þetta er hin nýja yfirstétt úr röðum kvenna. Þær geta valið úr störfum. Þær fá há laun. Þær taka við stjórnunarstörfum við hlið karla. Alfakonur með Alfamönnum!

Það eru þessar konur sem í valdi menntunar eru að ryðjast inn í stjórnunarstörfin við hlið karlanna. Lítum okkur nær. Þær eignast maka með svipaðan bakgrunn. Þetta er hátekjulið framtíðarinnar, elítan. Nú til dags þarf tvær fyrirvinnur til að sjá fyrir heimili og fjölskyldu. Það er leikur einn fyrir þessar konur.

Undirstéttin, þær sem byrjuðu snemma að stunda kynlíf, duttu út úr skóla, giftust ungar og lentu í fátæktargildru, eru í þeirri stöðu að verða að þiggja þau láglaunastörf, sem bjóðast hverju sinni. Hugsanlega taka þær að sér að gæta barna Alfakvenna, sem í krafti menntunar sitja í hálaunastörfum og hafa efni á að greiða fyrir gæslu.

Það má auðvitað snúa þessu út á versta veg og segja, að þetta sé bara snobb. Það þurfi ekki allir að fara háskólabrautina. Fólk er jafngott fyrir því. Allt er það satt og rétt. En engu að síður – það er ekki sérstaklega hrósvert að hafa fengið góða hæfileika í vöggugjöf – það er guðsgjöf, sem okkur ber að fara vel með. En það er ekki lofsvert að láta meðfædda hæfileika sína fara forgörðum og lenda í órækt. Það er karakterleysi.

Það er staðreynd, að um þriðjungur nemenda, einn af hverjum þremur, heykist á námi í íslenskum framhaldsskólum, sem er langhæsta brottfall innan OECD landanna. Hvað veldur? Og hvernig getum við snúið þróuninni við? Ætlum við ekkert að bregðast við? Nú er það vitað, að íslenskar stúlkur byrja snemma að stunda kynlíf. Er það partur af skýringunni á hinni nýju stéttaskiptingu? Þessar stelpur eru í áhættuhópnum um að verða einstæðar mæður og lenda í fátæktargildru. Hinar halda beint á toppinn.

Sex or success?

Þessi grein birtist á vefsíðu Eyjunnar, og fékk hörð viðbrögð – sem endaði með því, að ég varð að svara gagnrýninni með nýrri grein.

Viðbót.

Ég verð eiginlega að bæta nokkrum orðum við það sem ég var að segja ykkur í fyrradag um vísindalega könnun, sem gerð var í hinum svokölluðu „þróuðu“ löndum Evrópu og Ameríku (Sex and Success). Könnunin, sem var unnin á löngu tímabili, fjallaði um viðhorf ungra kvenna til kynlífs.

Ég tek það fram, að ég var ekki að lýsa mínum eigin skoðunum, heldur eingöngu að skýra frá niðurstöðum könnunarinnar. Og niðurstöður kannana, ef þær eru unnar á vísindalegan hátt, kallast staðreyndir – staðreyndir um viðhorf og skoðanir þeirra, sem talað er við. Þannig að fólk getur svo sem alveg rifið hár sitt og rifið kjaftinn líka, en hins vegar þýðir ekkert að hafna bláköldum staðreyndum og kenna mér um. Þú haggar ekki staðreyndum með óþverramunsöfnuði um þann sem skýrir frá þeim. Munnsöfnuðurinn staðfestir það eitt, að viðkomandi er ekki viðmælandi. Hvar er nú ruslafatan, sem frægur dagblaðsritstjóri sagði að væri helsta tæki ritstjórans? (sjá Eyjan 10.5.)

Það eina sem kom frá eigin brjósti í þessari grein minni, var spurningin, sem ég varpaði fram undir lokin: Er einhver tenging milli þessarar umræddu könnunar og gífurlegs brottfalls úr skólum á Íslandi? Þetta fannst mér umhugsunarefni.

Nú skal tekið fram, að umrædd könnun var víðtækari, og leiddi meira forvitnilegt í ljós. Best ég láti það bara flakka. T.d. að þessar Alfasuperkonur eru ekki aðeins ríkari að veraldlegum gæðum en hinar, sem fóru ekki í langskólanám, heldur líka ríkari að öðrum gæðum, að því er virðist. Könnunin staðfestir nefnilega, að þessar konur njóta kynlífs síðar á ævinni, að eigin sögn, í miklu ríkari mæli en hinar. Málið snýst þess vegna ekki um að hafna kynlífi fyrir veraldlegan frama. Málið snýst fyrst og fremst um það að koma í veg fyrir, að einstæðar mæður á unglingsárunum lendi í fátæktargildru og fái eftir það ekki notið lífsins, sem þær ella gætu gert.

Könnunin leiðir í ljós, að þegar Alfakonurnar hafa lokið sínu námi og haslað sér völl í þjóðfélaginu sem sjáfstæðar manneskjur eiga þær þess kost, að eigin sögn, að bæta sér upp sjálfsafneitun unglingsáranna. Allar dyr standa þeim opnar. Þær eignast að vísu börnin seinna, en strax upp úr þrítugu eru þær búnar jafna metin á við hinar, sem byrjuðu fyrr – eiga jafnvel, að eigin sögn, marga elskhuga og njóta kynlífs í botn. Fjórar af hverjum fimm háskólamenntuðum konum yngri en 45 ára í Bretlandi kváðust mjög ánægðar með kynlíf sitt.

Hins vegar brá svo við, að meirihluti þeirra kvenna, sem byrjuðu snemma að stunda kynlíf, sögðust orðnar þreyttar á því og vildu jafnvel sleppa við það algerlega. Hvers vegna skyldi það vera? Það kemur ekki fram í könnuninni. En hugsanlega tengist það fyrri reynslu af (ótímabæru) kynlífi? Eða er það bara afleiðing af fátæktinni og baslinu, sem samkvæmt könnuninni, bíður hinnar einstæðu móður?

Hver er niðurstaðan? Könnunin leiðir í ljós, að það er ný og djúpstæð stéttaskipting að búa um sig, sérstaklega meðal kvenna, í þessum þróuðu samfélögum. Þeim konum, sem stunda nám á unglingsárum af metnaði, vegnar vel síðar í lífinu. Það eru þær, sem eru í reynd að ná fram jafnrétti á við karla. Það eru þær, sem eru í vaxandi mæli að taka við stjornunarstörfum við hlið (eða í stað) karla.

Hinar, sem létu freistast af (ótímabæru) kynlífi á mótunarskeiði unglingsáranna, misstu áhuga á námi og fótfestu í skólakerfinu og fóru snemma út á vinnumarkaðinn, þeirra bíða, skv. könnuninni, áfram hin hefðbundnu (láglauna) kvennastörf. Þannig festast í sessi láglaunakvennastéttir. Þessar konur eru ekki á ná neinum árangri í jafnréttisbaráttunni. Það er svo alveg sérstakt vandamál, að einstæðar mæður í þessum hópi (sem ekki njóta þeim mun meiri stuðnings foreldra) eiga á hættu að lokast inni í fátæktargildru.

Þetta er ekki bara vandamál þessara kvenna (og þeirra barna). Þetta er þjóðfélagslegt vandamál. Stjórnmálamenn, ég tala nú ekki um jafnaðarmenn, eiga að taka þetta alvarlega. Það er að verða til ný stéttaskipting, sem stíar konum í sundur, og byrjar á unglingsárunum. Í gamla daga töluðu feministar um „sisterhood“ – að konur ættu að standa saman, af því að þær væru konur. Hvar er systraþelið nú?