Hversu margir í kringum okkur hafa ekki farið til Taílands? Tælandi! Karlar í leit að einhverju, sem þeir finna ekki heima hjá sér. Sól og sumar, sjór og seiður. Massatúrismi.
Þessi mynd kippir þér niður á jörðina.
Ættarhöfðinginn kom hingað til Íslands fyrir tæplega sextán árum. Af hverju? Hann var þrautþjálfaður tæknifræðingur. Hvers vegna að yfirgefa föðurlandið? Vensl og mægðir. Fyrst fóru þær, svo kom hann. Þannig var það.
Þetta er stærsta saga samtímans. Þjóðflutningar. Tugir milljóna á ferð, að heiman – en hvurt? Um þveran hnöttinn? Frá suðri til norðurs, frá austri til vesturs.
Þessi mynd Jóns Karls er sérstök. Engin prédikun. Engin boðun. Bara mannlífið eins og það er undir auga myndavélarinnar. Hann kom fyrir tæplega sextán árum. Eftirsóttur í vinnu. Tók hvaða vinnu sem fékkst. Vaknaði klukkan sex og vann sleitulaust. Tók svo kvöldvaktina líka. Vinna og vinna. Spara og spara. Kaupa íbúð í Breiðholtinu, en samt senda peninga heim. Kosta dóttur í háskólanám, skapa sér nafn, ávinna sér traust.
Og svo sjáum við stórfjölskylduna samankomna – í Breiðholtinu. Liggja þau í leti? Nei, Það heitir að vakna fyrir allar aldir. Þau vinna tvöfaldan vinnudag og nám að auki. Konurnar eignast vinkonur og samlagast. Börnin byrja í leikskólum og eignast vini. Hafið þið upplifað Taílendinga flytja Njálu á forníslensku í Breiðholtinu? Ótrúlegt, en samt satt.
Jón Karl Helgason fylgdist með hinum tælensku innflytjendum í 15 ár. Tilviljun réði því, að hann varð þeirra vitni, frá ári til árs. Ímyndið þið ykkur, hvernig það er að flytja um þveran hnöttinn, í hryllilegt loftslag, þar sem enginn skilur þig; en þú vinnur tólf tíma í einsemd til að senda pening til fjölskyldu og ástvina heima. Einsemd, sjálfsagi, harka – allt fyrir ást á konu og börnum. Fjölskyldan er sest að á Íslandi. Börnin læra íslensku, – það þarf ekki að hafa áhyggjur af þeim .En gamli ættarhöfðinginn, sá sem ruddi brautina, lítur til þeirra með velþóknun. Hann getur hins vegar ekki aðlagast Norðrinu. Innst inni dreymir hann um heimalandið. Hann minnir okkur á Vestur-Íslendinga. Þá dreymir marga hverja um Vopnafjörðinn í þriðju kynslóð.
Flott mynd. Menntamálaráðuneytið á að kaupa þessa mynd og sýna hana í grunnskólum Íslands um landið þvert og endilangt. Í alvöru talað: Þetta er málið, sem við verðum að tala saman um, í einlægni, án fordóma – ef ekki á illa að fara. Ef menntamálaráðuneytið bregst rétt við, þá hefur Jón Karl ekki eytt þessum fjórum kjörtímabilum til einskis. Það er mikið í húfi.