Á sunnudagsmorgnum var þó brugðið út af venju, þá var boðið upp á lambalæri í hádegismat. Ilmurinn barst um allt húsið, og við krakkarnir stóðumst ekki mátið, drösluðumst á fætur, þó svo að við hefðum verið á djamminu fram undir rauðan morgun. Lambalæri með Orabaunum, rauðkáli úr dós, brúnuðum kartöflum og rjómalagaðri sósu – mmm… hvað við elskuðum mömmu á sunnudögum. Núna man ég ekki, hvort við sögðum einu sinni „Takk fyrir matinn, mamma“.
Aldís Þorbjörg Björgvinsdóttir Schram
Hvernig gat hún þetta allt, hún mamma? Hún fór aldrei í nám, lauk bara skyldunni og svo ekki meir. Samt kunni hún allt – jafnvel að reikna! Og sá hæfileiki kom sér vel seinna, þegar hún fór að stunda bridge af ástríðu – Íslandsmeistari í kvennaflokki, ef ég man rétt! Og hvað hún hafði gaman af því að leysa heimadæmin fyrir mig – algebra var hennar eftirlæti! Mamma var nefnilega að upplagi stærðfræðingur – hefði notið sín sem reiknimeistari á verkfræðistofu!
En þar fyrir utan hafði hún næmt eyra fyrir tungumálum. Hafði gaman af að glósa fyrir mig dönsku, þýsku, ensku – og jafnvel frönsku, þegar ég var komin í fimmta bekk í menntó. Hún var alger nörd, hún mamma – þó að hún væri líka fegurðardrottning.
En af hverju hélt ekki mamma áfram í skóla? Ég hef stundum velt því fyrir mér, hvort hún hafi kannski ekki haft metnað – eða hvort það hafi verið satt, sem hún sagði mér, að hún hefði ekki haft efni á því? Systkini hennar fóru samt öll í eitthvert nám, líka stelpurnar, Maja og Fríða – í kvennaskóla og menntaskóla. En mamma fór bara að vinna í búð – reyndar í fínustu búð Reykjavíkur, Herra- og dömufataverslun Brauns í Austurstræti. Þrjú hundruð sóttu um, en þrjár fengu. Hún var ein af þeim. Það gerðu eflaust brúnu augun og fallega brosið – svokallaður Litlalandssvipur úr Ölfusinu! Hún var af Bergsætt, hún mamma.
Mamma í hópi vinkvenna sinna í Brauns verslun. Hún er þessi með brúnu augun og háu kinnbeinin, lengst til vinstri fremri röð
Pabbi hennar, hann Brynjólfur, hafði aldrei átt þess kost að fara í skóla. Fátækur sveitastrákur af Suðurlandi, sem lét sig dreyma um að leita gæfunnar í Kanada, byrja nýtt líf þar. Bróðir hans, Einar, sigldi ásamt eiginkonu og dóttur og gerðist veiðimaður við Winnipegvatn. En þá var afi orðinn margra barna faðir og komst aldrei lengra en til Reykjavíkur. Mamma sagði mér oft frá því, þegar amma var að senda hana, barnið, með kaffibrúsa í ullarsokk niður á Reykjavíkurhöfn, þar sem afi beið daglangt í von um einhverja vinnu. Þetta voru erfiðir tímar og mikið atvinnuleysi. Afi og amma voru í sárum, höfðu misst tvo drengi í sjóinn í Halaveðrinu mikla 1925 – og lífið varð aldrei samt. Mamma fór bara að vinna, skaffa til heimilisins. Kannski var það hennar skóli.
Og eins og ég sagði, þá féll henni aldrei verk úr hendi. Það var ekki fyrr en hún var orðin fársjúk – mörgum árum seinna – að hún sat gjarnan og var að leggja kapal við borðstofuborðið, þegar maður leit inn síðdegis. Spilin dreifðu huganum og leyfðu henni að gleyma sút og sorg. – Ég man, að pabbi sagði einu sinni, að lífið hefði verið fullt af hamingju, á meðan börnin voru öll heima, í hans umsjá og mömmu. Engar áhyggjur. Það var ekki fyrr en við fluttumst að heiman, sem áhyggjurnar hrönnuðust upp! Hver kannast ekki við það?
Nema hvað, mamma lagði ekki einu sinni spilin frá sér, heldur beið bara eftir að heyra fréttir. Hún var sólgin í fréttir – en bara góðar fréttir. Vondar fréttir voru eitur í hennar beinum. Og ósjálfrátt tók maður tillit til þess. Sérstaklega á seinni árum. Pabbi gerði sér alltaf far um að færa henni bara góðar fréttir. Hann dýrkaði mömmu og „bar hana á höndum sér alla tíð“ – eins og mamma orðaði það sjálf í viðtali í Helgarpóstinum, ári áður en hún dó. Þá var hún talin ein af valdamestu konum landsins, eigandi bæði son og tengdason á Alþingi Íslendinga – annan þeirra reyndar ráðherra utanríkismála.
Já, og ég gleymdi að geta þess, að mamma var sannur sósíaldemókrat! En það vissi ég ekki, fyrr en ég kom með róttækan mann inn í fjölskylduna – og loksins þá var farið að tala um pólitík á heimilinu. Og það var ekki bara mamma, sem var sósíaldemókrat, heldur öll hennar fjölskylda, afi og amma, dæturnar – og allir synirnir. Þeir byggðu meðal annars Alþýðuhúsið á sínum tíma – og einn bróðir mömmu dó í ræðustól á flokksstjórnarfundi Alþýðuflokksins – hann Nonni, sem átti alla hestana og var svo barngóður.
Það var allt í einu farið að fjalla um þjóðmál á fjölskyldufundum – og svei mér þá, ef pabbi tók ekki undir, farinn að hafa samúð með lítilmagnanum og réttlátara samfélagi. Enda var pabbi með stórt hjarta líka. Hann var gjafmildur og örlátur þeim, sem áttu um sárt að binda, færði öllum fulla kassa af ilmandi eplum fyrir hver jól – enda var hann eplainnflytjandi.
Ég á margar fallegar myndir af mömmu í hugarfylgsnum mínum. Hún beið alltaf eftir mér, þegar ég kom heim úr skólanum síðdegis. Alveg frá því ég byrjaði í barnaskóla, þar til ég tók stúdentspróf, mörgum árum seinna. – Eiginlega var það hún, sem var í menntaskóla en ekki ég! – Ég var að vísu elst, en Eddi bróðir fullyrðir einhvers staðar, að þetta hafi hún gert við öll sín börn, en þá var ég farin að heiman.
Hún bar heitan mat á borð og spurði frétta. „Hvað gerðuð þið í dag? Er mikil heimavinna? Má ég kíkja?“ Kannski leiddist henni, kannski saknaði hún einhvers, hún mamma. Langaði hana kannski til að vera einhvers staðar annars staðar? Í fínni dragt á stórum vinnustað úti í bæ? Hefði það fært henni meiri hamingju? Var það það, sem hún þráði? Stundum var hún döpur, og þá leið mér illa, gat ekki einbeitt mér. Stundum – og oftast – var hún þó glöð, og þá geislaði af henni.
Mest var gaman að horfa á hana, þegar hún var búin að klæða sig upp á og var að fara út með pabba að kvöldi dags. Kannski í leikhús eða tónleika, jafnvel árshátíð – þau voru bæði mjög virk í KR og Oddfellows – félagslynd, eins og það heitir. Hún klæddist síðum kjól, kannski úr damaski eða jafnvel silki, sem féll þétt að brjóstum hennar, en breiddi svo úr sér eins og hvíslandi lækur alveg niður á gólf. Hún hafði sett á sig fallega skartgripi, armbönd og hálsfestar úr gulli, sem pabbi þreyttist aldrei á að færa henni frá útlöndum. Ég man samt ekki eftir, að hún hafi notað eyrnalokka. Hárið var stuttklippt og mjög fíngert, en með aðstoð góðrar hárgreiðslukonu fór það alltaf vel og rammaði inn fallegt andlit, há kinnbein og dökk augu – sem gátu líka verið ögn daðursleg, þegar hún vildi það við hafa. Aldrei man ég eftir, að þau hafi drukkið úr hófi. Og aldrei sá ég þau rífast – makalaust, með öll þessi börn á heimilinu.
Mamma hafði að vísu oftast vinnukonur, sem sáu um þrif og jafnvel um eldamennsku, þegar mikið lá við – eða hún hafði brugðið sér til útlanda með pabba. Sú fyrsta var ættuð frá Ísafirði, síðan komu tvær systur frá Djúpavogi – báðar með rautt hár, að mig minnir. En minnistæðastar eru þær Vera og Lisa og Elke, sem allar voru þýskar – ekki amalegt fyrir þá á heimilinu, sem voru að læra þýsku. Allt dugnaðarkonur, sem víluðu ekki fyrir sér að ganga í hvaða verk sem var – jafnvel að búa til sósu með hangikjöti, sem þær höfðu aldrei bragðað áður, og fá skömm í hattinn fyrir, af því að sósan var ekki hvít, heldur brún! Það þótti krökkunum mjög fyndið – en allt fyrirgefið. Mamma var góður verkstjóri, bæði mild og hörð í senn, og allar urðu þær vinkonur til lífstíðar.
Mamma
Seinasta myndin af mömmu situr enn í huga mér. Það var rétt áður en hún lagðist banaleguna vorið 1991. Ég var að koma úr sundi og ákvað að líta inn. Í eldhúsinu sátu Malla systir, Aldís, elsta dóttir mín, og einhverjar fleiri. Mamma var að bera þeim kaffi. Hún var föl í andliti, ögn þreytuleg og ekki eins einbeitt og hún átti að sér. Aldrei þessu vant – og alveg óvænt – kom hún á móti mér og tók utan um mig þarna í eldhúsinu. Ég man enn hina miklu hlýju, sem stafaði af mjúkum líkama hennar. En samtímis skynjaði ég angist og örvæntingu í faðmlagi konu, sem hafði aldrei látið bilbug á sér finna, aldrei opnað sig – og eiginlega aldrei á ævinni tekið utan um mig á þennan hátt. Á þessu augnabliki var ég hin sterka, hún hin veika – munaður, sem hún hafði aldrei leyft sér áður. Og það var svo gott, og ég var svo hamingjusöm – og mér þótti svo vænt um hana. Héðan í frá mundi ég annast hana. Hún hallaði sér upp að mér og hvíslaði: „Ég er alveg að gefast upp, Bryndís, ég get ekki meir“. Nokkrum dögum síðar var hún mér glötuð að eilífu. Tækifærið hafði runnið mér úr greipum.