SAGAN EINS OG HÚN BLASIR VIÐ ÚT UM GLUGGA SÍBERÍUHRAÐLESTARINNAR

Ferðasaga Bryndísar og Jóns Baldvins. Þessi ferðasaga er tileinkuð gestgjöfum okkar,
Gunnari Snorra Gunnarssyni í Beijing og Mörtu Snæfríðardóttur Brancaccia í Berlín.

I.

Jón Baldvin:

Það eru 22 ár frá því við vorum seinast i Kína. Það var árið 1996. Við heimsóttum ellefu borgir á þremur vikum, fórum þvers og kruss um þetta meginland, sem Kína er. Þegar Mao skildi við, árið 1976, eftir rúman aldarfjórðung við stjórnvölinn, voru lífskjör í Kína svipuð og í Bangladesh, ca. 160 dollarar á mann á ári, segir Alþjóðabankinn.
Þegar við vorum hér þá, hafði Deng Xiaoping verið við völd í hálfan annan áratug. Umskiptin voru þá þegar sýnileg í helstu borgum og sveitahéruðum, sem brauðfæddu borgirnar. Opnun Dengs – virkjun markaðsafla undir styrkri stjórn – er stórtækasta og hraðskreiðasta þjóðfélagsbylting, sem sagan kann frá að greina. U.þ.b. 700 milljónum manna (af þessum 1.3 milljarði) hafði verið lyft upp úr miðaldaörbirgð til mannsæmandi lífskjara á undraskömmum tíma. Á liðnum árum hef ég reynt að lesa mér til um þessa super-byltingu af öllum tiltækum gögnum, en vissi þó, að þekking mín var gloppótt.
Vissi varla á hverju ég átti von.

Bryndís

Heimsmeistarakeppnin í fótbolta stóð sem hæst. Jafnvel í Máraþorpinu okkar, efst á þessum hvíta kletti við hafið í Andalúsíu, var allt á öðrum endanum. Karlar á öllum aldri, sem annars virðast aldrei eiga erindi út fyrir hússins dyr – jafnvel konur og börn – þyrptust inn á torgið, þegar leið á kvöldið. Það var búið að koma fyrir stórum sjónvarpsskjá framan við nýja barinn, sem heitir reyndar Boteka, af því að þarna stóð einu sinni apótek. Það var á þeim tíma, sem þorpið á klettinum var og hét.

Þetta var kvöldið sem Ísland datt út úr keppni. Og líka kvöldið, sem nágranni minn gaf mér blómstrandi kaktusafleggjara í sárabætur. Ég hafði aldrei séð blómstrandi kaktus fyrr. Stakk eins og naðra við minnstu snertingu, en í toppinn bar hann rauð blóm, ofurmjúk viðkomu. Nágranninn sagði við mig: Íslendingar eru eins og kaktusinn – harðgerðir, ódrepandi – en blómstra samt. Það síðasta sem ég gerði, áður en við kvöddum húsið okkar að þessu sinni, var að setja afleggjarann í moldarpott á þakinu. Nú er að vita, hvort hann lifir sumarið af.

Farmiðarnir okkar voru komnir í skúffu í svefnherberginu strax í lok maí. Svo að í heilan mánuð gat ég slakað á og leyft mér þann munað að hlakka til ferðarinnar, láta mig dreyma. Það er að segja hlakka til – og kvíða fyrir. Ferðin framundan var bæði löng og ströng. Við ætluðum að ferðast yfir þveran hnöttinn, eða alla leið til Kína, með viðkomu í Istanbul! Og síðan ætluðum við að fara landleiðina til baka, stíga um borð í Síberíuhraðlestina og hafa viðkomu í Moskvu og Berlín. – Þegar við spurðum Carlos á einu ferðaskrifstofunni í Salobrena, hvort ekki væri best að fljúga með Finnair frá Helsinki, hristi hann bara höfuðið, eins og Finnair væri ekki til – aldrei heyrt það nefnt – og ákvað, að við flygjum með Turkish Airlines – þeir væru bestir!

Svo að núna, tveimur dögum eftir þennan leik á torginu í Salobrena vorum við stödd á flugvellinum í Istanbul og áttum fyrir höndum sjö tíma bið. Þetta var einmitt kvöldið sem Englendingar töpuðu fyrir Belgum og framlengdu þar með dauðastríð sitt um einhverja daga. Barinn var fullur af fólki. Við þóttumst heppin að finna sæti.

Sjá nánar með því að smella hér: Fyrri hluti greinar og seinni hluti greinar