Einar Benediksson, fyrrverandi sendiherra í Bandaríkjunum, sagði við mig þegar hann fór frá Washington og vitað var að Jón Baldvin myndi verða næsti sendiherra:„Bryndís þarf að kynnast þér“. Ég varð furðu lostin, Bryndís þessi fræga kona, af hverju þurfti hún að kynnast mér, stelpu úr Keflavík sem enginn þekkti. „Jú af því að hún þarf einhvern sem hún getur treyst og þekkir alla staðhætti hér í Washington“. Ég lofaði honum að ég skyldi gera það og þegar þau komu gerði ég boð á undan mér í sendiráðið og tilkynnti að ég vildi eiga fund með þeim.
Ég hitti þau í sendiráðinu einn morgun í nóvember og við áttum góðan fund þar sem við ákváðum að hittast fljótlega. Á þessum tíma átti ég heima í næsta nágrenni við þau og ég varð eins og sagt er „heimilisköttur“ á Kalorama (sendiráðsbústaðnum) og tók virkan þátt í mörgu sem átti sér stað þar næstu fimm árin. Það sem mér er minnistæðast er að frá upphafi tók listunnandinn Bryndís, þá ákvörðun að hún skyldi reyna allt sem í hennar valdi stæði til að kynna íslenska listamenn fyrir Bandaríkjamönnum, listamenn sem bæði voru búsettir á Íslandi, Bandaríkjunum og annars staðar. Hún stóð fyrir uppákomum í bústaðnum fyrir rithöfunda, tónlistarfólk, myndlistamenn og m.a.s. fatahönnuði svo eitthvað sé nefnt.
Allar þessar samkundur voru vel sóttar af þekktum Washingonbúum og var oft glatt á hjalla. Við Bryndís þvældumst saman um Washingtonborg þar sem við hittum listamenn frá öðrum löndum. Hún hafði mikinn áhuga á framúrstefnu fatahönnuðum, því eins og þjóð veit þá hefur hún framúrstefnulegan fatasmekk, og finnst gaman að skarta klæðnaði sem er flottur en öðruvísi en allir hinir klæðast. Þetta þótti mér sérstaklega skemmtilegt því ég er búningahönnuður og vissi nákvæmlega hvað hún vildi. Við kynntumst evrópskum hönnuðum og hún fann það sem hana langaði í. Hvar sem hún kom var hún alltaf glæsilegust og allir spurðu hvaðan í ösköpunum hún hafi fengið þessi flottu föt. Bryndís klæddist aldrei „drögtum“ það var alltof formlegt fyrir hana.
Það sem ég er að segja með þessu er að Bryndís er og hefur alltaf verið kona sem hefur auga fyrir því fallega en að sama skapi því óvenjulega og aldrei hrædd við að reyna eitthvað nýtt.
Þegar þau fóru til Finnlands eftir dvöl þeirra í Washington saknaði ég þeirra mikið en við héldum sambandi í gegnum síma og netpóst. Fyrir nokkrum árum heimsótti ég þau í þeirra fallega hús í Salobrena á Spáni og áttum við margar góðar stundir á „þakinu góða“ sem til umræðu hefur verið í íslenskum fjölmiðlum undanfarið.
Þegar Bryndís sagði mér að hún væri að vinna að nýrri bók beið ég spennt að fá að lesa handritið. Á meðan Jón Baldvin gegndi sendiherrastöðu sinni í Washington, málaði ég portrett af Bryndísi, það var mikill heiður fyrir mig þegar hún spurði hvort portrettið mætti prýða forsíðu bókarinnar.
Hún sendi mér síðan handritið í vor og þetta voru viðbrögð min sem ég sendi henni í netpósti:
Varð algerlega heltekin. Vissi ekki af tímanum. Frásagnarhátturinn er svo persónulegur, einlægur, fræðandi, hraður og spennandi. Eftir tvo eða þrjá tíma varð ég að stoppa því ég varð að pissa og ná mér í meira kaffi. Þurfti að hlýða á leiðinlega conferencu og svara nokkrum símtölum, en eftir þær truflanir hélt ég áfram.
Ég las alveg til loka og þegar ég var búin sat ég máttlaus og grét.
Bryndís mín, elsku vinkona, þú hefur ótrúlega frásagnargáfu.
Eftir þennan lestur finnst mér ég hafa lært svo mikla mannkynssögu. Hvernig þér tekst að fræða lesandann um sögu hvers staðar sem þið hafið heimsótt og um leið að lýsa mannlífi og reynslu ykkar á hverjum stað er alveg magnað. Það er líka ótrúlegt hve mörgum þjóðþekktum persónum þið hafið kynnst. Sagan af páfanum og Palestínu manninum var svo athyglisverð hvað mig varðar, því ég er í eðli mínu svo mikill málfræði nörd.
Þú ert og hefur alltaf verið kona með hlutverk. Aldrei setið heima og grenjað, þú hefur alltaf fundið leið út úr öllum þeim vandamálum sem lífið hefur ´thrown at you´.
Þú hefur alla tíð viðhaldið fróðleiksfýsn þinni, löngun til að læra menningu og tungu annarra landa og svo að sjálfsögðu ást þinni á listum hvort sem um dans, tónlist, leiklist, eða ritlist er að ræða, en lífið er ekki dans á rósum eins og þú ein veist best.