Bryndís hefur skrifað bók. Bryndís Schram. Nafn bókarinna: Brosað gegnum tárin. Þetta er litskrúðug bók. Vel skrifuð, frásögnin lifandi og fjölbreytt.Svið atburðanna og tími á reiki. Skyndilega ertu þátttakandi í átökum á Balkanskaga rétt stiginn útúr dyrunum á Vesturgötu. Glefsur úr ferðalögum og frásagnir af atburðum úr viðburðaríku lífi Bryndísar og Jóns Baldvins (JBH) eru viðlag bókarinnar. Þar er ýmislegt nýtt að finna.
Bókin er blanda upprifjana sælla minninga og sársaukafull frásögn af hatri, illmælgi og loks útskúfun. Þetta er bók um harmsöguleg örlög sem eru ofin inn í gleði og ástríður. Bókin fjallar um harmleik.
Við lestur bókarinnar fór um mig geigur; einhver dulin örvænting var á kreiki bak hverri setningu. Skrifin eru drifin áfram af sársauka og örvæntingu samfara miklum lífsþorsta. Nístandi harmur dansar tangó í gíghólnum. Lífið er dans á rósum ýmist án eða með þyrnum. Bryndís er eirðarlaus í frásögn sinni. Hún stendur í ljósum logum.
Hún rekur rógburð, útbreiddar lygar, áburð um kynferðisáreitni og haturshlaðnar sögusagnir um Jón Baldvin og þau bæði í samfellt 60 ár. Sá sem þetta skrifar minnist rógs í garð JBH strax á sjöunda áratugnum, skömmu eftir frægan Lídófund. Honum linnti aldrei. Það hafa margir, ekki hvað síst úr efri lögum samfélagsins safnað glóðum elds að höfði þeirra hjóna. Hvað olli þessu banvæna umtali ? Var það öfundin ? Ragnar í Smára sagði, að ef við gætum virkjað öfundina hér á landi, þyrftum við ekki aðra orku. Bryndís glæsileg, óvenju frjálsleg og hispurslaus í framkomu. Vakti athygli hvar sem hún kom. Var á hvers manns vörum. Jón Baldvin afburða stjórnmálamaður sem var að framkvæma tímamóta verk sem aðra gat ekki dreymt um að gera. Skuggi hans var langur. Hann féll á marga. Sjálfsöryggi þeirra hjóna var áberandi. En illskan kom einnig innan frá, úr eigin fjölskyldu ? Það var sárast.
Í framhaldi af smekklausu bréfi, lá Jón Baldvin vel við höggi. Frægur hér sem erlendis, öfundaður í hærri kreðsum, rægður meðal almennings. Hann var kjörið fórnarlamb, fordæmið sem átti að hræða aðra. Skyndilega birtust nafnlausar ásakanir um lendakáf og aðra vansæmandi hegðun, atvik sem áttu sér stað fyrir hálfri öld og þóttu þá ekki ámælisverð, þótt ósæmileg væru. Skyldu ekki margir jafnaldrar hans eiga skilið sama útlegðardóm og hann ? Glæpur JBH var síður fólginn í því sem hann var sagður hafa gert, heldur í því sem Jón Baldvin var.
Tekist hefur að innræta þjóðinni, að fátt ef nokkuð sé svo slæmt að JBH gæti ekki hafa verið þar að verki – allt frá landráðum til barnaníðs. Undir lokin tóku þjóðarfjölmiðlar undir fordæminguna og smjöttuðu.
Um róg og nafnlausan áburð verður ekki rökrætt. Það er eins og sambönd við framliðna, tilveru álfa, jötna eða drauga. Flokkast undir átrúnað. Kannski erum við sem þjóð nokkuð auðtrúa. Látum ginnast fremur af því óræða en halda á lofti skynsemi og raunhæfi.
Þegar einstaklingar verða fyrir áratugalöngu einelti og að lokun útskúfun, þá breytist lífsþorsti og lífsnautn í lífsháska og martröð. Það er niðurstaða bókarinnar.
Þessa bók leggur enginn frá sér í kæruleysi. Hún situr kyrr. Lesið hana. Lesið hana alla.
Þröstur Ólafsson