Við vorum ungar Reykjavíkurmeyjar að stíga okkar fyrstu dansspor inn í veröld leikhússins – töfraveröld, þar sem grár veruleikinn var skilinn eftir utan dyra. Við fórum úr skólafötunum, íklæddumst gervi ballerínunnar, settum hárið í hnút og gutum gagnrýnum augum að stórum speglum búningsherbergisins. Biðum spenntar eftir að dyrnar opnuðust og meistarinn segði myndugri röddu: “Vær saa gode.”
Erik Bidsted, balletmeistari Þjóðleikhússins dáinn í maí, 2002
Bidsted á þetta inni hjá þér,” sagði Jón Baldvin við mig. Eftir á að hyggja er þetta alveg rétt hjá honum. Bidsted á það svo sannarlega inni hjá mér, að ég minnist hans nokkrum orðum.
Hann var minn mentor á árunum milli tektar og tvítugs – fyrsti maðurinn, mér vandalaus, sem ég hreifst af, leit upp til, hlakkaði til að hitta á hverjum degi í mörg ár.
Við kölluðum hann alltaf Bidsted – aldrei Erik, það gaf til kynna hæfilega fjarlægð.