Heimspekingur undir stýri

Ég sat fyrir aftan bílstjórasætið, svo að ég sá eiginlega aldrei andlitið á honum – nema þegar hann sneri sér einstaka sinnum við til að leggja áherslu á orð sín. Við mér blasti gríðarstórt bjúgnef og grár hárlubbi, sem hékk yfir rúnum ristu enni. Hann var ekki beint fallegur – en karlmannlegur og glaðlegur. Hendurnar snertu vart stýrið. Þær hreyfðust í takt við orð hans, eins og Ítala er háttur – enda reyndist hann vera ættaður frá Sikiley og hét Catalano – já, það voru ekki bara íslenskir sjómenn, sem áttu kærustu í hverri höfn i den!

Hann talaði non-stop – lá mikið á hjarta. Það var engu líkara en að hann hefði verið að bíða eftir okkur. – Fjölskyldan hafði flúið fátækt og basl stríðsáranna, þegar hann var örlítill hnokki. Hann hafði því lært sína ensku í Toronto – en með ítölskum hreim þó – það fór ekki fram hjá neinum. Nema hvað, að allt þetta var hann eiginlega búinn að segja okkur, áður en við vorum lögðum af stað út á flugvöll.
Við hugsum til áranna fyrir vestan – þegar verið var að skapa Menntaskólann á Ísafirði frá grunni – sem blómaskeiðs. Frá upphafi voru vonir bundnar við, að með stofnun skólans mundi Vestfjörðum haldast betur á ungu atgervisfólki. Þær vonir, einar og sér, voru kannski ekki raunhæfar. Meira þurfti að koma til. Engu að síður hefur skólinn átt sinn þátt í því að gera flóru mannlífsins, einkum í höfuðstað Vestfjarða, fjölbreyttari og lífvænlegri.
Það stóð yfir maraþonhlaup í borginni þennan sunnudagsmorgun, svo að helstu götur voru lokaðar bílaumferð. Þess vegna urðum við að fara ótal krókaleiðir og þræða úthverfin. Catalano sagðist þekkja borgina eins og lófann á sér, búinn að vera leigubílstjóri frá fimmtán ára. Að vísu löngu kominn á eftirlaun. Nú væri hann bara að skemmta sér – og vinna sér inn smávasapening í leiðinni.

Lesa meira

Ekkert er eins og var

Stundum, þegar ég vakna við sólarupprás, finnst mér eins og tíminn standi í stað í þessu værðarlega þorpi uppi á kletti við hafið. Þögnin er svo þung, að ég nem andardrátt hafsins hingað upp í gluggann til mín, reglubundinn og sefandi. Aðeins þunglyndislegt eintal uglunnar rýfur þögnina – og hundgá öðru hverju. Einhvers staðar nærri fer bíll í gang. Af hverju ætti ég að fara á fætur?

En smám saman breiðir sólin út faðminn, og flögrandi tónar boða kyrrðarstund í þorpskirkjunni. Hér eru allir kaþólskir.

Svona hefur þetta alltaf verið. Hér breytist ekkert.

Húsin í þorpinu standa uppi af gömlum vana. Þau eru eins og mannfólkið, þurfa alúð og nærgætni – stöðugt þarf að hvítta og tjarga og bæta og staga. Annars hverfa þau inn í sjálf sig og verða óvistleg, þessi hús.

Fólkið í þorpinu eru þeir sem eftir urðu, þegar aðrir efnuðust og fluttu burt – inn í nútímann. Til skamms tíma var hér ekkert rennandi vatn, og enn eru engin nútímaþægindi – enda hafa íbúarnir aldrei kynnst neinum munaði – alltaf verið fátækir og nægjusamir. Franco elskaði ekki þessa þjóð. Hann fyrirleit hana og ofsótti.

Lesa meira

Á hraðbrautum lífsins

Við vorum á hraðbrautinni á ca. 130 og stefndum á Antwerpen – eða öllu heldur á Gent, sem er á milli Brügge og Antwerpen. Þrjár akreinar. Ég var á miðjunni, þandi litla krýlið – Peugot 206, árgerð 1999 – fram úr trukkum, húsbílum og barnafjölskyldum með attaníhoss. Vinstra megin við mig geystust þýsku bensarnir á 180 til 200. Þeir sáust varla, en hvinurinn af oflætinu hljómaði eins og loftárás. Það var allt á fullu!

Hringir ekki síminn. Nei, Binni frændi – hæ! – Binni frændi býr rétt hjá Ostende í Belgíu. Hann er einn af þeim, sem hafa græna fingur – getur gert við hvað sem er, allt frá saumavélum upp í flugvélar, og hefur haldið heilum flugflotum á lofti vítt og breitt um Evrópu, Ameríku og Afríku.

Hvar eruð þið stödd í tilverunni, elskan? spyr hann.

Lesa meira

Stríð eða friður – í viðtengingarhætti

Það var rétt eins og tveir gamlir vinir og bræður í anda væru að hittast eftir langan aðskilnað – þeir féllust í faðma, kysstu hvor annan á báða vanga og horfðust brosandi í augu: „Þú hefur yngst um tíu ár, svei mér þá,“ sagði Jorge Mario Bergoglio á ítölsku. „Þú ert að grínast“ svaraði Mahmud Abbas, hlæjandi, á arabísku. Þetta var túlkað jafnóðum af ritara páfa, sem er annálaður fjöltyngdur fræðimaður. – Það var reyndar ekki svo langt síðan þessir tveir menn höfðu hist í skuggsælum garði á bak við Vatikanið. Páfinn hafði lýst yfir stuðningi við sjálfstætt ríki Palestínu (alveg eins og Össur okkar), og þar í garðinum voru friðarins menn mættir til að funda.

Nema hvað, að núna var Mahmud Abbas, foringi Palestínumanna, kominn á ný til að hitta páfa. Að þessu sinni stóð til að hengja á hann æðstu orðu – friðarorðu, sem bara vænstu mönnum er veitt í viðurkenningarskyni. Gott ef það er ekki upphleypt mynd af engli úr bronsi.

Lesa meira

Að myrða yndi sitt

Ég átti mér einskis ills von þennan fagra föstudagsmorgun. Sólhvítur himinninn rann saman við hafið bláa, sem bærðist varla í logninu. Við vorum að aka eftir N340, sem er gamla þjóðbrautin með sjónum á milli Malaga og Almeríu. Vegurinn ýmist hangir utan í snarbröttum klettaveggjum eða beygir inn í djúp gljúfur, þar sem jafnvel sólin sjálf nær ekki að skína í morgunsárið. Ég sat undir stýri. Við ætluðum á markaðinn í Almunecar.

Sem ég er að beygja burt undan sólinni og inn í eitt gljúfrið, stendur ekki groddalegur karlmaður, merktur Guardia Civil, við vegkantinn og gefur okkur merki um að nema staðar. – Satt að segja fæ ég alltaf smáhræðslukast, þegar spænska löggan er annars vegar. Og frá því var engin undantekning að þessu sinni, þó svo að ég væri bæði bláedrú, með beltið spennt og glænýtt ökustírteini í töskunni. Maðurinn var merktur Guardia Civil, nota bene – ekki Policia. Þeir eru komnir aftur – falangistarnir – hin sauðtryggu handbendi ógnarstjórnarinnar, sem voru þekkt fyrir algert miskunnarleysi í samskiptum við saklaust fólk.

Lesa meira

Guð hjálpar þeim, sem hjálpa sér sjálfir

Hann Jamshaid náði bílprófinu í fyrstu atrennu – og fór létt með það!

Þið munið kannski ekki eftir Jamshaid, en hann er landlausi og vinalausi strákurinn frá Pakistan, sem ég sagði ykkur frá löngu fyrir jól. Sá sem við skutum skjólshúsi yfir, á meðan við brugðum okkur af bæ – þ.e.a.s. heim til Íslands – yfir vetrarmánuðina. Hann hírðist hér aleinn í húsinu mánuðum saman, bíðandi eftir því, að hin spænska „útlendingastofa“ sæi aumur á honum og gæfi honum leyfi til landvistar.

Ég veit það hafa verið langir mánuðir og einmanalegir. En Jamshaid er svolítið sérstakur – líklega það sem maður kallar sjálfum sér nægur. Varla orðinn lögráða, eiginlega bara barn. En samt ótrúlega einbeittur, staðráðinn í að lifa allt af, einsemd, atvinnuleysi, jafnvel höfnun samfélagsins. Hann skipulagði líf sitt frá morgni til kvölds – á sama hátt og menn hljóta að gera, sem afplána langa fangavist og einangrun. Fór snemma á fætur, borðaði reglulega – aðallega soðin grjón, enda félaus – fór í langar göngur, stundaði líkamsrækt og synti í sjónum. Aldrei kvartaði hann.

Lesa meira

Hinn slavneski lífsháski

Mig hafði aldrei órað fyrir því, að ég mundi einn góðan veðurdag standa á Maidan, þessu sögulega torgi í Kyiv, höfuðborg Úkraínu, þar sem óþreyjufullir borgarar komu saman fyrir rétt rúmu ári í uppreisn gegn spillingu stjórnvalda – heimtaði réttlæti og sanngirni, betra líf, bjartari framtíð – á torginu, þar sem byltingin breyttist í blóðbað og hinir hugdjörfu féllu fyrir byssukúlum leigumorðingja, forsetinn flúði land, boxarinn, Klitschko, varð borgarstjóri, og súkkulaðikóngurinn, Poroschenko forseti.

Hvítar steinhellurnar bera enn lit blóðsins, fánarnir standa uppi og myndir af hinum föllnu blasa við forvitnum ferðalöngum. “En hvar eru öll blómin”, spurði ég leiðsögukonuna. “ Þú átt við blómin, sem fólk bar að til að heiðra minningu hinna föllnu? Hér var mikið blómahaf, alveg rétt, en í skjóli nætur voru blómin hirt og seld aftur sem ný daginn eftir”, sagði hún og glotti. Ég horfði á hana undrandi og hrygg – jafnvel á örlagastundu er maðurinn samur við sig.

Lesa meira

My dear Erin Olivia.

Nú þegar ég les, að landflóttinn frá Íslandi sé að aukast enn á ný, er
kannski rétti tíminn að leyfa ykkur að lesa bréf, sem ég skrifaði frænku
minni í Kanada fyrir nokkrum dögum, en forfeður okkar beggja áttu draum um
betra líf í henni Ameríku. Um aldamótin 1900 flúði fimmtungur íslensku
þjóðarinnar til Kanada.

Erin Olivia Porter heitir frænka mín og vantaði efni í leshring, sem hún
sækir við Winnipeg háskóla. Eitthvað sem tengdist fyrri tímum, sagði hún.

As I sat down to write you this letter, it came to my mind how precarious and incidental life can be. If the two Icelandic brothers, my grandfather and your great-grandfather back in 1907, had been free men and lucky enough to be able to fulfill their dream, we might both have been born in Canada, most likely in Manitoba, and I would be visiting you at week-ends, or meeting you for a cup of coffee at one of the popular bars in Winnipeg.

But fate would not have it that way. Life was tough in Iceland in the 19th century. Most people were utterly poor, lived from hand to mouth, never owned anything but plenty of children – and perhaps a small flock of sheep. There had been natural disasters, volcanic eruptions year after year. The life stock fell and famine raged among the population. There was no future in Iceland. People felt abandoned and hopeless. –

Continue reading

ÁRIN OKKAR Í AMERÍKU. Fáein vel valin orð af gefnu tilefni.

Æran
félagi Orðrómur
félagi Orðrómur
margur hefur það heyrt
sem hefur verið fleygt að…
(Þröstur J. Karlsson í ljóðabókinni: Einn apaköttur sagði þá, afskaplega er gaman)

Í áranna rás höfum við Jón Baldvin vanist því að lesa um okkur – annað hvort eða bæði – allra handa óhróður, oftast nær nafnlaust. Mest af þessu flokkast undir pólitískt skítkast og fylgir starfslýsingu stjórnmálamannsins. Menn læra smám saman að taka því eins og hverju öðru hundsbiti. Stundum er þetta runnið undan rifjum fólks, sem á af einhverjum ástæðum bágt og finnur hjá sér þörf að kenna öðrum um eigin ófarir.

Lesa meira