Málfræðikverið, sem breytti mannkynssögunni

1989 – 9ndi nóvember – fall Berlínarmúrsins. Það er fjórðungur úr öld síðan. Samt finnst mér einhvern veginn, eins og þetta hafi allt gerst í gær. Ég man, að ég kom þarna með manninum mínum nokkrum vikum síðar. Það var eins og fólk væri ekki enn farið að trúa sínum eigin augum – jú, jú það sá brotin úr múrnum, allt á tjá og tundri, greið leið – en samt. Rykmökkurinn hékk í loftinu, tötralegt fólkið stóð í hópum, talaði saman í hálfum hljóðum og starði á vegsummerkin. Kannski var þetta allt draumur, sem átti eftir að snúast upp í martröð. Við hittum að máli jafnaðarmenn úr gömlu Vestur-Berlín, og þeir spáðu í framtíðina út frá orðum Willys Brandt: „Nú grær það saman, sem sprottið er af sömu rót“.

Þetta voru mikil tímamót – og ekki bara fyir Þjóðverja, heldur líka fyrir Tékka og Slóvaka, Pólverja, Ungverja og aðra Austur-Evrópumenn. Á tímabili leit út fyrir, að Eystrasaltsþjóðirnar þrjár, Eistar, Lettar og Litháar, myndu lokast inni í Sovétríkjunum. Þeir sluppu ekki út fyrr en á seinustu stundu – þremur árum seinna.

Lesa meira

Frá Ölfusinu til Andalúsíu

Hvað það er annars skrítið að búa í svona litlu þorpi – það er að segja, að vera í svona mikilli nálægð við íbúana. Næstum eins og að búa í blokk. Að vísu hef ég aldrei búið í blokk, en ég bjó á Ísafirði í nokkur ár. Það er líka þorp, en samt enginn þorpsblær eins og hér. Byggðin breiðir úr sér þvert yfir Eyrina og það er langt á milli húsa. Á vetrardögum grúfir dimm þoka yfir bænum, og maður er aleinn í heiminum.

Fjarlægðin milli mín og heimamanna var töluverð – bæði í líkamlegum og andlegum skilningi – alla vega til að byrja með. Kannski var fólk á verði gagnvart okkur – við vorum skólameistarahjónin – tilheyrðum hvorki stétt sjómanna né uppflosnuðum bændum úr Djúpinu. Vorum aðkomufólk og breytti engu, þótt maðurinn minn væri fæddur á Ísafirði og hefði átt þar ógleymanlega æsku.

Lesa meira

Á ÉG AÐ GÆTA BRÓÐUR MÍNS?

Í annarri viku októbermánaðar er haldið upp á dag Rosario, hinnar hreinu meyjar, hér í Salobrena. Þá ganga bestu synirnir um götur þorpsins með líkneski á herðum og krossa sig í bak og fyrir. Það er sagt, að mannúðin eigi uppruna sinn í kristinni kenningu. Og hvað sagði ekki fjallræðumaðurinn: “Það sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skulið þér og þeim gjöra”. Flóknara er það nú eiginlega ekki.

Við hefðum svo sem aldrei veitt þessum strák neina athygli – enda förum við ekki á þennan kebabstað, þar sem hann vinnur – eða vann á – niðri á strönd. Það var auðvitað Kolfinna, sem kom honum á framfæri við okkur. Kolfinna hefur alveg dæmalausa hæfileika til að laða að sér landlaust fólk, sem á hvergi höfði sínu að halla. Það leitar hana uppi, hvort sem það er í Reykjavík, Brüssel eða bara á ströndinni hér fyrir neðan. Svo kom að því, að Kolfinna kvaddi, en vandamálið varð eftir hjá okkur.

Lesa meira

AÐ STANDA VIÐ STÓRU ORÐIN

Snæfríður heitin, dóttir mín, lektor við Háskólann á Bifröst, var vinur og aðdáandi Jóhönnu geitabónda á Háafelli í Hvítársíðu og brautryðjandastarfs hennar. Minnug þeirrar vináttu set ég eftirfarandi orð á blað.

Fyrir Alþingiskosningar 2013 fluttu tveir stjórnarandstöðuþingmenn, þeir Sigurður Ingi Jóhannsson og Ásmundur Einar Daðason, þingsályktunartillögu með áskorun á þáverandi atvinnuvegaráðherra um að grípa þegar í stað til aðgerða til að forða íslenska geitfjárstofninum frá útrýmingarhættu, því að „ef ekki verður nú þegar brugðist við þeirri stöðu, sem íslenski geitfjárstofninn er í, er hætt við, að það verði brátt um seinan“.

Lesa meira

DE PROFUNDIS : THE VOICE OF ANDALUCIA

We are on our way to a flamenco feast at La Traviesa restaurant. The restaurant sits high upon a cliff in the Casco Antiguo of Salobrena, with a panoramic view across the Costa Tropical. The bar and the kitchen are actually inside a cave, while the guests sit outside, enjoying the spectacular vista. The sun is disappearing behind the mountains. Soon it will be dark. The candles are lit, casting flickering shadows over the romantic surroundings, as the guests wait for the artists to arrive.

The guitarist is already here. He looks as if he was born with this instrument in his hands. Music runs in his family – most likely it was daddy who helped him with his first grips. The guitar rests in his lap, his fingers caressing the strings like a sensitive lover. A promising beginning.

Continue reading

De profundis – úr undirdjúpunum

Móðir jörð skartar sínu fegursta hér um þessar mundir. Kletturinn okkar er umvafinn gróðri í öllum regnbogans litum, gulum, rauðum, grænum og bláum – en aðallega þó fjólubláum. Blómin brjóta sér leið upp úr djúpum sprungum í átt til sólar. Þau klifra upp hvítkalkaða húsveggi og gefa lífinu lit og angan. Jafnvel kaktusar hafa tekið gleði sína og blómstra eins og öll hin. Sólin er komin vestur fyrir klettinn, eldrauð og bústin, og ætlar að fara að leggja sig. Og þegar hún er horfin í hafið, og myrkrið skollið á, hefst flamencohátíð í þorpinu okkar. Við erum á leiðinni.

Göturnar eru svo þröngar, að bílar geta ekki mæst, og í hvert sinn sem einn slíkur nálgast, verðum við að þrengja okkur upp að hallandi veggnum og bíða, á meðan hann sniglast fram hjá. Á torginu sitja prúðbúnar konur og spjalla. Þeim liggur hátt rómur og hlæja mikið, á milli þess sem þær líta til með börnum sínum, sem eru á hlaupum fram og til baka um marmaralagt torgið. Þetta er sá tími dags, sem fólk slakar á og gengur út til móts við sólina, sem verður mildari eftir því sem líður á daginn.

Lesa meira

Í vetrarskrúða

Þetta er ævintýri líkast. Allt í einu erum við komin til Tartu, sem er háskólabærinn í Eistlandi, rétt undir landamærum Rússlands. Hægt að skreppa í stutta rútuferð, hvort sem er til Pétursborgar eða Kyiv.

Alein í heiminum, þekkjum engan, og enginn þekkir okkur – jú, reyndar er það ekki alveg rétt – allir þekkja manninn minn og heilsa honum með handabandi. Hann er hér að kenna, og ég er ritari del “professore”. Hér verðum við í tvo mánuði, líklega tvo köldustu mánuði ársins.

Lesa meira

Kveðja

Síðasta kveðja dóttur minnar, Snæfríðar, skrifuð á fjörlegt kort frá Barnaheill um jólin, hljóðaði svona: “Beautiful people are sometimes good – good people are always beautiful. MUNIÐ ÞAÐ BARA” –

Hún var að stappa í okkur stálinu. Kannski sá hún inn í framtíðina – sá fyrir óorðna hluti. Mikið sakna ég hennar.

LÍFIÐ ER EINS OG HAFIÐ – ÞAÐ GEFUR OG ÞAÐ TEKUR

Ég ætlaði ekkert að gera neitt veður út af afmæli mínu þetta ár – frekar en öll hin. En þegar DV sendi mér póst til Salobrenu og bað mig að uppfæra CV-ið mitt, gerði ég það og sendi til baka. Þá spurðu þeir, hvort ég mundi velja svara átta spurningum í tilefni dagsins, sem ég féllst á að gera. Þær fylgja hér með.


Bryndís Schram í júlí 2013

Lesa meira

Sálarháski eða sölumennska?

Í hvert sinn, sem ég nálgast borgina Granada, kemur upp í huga mér mynd af skáldinu og hugsjónamanninum Federico Garcia Lorca, sem er eitt mest lesna skáld allra tíma. Samt var hann aðeins þrjátíu og átta ára, þegar hann féll fyrir hendi böðla einræðisherra Spánar – Franciscos Franco. Það var árið 1936 í upphafi Borgarastríðsins.

Garcia Lorca var fæddur í litlu þorpi – Fuente de Vaqueros – á sléttunni austan við borgina. Hin hvítu fjöll – Sierra Nevada – rísa í suðri, alhvít sumar sem vetur. Faðir hans var landeigandi, ræktaði rauðrófur og tóbak, en félagar hans voru synir og dætur bændanna, sem unnu á akrinum og áttu vart í sig né á. Það er engu líkara en að bernskuár skáldsins – kynni hans af tregafullum söngvum úr hversdagslegri tilveru hinna hrjáðu og smáðu – hafi markað þá braut, sem hann átti eftir að feta, þau fáu ár sem hann lifði. Það var hann, sem átti mestan þátt í því, ásamt með tónskáldinu Manuel de Falla, að vekja athygli heimsins á hinum vanræktu alþýðusöngvum Andalúsíu. Það sem einkennir þessa söngva (oft við gítarundirleik og dans) er berorð einlægni, óheftar tilfinningar og næstum dýrslegur kraftur – flamenco. Og heimurinn hreifst með.

Lesa meira