í vitnastúku sögunnar

Ég klæðist svörtum, skósíðum kjól þennan dag. Mér finnst það einhvern veginn við hæfi. Athöfnin fer fram í Kirkju hins heilaga Jóhannesar skírara, sem byggð var 200 árum áður en seinasti kaþólski biskupinn var hálshöggvinn á Íslandi. En hér í Litáen eru þeir enn kaþólskir.

Kirkjan er ægifögur. Hún er svo stór, að líkneski postulanna tólf í fullri líkamsstærð rúmast öll inni við altarið. Ég er leidd inn kirkjugólfið og vísað til sætis á fremsta bekk, hægra megin. Þar sit ég alein. Annars er hver bekkur í kirkjunni setinn. Hægra megin þrófessorar í fullum skrúða, en vinstra megin venjulegir borgarar, þar á meðal sendiherrar Norðurlanda, og margra Evrópulanda – nema Íslands. Þegar ég leyfi mér að skyggnast yfir ganginn, kem ég auga á nokkra góða vini í hópnum. Ég brosi í laumi og veifa feimnislega. Með tímanum höfum við eignast hér marga vini, ekki bara úr pólitíkinni, heldur líka úr lista- og menningarlífi borgarinnar. Það er gott að vera meðal vina.

Lesa meira

Minningarorð um Finn Gunnlaugsson frá Hvilft í Önundarfirði.

Það snertir okkur djúpt, þegar við heyrum af andláti nemenda okkar – við hugsum alltaf til þeirra sem unga fólksins, sem á lífið framundan.

Við hugsum til áranna fyrir vestan – þegar verið var að skapa Menntaskólann á Ísafirði frá grunni – sem blómaskeiðs. Frá upphafi voru vonir bundnar við, að með stofnun skólans mundi Vestfjörðum haldast betur á ungu atgervisfólki. Þær vonir, einar og sér, voru kannski ekki raunhæfar. Meira þurfti að koma til. Engu að síður hefur skólinn átt sinn þátt í því að gera flóru mannlífsins, einkum í höfuðstað Vestfjarða, fjölbreyttari og lífvænlegri.

Lesa meira

Heimspekingur undir stýri

Ég sat fyrir aftan bílstjórasætið, svo að ég sá eiginlega aldrei andlitið á honum – nema þegar hann sneri sér einstaka sinnum við til að leggja áherslu á orð sín. Við mér blasti gríðarstórt bjúgnef og grár hárlubbi, sem hékk yfir rúnum ristu enni. Hann var ekki beint fallegur – en karlmannlegur og glaðlegur. Hendurnar snertu vart stýrið. Þær hreyfðust í takt við orð hans, eins og Ítala er háttur – enda reyndist hann vera ættaður frá Sikiley og hét Catalano – já, það voru ekki bara íslenskir sjómenn, sem áttu kærustu í hverri höfn i den!

Hann talaði non-stop – lá mikið á hjarta. Það var engu líkara en að hann hefði verið að bíða eftir okkur. – Fjölskyldan hafði flúið fátækt og basl stríðsáranna, þegar hann var örlítill hnokki. Hann hafði því lært sína ensku í Toronto – en með ítölskum hreim þó – það fór ekki fram hjá neinum. Nema hvað, að allt þetta var hann eiginlega búinn að segja okkur, áður en við vorum lögðum af stað út á flugvöll.
Við hugsum til áranna fyrir vestan – þegar verið var að skapa Menntaskólann á Ísafirði frá grunni – sem blómaskeiðs. Frá upphafi voru vonir bundnar við, að með stofnun skólans mundi Vestfjörðum haldast betur á ungu atgervisfólki. Þær vonir, einar og sér, voru kannski ekki raunhæfar. Meira þurfti að koma til. Engu að síður hefur skólinn átt sinn þátt í því að gera flóru mannlífsins, einkum í höfuðstað Vestfjarða, fjölbreyttari og lífvænlegri.
Það stóð yfir maraþonhlaup í borginni þennan sunnudagsmorgun, svo að helstu götur voru lokaðar bílaumferð. Þess vegna urðum við að fara ótal krókaleiðir og þræða úthverfin. Catalano sagðist þekkja borgina eins og lófann á sér, búinn að vera leigubílstjóri frá fimmtán ára. Að vísu löngu kominn á eftirlaun. Nú væri hann bara að skemmta sér – og vinna sér inn smávasapening í leiðinni.

Lesa meira

Ekkert er eins og var

Stundum, þegar ég vakna við sólarupprás, finnst mér eins og tíminn standi í stað í þessu værðarlega þorpi uppi á kletti við hafið. Þögnin er svo þung, að ég nem andardrátt hafsins hingað upp í gluggann til mín, reglubundinn og sefandi. Aðeins þunglyndislegt eintal uglunnar rýfur þögnina – og hundgá öðru hverju. Einhvers staðar nærri fer bíll í gang. Af hverju ætti ég að fara á fætur?

En smám saman breiðir sólin út faðminn, og flögrandi tónar boða kyrrðarstund í þorpskirkjunni. Hér eru allir kaþólskir.

Svona hefur þetta alltaf verið. Hér breytist ekkert.

Húsin í þorpinu standa uppi af gömlum vana. Þau eru eins og mannfólkið, þurfa alúð og nærgætni – stöðugt þarf að hvítta og tjarga og bæta og staga. Annars hverfa þau inn í sjálf sig og verða óvistleg, þessi hús.

Fólkið í þorpinu eru þeir sem eftir urðu, þegar aðrir efnuðust og fluttu burt – inn í nútímann. Til skamms tíma var hér ekkert rennandi vatn, og enn eru engin nútímaþægindi – enda hafa íbúarnir aldrei kynnst neinum munaði – alltaf verið fátækir og nægjusamir. Franco elskaði ekki þessa þjóð. Hann fyrirleit hana og ofsótti.

Lesa meira

Erik Bidsted, balletmeistari Þjóðleikhússins dáinn í maí, 2002

Bidsted á þetta inni hjá þér,” sagði Jón Baldvin við mig. Eftir á að hyggja er þetta alveg rétt hjá honum. Bidsted á það svo sannarlega inni hjá mér, að ég minnist hans nokkrum orðum.

Hann var minn mentor á árunum milli tektar og tvítugs – fyrsti maðurinn, mér vandalaus, sem ég hreifst af, leit upp til, hlakkaði til að hitta á hverjum degi í mörg ár.
Við kölluðum hann alltaf Bidsted – aldrei Erik, það gaf til kynna hæfilega fjarlægð.

Við vorum ungar Reykjavíkurmeyjar að stíga okkar fyrstu dansspor inn í veröld leikhússins – töfraveröld, þar sem grár veruleikinn var skilinn eftir utan dyra. Við fórum úr skólafötunum, íklæddumst gervi ballerínunnar, settum hárið í hnút og gutum gagnrýnum augum að stórum speglum búningsherbergisins. Biðum spenntar eftir að dyrnar opnuðust og meistarinn segði myndugri röddu: “Vær saa gode.”

Lesa meira

Minning: Guðmunda Elíasdóttir

Þegar ég lít til baka finnst mér, að ég hafi verið hálfgert barn. Fylgdarsveinn minn – skáldið – var að vísu af barnsaldri, en engu að síður unglingslegur og óreyndur. Hann tók starf sitt mjög alvarlega, gætti mín af stakri samviskusemi og hvorki gantaðist við mig né áreitti. Engu að síður villtumst við af leið – og í heilan dag vorum við strandaglópar í New York. Þar hafði skáldið setið á skólabekk nokkrum árum fyrr.

Ég var berfætt í nýjum skóm, sem ég hafði keypt til fararinnar, og var svo sár fyrsta kvöldið, að ég vafði blautum handklæðum um fæturna, svo að ég gæti sofnað eftir langar göngur og skáldlegar lýsingar á leyndardómum þessarar höfuðborgar heimsins.

Lesa meira

Á hraðbrautum lífsins

Við vorum á hraðbrautinni á ca. 130 og stefndum á Antwerpen – eða öllu heldur á Gent, sem er á milli Brügge og Antwerpen. Þrjár akreinar. Ég var á miðjunni, þandi litla krýlið – Peugot 206, árgerð 1999 – fram úr trukkum, húsbílum og barnafjölskyldum með attaníhoss. Vinstra megin við mig geystust þýsku bensarnir á 180 til 200. Þeir sáust varla, en hvinurinn af oflætinu hljómaði eins og loftárás. Það var allt á fullu!

Hringir ekki síminn. Nei, Binni frændi – hæ! – Binni frændi býr rétt hjá Ostende í Belgíu. Hann er einn af þeim, sem hafa græna fingur – getur gert við hvað sem er, allt frá saumavélum upp í flugvélar, og hefur haldið heilum flugflotum á lofti vítt og breitt um Evrópu, Ameríku og Afríku.

Hvar eruð þið stödd í tilverunni, elskan? spyr hann.

Lesa meira

Stríð eða friður – í viðtengingarhætti

Það var rétt eins og tveir gamlir vinir og bræður í anda væru að hittast eftir langan aðskilnað – þeir féllust í faðma, kysstu hvor annan á báða vanga og horfðust brosandi í augu: „Þú hefur yngst um tíu ár, svei mér þá,“ sagði Jorge Mario Bergoglio á ítölsku. „Þú ert að grínast“ svaraði Mahmud Abbas, hlæjandi, á arabísku. Þetta var túlkað jafnóðum af ritara páfa, sem er annálaður fjöltyngdur fræðimaður. – Það var reyndar ekki svo langt síðan þessir tveir menn höfðu hist í skuggsælum garði á bak við Vatikanið. Páfinn hafði lýst yfir stuðningi við sjálfstætt ríki Palestínu (alveg eins og Össur okkar), og þar í garðinum voru friðarins menn mættir til að funda.

Nema hvað, að núna var Mahmud Abbas, foringi Palestínumanna, kominn á ný til að hitta páfa. Að þessu sinni stóð til að hengja á hann æðstu orðu – friðarorðu, sem bara vænstu mönnum er veitt í viðurkenningarskyni. Gott ef það er ekki upphleypt mynd af engli úr bronsi.

Lesa meira

Að myrða yndi sitt

Ég átti mér einskis ills von þennan fagra föstudagsmorgun. Sólhvítur himinninn rann saman við hafið bláa, sem bærðist varla í logninu. Við vorum að aka eftir N340, sem er gamla þjóðbrautin með sjónum á milli Malaga og Almeríu. Vegurinn ýmist hangir utan í snarbröttum klettaveggjum eða beygir inn í djúp gljúfur, þar sem jafnvel sólin sjálf nær ekki að skína í morgunsárið. Ég sat undir stýri. Við ætluðum á markaðinn í Almunecar.

Sem ég er að beygja burt undan sólinni og inn í eitt gljúfrið, stendur ekki groddalegur karlmaður, merktur Guardia Civil, við vegkantinn og gefur okkur merki um að nema staðar. – Satt að segja fæ ég alltaf smáhræðslukast, þegar spænska löggan er annars vegar. Og frá því var engin undantekning að þessu sinni, þó svo að ég væri bæði bláedrú, með beltið spennt og glænýtt ökustírteini í töskunni. Maðurinn var merktur Guardia Civil, nota bene – ekki Policia. Þeir eru komnir aftur – falangistarnir – hin sauðtryggu handbendi ógnarstjórnarinnar, sem voru þekkt fyrir algert miskunnarleysi í samskiptum við saklaust fólk.

Lesa meira