Eins og enginn sé morgundagurinn

Frumsýning í Tjarnabíói Kæra manneskja

Dansverk undir handleiðslu Valgerðar Rúnarsdóttur – Flytjendur: Ragnar Ísleifur Bragason, Snædís Lilja Ingadóttir, Valgerður Rúnarsdóttir og Védís Kjartansdóttir Tónlist: Áskell Harðarson Leikmyndir og búningar: Ragnheiður Maísól Sturludóttir Ljósahönnun: Kristján Darri Kristjánsson

Við höldum áfram að umgangast móður jörð eins og enginn sé morgundagurinn.

Enn segjum við bara takk, þegar strákurinn á kassanum í Bónus spyr: Má bjóða þér poka? Einn eða tvo? Hring eftir hring. Við komum aftur í búðina, dag eftir dag – og alltaf þiggjum við plastpoka. Alveg hugsunarlaust.

Lesa meira

Við þurfum að hugsa allt upp á nýtt

Þetta viðtal tók Kolbrún Bergþórsdóttir árið 2017. Það birtist í DV.

Þegar Bryndís samþykkti að koma í viðtal tók hún fram að hún nennti ekki að endurtaka sig og tala um hluti sem hún hefði margoft rætt um: „Mér finnst ég alltaf vera spurð sömu spurninganna“.

Viðtalið hefst því á spurningu um lífið í dag og hvers vegna þau hjón kjósi að búa hluta árs í litlu þorpi á Spáni.

„Þetta var gamall draumur,“ segir Bryndís. Ég hafði mikinn áhuga á latínu í menntaskóla og stóð mig vel í frönsku líka, sem er latneskt mál. Seinna tók ég háskólapróf í báðum þessum tungumálum. Ítölsku lærði ég af því að vinna í fimm sumur sem leiðsögumaður fyrir Ingólf í Útsýn á Ítalíu.

Svo kom að því, mörgum árum seinna, að maðurinn minn varð sendiherra í Bandaríkjunum, þar sem við áttum fimm góð ár. Vegna starfa hans kynntumst við Suður-Ameríku. Það var í fyrsta sinn, sem ég var í löndum, þar sem ég gat ekki tjáð mig á máli heimamanna. Fannst það óþægilegt. Svo að ég ákvað að gera eitthvað í málinu. Fann mér argentínskan kennara, unga kvikmyndagerðarkonu, Andreu, sem kenndi mér málfræði í stofunni sinni, og þegar ég útskrifaðist frá henni, gat ég sótt tíma í George Washington háskólanum.

Lesa meira

Ég finn hamingjuna hríslast fram í fingurgóma.

Fyrir fjörutíu árum útskrifaði ég glæsilegan hóp stúdenta frá Menntaskólanum á Ísafirði. Í dag fagnar þessi sami hópur tímamótum á sama stað. Ég sakna þess að vera ekki með – það mundi hafa verið gaman – en læt mér nægja að senda hamingjuóskir frá fjarlægum slóðum og læt meðfylgjandi texta fylgja:

HUGSAÐ VESTUR

Það er vor við Dumbshaf. Dagur og nótt renna saman í annarlegri birtu næturinnar. Tíminn stendur í stað. Ég sit fremst á gömlu bæjarbryggjunni. Hún er að niðurlotum komin og löngu hætt að vera nafli þessa litla bæjarfélags. Tveir þöglir mávar húka hvor á sínum stampi, bíða þess að bærinn vakni og gefi þeim eitthvað í svanginn. Ég er að bíða þess, að andinn komi yfir mig.
Hérna sitjum við öll þrjú – og horfum óþreyjufull yfir sofandi bæinn, þessa ósamstæðu húsaþyrpingu, sem virðist eins og ögrun við veggbrött fjöllin til beggja handa. Það bærist ekki hár á höfði. Niðri í fjörugrjótinu eru tveir ástsjúkir kettir að teygja úr sér morgunhrollinn. Annar þeirra er með blátt band um hálsinn. Skyldi hann ekki fá skömm í hattinn, þegar hann snýr heim eftir ævintýri næturinnar!

Trillukarlarnir eru komir á stjá, og bátarnir farnir að hósta út í lognið. Hvað er betra í þessari nóttlausu voraldarveröld en að vera trillukarl? Ég virði fyrir mér, hvernig stefnið klýfur sléttan hafflötinn og sólargeislarnir velta sér í kjölfarinu.

Lesa meira

(Ó)heiðarleg blaðamennska

„…það var ekki fyrr en sjálfstæð eftirlitsstofnun – Umboðsmaður Alþingis – tók ákvörðun um að rannsaka málið, sem sannleikurinn um óheiðarleikann kom fram.“
Jón Trausti Reynisson ritstjóri (í leiðara Stundarinnar 30.03.17)

Í grein í Stundinni ( 30.03.17), sem á að vera upprifjun á næstum 30 ára gamalli frétt, tekur Reynir Traustason á sig krók til að vekja upp gamlan draug. Um hvað snerist það nú aftur? Jú, það var verið að reyna að telja fólki trú um, að við Jón Baldvin værum þjófar. Pólitískur skítabissness þá. Já – en mundi nú vera kallað falsfrétt. Af hverju fals? Vegna þess að „sjálfstæð eftirlitsstofnun“ – Ríkisendurskoðun – hafði rannsakað málið og kveðið upp úrskurð um að þetta væru ósannindi.

Hver var hinn meinti glæpur? Tveimur risnureikningum frá fjármálaráðherratíð Jóns Baldvins (1987–88), þar sem tilefnis var ekki getið, var lekið til fjölmiðla. Þar sem ég hélt upp á fimmtugsafmælið mitt sumarið 1988, var það látið fylgja sögunni, að „grunur léki á“, að Jón Baldvin hefði látið fjármálaráðuneytið kosta veisluna.

Lesa meira

Minning um Sigurð A. Magnússon, sem við kveðjum hinstu kveðju í Hallgrímskirkju í dag.

Þau eru að hverfa á braut hvert á fætur öðru – ganga út af leiksviði lífsins – gamlir vinir, bóhemar og artistar, sem voru í blóma lífsins á seinni hluta liðinnar aldar. Í daglegu lífi minntu þau á persónur úr skáldsögum, sem ekki fundu sér stað innan ramma hversdagsleikans – höfnuðu enda hversdagleikanum. Í þeirra augum var lífið – með öllum sínum sorgum og allri sinni gleði – óendanlegt yrkisefni, sem þau spunnu sinn þráð úr. Guðmunda Elíasdóttir og Bragi Ásgeirsson, bæði tvö nágrannar og vinir á Vesturgötunni, Thor Vilhjálmsson, sem kom alla leið úr Vogunum til að lesa upp úr nýjum bókum fyrir vini í gamla bænum. Öll nýgengin – og nú síðast Sigurður A. Magnússon, saddur lífdaga.

Ég var eiginlega bara barn að aldri, þegar ég kynntist honum – milli tektar og tvítugs, eins og sagt er. Hann var þá nýkvæntur maður, guðfræðistúdent við Háskóla Íslands. Ég var á leið til Ameríku – á Löngufjöru – með viðkomu í höfuðborg heimsins, New York, en þar átti ég að dveljast í nokkra daga. Sigurður var kjörinn leiðsögumaður minn – eða fararstjóri.

Lesa meira

Hann kom fyrir tæplega sextán árum

Í gærkvöld fórum við að sjá heimildarmynd Jóns Karls Helgasonar í Bíó Paradís um tælenska fjölskyldu á Íslandi. Troðfullt hús, fjölmenningarsamfélagið á staðnum – frábær mynd.

Hversu margir í kringum okkur hafa ekki farið til Taílands? Tælandi! Karlar í leit að einhverju, sem þeir finna ekki heima hjá sér. Sól og sumar, sjór og seiður. Massatúrismi.

Í gærkvöld fórum við að sjá heimildarmynd Jóns Karls Helgasonar í Bíó Paradís um tælenska fjölskyldu á Íslandi. Troðfullt hús, fjölmenningarsamfélagið á staðnum – frábær mynd

Hversu margir í kringum okkur hafa ekki farið til Taílands? Tælandi! Karlar í leit að einhverju, sem þeir finna ekki heima hjá sér. Sól og sumar, sjór og seiður. Massatúrismi.

Lesa meira

Í minningu móður minnar, Aldísar Þorbjargar Brynjólfsdóttur Schram

Aldís Þorbjörg Brynjólfsdóttir Schram, móðir mín, hefði orðið hundrað ára í dag, 23. mars. Þess vegna skrifa ég eftirfarandi:

Mamma vann aldrei úti. Mamma sagði ósjaldan: Æ, ég var aldrei mikið fyrir börn! Samt eignaðist hún sjö krakka og féll aldrei verk úr hendi. Saumaði á okkur, prjónaði á okkur, fór í ber á hverju ári, sultaði, tók slátur, bakaði reglulega og eldaði mat upp úr danskri kokkabók, sem lá alltaf á eldhúsborðinu. Fiskur alla daga – ýsa var það, heillin – ýmist soðinn eða steiktur, saltaður eða reyktur. Stundum bollur eða kássur.

Á sunnudagsmorgnum var þó brugðið út af venju, þá var boðið upp á lambalæri í hádegismat. Ilmurinn barst um allt húsið, og við krakkarnir stóðumst ekki mátið, drösluðumst á fætur, þó svo að við hefðum verið á djamminu fram undir rauðan morgun. Lambalæri með Orabaunum, rauðkáli úr dós, brúnuðum kartöflum og rjómalagaðri sósu – mmm… hvað við elskuðum mömmu á sunnudögum. Núna man ég ekki, hvort við sögðum einu sinni „Takk fyrir matinn, mamma“.


Aldís Þorbjörg Björgvinsdóttir Schram

 

 

 

Lesa meira

Ekkert breytist

Fyrir næstum tuttugu árum tók ég viðtal fyrir útvarpið (Rás 1), við kunnan athafnamann í Reykjavík, sem hafði alist upp í “Pólunum” svokölluðum. Pólarnir voru stórt og fremur hrörlegt hús í eigu Reykjavíkurborgar, sem stóð ofanvert við flugvöllinn í Vatnsmýrinni langt fram eftir síðustu öld. Það hýsti fátækt fólk – aðallega barnmargar fjölskyldur, sem voru eigna- og atvinnulausar. Á þessum árum, snemma á fjórða áratugnum, ríkti kreppa á Íslandi sem og annars staðar í heiminum, og áttu margir um sárt að binda.

Lög í okkar landi á þessum tíma mæltu svo fyrir, að þeir sem þæðu af sveit, þ.e.a.s fengju framfærslustyrk frá bæjaryfirvöldum, – væru sviptir kosningarétti, nytu sem sagt ekki sömu réttinda og þeir, sem áttu eignir eða voru með örugga atvinnu.

Lesa meira

Hinn slavneski lífsháski

Mig hafði aldrei órað fyrir því, að ég mundi einn góðan veðurdag standa á Maidan, þessu sögulega torgi í Kyiv, höfuðborg Úkraínu, þar sem óþreyjufullir borgarar komu saman fyrir rétt rúmu ári í uppreisn gegn spillingu stjórnvalda – heimtaði réttlæti og sanngirni, betra líf, bjartari framtíð – á torginu, þar sem byltingin breyttist í blóðbað og hinir hugdjörfu féllu fyrir byssukúlum leigumorðingja, forsetinn flúði land, boxarinn, Klitschko, varð borgarstjóri, og súkkulaðikóngurinn, Poroschenko forseti.

Hvítar steinhellurnar bera enn lit blóðsins, fánarnir standa uppi og myndir af hinum föllnu blasa við forvitnum ferðalöngum. “En hvar eru öll blómin”, spurði ég leiðsögukonuna. “ Þú átt við blómin, sem fólk bar að til að heiðra minningu hinna föllnu? Hér var mikið blómahaf, alveg rétt, en í skjóli nætur voru blómin hirt og seld aftur sem ný daginn eftir”, sagði hún og glotti. Ég horfði á hana undrandi og hrygg – jafnvel á örlagastundu er maðurinn samur við sig.

Sólin var komin hátt á loft. Samt andaði köldu, miður apríl. Það var hrollur í mér.

Að vísu höfðum við haft einhvern pata af því, að gestgjafar okkar væru bankamenn með einhver umsvif í Eistlandi. Þess vegna spurðum við eistneska vini frá fornu fari, hvort þetta væru fjárplógsmenn? Þeir fullvissuðu okkur um, að þessi náungar væru O.K. Engin furða. Það sem vakti fyrir ólígarkanum, sem átti bankann, var að koma því til skila til hinna ofurríku – og hinna næstum því ríku í Úkraínu – að peningarnir þeirra væru í öruggu skattaskjóli í Eistlandi. Eistland væri hið nýja Sviss norðursins. Bara öruggara!

Lesa meira

Minning: Bragi Ásgeirsson

Kæri vinur – Svona byrja ég bréf til Braga í águst fyrir þremur árum. Sýning á verkum hans stóð yfir á Kjarvalsstöðum. Við höfum keypt bókina: „Augnasinfónía – myndlist Braga Ásgeirssonar í sextíu ár“.

Í þessu bréfi rifja ég upp, hvernig ég, ung listaspíra í Reykjavík á sjöunda áratugnum, hefði heillast af verkum hans, einkum og sér í lagi grafíkinni. Og konunum í grafíkinni. Ég sagði honum, hvernig mér hefði jafnvel tekist að eignast nokkur þessara verka með því að spara við mig í ýmsum óþarfa. Og svo, hvernig þessar konur hans, heillandi en látlausar í tign sinni, hefðu fylgt mér sem ljós á lífsins braut, bæði heima og að heiman. Þær hefðu svalað fegurðarþrá minni og eflt kvenleika minn. Ég nefndi myndina „Íhygli“, fyrstu grafikmyndina, sem ég eignaðist og síðan margar aðrar. Og loks „Ástríður“, sem var sú seinasta.

Erindi bréfsins til Braga var að láta hann vita, hvað bókin hefði glatt okkur, og hve margt hefði rifjast upp frá liðnum árum við lestur hennar. Í þessari bók er Bragi í essinu sínu. Hin alræmda frásagnargleði hans nýtur sín vel – engin látalæti, engin tilgerð, engin sjálfsvorkunn þrátt fyrir nokkurt mótlæti framan af. Hún lýsir sönnum manni, lífsreyndum – og lífsglöðum. Hún er falleg umgjörð um verk, sem munu lifa með þjóðinni um ókomin ár.

Lesa meira