FYRIRBYGGJANLEGT? – JÁ

Var hrunið fyrirbyggjanlegt?Svarið við þessari spurningu skiptir máli, þótt seint sé, af því að af svarinu má draga lærdóma um hvað beri að gera og hvert skuli stefna í framtíðinni.

Fyrir Alþingiskosningarnar 1995 – árið eftir að EES- samningurinn gekk í gildi – boðaði minn gamli flokkur, Alþýðuflokkurinn, þá stefnu, að Íslendingar ættu að sækja um aðild að Evrópusambandinu á næsta kjörtímabili (1995-99). Í framhaldi af því ættum við að gerast aðilar að peningamálassamstarfinu (EMU) og taka upp evru. Hefði sú stefna náð fram að ganga þá væri íslenska þjóðin ekki í þeim sporum, sem hún stendur í nú.

Á árunum 1988 – 1994 gengu Íslendingar í gegnum lengsta samdráttarskeið lýðveldistímans. Við bjuggum við umtalsverðan samdrátt í þjóðarframleiðslu og þungbært atvinnuleysi um skeið. Ríkisstjórnum Steingríms Hermannssonar (1988-91) og fyrstu ríkisstjórn Davíðs Oddssonar (1991- 95) tókst vel að vinna okkur út úr kreppunni og að leggja grunninn að nýju framfararskeiði. Þar munaði mest um EES-samninginn, sem tók gildi 1994.

EES-samingurinn gerbreytti íslensku samfélagi til hins betra. Með samningnum gerðust Íslendingar aðilar að innri markaði Evrópusambandsins, þ.e. hinu svokallaða fjórfrelsi. Fjórfrelsið snýst um frjálsan markaðsaðgang, þvert á landamæri, fyrir vörur, þjónustu, þ.m.t. fjármálaþjónustu, vinnumarkað o. fl.. Þar með stækkaði heimamarkaður Íslendinga úr 300 þúsundum yfir í 350 milljónir neytenda. Þetta skapaði íslensku atvinnulífi ný og áður óþekkt tækifæri. Árangurinn lét ekki á sér standa. Hefðbundnar útflutningsgreinar styrktu stöðu sína og nýjar bættust við. Með auknum hagvexti sköpuðust ný störf, atvinnuleysi hvarf eins og dögg fyrir sólu og nýjar atvinnugreinar, sem byggðu á sérþekkingu og sérhæfingu náðu fótfestu. Samkeppnisskilyrði fyrirtækja og þjóðarbúsins í heild á stórum og vaxandi markaði bötnuðu til muna.

Eitt af því sem breyttist með EES-samningnum var að við tók gagnkvæmur réttur til fjárfestinga og stofnunar fyrirtækja.