En nú er neyðarástand. Og neyðarástand kallar á neyðarráðstafanir. Íslenska þjóðin er í svo miklu nauðum stödd að það verður að kasta út til hennar bjarghringnum strax. Ástandið á strandstaðnum er svo ógnvekjandi að innan skamms getur riðið yfir annað brot (önnur brotlending krónunnar og ný verðbólguhrina) sem gæti lagt okkar höktandi hagkerfi einfaldlega í rúst á örskömmum tíma.
Við þurfum varla frekari vitna við um reynsluna af sjö ára tilraun Seðlabanka Íslands með svokallaða sjálfstæða peningastefnu utan um krónuna og verðbólgumarkmið upp á 2.5%. Árangurinn lét á sér standa. Markmiðin færðust æ fjær eftir því sem tilraunin stóð lengur. Margir urðu til þess að vara við afleiðingunum en á þá var ekki hlustað. Fáir munu þó hafa séð fyrir að þessi vanhugsaða stefna mundi enda með þvílíkum ósköpum sem raun ber vitni: hruni fjármálakerfisins og greiðsluþroti þjóðarbúsins. Á undanförnum mánuðum hefur okkar varnarlausi gjaldmiðill verið í frjálsu falli uns hann brotlenti svo harkalega að það flokkast undir tæknilegt rothögg.
Þjóðin mun nú og á næstu mánuðum upplifa afleiðingarnar á eigin skinni: Gjaldeyrisskortur, sköttun og svartur markaður, innflutningsverðbólga í hagkerfi sem er við það að drepa á sér, gjaldþrot skuldugra fyrirtækja, fjöldaatvinnuleysi, eignamissir og landflótti. Minna mætti nú gagn gera til að refsa einni þjóð fyrirhyggju- og ábyrgðarleysi þeirra sem veitt hafa henni forystu í stjórnmálum og atvinnulífi. En við sitjum uppi með orðinn hlut: Stjórnvöld efnahags- og peningamála, sem eru rúin trausti innan lands og utan og með gjaldmiðil, sem dregur dám af ábekingum sínum – þ.e. hann er einskis virði. Þetta ætti að duga til þess að þjóðin segði einum rómi: Aldrei aftur. Við frábiðjum okkur að gerð verði ný tilraun, undir stjórn sömu manna, til þess að setja krónuna aftur á flot, eins og ekkert hafi í skorist.
Eftir að neyðarástandið skapaðist hefur þjóðin horft upp á orð og gerðir þeirra, sem eiga að stjórna björgunaraðgerðum á strandstaðnum í vaxandi forundran. Að vísu má það gott heita að ríkisbankar eru risnir á rústum hinna einkavæddu og að venjuleg viðskipti hér innan lands hafa verið nokkurn veginn með felldu. Það hefði getað farið verr. En flest annað virðist því miður vera í skötulíki: Tilraun Seðlabankans til að binda gengi krónunnar stóðst í nokkrar klukkustundir; vaxtafúsk Seðlabankans, lækkun stýrivaxta í 12% og hækkun í 18% nokkrum dögum seinna sýndi svo ekki verður um villst að þar á bæ vita menn ekki sitt rjúkandi ráð; Rússalánið virðist gleymt og grafið; “Icesave” deilan við Breta og Hollendinga virðist vera í óleysanlegum hnút; lánsumsóknin til IMF virðist ekki hafa ratað á rétt heimilisfang og umsamin bjargráð eru bara orð á blaði. Sú sjálfsagða krafa að nýir menn með óflekkaðar hendur taki við stjórn Seðlabankans fæst ekki afgreidd. Krafan um að stefnan verði tekin á Evrópusambandsaðild og uppptöku evru fæst ekki rædd. Ríkisstjórnin, sem á að stýra björgunaraðgerðum og vísa veginn til framtíðar út úr ógöngunum, virðist vera lömuð. Forstæisráðherrann birtist þjóð sinni til þess helst að lýsa aðkallandi ákvarðanir “ótímabærar.” Það er sama hvar borið er niður. Tíminn líður án þess að tekið sé af skarið um eitt eða neitt. Yfirlýsingar ráðamanna standast ekki frá degi til dags. Á meðan er hætt við að eignir utan lands og innan sem áttu að vera andlag skuldanna, rýrni í verði dag frá degi. Þjóðin er að fyllast vonleysi og örvinglan.