En menn munu einnig rannsaka brotalamir og veilur í stjórnskipun og stjórnarfari lýðveldisins. Slímusetur eins flokks – og raunar lítillar valdaklíku í forystu hans – hátt í tvo áratugi samfellt, kann ekki góðri lukku að stýra. Það býður einfaldlega upp á spillingu og nærir valdhroka þeirra sem telja sig smám saman eðalborna til auðs og valda. Fjölmiðlar – eða eiga þeir kannski að heita fámiðlar – í eigu tveggja auðkýfinga eða undir húsbóndavaldi Flokksins, í krafti ríkisins, bætir ekki úr skák. Illkynja meinsemdir eins og t.d. löglaust og siðlaust kvótakerfi og ónothæfur gjaldmiðill, fá að grafa um sig í þjóðarlíkamanum og eitra út frá sér. Þjóðmálaumræðan er yfirborðskennd og snýst um aukaatriði, samkvæmt hinni frægu “smjörklípuaðferð” seðlabankastjórans.
Margir sem leita að orsökum ófaranna nefna til sögunnar nokkrar skýringartilgátur, sem sjálfsagt er að taka til skoðunar: Kvótakerfið, einkavæðingu bankanna, klíkuvensl fámennisins og jafnvel EES-samninginn. Ókeypis úthlutun veiðiheimilda – sem eru mikil fémæti – til útvalins hóps útgerðarmanna er skýrt dæmi um siðlausa stjórnsýslu. Misbeiting ríkisvaldsins til að skapa sumum forréttindi af þessu tagi brýtur í bága við grundvallarreglur stjórnskipunarinnar um atvinnufrelsi og jafnræði fyrir lögum. Slíkt getur aðeins staðist til skamms tíma og þá í nafni neyðarréttar. En sú staðreynd að lögbundin þjóðareign á auðlindinni er hvorki virt né virk í framkvæmd, stenst ekki til frambúðar.
Líta má á kvótaauðinn, sem tekinn hefur verið út úr skuldsettum sjávarútvegi, sem fyrsta heimanmund ójafnaðarþjóðfélagsins. Fyrir daga kvótakerfisins voru ríkisbankarnir íslensku eins og hverjir aðrir sparisjóðir – venjulegir viðskiptabankar. Fyrir tilverknað kvótaauðsins og með greiðum aðgangi að ódýru lánsfé erlendis, breyttust þeir í eins konar vogunarsjóði. Þar með varð til pappírsauður hinnar nýríku yfirstéttar. Hinir íslensku ólígarkar eiga það sameiginlegt með sínum rússnesku kollegum að eignarhald þeirra á þjóððarauðlindum og fjármálastofnunum hefur skapað hráslagalegt ójafnaðarþjóðfélag heima fyrir og flutt mikinn auð úr landi.
Einkavæðing bankanna: pólitísk helmingaskipti.
Það var löngu tímabært að ríkið hætti bankarekstri. En undurbúningnum að sölu bankanna var ábótavant og aðferðirnar voru vítaverðar. Yfirlýsingar ráðamanna um dreifða eignaraðild stóðust ekki. Áformum um innkomu erlends banka af hagkvæmnis- og samkeppnisástæðum var ekki fylgt eftir.Niðurstaðan varð framlenging á helmingaskiptareglu Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks sem var grundvallarregla hinnar spilltu stjórnsýslu liðinnar aldar.Bankarnir voru afhentir á undirverði fáeinum útvöldum, sem voru í “góðu talsambandi við” forystuklíkur stjórnarflokkanna. Allt regluverk og eftirlit með starfsemi þeirra var í skötulíki með þeim afleiðingum sem nú blasa við sex árum síðar með hruni fjármálakerfisins, falli gjaldmiðilsins og gjaldþroti Seðlabankans. Sjálfsagt eiga krossvensl klíkusamfélagsins, bæði í stjórnmálum og viðskiptum, sinn þátt í því, hve illa fór. Það er þá enn eitt dæmið um nauðsyn þess að opna þetta lítla samfélag upp á gátt fyrir veðri og vindum utanðakomandi samkeppni.
Sumir vilja meina að upphaf ógæfunnar megi rekja til EES-samningsins, sem gekk í gildi í ársbyrjun 1994, eða fyrir fjórtán árum. Sjálfur forseti lýðveldisins, hinn rómaði lofsöngvari útrásarauðkýfinganna, hefur jafnvel tekið undir þennan söng. Rökin eiga að heita þau að EES-samningurinn feli meðal annars í sér gagnkvæman rétt til stofnunar fyrirtækja, fjárfestinga og fjármagnsflutninga yfir landamæri á svæðinu öllu. Án EES-samningsins hefðu íslensku bankarnir því ekki átt rétt á að hefja starfsemi á evrusvæðinu, utan Íslands.
Að þessu leyti má líkja EES-samningnum við hraðbraut með mörgum akreinum í báðar áttir, sem lögð er til að greiða fyrir umferð fólks og varnings og auka um leið umferðaröryggi. Er þá rétt að gera vegargerðarmanninn ábyrgan fyrir ofsa- eða ölvunarakstri, sem stofnar lífi og limum vegfarenda í hættu? Er það ekki ökumaðurinn sjálfur sem ber að lögum ábyrgð á aksturslaginu? Og sætir eftir atvikum refsingu lögum samkvæmt, jafnvel ökuleyfissviftingu? EES-samningurinn greiddi vissulega götu einstaklinga og fyrirtækja í hvers kyns viðskiptum á stærsta fríverslunarmarkaði heims. Samningurinn átti stóran þátt í að skapa okkar þjóðarbúi ný tækifæri til vaxtar, sem kom þjóðinni allri til góða. En seint verður það sannað fyrir dómi að samningurinn beri ábyrgð á hruni bankakerfisins fjórtán árum síðar. Þrjátíu ríki eiga aðild að evrópska efnahagssvæðinu. Aðeins eitt þessara ríkja situr uppi með hrunið fjármálakerfi og ónýtan gjaldmiðil. Bendir það ekki til þess að vandinn sé í stórum dráttum heimatílbúinn?
Stærstu mistökin
Hitt má til sanns vegar færa að Íslendingar hefðu sýnt framsýni og fyrirhyggju í því að feta í fótspor fyrrverandi bandalagsþjóða í EFTA með því að stíga skrefið til fulls og ganga í Evrópusambandið og peningamálasamstarfið (European Monetary Union) í framhaldi af því. Þetta var sú stefna sem Alþýðuflokkurinn undir miinni forystu boðaði þjóðinni þegar fyrir kosningarnar 1995, fyrir þrettán árum. Sú var tíð að við Íslendingar fullnægðum öllum settum skilyrðum (um stöðu ríkisfjármála, ríkisskuldir, vexti og verðbólgu) til þess að verða fullgildir aðilar að EMU. Hefði þessi leið verið farin hefðum við getað skipt út krónunni fyrir evrur, jafnvel áður en bankarnir voru einkavæddir á árunum 2001 til 2002. Jafnframt hefðum við notið styrks af Seðlabanka Evrópu sem þrautavarabanka. Íslensku bankarnir hefðu trúlega vaxið íslenska hagkerfinu yfir höfuð jafnt fyrir því. Og þeir hefðu allt eins getað lent í erfiðleikum vegna of mikillar skuldsetningar eins og reynslan sýnir að hent hefur einstaka banka og fjármálafyrirtæki á evrusvæðinu, jafnt sem annars staðar. En það sem felldi íslensku bankana og lagði um leið allt fjármálakerfi Íslands í rúst var ekki skortur á krónum – það var skortur á gjaldeyri, sérstaklega evrum, til að endurfjármagna skuldirnar.
Á því er mikill munur hvort einstaka fjármálastofnanir lenda í erfiðleikum fyrir áhrif alþjóðlegar bankakreppu eða að heilt þjóðfélag riði til falls sem fórnalamb gjaldeyriskreppu. Sú staðreynd að íslenski gjaldmiðillinn er hvergi gjaldgengur í viðskiptum og að hann er varnarlaus í sviptibyljum alþjóðlegra fjármagnsmarkaða, varð fjármálakerfinu að falli. Þjóðir með traustan gjaldmiðil og öflungan bakhjarl eins og t.d. Seðlabanka Evrópu geta staðist afleiðingar alþjóðlegrar bankakreppu. En smáþjóð sem á hvorki nothæfan gjaldmiðil né trúverðugan seðlabanka fær ekki rönd við reist þegar hún verður fórnarlamb tvíburakreppu, sem er hvort tveggja í senn banka- og gjaldmiðilskreppa. Það er gengisfall gjaldmiðilsins sem hefur leikið okkur harðast. Það er þetta gengisfall gjaldmiðilsins sem hefur sett af stað hringekju verðbólgu, okurvaxta, gjaldþrota, atvinnuleysis og eignamissis fólks og fyrirtækja; og neyðir Íslendinga nú til að knýja dyra hjá hjálparstofnunum og grannþjóðum með betlistaf í hendi.
Ég fullyrði að með traustan gjaldmiðil eins og evruna í höndunum síðastliðin sex til sjö ár, hefðu Íslendingar ekki staðið í þeim sporum sem þeir standa í nú. Ábyrgð þeirra, sem hafa staðið í vegi fyrir því að þjóðin léti reyna á þá kosti sem byðust í samningum um aðild að Evrópusambandinu og um upptöku evru er því mikil. Hrunið var nefnilega hvort tveggja í senn fyrirsjáanlegt og fyrirbyggjanlegt. Enda urðu margir innanlands og utan til þess að vara við því í tæka tíð.
Af öllum þeim mistökum sem leitt hafa til ríkjandi neyðarástands á Íslandi, eru þau mistök stærst og örlagaríkust að hafa ekki leitað inngöngu í Evrópusambandið meðan allt lék í lyndi og við gátum gengið þangað inn uppréttir sem fullir þátttakendur í samstarfi lýðræðisríkja Evrópu.
BER ENGINN PÓLITÍSKA ÁBYRGÐ?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið ráðandi afl í stjórnmálum á Íslandi á lýðveldistímanum. Síðastliðin sautján ár hefur flokkurinn farið með allt í senn forsætisráðuneytið, fjármálaráðuneytið og stjórn Seðlabankans(í persónum tvegga fyrrverandi borgarstjóra Reykjavíkur). Þar með ber Sjálfstæðisflokkurinn óumdeilanlega höfuðábyrgð á þeirri efnahagsstefnu, sem nú hefur beðið algert skipbrot.
Þegar minnt er á þessa staðreynd bregst formaður Sjálfstæðisflokksins og núverandi forsætisráðherra við með því að segja að það megi ekki perónugera vandann. Meðan allt lék í lyndi og góðærið ríkti (þótt það væri að vísu mestan part tekið að láni) þótti sjálfsagt að persónugera dýrðina í persónu Davíðs Oddssonar, forsætisráðherra (1991-2004). En nú þegar spilaborgin er hrunin og þjóðarbúið er ein rjúkandi rúst er bannað að persónugera vandann. Þá er ekkert Davíð að kenna, hvorki sem forsætisráðherra né Seðlabankastjóra. Þaðan af síður þykir kurteislegt að persónugera vandann í persónu varaformanns flokksins og fjármálaráðherra (1998-2006). Umræðan verður samkvæmt þessu að fara fram undir nafnleynd.
Hinn aldni hagspekingur Viðreisnar, Jónas H. Haralz, hefur vakið athygli á því að allt frá því að þáverandi forsætisráðherra lagði niður Þjóðhagsstofnun í einhverju bræðikasti árið 2002 hafi engin samræmd hagstjórn verið í landinu. Með því á hann við að stjórn ríkisfjármála (undir forystu forsætis- og fjármálaráðherra) og stjórn peningamála (undir forystu Seðlabankastjóra) eigi að haldast hönd í hönd. Markmiðið með samræmdri hagstjórn er að stuðla að jafnvægi og stöðugleika í hagkerfinu. Til þess að fyrirtæki getið vaxið og dafnað til lengri tíma litið, ekki síst þau sem byggja afkomu sína á útflutningi, verða þau að geta reitt sig á stöðugleika sjálfs gjaldmiðilsins umfram allt annað. Flestum dómbærum mönnum ber saman um að þetta hafi brugðist hrapallega á undanförnum sex-sjö árum.
Heimsmet í útþenslu ríkisbáknsins
Lítum fyrst á ríkisfjármálin. Vegna stórvirkjana fyrir austan og nýrrar álbræðslu í tengslum við þær var þanþol hagkerfisins spennt til hins ýtrasta. Þessar stórframkvæmdir höfðu í för með sér innstreymi erlends lánsfjár sem nam allt að þriðjungi þjóðarframleiðslunnar, auk þess sem boginn var spenntur til hins ýtrasta á vinnumarkaðnum. Til þess að aftra þenslu og viðhalda stöðugleika þurfti ríkisstjórnin að stíga á bremsurnar og draga úr framkvæmdum og neyslu á öðrum sviðum á sama tíma. Það gerði hún ekki. Þvert á móti, ríkisstjórnin kynti með ríkisfjármálastefnu sinni undir þenslunni. Í framhaldi af einkavæðingu bankanna, sem þegar í stað hófu harða samkeppni um markaðshlutdeild inn- og útlána, hækkaði ríkisstjórnin veðmörk fasteignalána. Þar með hratt hún af stað svokallaðri fasteignaverðsbólu, sem kynti enn frekar undir verðbólgu. Útlánaþenslan hækkaði enn frekar verð fasteigna sem aftur varð andlag aukinnar skuldsetningar. Með þessum hætti kyntu stjórnvöld undir skuldsetningu fyrirtækja og heimila með alvarlegum afleiðingum síðar meir, eins og nú hefur komið á daginn.
Þess ber líka að geta sem vel er gert. Svo sem vera bar notaði fjármálaráðherra hluta af sívaxandi tekjustreymi í ríkissjóð af sívaxandi viðskiptahalla til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. En þenslan var orðin svo mikil að ríkisgeirinn þandist stjórnlaust út, enda öll aðhaldssemi látin lönd og leið. Ráðuneyti og stofnanir bókstaflega tútnuðu út sem aldrei fyrr. Opinberi geirinn stækkaði úr um 36% af landsframleiðslu í allt að 48%, á fáeinum árum. Þetta hefur verið kallað heimsmet í útþenslu ríkisbáknsins undir handleiðslu forsætis- og fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins. Man einhver eftir slagorðinu um báknið burt? Var einhver að tala um stefnufestu? Þessu til viðbótar voru skattar lækkaðir á fyrirtæki og fjármagnseigendur, sem jók enn á þensluna. Með því að láta persónuafsláttinn til frádráttar tekjuskatti einstaklinga standa í stað í verðbólgunni var skattbyrði hinna verst settu hins vegar aukin um leið og kerfi almannatrygginga var látið drabbast niður með flóknum og fáránlegum skerðingarákvæðum. Heildarniðurstaðan var eftir sem áður sú að opinberi geirinn , þ.e. Ríki og sveitarfélög, voru á fullu við að kynda undir þenslu og skuldsetningu þjóðarbúsins.
Og ekki bætti peningamálastjórnin úr skák. Árið 2001 setti Seðlabankinn sér verðbólgumarkmið upp á 2.5% með vikmörkum. Skemmst er frá því að segja að þessi markmiðssetning náðist aldrei nema skamma hríð á tímabili. Reyndar hefur Seðlabankinn verið víðs fjárri því að ná yfirlýstum markmiðum sínum sem eitt út af fyrir sig hefur dregið úr trúverðugleika hans. Seðlabankinn hefði átt að vera sérstaklega vel á verði gagnvart útlánaþenslu bankanna í framhaldi af einkavæðingu þeirra. Margir bentu á það frá upphafi að bankinn ætti að auka bindiskyldu viðskiptabankanna til þess að draga úr útlánagetu þeirra. Seðlabankinn gerði þveröfugt. Hann lækkaði bindiskylduna og ýtti þar með undir þensluna. Seðlabankanum er líka skylt að hafa nákvæmt eftirlit með lausafjárstöðu bankanna, sem er þýðingarmikið öryggisatriði, en á því hefur verið alvarlegur misbrestur eins og sérfræðingar hafa bent á.
Peningamálastjórn í molum
Það var þó fyrst og fremst hinn hraði vöxtur bankakerfisins í kjölfar einkavæðingarinnar sem átti að vera Seðlabankanum sérstakt áhyggjuefni. Bankakerfið er sagt hafa þanist út frá því að hafa verið í kringum þriðjung landsframleiðslu fyrir einkavæðingu upp í það að vera undir lokin orðið tólffalt íslenska hagkerfið. Löngu áður en þessi ofvöxtur hljóp í bankakerfið, beint fyrir framan nefið á Seðlabankanum, átti bankinn að grípa í taumana. Annað hvort með því að auka gjaldeyrisforða sinn, þannig að hann gæti talist trúverðugur miðað við skuldbindingar viðskiptabankanna, (sem hefði trúlega reynst okkur ofviða); eða með því að knýja einhvern bankanna, og þá helst þann stærsta þeirra, til þess að flytja höfuðstöðvar sínar erlendis, þar sem hann hefði starfað í skjóli öflugari seðlabanka og þar með dregið úr áhættu íslenska ríkisins (les: skattgreiðenda). Seðlabankinn gerði hvorugt, þrátt fyrir viðvaranir dómbærra manna innanlands og erlendis. Seðlabankastjóri ber fram þær málsbætur að hann hafi í febrúar á þessu ári varað bæði ríkisstjórn og stjórnendur viðskiptabankanna við yfirvofandi hættuástandi. Svarið við því er að Seðlabankinn átti löngu áður, ekki aðeins að hafa varað aðra við, heldur hefði hann átt að grípa til ráðstafana í tæka tíð til að draga úr þeirri áhættu sem viðskiptavinum bankanna og þjóðarbúinu í heild stafaði af skuldsetningu þeirra.
Margir hafa orðið til þess að benda á að stýrivaxtahækkun bankans gat ekki skilað miklum árangri við ríkjandi aðstæður. Bæði er að langtímalán t.d. Á húsnæðismarkaði eru verðtryggð og með föstum vöxtum svo að hækkun stýrivaxta hefur lítil áhrif á þeim markaði til skamms tíma. Aðgengi fólks og fyrirtækja að erlendum lánum á lágum vöxtum fyrir milligöngu viðskiptabankanna var á sama tíma nær takmarkalaust. Hins vegar hafði hækkun stýrivaxta Seðlabankans fyrirsjáanleg og óæskileg hliðaráhrif. Hinn mikli vaxtamunur milli Íslands og annarra landa vakti athygli gjaldmiðla- og vaxtamunarbraskara, sem eygðu von um skjótfenginn gróða með kaupum á íslenskum vaxtabréfum. Innstreymi erlends fjármagns varð til þess að hækka gengi krónunnar langt umfram langtímajafnvægisgengi.Hátt gengi krónunnar örvaði innflutning, jók á skuldsetningu fyrirtækja og heimila og magnaði viðskiptahallann.
Pólitískar náttúruhamfarir
Heildaráhrifin af peningamálastjórnun Seðlabankans voru því í reynd þveröfug á við yfirlýsta stefnu. Með þessari stefnu var gengisstöðugleika fyrirsjáanlega stefnt í voða, auk þess sem kynt var undir neysluæði, viðskiptahalla og skuldsetningu. Undir lokin voru íslensk heimili orðin hin skuldsettustu í heiminum.
Þetta var hagkerfi sem bar öll ytri merki óstöðugleika og jafnvægisleysis. Ríkisstjórn og Seðlabanki höfðu í sameiningu, vegna skorts á samræmdri hagstjórn, búið til falska velmegun sem var mestan part fengin að láni. Það mátti lítið út af bera til þess að spilaborgin hryndi. Um leið og lánalínur erlendra banka brugðust, í kjölfar hinnar amrísku bankakreppu, sem nú er orðin alþjóðleg, hrundi spilaborgin. Sérstaða Íslands í þessari bankakreppu er sú að fjármálakerfi þjóðarinnar í heild hrundi til grunna og að gjaldmiðillinn sjálfur var í frjálsu falli, uns hann brotlenti með ósköpum.
Þetta er niðurstaðan af þeirri efnahagsstefnu, sem Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð á s.l. Sautján ár. Það er ekki bara að forsætis- og fjármálaráðherrum flokksins, item seðlabankastjóra, hafi verið mislagðar hendur. Þeir skilja beinlínis við hagkerfið í rjúkandi rúst eins og það hafi lent í stríðsátökum eða náttúruhamförum. Þar með er Sjálfstæðisflokkurinn orðinn að pólitísku þrotabúi, sem ætti sjálfur að sjá sóma sinn í að óska eftir greiðslustöðvun og gjaldþrotameðferð. Ella verða kjósendur að taka af honum ómakið.
SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN OG EVRÓPUMÁLIN:
FLOKKSHAGSMUNIR GEGN ÞJÓÐARHAGSMUNUM
Hvers vegna hefur Sjálfstæðisflokkurinn staðið þvert í vegi fyrir því að þjóðin gæti látið á það reyna, hvort brýnustu þjóðarhagsmunum væri betur borgið með aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru?
Hvers vegna hafa forystumenn flokksins ekki viljað heyra á það minnst, jafnvel þótt meirihluti þjóðarinnar og meirihluti þeirra eigin kjósenda hafi löngum viljað láta á þetta reyna? Hvers vegna þverskallast forystumenn flokksins við öllum slíkum kröfum, þótt flestir forvígismenn íslensks atvinnu- og fjármálalífs, sem reyndar gera flokkinn út, hafi snúist á þá sveif með vaxandi þunga í seinni tíð?
Er þetta ekki í ósamræmi við þá viðteknu kenningu (eða goðsögn) að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ævinlega haft forgöngu um nánara samstarf Íslendinga við aðrar þjóðir á sviði verslunar og viðskipta, þegar á hefur reynt? Eða er sú kenning bara bábylja sem stenst ekki nánari skoðun? Sjálfstæðisflokkurinn íslenski er eini hægri flokkurinn í gervallri Evrópu sem hefur forhertst í andstöðu sinni við aðild að Evrópusambandinu. Meira að segja breska íhaldinu dettur ekki í hug að segja Stóra Bretland úr Evrópusambandinu, þótt þeir hafi einatt allt á hornum sér þar innan dyra. Til þess eru viðskiptahagsmunir Breta af Evrópusambandsaðild allt of ríkir. Hvað veldur þessari sérstöðu íslenska íhaldsflokksins í reynd?
Sannleikurinn er sá að kenningin um forystuhlutverk Sjálfstæðisflokksins að því er varðar nánara samstarf við aðrar þjóðir á grundvelli fríverslunar stenst illa nánari skoðun. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft ótvíræða forystu um inngönguna í NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin á sínum tíma, gildir ekki það sama um frelsi í viðskiptum.
Lengst af sögu sinnar hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið ríkisforsjár – og haftaflokkur, í helmingaskiptum við Framsóknarflokkinn. Valdakerfi flokksins var beinlínis byggt upp í kringum ríkisforsjá og pólitíska stjórnun á ríkisbönkum og sjóðum. Það borgaði sig fyrir atvinnurekendur að vera í Sjálfstæðisflokknum. Og það gat nálgast að vera refsivert athæfi að vera það ekki. Stóra undantekningin frá ríkisforsjárstefnu Sjálfstæðisflokksins var Viðreisnarstjórnin 1959-71. Hinn pólitíski frumkvöðull að auknu frjálsræði í viðskiptalífinu innan Viðreisnarstjórnarinnar var Gylfi Þ. Gíslason, formaður Alþýðuflokksins og viðskiptaráðherra Viðreisnar. Viðreisnarstjórnin afnam gjaldeyrishöft, skráði gengið rétt og jók frelsi í innflutningi. En því voru þröng takmörk sett sem Alþýðuflokkurinn gat tosað Sjálfstæðisflokknum í átt til aukins frjálsræðis. Það var einmitt á þessum árum sem landbúnaðurinn var í sívaxandi mæli gerður út á kostnað skattgreiðenda (útflutningsbætur). Ríkisvaldið ákvað fiskverð. Hvort tveggja gengi gjaldmiðilsins og vextir inn- og útlána var ákveðið af pólitíkusum. Útflutningurinn var háður pólitískum leyfisveitingum. Steingrímur Hermannsson segir frá því í ævisögu sinni að meðal verkefna í fyrstu samsteypustjórn sem hann tók þátt í hafi verið að ákveða verð á kók og prins póló.
Helmingaskipti og ríkisforsjá
Allt var þetta ríkisforsjárkerfi niðurnjörvað út í ystu æsar samkvæmt helmingaskiptareglu Sjálfstæðisflokks og Framsóknar: Þetta handa okkur – hitt handa SÍS. Hlunnindum á vegum ríkisins var úthlutað eftir pólitískum verðleikum. Skjólstæðingar flokkanna höfðu forgang um lánveitingar úr bönkunum sem lutu stjórn pólitískra bankastjóra og bankaráða. Lánin voru óverðtryggð í 35-40% verðbólgu og því eftirsótt gæði; nánast pólitísk gjafavara. Þetta kerfi hélt velli og færðist raunar í aukana, eftir fall Viðreisnar 1971 og á framsóknaráratugunum sem tóku við. Það var ekki fyrr en verðtrygging fjárskuldbindinga og raunvextir komu til sögunnar og kollvörpuðu SÍS, sem hafði undir lokin lifað af nær eingöngu vegna pólitískrar fyrirgreiðslu, að helmingaskiptakerfi flokkanna skekktist á grunninum og hrundi loks saman.
Það var reyndar í tíð vinstristjórnar Steingríms Hermannssonar (1988-91)sem fyrstu skrefin í frjálsræðisátt voru tekin á ný: Frelsi í útflutningi, afnám gjaldeyrishafta og takmarkað frelsi til fjármagnsfllutninga milli landa; einkavæðing Útivegsbankans og sameining banka. Síðast ekki síst EES-samningurinn sjálfur, sem breytti öllu efnahagsumhverfi á Íslandi í frjálsræðisátt.
Stiklum á stóru um stefnu Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum á s.l. Tveimur áratugum. Segja má að Davíð Oddsson hafi hafið landsmálaferil sinn sem formaður aldamótanefndar Sjálfstæðisflokksins, þar sem hann lagði eindregið til að Ísland stefndi að inngöngu í Evrópusambandið. Þrátt fyrir þetta vegarnesti Davíðs var Sjálfstæðisflokkurinn í stjórnarandstöðu (1988-91), undir forystu Þorsteins Pálssonar, andvígur EES-samningnum. Í staðinn boðuðu sjálfstæðismenn tvíhliða fríverslunarsamning við Evrópusambandið um fisk, sem þeir vissu allan tímann að stóð ekki til boða. Þannig hikuðu þeir ekki við að láta ótvíræða þjóðarhagsmuni víkja fyrir meintum flokkshagsmunum.
Þegar Framsóknarflokkur og Alþýðubandalag hlupust undan ábyrgð á EES-samningnum fyrir kosningar 1991, átti ég ekki annarra kosta völ en að semja við Davíð Oddsson um stjórnarmyndun til að tryggja framgang EES-samningsins. Davíð tvínónaði ekki við að falla frá stefnu flokks síns í stjórnarandstöðu og styðja EES-samninginn, sem flokkurinn hafði áður lýst sig andvígan, til þess að komast í stjórn. Enn og aftur var það valdastaða flokksins sem skipti mestu máli. Sjálfstæðiflokkurinn hafði því ekkert frumkvæði að EES-samningnum og lét aldrei brjóta á sér í málinu. Þegar mestur styrr stóð um EES-samninginn fyrir kosningarnar 1991, fór Sjálfstæðisflokkurinn með löndum. Þeir óttuðust klofning. Það var ekki að ástæðulausu. Það var hörð andstaða við samninginn í landsbyggðararmi Sjálfstæðisflokksins allan tímann, þannig að það mátti vart tæpara standa að samningurinn hlyti meirihlutastuðning á þingi (33 atkvæði gegn 23, og 7 sátu hjá).
Landráðabrígsl
Það var ekki síst fyrir áhrif EES-samningsins sem Ísland náði sér aftur á skrið eftir lengsta samdráttarskeið á lýðveldistímanum (1988-94). EES-samingurinn er ekki bara venjulegur fríverslunarsamningur sem tryggir okkur nær ótakmarkaðan markaðsaðgang á stærsta fríverslunarsvæði heimsins. Vaxtarhömlur hins örfámenna heimamarkaðar hurfu á svipstundu. Íslenskum fyrirtækjum opnuðust ný tækifæri á þrjú hundruð milljóna manna heimamarkaði. Sömu reglur giltu á svæðinu öllu um vöruviðskipti, fjármálamarkaði og á vinnumarkaði, auk þess sem samkeppnisreglur færðust í svipað horf. Þetta skapaði forsendur fyrir nýju framfaraskeiði, sem ekki lét á sér standa.
Af pólitískum ástæðum áttu aðstandendur EES-samningsins, sem fyrst og fremst var að finna meðal stuðningsfólks Alþýðuflokksins og Sjálfstæðisflokksins, fullt í fangi með að tryggja honum framgang með þjóðinni og á Alþingi. Andstæðingar samningsins úthrópuðu hann sem landráðagerning; þeir sögðu hann tákna endalok sjálfstæðis og framsal fullveldis; þeir héldu því fram að útlendir veiðiflotar mundu leggja undir sig Íslandsmið, að náttúruperlur og laxveiðiár mundu færast í eigu útlendinga og að landið mundi fyllast af erlendu verkafólki.Ekkert af þessu átti þá við rök að styðjast. En það er hollt að minnast þessa málflutnings í aðdraganda næstu kosninga sem væntanlega munu snúast fyrst og fremst um eitt mál: Aðild Íslands að Evrópusambandinu og upptöku evru.Það verður ekki allt í anda kristilegs bróðurþels sem þá verður látið flakka af hálfu þeirra sem þykjast bera íslenskt þjóðerni utan á sér umfram annað fólk. Minnumst hins fornkveðna að þjóðremban er ævinlega seinasta athvarf skúrksins í allri pólitík.
Nú eru liðin fjórtán ár – þrjú og hálft kjörtímabil – frá því að EES-samningurinn gekk í gildi. Hingað til hefur það verið nær ágreiningslaust að samningurinn hafi reynst íslensku þjóðfélagi öflug lyftistöng til alhliða framfara. Meira að segja þeir sem voru harðir andstæðingar samningsins og fundu honum flest til foráttu hafa, eftir á að hyggja og að fenginni reynslu, sungið samningnum lof og prís. Helstu rök andstæðinga Evrópusambandsaðildar í öllum flokkum hafa reyndar verið þau að EES-samningurinn væri svo góður og tryggði svo vel hagsmuni Íslands í samskiptum við Evrópusambandið, að það væri óþarfi að stíga skrefið til fulls. Við nytum flestra þeirra réttinda sem Evrópusambandsaðild mundi veita okkur (aðild að innri markaði Evrópu á jafnréttisgrundvelli), án þess að þurfa að taka á okkur íþyngjandi skuldbindingar á móti.
Pólitískt þrotabú
Alþýðuflokkurinn tók af skarið þegar fyrir kosningar 1995 um það að Ísland ætti að semja um aðild að Evrópusambandinu og að taka upp evru í stað krónu um leið og við fullnægðum settum skilyrðum. Samfylkingin, sem var mynduð við samruna fólks, sem áður hafði fylgt þremur flokkum að málum, þ.e. Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi og Kvennalista, erfði Evrópustefnu Alþýðuflokksins og hefur fylgt henni síðan, þótt með hangandi hendi sé. Sjálfstæðisflokkurinn, undir forystu Davíðs Oddssonar og síðar Geirs Haarde, hefur hins vegar staðið þvert á móti. Vinstri græn eru samkvæmt stefnuskrá sinni andvíg Evrópusambandsaðild, þótt brátt kunni að renna á þau tvær grímur. Framsóknarflokkurinn hefur verið tvíátta. Undir forystu Halldórs Ágrímssonar daðraði flokksforystan dálítið við hugsanlega Evrópusambandsaðild, án þess þó að verulegur hugur fylgdi máli. Nú er hins vegar svo komið að Evrópusambandsandstaðan hefur orðið f.v. Formanni flokksins, Guðna Ágústssyni, að fótakefli. Hann er stokkinn frá borði en flokkurinn mun væntanlega taka stefnuna á Evróðusambandsaðild á flokksþingi í janúar n.k. Frjálslyndi flokkurinn stendur nú fyrir skoðanakönnun meðal fylgismanna sinna, sem verður birt innan tíðar.
Stærstu tíðindin eru hins vegar þau að nú er brostinn á flótti meðal andstæðinga Evrópusambandsaðildar í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Samkvæmt skoðanakönnunum er flokkurinn að vísu rúinn trausti og fylgi. Forystumenn hans gera sér helst vonir um að þeir geti stöðvað fylgishrunið og endurheimt glatað fylgi með því að kúvenda enn einu sinni í Evrópumálum. Flestir spá því að á landsfundi flokksins í lok janúar á næsta ári verði stefnubreytingin formlega staðfest.
Þar með hefði pólitísk arfleifð Davíðs Oddssonar beðið endanlegt skipbrot: Efnahagsstefnan leiddi til neyðarástands; peningamálastefnan leiddi til hruns fjármálakerfisins og falls gjaldmiðilsins; og andstaðan við Evrópusambandsaðild og upptöku evru hefur hingað til komið í veg fyrir fyrirbyggjandi björgunarráðstafanir. Þetta er trúlega stærsta pólitískt þrotabú Íslandssögunnar.
Þessi dapurlega niðurstaða hefur ásamt öðru afsannað tvær lífseigar kenningar um íslensk stjórnmál: Sú fyrri er að sjálfstæðismönnum sé betur treystandi fyrir fjármálum ríkisins en öðrum af því að þeir hafi vit á peningum.Það þarf meira en meðalkokhreysti til þess að dirfast að halda fram slíkri firru upp í opið geðið á greiðsluþrota þjóð eftir sautján ára fjármálastjórn sjálfstæðismanna.
Hin kenningin er sú að Sjálfstæðisflokkurinn taki ævinlega forystu fyrir þjóðinni þegar á það reynir að taka erfiðar ákvarðanir um nánara samstarf við aðrar þjóðir á sviði viðskipta og efnahagsmála. Sú kenning stenst reyndar ekki dóm staðreyndanna. Hringlandaháttur Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum hefur verið með endemum. Það er fjarstæða að kenna flokkinn við stefnufestu á því sviði. Staðreyndirnar tala sínu máli í þessu efni. Getuleysi forystu Sjálfstæðisflokksins til þess að taka vandasamar en erfiðar ákvarðanir um nánara samstarf við önnur lýðræðisríki í Evrópu á efnahagssviðinu hefur reynst þjóðinni dýrkeypt. Sú staðreynd að óttinn við klofning flokksins hefur ráðið meiru en skylduræknin við hagsmuni þjóðarinnar í þessu máli er þungur áfellisdómur yfir Sjálfstæðisflokknum, sem mun fylgja honum um ókomna framtíð.
AFHJÚPUNIN
Hrun efnahagslífsins, sem íslenska þjóðin upplifir nú með vaxandi sársauka frá degi til dags, þýðir að framvegis verður ekkert eins og var. Nú verður ekki lengur undan því vikist að horfast undanbragðalaust í augu við staðreyndir um það sem miður hefur farið í okkar þjóðlífi og við höfum hingað til viljað leiða hjá okkur eða látið liggja milli hluta.
Við þurfum að uppræta hina eitruðu spillingu klíkuveldisins, sem lengst af hefur viðgengist í venslum stjórnmála og viðskipta á lýðveldistímanum. Hrun bankanna á trúlega eftir að afhjúpa ýmislegt sem þolir lítt dagsins ljós. Óeðlilegt útlánaaukning bankanna seinustu mánuðina fyrir hrun til eignarhaldsfélaga í eigu forkólfa helstu auðklíkna vekur upp spurningar um hvað varð af þessum gríðarlegu fjármunum? Mun þeirra sjá stað í raunverulegum eignum auðkýfinganna erlendis? Eða rann stór hluti þessara fjármuna eftir leynilegum leiðum inn á felureikninga gervifélaga í skattaparadísum í Karabíska hafinu, á Kýpur og víðar?
Erlendir aðilar sem fást við að rannsaka ferla rússneskra mafíupeninga um Norðurlönd beina sjónum sínum að eignarhaldsfélögum rússneskra mafíuforingja á eyjum í Karíbahafi. Í leiðinni hafa þeir rekið augun í fjölda eignarhaldsfélaga, þar sem ráða má í íslenskan uppruna þrátt fyrir náið sambýli við rússneska ólígarka. Mun rannsókn á starfsháttum íslensku bankanna hér heima og erlendis fyrir hrun þeirra leiða í ljós að þar hafi verið ástunduð viðskipti báðum megin við landamæri hins glæpsamlega? Mun slík rannsókn einnig leiða í ljós að vottun virtra endurskoðunarfyrirtækja um fjárhagslegt heilbrigði bankanna var ekki pappírsins virði? Á það eftir að koma á daginn að tök fáeinna auðjöfra á öllum helstu auðsuppsprettum íslensks efnahagslífs og stofnunum þeirra voru slík að þeir komust upp með hvað sem var í skjóli leynilegs valds yfir mönnum og stofnunum?
Hvernig voru klíkuvenslin milli stjórnmálaforystunnar og viðskiptajöfranna þar sem á reyndi bak við birgðar dyr? Var þar sömu sögu að segja á landsvísu og gilti á sveitarstjórnarstiginu um hreðjatök fjárfesta og verktaka á sveitarstjórnarmönnum? Verður niðurstaðan sú að innviðir og aðalstofnanir íslenska lýðveldisins hafi verið gegnrotnar af spillingu? Var þetta eitthvað sem okkur bauð í grun að gæti verið satt en þorðum ekki að horfast í augu við? Er tími til kominn að efna til allsherjar hreingerningar á stofnunum íslenska lýðveldisins og moka út öllum skítnum sem þar hefur hlaðist upp á bak við áferðarfalleg fortjöld.
Við getum ekki lengur slegið því á frest að endurskoða stjórnarskrá ríkisins og grundvallarþætti stjórnskipunarinnar. Þær stjórnarskrárbreytingar sem eru mest aðkallandi fyrir næstu kosningar eru þessar: Ákvæði sem felur í sér heimild til Alþingis og ríkisstjórnar um að Ísland geti tekið þátt í fjölþjóðlegu samstarfi sem kveður á um takmarkað fullveldisframsal gegn hlutdeild í samþjóðlegu valdi fjölþjóðastofnana eins og t.d. ESB. Hitt ákvæðið þarf að kveða upp úr um það með afdráttarlausum hætti að auðlindir innan íslenskrar lögsögu svo sem fiskistofnar og orkulindir, séu ævarandi sameign þjóðarinnar.
Stjórnkerfisbreytingar
Nú er tími til kominn að dusta rykið af gömlum tillögum um að kjósa beri forsætisráðherra ríkisins beinni kosningu (franska kerfið) eins og Vilmundur lagði til forðum daga; og að þjóðkjörinn forsætisráðherra velji sér síðan ráðherra utan þings sem beri ábyrgð fyrir þinginu. Enginng egni embætti forsætisráðherra lengur en tvö kjörtímabil. Forsetaembættið er pjattrófuembætti sem þjónar engum tilgangi, en getur orðið til ama og leiðinda sem sýnishorn sýndarmennsku og uppskafnings þegar verst lætur. Það ber því að afnema. Forseta þjóðþingsins verði framvegis falið að annast gestamóttöku á vegum ríkisins.
Alþingi hefur brugðist. Það hefur reynst vera umkomulaus samastaður fyrir áhrifalitlar málfundaæfingar en er að öðru leyti undirdánug afgreiðslustofnun framkvæmdavaldsins. Við þurfum að breyta kosningakerfinu. Við eigum að afnema prófkjör, sem eru gróðrarstía spillingar, og hafa auk þess reynst ófær um að beina hæfileikafólki að stjórnmálaþátttöku. Annaðhvort er að taka upp einmenningskjördæmi, sem tryggir persónukjör, en mun væntanlega leiða til tveggja flokka kerfis að ensk/amerískum sið. Það hefur mikla annmarka. Betra væri að fara að fordæmi Þjóðverja og kjósa helming þingmanna persónukjöri en helming með hlutfallskosningum á landsvísu. Auk þess ætti að fækka þingmönnum um helming en tryggja þeim aðstoðarmenn í staðinn um leið og strangari kröfur eru gerðar um löggjafarhlutverk þingsins.
Ráðuneytin þarf að stokka upp og fækka ráðherrum í fimm til sjö. Setja verður miklu strangari reglur um val í opinberar trúnaðarstöður og herða viðurlög við brotum á þeim reglum. Ráðuneytin og stofnanir ríkisins eru nú fullar af fólki sem hefur það til síns ágætis helst að geta hampað viðeigandi flokksskírteini. Yfirleitt hefur dugað að tilheyra Flokknum. Grunur um hæfni til sjálfstæðrar hugsunar hefur yfirleitt reynst vera alvarlegt handikapp.
Í ljósi þess að fámiðlar í eigu auðkýfinga eru hættulegir lýðræðinu, svo sem reynslan sýnir bæði hér og í Rússlandi , ber að endurskoða hlutverk ríkisfjölmiðilsins. Það þarf að breyta ríkisútvarpinu í sjálfseignarstofnun og beita öllum ráðum til að auka faglegt sjálfstæði stofnunarinnar. Um leið ber að gera strangar kröfur um að stofnunin gegni skyldum sínum sem sjálfstæður gagnrýnandi og frumkvöðull upplýstrar þjóðfélagsumræðu.
Núverandi kerfi fiskveiðistjórnunar ber að endurskoða með það fyrir augum að það samræmist grundvallarreglum stjórnskipunarinnar um jafnræði fyrir lögum og atvinnufrelsi. Veiðiheimildir samkvæmt núverandi kvótakerfi verði innkallaðar smám saman og afnotarétturinn síðan leigður á markaðsverði.
Loks þarf að skipa óháða rannsóknarnefnd undir forystu erlendra sérfræðinga til þess að rannsaka ofan í kjölinn orsakir þjóðargjaldþrotsins sem nú er orðið staðreynd. Það er frumforsenda þess að þjóðin geti hafið uppbyggingarstarfið á traustum grunni. Þegar stjórnmálaforystan hefur brugðist þjóðinni með jafnátakanlegum hætti og raun ber vitni duga engar viðbárur lengur gegn því að leggja málin á ný undir dóm þjóðarinnar. Þjóðin þarf ekki aðeins að velja sér nýja forystu. Hún þarf að gefa þeim sem hún velur til trúnaðarstarfa ný fyrirmæli um það hvernig byggja eigi upp stofnanir þjóðfélagsins á ný á rústum þeirra sem nú eru hrundar. Auk þess þarf þjóðin að kveða upp úr um það hvar Íslendingar vilji skipa sér í sveit í framtíðinni í samfélagi þjóðanna.Forystumönnum þeirra stjórnmálaflokka sem hafa brugðist trúnaði þjóðarinnar á ekki að líðast það að hindra að þjóðarviljinn nái fram að ganga.