Þetta breytir samt ekki því að við stöndum sem þjóð frammi fyrir vandamáli, sem okkur hefur ekki tekist að leysa, þrátt fyrir ítrekaðar atrennur í góðæri liðinna ára. Þetta vandamál heitir sjálfstæð peningamálastefna Seðlabankans með krónuna sem tilraunadýr. Það má nú heita fullreynt að þetta stjórntæki er ónýtt – vita gagnslaust. Þótt árinni kenni illur ræðari, breytir engu þótt sagt sé, að þetta sé ekki “krónunni að kenna”. Það er ekki skiptilyklinum að kenna, ef þú getur ekki skipt um dekkið. En ef ítrekaðar tilraunir bera engan árangur þá er ráð að skipta um skiptilykil, – og jafnvel manninn sem veldur ekki tækinu. Okkur vantar m.ö.o ný tæki til þess að stuðla að stöðugleika og til þess að festa hann í sessi. Það á að vera markmið hagstjórnarinnar. Þjóðin þarfnast stöðugleika.
Það eru reyndar allmörg ár liðin frá því að íslenska krónan hætti að vera gjaldgeng í viðskiptum. Satt best að segja fullnægir hún engum þeirra skilyrða sem grundvallarreglur peningamálahagfræði gera til gjaldmiðils. Hún er hvorki reiknieining né greiðslumiðill, hvað þá heldur ávísun á varanleg verðmæti. Jón Sigurðsson, fv. seðlabankastjóri, hefur minnt okkur á þessar einföldu staðreyndir, sem oft vilja gleymast í umræðunni, í vel rökstuddum greinum í þessu blaði. Þess vegna urðum við að taka upp verðtryggingu þegar árið 1979. Það hvarflar ekki að nokkrum manni að veita lán til langs tíma í krónum. Það væri alltof mikil áhætta.
Íslenska efnahagsundrið
Þess vegna eru langtímalán (t.d. húsnæðislán) veitt í verðtryggðum krónum með föstum vöxtum. Ef ekki væri verðtryggingunni til að dreifa, væru útlánsvextir á langtímalánum nú þegar að nálgast 30%. Og færu hækkandi. Hvaða atvinnurekstur treystir sér til að taka slík lán? Hvað yrði um samkeppnishæfni slíks fyrirtækis á erlendum mörkuðum? Hvaða einstaklingar gætu risið undir slíkri greiðslubyrði? Verðtryggingin er m.ö.o þeirrar náttúru að slá afleiðingum óstjórnar (jafnvægisleysis) á frest. En hún breytir engu um það að undirliggjandi verðbólga er eins og tifandi tímasprengja, sem getur sprungið í höndunum á okkur hvenær sem er. Það er von að útlendingum gangi illa að skilja íslenska efnahagsundrið.
Hvers vegna duga ofurháir stýrivextir Seðlabankans hvorki til að slá á lánsfjáreftirspurn né heldur til að lækka verðbólgu? Það er vegna þess að þeir hafa engin áhrif á verðtryggð lán til langs tíma með föstum vöxtum. Og það er vegna þess að bæði fyrirtæki og einstaklingar geta í opnu hagkerfi sniðgengið rándýr krónulán og leitað í staðinn eftir erlendum lánum á lágum vöxtum. Sjálfstæð peningapólitík Seðlabankans með krónuna að vopni fær nákvæmlega engu um þetta ráðið.
Seinasti áratugur seinustu aldar var kenndur við alþjóðavæðingu á öllum sviðum. Það á t.d. við um viðskipti, tækni og fjármagn, sem streymir milli heimsálfa og gjaldsvæða með rafrænum hætti á sekúndubroti. Reynslan kennir (Mexíkó 1994, Rússland og SA-Asía 1997/98 og Argentína um og upp úr 2000 eru til marks um það) að við þessar aðstæður er lítið sem ekkert hald í sjálfstæðri peningamálastefnu einstakra þjóðríkja eða lítilla myntsvæða. Fljótandi gengi hefur ekki gefist vel til að tryggja jafnvægisaðlögun. Þvert á móti eru gengissveiflur, sem ráðast af spákaupmennskusjónarmiðum, nú ríkjandi. Sjálfstæð peningamálastefna er því helst til þess fallin að magna hagsveiflur fremur en að draga úr þeim.
Reynsla okkar s.l. sjö ár af sjálfstæðri peningamálastefnu Seðlabankans, þ.e. með fljótandi gengi og stýrivexti að vopni til að tryggja jafnvægi, er eitt dæmi af mörgum á seinni árum til marks um þetta. Aðgerðir Seðlabankans hafa magnað hagsveifluna í stað þess að vinna gegn henni. Háir vextir laða að hrægamma gjaldmiðlabrasksins. Innstreymi erlends fjármagns, sem hefur hér skamma viðdvöl til að hirða auðfenginn skyndigróða, hefur þær aukaverkanir í hagkerfi, sem var þegar fyrir utan ítrasta þanþol, að hækka gengið. Hágengi langt umfram jafnvægismörk ýtir undir eyðslu og þá fyrst og fremst innflutning og eykur þar með viðskiptahalla og skuldsetningu.
Vitlaust forrit
Sjálfur er Seðlabankinn kominn í gíslingu gjaldmiðlabraskaranna. Þegar gróðafíklarnir forða sér með sinn skyndigróða, fellur gengið. Gengisfelling kyndir undir verðbólgu og hækkar greiðslubyrði skuldara. Í þessum darraðardansi eru upphafleg verðbólgumarkmið Seðlabankans (2.5% með vikmörkum til og frá) fyrir löngu týnd og tröllum gefin. Áhrifin eru þveröfug á við yfirlýst markmið.
Við þessar aðstæður eru þjóðríki með sjálfstæða gjaldmiðla unnvörpum að leita skjóls undan hrægömmum alþjóðlegra fjármálamarkaða í myntbandalögum. Þess sjást merki vítt og breitt um heimsbyggðina, ekki bara í Evrópu heldur líka í S-Ameríku, Afríku og Asíu. Jafnvel Stóra Bretland þykir nú orðið vera í minnsta lagi sem sjálfstætt myntsvæði, enda skemmst að minnast þess þegar ungverski gyðingurinn, Soros, stóð yfir höfuðsvörðum sterlingspundsins í vellukkaðri fyrirsát árið 1992. Soros er sagður hafa stungið fjórum milljörðum sterlingspunda í vasann þann daginn. Þetta var svartur dagur í sögu breska heimsveldisins, sem minnir okkur á að þannig fer gjarnan um heimsins dýrð. Bandaríki N-Ameríku eru hins vegar trúlega besta dæmið um rótgróið og árangursríkt myntbandalag. Hvað segir þessi saga okkur? Hún segir þetta: Missir sjálfstæðrar peningamálastefnu og gjaldmiðils við ríkjandi aðstæður í heiminum er ekki fórnarkostnaður heldur fengur; fremur hagræði en óhagræði. Óvarðir gjaldmiðlar smáríkja eru að verða eins og hvert annað gagnslaust góss frá liðinni öld.
Eitt af því fráleitasta sem sagt hefur verið um það neyðarástand, sem Íslendingar standa nú frammi fyrir, með minnsta sjálfstæða gjaldmiðil í heiminum, er þegar menn réttlæta stýrivaxtahækkanir Seðlabankans með viðbrögðum bandaríska Seðlabankans í tíð Volcker (í forsetatíð Carter og Reagan um og eftir 1980). Volcker spennti stýrivexti upp á annan tug prósenta og hélt þeim þar býsna lengi. Það var þá spurning um úthald. Háir stýrivextir í Bandaríkjunum skiluðu árangri af augljósum ástæðum: Dollarinn var heimsgjaldmiðill; bandarískir lántakendur höfðu ekki í önnur gjaldmiðlahús að venda; og engin var þar verðtryggingin á langtímalánum með föstum vöxtum. Stýrivaxtameðalið hreif þess vegna í Bandaríkjunum, þótt það tæki langan tíma að virka.
Við núverandi aðstæður í heiminum og við ríkjandi aðstæður hér á landi er hins vegar gersamlega borin von að stýrivextir Seðlabankans skili tilætluðum árangri. Þeir sem trúa því enn hljóta að sitja uppi með úrelt forrit. Hin amerískættaða bankakreppa hefur nú skotið loku fyrir eðlilega útlánastarfsemi íslensku bankanna. Það er þegar farið að bíta. Kreppueinkennin eru augljós: Í byggingastarfsemi, á fasteignamarkaði og á vinnumarkaði. Haldi lánsfjárlokunin áfram eru keðjuverkandi áhrif hennar auðrakin fram í tímann: Stöðvun fjárfestinga og framkvæmda, samdráttur í rekstri, fækkun starfsmanna og vanskil í bönkum. Þá fer að styttast í greiðsluþrot, gjaldþrot og eignamissi. Í einu orði sagt: Kreppu. Var einhver að tala um atvinnuleysi?
Við þessar aðstæður er helst að líkja núverandi stýrivaxtastigi Seðlabankans við hryðjuverkastarfsemi í hagkerfinu. Hvenær ætlar bankinn að koma sér að verki við að lækka vexti? Og hversu hratt ætlar hann að gera það – til að hafa undan samdráttaráhrifunum?
Seinustu forvöð
Ritstjóri Morgunblaðsins er býsna borubrattur við þessar aðstæður og fullyrðir: “Við getum leyst grunnvanda efnahagslífsins án þess að ganga í Evrópusambandið eða að taka upp evruna.” (Mbl., leiðari 10.05.08) Ég er sammála ritstjóranum um það að við verðum sjálf að leysa vandann. Það verða ekki aðrir til þess að taka af okkur ómakið. En ég tel fullreynt að tækið, sem við höfum hingað til notast við fyrir vöntun á öðru betra, þ.e. sjálfstæð peningamálastefna Seðlabankans með minnsta gjaldmiðli í heimi – er ónýtt. Okkur er lífsnauðsyn að skipta um tæki. Eina tækið sem tiltækt er og hald er í er stærra myntbandalag. Reynsla annarra þjóða, sem lent hafa í svipuðum lífsháska og við, staðfesta þessa niðurstöðu. Nýjustu rannsóknir á sviði peningamálahagfræði benda til hins sama.
Ritstjórinn þarf ekki að hafa mín orð fyrir þessu, þótt mér hafi að vísu verið þetta ljóst fyrir alllöngu. Margir okkar bestu hagfræðinga hafa fyrir löngu og ítrekað varað við, að hverju stefndi, án þess að á þá væri hlustað. Þar hefur verið fremstur í flokki Þorvaldur Gylfason, prófessor, sem ítrekað varaði við yfirvofandi hættuástandi í tæka tíð. Fleiri fræðimenn hafa kveðið upp úr um þetta, þótt ekki séu þeir nafngreindir hér. Forsvarsmönnum í atvinnulífinu er nú langflestum loksins að verða þetta ljóst. Fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins, Þorsteini Pálssyni, er nú orðið þetta ljóst. Fyrrverandi Seðlabankastjóra og fyrrverandi formanni Framsóknarflokksins, Jóni Sigurðssyni, var þetta fyrir löngu ljóst. Nú hefur hann fundið kjark til að segja það berum orðum, opinberlega, eftir að hann losnaði úr álögum Seðlabanka og stjórnarsamstarfs. Það er honum til hróss. Mættu fleiri fara að hans fordæmi og koma nú út úr skápnum – því betra er seint en aldrei. Hversu lengi eigum við að bíða enn eftir því að þeim sem nú ráða húsum undir Svörtuloftum verði þetta ljóst líka? Það er ekki mikill tími til stefnu. Það er laukrétt sem Jón Sigurðurson fv. Seðlabankastjóri segir: Allur frestur á pólitískri ákvörðun í þessu máli er nú orðinn andstæður þjóðarhagsmunum Íslendinga.
******************
Hér kemur að lokum lítið dæmi um það að okkar bestu hagfræðingum var ljóst, hvert stefndi, um leið og viðvörunarmerkin fóru að blikka, síðla árs 2006. Þann 24. nóv. 2006 flutti Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, erindi á málþingi Alþjóða- málastofnunnar HÍ þar sem rætt var um stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna og tengsl við önnur Evrópulönd. Erindi Gylfa fjallaði um breytt viðhorf til peningamála: Sjálfstæða peningamálastefnu, fjármálastöðugleika og fákeppni. Ég leyfi mér að vitna í lokaorð Gylfa í þessu erindi:
“Þær breytingar sem orðið hafa á hagkerfi Íslands í kjölfar samningsins um Evrópska efnahagssvæðið hafa breytt forsendum mats á því, hversu eftirsóknarverður sjálfstæður gjaldmiðill og sjálfstæð peningamálastefna er. Hagsveifla okkar líkist nú hagsveiflu evrusvæðisins meira en áður og vinnuafl flyst í meira mæli en áður á milli landa. Sjálfstæð peningamálastefna hefur ekki reynst vel í þeirri hagsveiflu sem nú hefur náð hámarki og má færa rök að því að vaxtastefna Seðlabankans hafi magnað viðskiptahalla, erlenda skuldasöfnun og hættuna á fjármálaóstöðugleika. Hins vegar hefur tilvist sjálfstæðrar, fremur óstöðugrar, myntar ýmis konar óhagstæð áhrif með því að draga úr umfangi utanríkisviðskipta og fjárfestinga útlendinga og vernda þannig fákeppnisstöðu innlendra fyrirtækja á heimamarkaði. Verðlag verður þá hærra og kaupmáttur minni fyrir vikið.”
Sagði ég ekki: Aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru í stað krónu er úr því sem komið er stærsta lífskjaramál almennings á Íslandi í nánustu framtíð.