SNÚIÐ ÚT ÚR SNÆVARR

Árni Snævarr birtir snaggaralegan pistil á heimasíðu sinni (15.02.) þar sem hann tekur undir málflutning minn í ræðu (hjá Alþýðuflokksfélagi Reykjavíkur, 14.02.) og riti (í opnugrein í Mbl. 17.02.) um það að núverandi formaður Samfylkingarinnar geti ekki verið trúverðugur foringi í augum kjósenda í uppbyggingarstarfinu sem framundan er, vegna ábygðar sinnar á hruninu í tíð fyrri ríkisstjórnar. Satt að segja fyrirfinnst varla nokkur maður sem andmælir þessu sjónarmiði með haldbærum rökum (þótt ýmir láti ergelsi út af þessum óþægilegum staðreyndum hlaupa með sig í gönur).

Ég hef bara þrjár athugasemdir að gera við skrif Árna:

I.
Orðalepparnir “allt fyrir ekkert” um EES samninginn eru ekki frá mér komnir. Í lokalotu samninganna kom þar, að Franz Andriessen, viðskiptakommísar framkvæmdastjórnarinnar, sem sat andspænis mér við stórt fundarborð, taldi ástæðu til að hrópa yfir salinn: “Þið skuluð ekki halda það, Íslendingar, að þið fáið hér allt fyrir ekkert.” Heimkominn, þegar ég gerði grein fyrir samningsniðurstöðum, vitnaði ég til þessara orða Andriessens. Fjölmiðlar gripu frasann á lofti og fyrirsögnin varð einhvern veginn si sona: Jón Baldvin um EES-samninginn: ALLT FYRIR EKKERT!. Ég hef leiðrétt þetta ótal sinnum með litlum árangri. Frasinn situr frosinn í minni manna og svo spinna þeir einhvern lopa um að þetta lýsi réttilega mati mínu á samningnum og sé jafnvel skýringin á því að Íslendingar hafi ekki enn hunskast til að stíga skrefið til fulls með inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru. Nú er aumingja íhaldið, sem hefur ekki getað gert upp hug sinn um afstöðu til Evrópusambandsins þótt þeir hafi haft fimmtán ár til þess, farið að kenna EES-samningnum um hrun Íslands, hvorki meira né minna, fjórtán arum síðar. Í óðagotinu við að kenna öðrum um eigin misgerðir hafa þeir gleymt því að aðalástæða þeirra hingað til fyrir því að Ísland þurfi ekki að ganga í ESB hefur verið sú að EES-samningurinn hafi verið svo góður. Það rekst hvað á annars horn hjá íhaldinu eins og títt er um folk sem er á flótta frá sjálfu sér.

II.
Það var nógu erfitt að fá EES-samninginn samþykktan á alþingi með fárra atkvæða mun (þar sem landsbyggðararmur Sjálfstæðisflokksins
sveikst undan merkjum – undir leiðsögn Björns Bjarna) – þótt pólitískri ákvörðun um að stíga skrefið til fulls, eins og Svíar, Finnar og Austurríkismenn gerður væri ekki blandað inn í málið á því stigi Það var pólitískt ógerlegt á þeim tíma. Á hitt er að líta að fyrir kosningarnar 1995, strax haustið 1994, mótaði Alþýðuflokkurinn undir minni forystu þá stefnu að við ættum að sækja um aðild. Þetta er sú stefna sem Samfylkingin fékk í arf frá Alþýðuflokknum en hefur ekki fylgt eftir af neinum þrótti. Þeir sem segja að EES-samningurinn, án ESB aðildar og upptöku evru, þ.e. opnun þjóðfélagins, þar með fyrir alþjóðlegum fjármagnsmörkuðum með veikan gjaldmiðil eins og krónuna eina að vopni, hafi verið “baneitraður kokkteill”, eins og jafnvel sumir þingmenn Samfylkingarinar eru nú farnir að kyrja – ættu að beina spjótum sínum að öðrum en okkur jafnaðarmönnum. Okkar stefna var sú að sækja um aðild og ganga inn í myntsamstarfið með upptöku evru, strax á kjörtímabilinu 1995-99, þegar við uppfylltum öll skilyrði. Því miður fengum við ekki fylgi til þess.Kjósendur verða því að sakast við einhverja aðra en okkur um það hvers vegna fór sem fór. Sumir eru vitrir eftirá – en aðrir fyrirfram!

III.
Örfá orð af gefnu tilefni um hina öldruðu bjargvætti þjóða sinna:

(a) Churchill var 66 ára, þegar hann var kallaður til Downingstrætis 10 til að bjarga þjóðinni í byrjun seinni heimstyrjaldarinnar. Hann var svo 77 ára þegar hann var endurkjörinn árið 1951 og sat eftir það í fjögur ár. Hann lét af embætti forsætisráðherra 81 ár.

(b) De Gaulle var 69 þegar hann var kallaður aftur, eftir að eftirmenn hans höfðu siglt fjórða lýðveldinu í strand. Hann sneið nýja stjórnarskrá utan um sjálfan sig og arfleiddi . lýðveldið að henni og sat á valdastóli þar til hann var 79 ára.

(c) Konrad Adenauer var kallaður til að reisa Þýskaland við úr rústum stríðsins. Hann var þá 73 ára og ríkti í fjórtán ár þar til hann var 87 ára.Og fórst það vel úr hendi.

(d) Deng Xiao Ping var 74 ára þegar hann steypti fjórmenningaklíkunni með ekkju Maos í fararbroddi af stóli og hófst handa við að endurreisa kínverska stórveldið úr rústum Maos. Enginn einn maður í veraldarsögunni hefur lyft jafnmörgum úr jafndjúpri örbirgð til jafngóðra efna á jafnskömmum tíma og hann. Hann var að þangað til hann var rúmlega níræður.

Hvað er fólk svo að bögga okkur heilaga Jóhönnu með því að við séum orðin of gömul? Við erum rétt að ná þroskavænlegum aldri!