SAMVISKUSPURNING: Á AÐ GERA MINNI KRÖFUR TIL SJÁLFRAR SÍN EN ANNARRA?

Þótt forsætis- og fjármálaráðherrar beri stjórnskipulega höfuðábyrgð á efnahagsstefnunni, ber að hafa í huga að í íslenskum samsteypustjórnum eru það formenn samstarfsflokkanna sem eru valdamestir.

Það eru því formenn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks á tímabilinu frá einkavæðingu ríkisbanka fram að hruni, sem bera höfuðábyrgð á óförum þjóðarinnar nú. Samt sem áður geta jafnaðarmenn ekki látið eins og formaður Samfylkingarinnar hafi hvergi nærri komið þá átján mánuði sem hún framlengdi valdatímabil Sjálfstæðisflokksins. Við getum bara deilt um hlutföllin: Átján ár – átján mánuðir.

Við jafnaðarmenn gerum réttilega kröfu til þess að höfuðpaurinn í valdakerfi Sjálfstæðisflokksins á þessu tímabili, bæði sem forsætisráðherra og seðlabankastjóri, Davíð Oddsson, víki. Honum bar sem seðlabankastjóra skylda til þess að tryggja stöðugleika gjaldmiðils og fjármálakerfis. Hvort tveggja brást. Okkur finnst að hann eigi að sjá sóma sinn í að biðjast afsökunar á mistökum sínum og víkja úr embætti. Við segjum að það sé nauðsynlegt til þess að endurvekja trúverðugleika og traust á Seðlabankanum, heima og erlendis.

Hljótum við þá ekki líka að líta í eigin barm? Ef við gerum, réttilega, slíkar kröfur til annarra, hljótum við þá ekki að gera að minnsta kosti sömu kröfur – alla vega ekki minni – til sjálfra okkar og okkar eigin forystumanna?

SAMVISKUSPURNINGAR

  • Hvað aðhafðist fomaður Samfylkingarinnar á þessu örlagaríka átján mánaða tímabili til að forða þjóð sinni frá fyrirsjáanlegu stórslysi? Hefur hún gert kjósendum sínum viðhlítandi grein fyrir því?
  • Fyrir liggur að málsmetandi sérfræðingar, innlendir og erlendir, sögðu í ræðu og riti a.m.k. frá árinu 2006 og með vaxandi þunga fram eftir árinu 2008, að framundan væri hættuástand, sem þyrfti að bregðast við strax: Tók formaður Samfylkingarinnar ekkert mark á slíkum aðvörunarorðum – eða fylgdist hann ekki með?
  • Var það rétt forgangsröðun hjá formanni Samfylkingarinnar á þessu tímabili, þegar hættumerkin blöstu hvarvetna við, að eyða megninu af tíma sínum og atorku í eitthvert hégómlegasta pjattrófuverkefni sem embættimenn utanríkisþjónustunnar hafa nokkru sinni fundið sér að dúsu, sem var að reyna að kaupa Íslandi sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna – með ærnum tilkostnaði? Misskilinn metnaður sem varð sér til skammar um leið og mannorð þjóðarinnar féll með hruninu.
  • Nokkrum vikum fyrir hrun fóru Geir og Ingibjörg til New York og Kaupmannahafnar til þess að fullvissa óttaslegna fjárfesta um það að íslenska ríkið (les skattgreiðendur) stæði þétt að baki “bönkunum okkar.” Var það svo? Hvern var verið að blekkja? Nokkrum vikum seinna var fjármálakerfið í rjúkandi rúst og hafði veðsett íslenska þjóðarbúið fyrir u.þ.b. 12000 milljörðum króna.
  • Samfylkingin lét að lokum bóka á laun í ríkisstjórn að hún bæri ekki ábyrgð á orðum og athöfnum seðlabankastjórans. Þá þurfti annað hvort að víkja: Seðlabankastjórinn eða Samfylkingin. En ekkert gerðist.Menn beita ekki hótunum í ríkisstjórnarsamstarfi, án þess að standa við þær. Ella er trúverðugleikinn fyrir bí.
  • Von úr viti tók Samfylkingin þátt í því að bjóða þjóð í nauðum upp á það að bíða eftir að Sjálfstæðisflokkurinn héldi fund til þess að reyna að breiða yfir þá staðreynd að hann er klofinn ofan í rót í Evrópumálum. Sem þýðir að hann er þegar af þeirri ástæðu óstjórnhæfur. Íslenska þjóðin hafði, þegar hér var komið sögu, ekki efni á svona dýru námskeiðahaldi.

Þetta eru því miður óþægilegar staðreyndir. Í augum almennings, sem horfðist í augu við atvinnu- og eignamissi, virtist formaður Samfylkingarinnar vera eins og í öðrum heimi.”Þið eruð ekki þjóðin,” sagði hún. Eftir að hrunið var orðinn hlutur voru viðbrögðin því miður fálmkennd viðbragðapólitík, of lítið og of seint.

BÚSÁHALDABYLTINGIN

Á þessum tíma varð rof milli fólks og formanns sem einangraði sig í dyngju sinni. Hvar var rökræðan í grasrótinni, sem forystunni veitti ekki af að heyra? Sú umræða fór fram á torgum og gatnamótum en utan virkisveggja Samfylkingarinnar. Það er því miður ekki rétt að formaður Samfylkingarinnar hafi rofið stjórnarsamstarfið og rekið Sjálfstæðisflokkinn út úr stjórnarráðinu. Það gerði fólkið á götunni með pottum sínum og pönnum í búsáhaldabyltingunni.

Það var grasrótarhreyfingin sem var við það að missa alla von um að forystan næði áttum og ruddist inn í Þjóðleikhúskjallarann á fund Samfylkingarinnar í Reykjavík og samþykkti einróma ályktun um að slíta þessu stjórnarsamstarfi þegar í stað. Eftir það átti formaðurinn ekki annarra kosta völ en að láta af biðleikjum og að fela öðrum forystuna. Ný ríkisstjórn, undir forystu þess ráðherra Samfylkingarinnar, sem helst hefur áunnið sér traust af verkum sínum, tók við. Hún hefur nú fáeinar vikur til að vinna upp glataðan tíma og tapað traust.

Á Alþýðuflokksfélagsfundinum lýsti ég þeirri framtíðarsýn að Sjálfstæðisflokkurinn hefði dæmt sig úr leik af verkum sínum og að jafnaðarmanna í Samfylkingu og meðal Vinstri grænna biði það risavaxna verkefni að taka við forystuhlutverki í íslenskum stjórnmálum á stund neyðarinnar. Ég sagði að Vinstri græn yrðu að læra af mistökum fortíðar að láta Evrópumálin ekki verða Þránd í Götu samstarfs jafnaðarmanna í endurreisnarstarfinu. Og að Framsóknarflokkurinn yrði að leysa sinn fortíðarvanda með trúverðugum hætti til þess að verða gjaldgengur á pólitískum vinnumarkaði á ný. Til þess dygði andlitslyfting ein og sér ekki.

Ég færði fyrir því rök að umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu og upptaka evru væri lykillinn að lausn efnahagsvandans – en ekki framtíðarmúsík sem gæti beðið betri tíma – af því að við gætum ekki ein og sér risið undir þeim drápsklyfjum skulda sem fyrrverandi ríkisstjórn hefði á okkur lagt; né heldur gætum við leyst gjaldmiðilsvandann án samninga við Evrópusambandið og aðildarþjóðir þess. Ég gagnrýndi Samfylkinguna fyrir hálfvelgju í þessu máli og skort á sannfæringu og baráttuanda. Það þyrfti að breytast í kosningabáráttunni framundan.

FORYSTUHLUTVERK

Aðspurður um hvort ég vildi leggja þessari baráttu lið, svaraði ég því játandi. En ég tók það skýrt fram að ég styddi Jóhönnu Sigðurðardóttur, forsætisráðherra 80 daga- stjórnarinnar og de facto leiðtoga Samfylkingarinnar, heils hugar í því endurreisnarstarfi sem hún hefði nú tekið að sér að verkstýra. Í því starfi nyti hún almenns trausts þjóðarinnar og um hana væri órofa samstaða innan flokksins.

Auðvitað er ekki við því að búast að Jóhanna lýsi nú yfir framboði sínu gegn kynsytur sinni, sem hafði reyndar fært henni forsætisráðherraembættið á silfurbakka og þar með þá nafnbót í sögunni að vera fyrsta konan sem gegnir því embætti. En mér segir svo hugur um að á það muni einfaldlega ekki reyna. Þetta mál er í höndum Ingibjargar Sólrúnar. Spurningin sem hún þarf að svara fyrr en síðar er þessi: Finnst henni siðferðilega verjandi að gera strangari kröfur til andstæðinga okkar í pólitík en okkar sjálfra? Hún veit vel að aðrir stjórnmálaflokkar, sem ábyrgð hafa borið á stjórn landsins á undanförnum árum, hafa nú séð sér þann kost vænstan að mæta til leiks undir nýrri forystu fyrir næstu kosningar. Allir nema Samfylkingin.

Í ljósi þess að þúsundir einstaklinga og fjölskyldna eiga nú um sárt að binda, ýmist af völdum aðgerða eða aðgerðaleysis ríkisstjórnar, sem Ingibjörg Sólrún leiddi ásamt formanni Sjálfstæðisflokksins, finnst henni þá boðlegt að biðja þetta fólk að treysta óbreyttri forystu í endurreisnarstarfinu sem framundan er? Ingibjörg Sólrún hefur öðrum stjórnmálamönnum fremur fordæmt valdstreitupólitík og boðað siðferðilega ábyrgð stjórnmálamanna á gjörðum sínum. Í ljósi þessa getur vart leikið vafi á því, hver svör Ingibjargar Sólrúnar verða þegar á reynir. Eða ætla frambjóðendur Samfylkingarinnar að eyða öllum sínum tíma í kosningabaráttunni í að útskýra, af hverju forysta flokksins brást á örlagastundu?

*Sjá útskrift ræðunnar hjá Alþýðuflokksfélaginu 14.02.09 í heild hér