SKILYRÐISLAUS UPPGJÖF – OG ÞAR LAGÐIST LÍTIÐ FYRIR KAPPANN

Það var smáfrétt í vikunni að Jón Magnússon, sem kosinn var á þing í seinustu kosningum fyrir Frjálslynda flokkinn, hefði loksins ratað aftur heim til íhaldsins eftir átján ára pólitíska vosbúð. Það eina sem sætir tíðindum við þetta er tímasetningin. Gleymd er öll gagnrýni á Sjáflstæðisflokkinn út af gjafakvótum, og annarri kerfislægri spillingu sem hefur eitrað útfrá sér um allt þjóðfélagið í skjóli Eimreiðarklíkunnar eftir að hún náði völdum í flokki og landi. Þessi misserin eru Íslendingar einmitt að upplifa afleiðingarnar af valdatöku og valdbeitingu þessa hóps s.l. átján ár.

Listinn lítur svona út: Gjaldmiðillinn er hruninn. Fjármálakerfið er hrunið. Um 70% fyrirtækjanna í landinu eru tæknilega gjaldþrota. Himinháir stýrivextir munu ganga frá þeim fyrirtækjum sem enn hanga uppi á næstu mánuðum eða misserum að óbreyttu. Fréttir dagsins frá innheimtulögfræðingum, kollegum Jóns, eru þær að 10 fyrirtæki muni verða gjaldþrota á dag út þetta árið. Atvinnuleysingjar teljast nú 15000. Það er eini þjóðfélagshópuinn sem er í örum vexti. Erlendar skuldir heimilanna hafa tvöfaldast á sama tíma og íbúðarverð er í frjálsu falli. Skuldugasti hópurinn – unga fólkið undir 35 ára aldri – er í biðröð í atvinnuleit í útlöndum. Landflótti í stórum stíl er fyrirsjáanlegur og óhjákvæmilegur. Þeirra sem eftir sitja og ætla að reyna að þrauka bíður að bera níðþunga skatta á næstu árum um leið og velferðakerfið verður skorið inn að beini. Loks hefur þjóðin glatað því eina sem hún átti og mölur og ryð fær ekki grandað – nefnilega mannorðinu.

Þetta er viðskilnaður Sjálfstæðisflokksins eftir átján ára samfelldan valdaferil. Sagði ekki Jón Magnússon einhvers staðar að það væru átján ár frá því að hann villtist að heiman frá íhaldinu? Það eru þessi sömu átján ár, ekki satt? Hvort skyldi nú Jón vera að umbuna íhaldinu fyrir frammistöðuna eða er aumingjagæska Jóns komin á svo hátt stig að hann telji þetta rétta augnablikið til að snúa heim og rétta þeim sáttfúsa hjálparhönd?