VIÐ BROTTFÖR HERSINS: SJÁLFSTÆÐ UTANRÍKISSTEFNA?

Brottför bandaríska hersins af íslandi þann 30. sept. s.l. markar tímamót í Íslandssögunni. Vera hersins á Íslandi klauf þjóðina þegar í tvær andstæðar fylkingar. Samkomulag núverandi ríkisstjórnar við Bandaríkjastjórn um það sem við tekur er, að mati greinarhöfundar, ekki frambúðarlausn. Samkomulagið vekur í reynd fleiri spurningar en það svarar um öryggismál þjóðarinnar í framtíðinni.

Brottför hersins markar þáttaskil. Við erum nú að byrja nýjan kafla í Islandssögunni. Íslendingar þurfa að taka öryggis- og varnarmál þjóðarinnar í framtíðinni til gegngerrar endurskoðunar. Ytri aðstæður og viðhorf í heimsmálum eru nú öll önnur en var, þegar núverandi fyrirkomulag var mótað. Nú þurfum við sameiginlega að leita svara við þeirri spurningu, hvar Íslendigar eigi heima í fjölskyldu þjóðanna í framtíðinni að loknu köldu stríði andstæðra hugmyndakerfa. Þau Bandaríki,sem nú bjóða heiminum birginn, eru öll önnur en þau, sem voru “vopnabúr lýðræðisins” á árum seinni heimsstyrjaldar. Samrunaferlið í Evrópu hefur gerbreytt heimsmyndinni í okkar heimshluta. Í ljósi þessara og annarra breytinga í umhverfi okkar, þurfum við nú að hugsa ráð okkar upp á nýtt. Þeirri umræðu verður ekki slegið á frest. Þessi grein, og önnur í framhaldinu, eru framlag höfundar til til þeirrar umræðu.

1. Lífshagsmunir smáþjóða

Þjóð, sem þannig háttar til um, að hún fær ekki, ein og óstudd, miklu áorkað í nánasta umhverfi sínu, til góðs eða ills, er einatt kölluð smáþjóð. Það fylgir sögunni, að slík þjóð getur ekki náð fram markmiðum sínum með valdbeitingu. Hún er hins vegar, að eigin mati og annarra, talin vera veik fyrir untanaðkomandi þrýstingi eða hótunum um refsiaðgerðir, pólitískar, viðskiptalegar eða hernaðarlegar, ef látið er á slíkt reyna.

Í heimi þar sem fælingarmáttur kjarnavopna er talinn vera helsta bjargráðið til að halda meintum óvinum í skefjum, má kannski nú orðið flokka flestar þjóðir sem einhvers konar smáþjóðir. Alla vega er nú um stundir uppi aðeins ein þjóð, sem að eigin áliti og annarra, getur beitt valdi sínu hvar sem er á jarðarkringlunni, bjóði henni svo við að horfa, án þess að þurfa að taka afleiðingunum.

Hvernig geta smáþjóðir séð hag sínum borgið í slíkum heimi? Hvernig geta þær gætt sinna brýnustu þjóðarhagsmuna? Þær eiga lífshagsmuni sinna einfaldlega undir því komna, að ágreiningsmál þjóða í milli verði leyst á grundvelli laga og réttar, rétt eins og deilur einstaklinga og félaga innan þjóðfélaga eru leystar, þar sem leikreglur lýðræðis og réttarríkis hafa náð að festa sig í sessi.

Lífshagsmunir smáþjóða eru þeir, að lög og réttur fremur en geðþótti og valdbeiting, ráði í samskiptum ríkja. Þjóðarhagsmunir smáríkja snúast um það að byggja upp alþjóðakerfi – alþjóðlegt samfélag – þar sem lög og réttur eru virt.

2.Evrópa sem friðarafl.

Kynslóðin, sem í Evrópu upplifði hörmungar seinni heimstyrjaldarinnar, átti sér einn draum að hildarleiknum loknum: Aldrei aftur stríð. Með því að setja kol og stál Frakka og Þjóðverja undir sameiginelga stjórn, átti að koma í veg fyrir, að þessar þjóðir gætu enn á ný borist á banaspjót. Þar með var Evrópuhugsjónin – friðarhugsjón okkar tíma – fædd. Eins og allar snjallar hugmyndir er hún einföld. En hún er ný í sögu mannkynsins, róttæk í besta skilningi þess orðs og hefur aldrei verið prófuð áður.

Kjarni málsins er þessi: Ef þjóðir Evrópu fallast á það, af fúsum og frjálsum vija, að framselja hluta af valdi sínu í mikilvægum málaflokkum, til samþjóðlegra stofnana sem lúta lögum og reglum, þá hefur valdbeiting verið útilokuð í samskiptum þjóðanna. Þar með eru þjóðríkin skuldbundin til að leysa ágreiningsefni sín á grundvelli laga og réttar. Þetta er Evrópuhugsjónin holdi klædd. Takist hún vel í framkvæmd – og reynslan síðastliðna hálfa öld er hreint ekki svo slæm – boðar hún þjóðum Evrópu nýja framtíð. Og þjóðum heimsins freistandi fordæmi til eftirbreytni.

Evrópuhugsjónin skírskotar sterklega til þjóðarhagsmuna og tilveruraka smáþjóða. Smáþjóðir eiga lífshagsmuni sína undir því komna, að lög og réttur ráði í samskiptum þjóða. Þess vegna er engin þversögn í því fólgin, eins og þó virðist við fyrstu sýn, að þjóðir Evrópu, sem áður lutu valdbeitingu og kúgun, hafa ekki fyrr endurheimt sjálfstæði sitt, en þær sækja um að mega sameinast þjóðafjölskyldu EVrópu, undir merkjum lýðræðis, frelsis og réttarríkis.

Hver er svo reynslan af samrunaferlinu í Evrópu í hálfa öld? Mér finnst þrennt standa upp úr:

  • Svo langt aftur sem sögur herma, hefur Evrópa ekki notið samfellds friðar jafnlengi og frá stríðslokum.
  • Fjölmargar Evrópuþjóðir sem áður bjuggu við kúgun og ánauð, búa nú við frelsi og lýðræði innan vébanda Evrópusambandsins: Portúgalir, Spánverjar, Grikkir, þjóðir Mið- og Austur Evrópu og Eystrasaltsþjóðir. Þjóðirnar á Balkanskaga, fyrir utan Slóveníu, sem er þegar komin inn, vinna að því kappsamlega að uppfylla inntökuskilyrðin: lýðræði, réttarríki og markaðshagkerfi, undir lýðræðislegri leiðsögn. Berið þetta saman við árangurinn af yfirlýstri lýðræðiskrossferð hins vígvædda risaveldis í Írak, þar sem valkestirnir hrannast upp dag og nótt.
  • Evrópusambandið hefur gert meira til þess að útrýma fátækt og jafna lífskjör í Evrópu (og í þróunarlöndum) en dæmi eru um áður. Berið þennan árangur saman við framferði Bandaríkjanna í hinum fátæku grannríkjum þeirra í Mið-og Suður-Ameríku og í Karabíska hafinu.
    Sagan sýnir, að samrunaferlið í Evrópu hefur reynst vera jákvætt afl í þágu friðar og framfara í álfunni.

3. Sjálfstæð utanríkisstefna?

Í ljósi þess sem hér hefur verið sagt um sambúð Evrópuþjóða á eftirstríðstímanum er ástæða til að spyrja: Hvernig hefur gæslumönnum íslenska lýðveldisins gengið að gæta okkar þjóðarhagsmuna á sama tíma? Hvernig hefur þeim farnast í samskiptum við hernaðarstórveldið – eina heimsveldið sem nú er uppistandandi – að loknu kalda stríðinu? Við höfum jú kosið að halda okkur í hæfilegri fjarlægð frá Evrópu og treysta frekar á tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin.

Sú skoðun er útbreidd, að leiðtogar lýðveldisins hafi verið Bandaríkjunum helst til leiðitamir, enda hafi varnarliðið verið hér fyrst og fremst til að gæta bandarískra hagsmuna í kalda stríðinu fremur en að verja Ísland fyrir hugsanlegri innrás og hernámi. Það sé svo þessu sjónarmiði til staðfestingar, að þegar Bandaríkjamenn eygðu enga ógn framar við sína hagsmuni á Norður Atlanzhafi, hafi þeir einhliða tekið ákvöðrun um að pakka saman og hverfa á braut, hvað svo sem leið vilja íslenskra stjórnvalda. Um réttmæti þessarar sögutúlkunar má svo sem deila. Hitt fer ekki á milli mála, að margir þeirra, sem litið hafa á Bandaríkjamenn sem sérstaka “vinaþjóð” Íslendinga, hafa lýst vonbrigðum sínum með viðskilnað Bandaríkjastjórnar og tala um, að traust þeirra á stórveldinu hafi beðið hnekki. Meðal þeirra eru bæði fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, og ritstjóri Morgunblaðsins.

Ekki verður hins vegar séð, að meirihluti þjóðarinnar harmi brottför hersins. Flestir virðast því fegnir, að þessum kafla Íslandssögunnar er nú lokið. En hvert á að senda þakkarskeytið, með leyfi? Verðum við ekki að senda það á Hvíta húsið eða til Pentagon? Ekki getum við sent það í stjórnarráðið eða upp á Rauðarárstíg, því að brottför hersins var sannarlega ekki okkar mönnum að þakka. Hún var þeim, þvert á móti, þvert um geð!

En sú skoðun, að þeir Davíð og Halldór og eftirmenn þeirra, Geir og Jón, hafi staðið traustum fótum í arfleifð forvera þeirra, sem hafi jafnan gengið erinda stórveldisins í stóru og smáu, fær að mínu mati ekki staðist dóm staðreyndanna. Vissulega vantaði talsvert upp á, að þeir sem með völdin fóru hverju sinni, fylgdu fram sjálfstæðri utanríkisstefnu, þegar samviska heimsins hefði átt að stugga við þeim eins og t.d. í Vietnam stríðinu, eða þegar Bandaríkin beittu afli sínu, gjarnan á laun, til að steypa lýðæðislega kjörnum ríkisstjórnum í Mið- og Suður- Ameríku og komu herforingjum til valda, sem stunduðu bæði fjöldamorð og mannshvörf í skjóli bandarísks valds. En í kalda stríðinu, milli hins frjálsa heims og heimskommúnismans, giltu gjarnan hin fleygu orð, sem höfð voru eftir Roosevelt Bandaríkjaforseta um einn af einræðisherrunum, sem ríkti í skjóli bandarísks auðvalds í ríkjum Mið- og Suður-Ameríku: “He is a son of a bitch, but he is our son of a bitch.” Öfugt við þessa reynslu grannríkja Bandaríkjanna í nýja heiminum, verður seint sagt með rökum um leiðtoga íslenska lýðveldisins, að þeir hafi látið stórveldið skipa sér fyrir verkum eða hlýtt fyrirmælum þeirra í einu og öllu. Leyfist mér að nefna nokkur dæmi, sem verðskulda að þeim sé haldið til haga á þessum tímamótum.

Sérstaða Íslands.

1. Stofnaðild að Sameinuðu þjóðunum árið 1945: Leiðtogum lýðveldisins var mikið í mun að Ísland festi nýfengið sjálfstæði sitt í sessi í augum heimsins með því að gerast stofnaðili Sameinuðu þjóðanna á fyrsta fundi þeirra í San Francisco 1945. En leiðtogar Bandamanna gerðu það að skilyrði, að aðildarríkin segðu möndulveldunum stríð á hendur. Öll svokölluð “associated states”, sem höfðu lagt stríðsrekstri Bandamanna lið, án þess að vera beinir stríðsaðilar, gengu að þessu – nema Ísland. Þótt til nokkurs væri að vinna vildu íslenskir ráðamenn ekki gera Ísland að því viðundri í augum heimsins, að vopnlaus ög herlaus þjóð segði Þýskalandi stríð á hendur, eftir að það hafði verið gersigrað og eftir að stríðinu í Evrópu var lokið. Epigónar þessara manna töldu sig vera menn til þess að styðja löglausa innrás Bandaríkjamanna í Írak í von um að fá að halda hernum á Suðurnesjum. Þeir urðu landi og þjóð tl skammar. Það sama verður ekki sagt um forvera þeirra.

2. Í stríðslok báru Bandaríkjamenn fram kröfur um þrjár herstöðvar á Íslandi til 99 ára. Þeir ætluðu m.ö.o. að gera Ísland að hjálendu sinni með varanlegum hætti – gera Ísland að eins konar Quantanamo Bay norðursins. Það verður að segja forráðamönnum íslenska lýðveldisins til hróss, að þessum kröfum var einarðlega vísað á bug.

3. Við inngöngu Íslands í Atlatnzhafsbandalagið 1949 gengu íslenskir ráðamenn ríkt eftir því að fá skriflega viðurkenningu annarra aðildarríkja á sérstöðu Íslands. “Að Ísland hefði engan her, og ætlaði ekki að stofna her, og að ekki komi til mála að erlendur her eða herstöðvar verði á Íslandi á friðartímum.” – Er það ekki nákvæmlega þetta, sem við erum að upplifa nú, 57 árum síðar?

4. Varnasamningurinn við Bandaríkin 1951. Þegar Kóreustríðið braust út, sem margur maðurinn á þeim tíma taldi að yrði upphaf þriðju heimstyrjaldarinnar, var farið fram á hernaðaraðstöðu á Íslandi á ný. Við því var orðið á þeim forsendum, að ófriðvænlegt væri í heiminum, þannig að fyrirvararnir frá 1949 giltu ekki lengur. Bandaríkjamenn notuðu þá tækifærið og vildu fá því framgengt að samningstíminn væri ótakmarkaður, eða að varnarsamningurinn félli ekki úr gildi fyrr en Atlantzhafsráðið ákvæði. M.ö.o.reynt var að fá því framgengt, að Íslendingar framseldu samningsvaldið í hendur öðrum þjóðum. Það er fróðlegt að heyra, hvernig Bjarni Benediktsson, þáv. utanríkisráðherra, svaraði þessum kröfum, en hann sagði í samtali við Halvard Lange utanríkisráðaherra Noregs: “Ég sagði, að þessar tillögur væru gersamlega óaðgengilegar frá sjónarmiði Íslendinga, og mundum við frekar taka þá áhættu að hafa engar varnir hér, en að ganga að þessu.” Íslendingar settu m.ö.o. það að skilyrði, að báðir aðilar hefðu einhliða uppsagnarfrest með hæfilegu tímamarki. Og þeir höfðu sitt fram. Þess vegna getum við nú beitt uppsagnarákvæði samningsins, þegar okkur þóknast og þjóðarhagsmunir krefjast.

5. Glæsilegasta dæmið um sjálfstæða útanríkisstefnu lýðveldisins á grundvelli eigin mats á brýnum þjóðarhagsmunum er hálfrar aldar barátta þjóðarinnar fyrir útfærslu landhelginnar í tvö hundruð mílur og fyrir forræði strandríkja yfir auðlindum hafsins. Þorskastríðin þrjú eru kennslubókardæmi um baráttu smáþjóðar fyrir lífshagsmunum sínum – baráttu sem virtist vera við algert ofurefli. Hverjir voru andstæðingarnir? Ekki aðeins breska heimsveldið – það sem eftir var af því – heldur hefðbundnir hernaðarhagsmunir flotavelda um frjálsa för á úthöfunum. Í stað alþjóðalaga höfðu dómstólar ekki við annað að styðjast en hefðir heimsveldanna og því ekki á þá að treysta, ef bjarga átti auðlindum hafsins frá rányrkju og tryggja íbúum strandríkjanna lífsviðurværi sitt. Hverjir voru bandamennirnir? Það voru fátækar þjóðir úr vanþróaða heiminum, þar sem fiskveiðar skiptu máli fyrir afkomu íbúanna, í S-Ameríku, Asíu og Afríku .Íslendingar unnu þetta stríð, ásamt bandalagsþjóðum sínum, gegn ríkjandi hagsmunum stórvelda, af því að alþjóðasamfélagið hlustaði á vísindaleg rök og málflutning smáþjóða, sem byggði á þeim, þótt við lægi á köflum, að valdbeitingarárátta hervelda hefði sitt fram.

Frumkvæði á eigin forsendum.

6. Ég er nýkominn frá Riga, höfuðborg Lettlands. Tilefnið var að 15 ár voru liðin frá því að endurheimt sjálfstæði Letta öðlaðist viðurkenningu á alþjóðavettvangi. Tilefnið var opnun sögusýningar um sjálfstæðisbaráttuna. Þarna voru lögð fram gögn úr skjalasöfnum sjálfstæðishreyfingarinnar og ráðuneyta, sem vörðuðu afstöðu annarra þjóða til sjáflstæðisbaráttunnar. Þar kom fram, að Ísland gerðist málsvari þessara þjóða, þegar öflugri ríki á Vesturlöndum ýmist þögðu eða báðu talsmenn hinna nýfrjálsu þjóða að hafa hægt um sig. Í þessu máli gekk “litla Ísland”, eins og það oft er nefnt, fram fyrir skjöldu í blóra við yfirlýsta stefnu og hagsmuni, t.d. Bandaríkjanna og Þýskalands. Þjóðverjar töldu sig eiga friðsamlega sameiningu Þýskalands undir velvild Gorbashevs; Bandaríkin sóttust eftir stuðningi Rússa við fyrra innrásarstríð sitt í Írak 1991. Forystumenn beggja stórveldanna lögðu því hart að leiðtogum sjálfstæðishreyfinganna, að þeir sættu sig við heimastjórn innan Sovétríkjanna. Íslendingar héldu því fram, þvert á móti, að Vesturveldin gætu ekki samið við Sovétríkin um endalok seinni heimstyrjaldarinnar í þessum heimshluta á kostnað Eystrasaltsþjóðanna, sem hefðu fært jafnvel meiri fórnir en aðrar þjóðir Mið- og Austur-Evrópu í stríðinu, þar sem þær voru formlega innlimaðar í Sovétríkin. Þetta er dæmi um, að smáþjóð hafi tekið frumkvæði í þýðingarmiklu máli, sem þó varðaði ekki þjóðarhag. Og ekki verður sagt, að það hafi verið áhættulaust með öllu, þar sem íslenski veiðiflotinn var háður eldsneyti frá Sovétríkjunum og Sovétríkin voru enn mikilvægur markaður fyrir íslenskar fiskafurðir. En þeir muna þetta enn í Tallinn, Riga og Vilníus.

Þetta eru fáein dæmi um, að forsvarsmenn íslenska lýðveldisins hafa, þegar á hefur reynt, haldið fast á hagsmunum þjóðarinnar og ekki látið stórveldi segja sér fyrir verkum, hvorki varðandi eigin hagsmunamál né önnur. Í ljósi þessa eru yfirlýsingar fv. Forsætis- og utanríkisráðherra Íslands um stuðning þjóðarinnar við löglaust og siðlaust innrásarstríð Bandaríkjamanna í Írak þeim mun dapurlegri, sem þær brjóta í bága við þá grundvallarhagsmuni smáþjóðar, að styðja ævinlega lög og rétt en hafna ofbeldi í samskiptum þjóða. Öfugt við forvera þeirra, sem létu ekki segja sér fyrir verkum, þegar þjóðarhagsmunir voru annars vegar, brugðust þeir trausti þjóðarinnar. Þessi dæmalausa stuðningsyfirlýsing við ólöglegan stríðsrekstur Bandfaríkjamanna í Írak lýsir dapurlegum dómgreindarbresti, hafi tilgangurinn verið sá að tryggja áframhaldandi veru hersins hér á landi í staðinn. Sagan sýnir að þýlyndi við stórveldi hefur sjaldan orðið smáþjóðum til framdráttar eða vegsauka. Það er svo sér á parti, ef menn telja sér trú um, að kurteisishjal í Hvíta húsinu teljist til inneignar í samskiptum ríkja. “Vinátta” stjórnmálamanna er hverful og stundum fer best á því að hælast ekki um af henni.