ATHAFNASKÁLD Á ALÞINGI

Frægasti konsertpíanisti Pólverja á fyrri hluta seinustu aldar hét Paderevski. Þegar pólska ríkið var endurreist við lok fyrra stríðs, vildu Pólverjar virkja frægðarljóma tónsnillingsins sér til framdráttar, og gerðu hann að fyrsta forseta hins endurreista ríkis. Sem slíkur mætti Paderevski f.h. Pólverja á friðarráðstefnuna í Versölum til fundar við aðra þjóðaleiðtoga. Þegar hann var kynntur fyrir Clemenceau, forsætisráðherra Frakka, heilsaði forsætisráðherrann honum virðulega, en sagði síðan með votti af franskri kaldhæðni: “Aha, tónlistarsnillingur orðinn að pólitíkus – er þetta ekki mikil lækkun í tign?”

Víst er það, að tónlistin er æðst allra listgreina. Hún er eina tungumálið, sem mannkynið á sameiginlegt þvert á þjóðerni og landamæri. Í samanburði við tónlistina er pólitíkin – list hins (ó)mögulega – lítillát aukabúgrein. Samt hefur tónlistin á stundum blómstrað í skjóli upplýstra stjórnvalda. Hið eiginlega stórveldistímabil Þýskalands er kennt við Bach og Beethoven fremur en við Bismark.

En eiga þá tónlistarmenn erindi í pólitík? Orðum spurninguna öðruvísi: Eiga athafnaskáld erindi á Alþingi? Þá liggur svarið í augum uppi: Alþingi á ekki að vera samkunda sérhagsmuna, þar sem (þjóðar)kökunni er skipt bak við birgðar dyr. Alþingi á að vera FORUM – opinn vettvangur – hugumstórra athafnaskálda, sem vísa veg og ryðja braut. Bestu stjórnmálamenn okkar eiga það sameiginlegt, að í þeim leyndist brot af listamannseðli.

Aðalsmerki Jakobs Frímanns er stórhugur, sem hann fylgir eftir með atorku, bjartsýni og skipulagshæfni. Fá verkefni vaxa honum í augum. Hann hefur sýnt í verki, að hann getur rutt brautir, sem öðrum reynast torfærur. Í fari hans finn ég bæði frumleika brautryðjandans, sem ryður ótroðnar slóðir og aðdráttarafl bjartsýnismannsins, sem laðar aðra til samstarfs. Slíkur maður á vissulega erindi á Alþingi Íslendinga og er líklegur til að láta þar að sér kveða, svo að um muni.

Á yngri árum hafði Jakob svo mikið að gera innan lands og utan, að hann mátti ekki vera að því að sitja á skólabekk. Hann kippti því í liðinn um daginn og lauk meistaraprófi með láði í markaðsfræðum frá Háskólanum í Reykjavík. Þannig sýndi hann í verki, að svo lengi lærir sem lifir. Námið staðfesti þá lífsskoðun Jakobs, sem hann hefur numið í lífsins skóla, að það beri að virkja framtak einstaklingsins í þágu velferðarsamfélagsins sem heildar. Það er lífsskoðun jafnaðarmanns.

Nú eigum við þess kost að virkja krafta atorkumanns á þingi í þágu okkar allra. Grípum tækifærið og sendum athafnaskáldið á Alþingi.