Víst er það, að tónlistin er æðst allra listgreina. Hún er eina tungumálið, sem mannkynið á sameiginlegt þvert á þjóðerni og landamæri. Í samanburði við tónlistina er pólitíkin – list hins (ó)mögulega – lítillát aukabúgrein. Samt hefur tónlistin á stundum blómstrað í skjóli upplýstra stjórnvalda. Hið eiginlega stórveldistímabil Þýskalands er kennt við Bach og Beethoven fremur en við Bismark.
En eiga þá tónlistarmenn erindi í pólitík? Orðum spurninguna öðruvísi: Eiga athafnaskáld erindi á Alþingi? Þá liggur svarið í augum uppi: Alþingi á ekki að vera samkunda sérhagsmuna, þar sem (þjóðar)kökunni er skipt bak við birgðar dyr. Alþingi á að vera FORUM – opinn vettvangur – hugumstórra athafnaskálda, sem vísa veg og ryðja braut. Bestu stjórnmálamenn okkar eiga það sameiginlegt, að í þeim leyndist brot af listamannseðli.
Aðalsmerki Jakobs Frímanns er stórhugur, sem hann fylgir eftir með atorku, bjartsýni og skipulagshæfni. Fá verkefni vaxa honum í augum. Hann hefur sýnt í verki, að hann getur rutt brautir, sem öðrum reynast torfærur. Í fari hans finn ég bæði frumleika brautryðjandans, sem ryður ótroðnar slóðir og aðdráttarafl bjartsýnismannsins, sem laðar aðra til samstarfs. Slíkur maður á vissulega erindi á Alþingi Íslendinga og er líklegur til að láta þar að sér kveða, svo að um muni.
Á yngri árum hafði Jakob svo mikið að gera innan lands og utan, að hann mátti ekki vera að því að sitja á skólabekk. Hann kippti því í liðinn um daginn og lauk meistaraprófi með láði í markaðsfræðum frá Háskólanum í Reykjavík. Þannig sýndi hann í verki, að svo lengi lærir sem lifir. Námið staðfesti þá lífsskoðun Jakobs, sem hann hefur numið í lífsins skóla, að það beri að virkja framtak einstaklingsins í þágu velferðarsamfélagsins sem heildar. Það er lífsskoðun jafnaðarmanns.
Nú eigum við þess kost að virkja krafta atorkumanns á þingi í þágu okkar allra. Grípum tækifærið og sendum athafnaskáldið á Alþingi.