MAÐUR AÐ MEIRI

Morgunblaðið skýrir lesendum sínum frá því á forsíðu 22. okt. s.l. í heimsfréttarstað, að sá grunur hafi “læðst að” formanni Sjálfstæðisflokksins, Geir Haarde, að óprúttnir aðilar reyni að koma höggi á Sjálfstæðisflokkinn almennt og sér í lagi vin hans og vopnabróður, Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, vegna prófkjörs flokksins nú um helgina.Samkvæmt fréttinni varaði formaðurinn söfnuð sinn við þessum óprúttnu aðilum og skoraði á Sjálfstæðismenn að slá skjaldborg um hinn höfuðsetna dómsmálaráðherra. Var helst á formanninum að skilja, að ekki mundi af veita, enda þess skemmst að minnast, að dómsmálaráherrann reið ekki feitu hrossi frá atlögu sinni að Reykjavíkurlistanum og Ingibjörgu Sólrúnu, borgarstjóra um árið, þrátt fyrir dyggilegan stuðning þáverandi formanns.

En hverjir eru þessir “óprúttnu aðilar”? Sem betur fer þarf ekki lengi að leita þeirra, því að þeir hafa ekki séð ástæðu til að fara huldu höfði. Þeir eru Þór Whitehead, sagnfræðingur, Andri Óttarsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og Borgar Þór Einarsson, formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna (SUS). Það verður að segja þessum mönnum til hróss, að þeir sigla ekki undir fölsku flaggi og vega ekki úr launsátri, eins og hlerunarsérfræðingar leyniþjónustunnar vega að fórnalömbum sínum. Óhróðursmenn koma sjáldan fram undir fullu nafni, eins og þeir vita manna best í Valhöll.

Spurningar sem kalla á svör.

En hvað hafa þessir þremenningar gert á hlut dómsmálaráðherrans, sem verðskuldar það, að formaðurinn uppnefni þá sem “óprúttna aðila”? Því er fljótsvarað. Einn hefur afhjúpað þá staðreynd, að einn helsti forystumaður Sjálfstæðisflokksins stofnaði á laun leyniþjónustu, sem m.a. njósnaði um pólitíska andstæðinga á Alþingi. Hinir tveir hafa harðlega gagnrýnt áform núverandi dómsmálaráðherra um að stofna sambærilega leyniþjónustu með lögformlegum hætti. Allir þrír eru yfirlýstir Sjálfstæðismenn, svo að deilur þeirra mega heita innanhússmál. Samt sem áður er það svo, að niðurstöður þessara deilna varða þjóðina alla, því að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins gætu enn sem fyrr orðið fórnarlömb hinnar nýju leyniþjónustu.

Þór Whitehead hefur í grein í (hugmynda)fræðiritinu Þjóðmálum upplýst, að Bjarni Benediktsson, þáv. dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hafi upp úr 1950 stofnað “strangleynilega öryggisþjónustudeild”, sem var flestum hulin í íslenska stjórnkerfinu. Greinarhöfundi gekk gott eitt til. Hann vildi færa sönnur á, að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafi fyrr á tíð verið svo ofbeldishneigðir, að stofnun ólöglegrar leyniþjónustu hafi verið réttlætanleg af þeim sökum. Með vísan til þessarar reynslu vildi hann rökstyðja nauðsyn þess að stofna til leyniþjónustu með lögformlegum hætti, nú þegar bandaríska varnarliðið er farið og ógnvænleg hryðjuverkavá steðjar að hinum viljugu samverkamönnum Bandaríkjamanna í Írak. Þór Whitehead vildi m.ö.o. búa í haginn fyrir áform fóstbróður síns, dómsmálaráðherrans, um að fá atbeina Alþingis við lögformlegri stofnun leyniþjónustu. Sagnfræði Þórs átti að gera almenningi ljósa nauðsyn þess arna. Nauðsynin var þeim mun brýnni sem CIA vantaði samstarfsaðila í hryðjuverkastríðinu, sem kynnu að fást við vafasamt fólk að amerískri fyrirmynd. Það er helst að skilja á þeim fóstbræðrum, að þeir hafi búist við góðum undirtektum við svo göfugan málstað.

Þetta er sennilega eitthvert slysalegasta upplegg prófkjörsbaráttu, sem um getur í stjórnmálasögunni. Kjörþokka dómsmálaráðherrans er nú helst að líkja við nashyrning í vígahug og var þó vart á það bætandi. Sagnfræðingurinn slysaðist til að opna “Pandorubox” , og vofur fortíðarinnar leika nú lausum hala og sækja að dómsmálaráðherranum úr öllum áttum. Einföldustu spurningum sem vöknuðu við grein sagnfræðingsins er ósvarað: Voru ráðherrar Sjálfstæðisflokksins þeir einu, sem vissu um leyniþjónustuna? Hvers vegna var ráðherrum annarra flokka ekki gerð grein fyrir tilvist og starfsemi leyniþjónustunnar? Hélt starfsemi leyniþjónustunnar áfram í tíð vinstristjórna, jafnvel þótt viðkomandi ráðherrar vissu ekki af því? Hverjir tóku þá við upplýsingunum? Hvernig voru upplýsingarnar notaðar? Hélt leyniþjónustustarfsemin áfram á laun eftir lok kalda stríðsins 1991? Ef svo er, hverjir stjórna leyniþjónustunni nú?

Sakaruppgjöf.

Þetta eru bara fáeinar af ótal spurningum, sem þjóðmálagrein Þórs Whitehead vekur upp, og hann hefur ekki getað svarað, þrátt fyrir veikburða tilraunir í opnulanghundi í sunnudagsblaði Moggans. Þessar spurningar bíða því enn svars. Vilji menn í alvöru leita heiðarlegra svara verður að hafa eftirfarandi hugfast: Upplýst umræða getur ekki farið fram um mál, meðan aðgangur að gögnum málsins er takmarkaður við dómsmálaráðherrann og trúnaðarmenn hans. Fórnarlömb hlerana geta t.d. ekki, eðli málsins samkvæmt, leitt fram vitni máli sínu til sönnunar, því að hlerað var á laun, þar sem vitnum verður ekki við komið. Gerendur í málinu – þeir sem stunduðu hleranir samkvæmt fyrirmælum yfirmanna- munu ekki að óbreyttu gefa sig fram, af mörgum ástæðum. Þeir eru bundnir þagnareiði og trúnaðarskyldum. Þar að auki benda vaxandi líkur til, að hleranir hafi verið stundaðar án dómsúrskurða, þ.e. með ólögmætum og refsiverðum hætti.

Við þessar aðstæður dugar ekki, að lögregla rannsaki lögreglu. Þau ummæli forsætisráherra, sem hann viðhafði til að andmæla atbeina Alþingis að málinu, að ekki sé betra að pólitíkusar rannsaki pólitíkusa, afhjúpa fullkomið skilningsleysi á eðli málsins. Málið snýst um meinta misnotkun framkvæmdavaldsins á valdi sínu, m.a. gagnvart fulltrúum löggjafarvaldsins. Alþingi ber að láta slíkt til sín taka. Þar að auki fæst málið einfaldlega ekki upplýst nema Alþingi veiti þeim starfsmönnum leyniþjónustunnar fyrirfram sakaruppgjöf, sem kunna að hafa gerst brotlegir við lög, væntanlega skv. fyrirmælum yfirboðara sinna. Þess vegna ber Alþingi að taka upp málið, bæði með því að setja lög og skipa nefnd “valinkunnra sómamanna”, sem njóta trausts, til þess að rannsaka starfsemi og starfshætti hinnar ólöglegu leyniþjónustu frá upphafi til dagsins í dag. Þetta er hin svokallaða “norska leið”. Það vill svo til, að hún er eina leiðin, sem er fær til að upplýsa málið – leggja öll spilin á borðið – og freista þess þannig að græða undir fortíðarinnar.

Hvers vegna stíga þeir nú ekki fram, hönd í hönd, fóstbræðurnir, Geir Haarde og Björn Bjarnason, og flytja á Alþingi ásamt með formönnum stjórnarandstöðuflokkanna frumvarp til laga um sakaruppgjöf þeim til handa,sem gerst hafa brotlegir við lögin í störfum sínum í þágu leyniþjónustunnar, en vilja nú bæta fyrir þau brot með því að bera sannleikanum vitni. Sannleikurinn mun gera yður frjálsa, sagði Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknar og hafði fyrir því traustar heimildir. Síðan ættu forystumenn flokkanna á Alþingi að koma sér saman um nefndarskipan, sem hefði aðgang að öllum gögnum málsins og leitaði eftir vitnisburði gerenda og þolenda leyniþjónustunnar, í því skyni að hreinsa andrúmsloftið og endurreisa glatað traust á stofnunum lýðveldisins.

Hvers vegna ekki?

Hvers vegna ekki? Þeir segja, að fyrrverandi lögreglustjóri hafi brennt gögnin í öskutunnu. Mínir heimildarmenn segja, að allar njósnaskýrslur, sem teknar voru saman um nafngreinda Íslendinga, flokksaðild þeirra og stjórnmálaskoðanir, hafi verið afhentar leyniþjónustumönnum bandaríska sendiráðsins í Reykjavík. Því má treysta, að bandaríska leyniþjónustan fer betur með sín gögn, auk þess sem stjórnsýslureglur í Bandaríkjunum kveða á um, aðgang að slíkum gögnum innan tilgreindra tímamarka. Það sem brann í fórum lögreglustjórans, kann því að finnast hjá CIA í Maryland.

Þeir segja, að ekki stoði að bera saman Ísland og Noreg í þessu tilviki. Hver er munurinn? Í Noregi er málið upplýst, en á Íslandi er það allt í pukri og elur því á grunsemdum og tortryggni. Sá er líka munurinn, að á Íslandi voru bandarískar herstöðvar, en ekki í Noregi. Herstöðin og verktakar þeirra höfðu þúsundir Íslendinga í sinni þjónustu. Þess vegna er trúlegt, að íslenska leyniþjónustan hafi njósnað um hlutfallslega langtum fleiri Íslendinga en norska leyniþjónustan njósnaði um Norðmenn. Og það er einn munur enn: Íslenska leyniþjónustan virðist hafa starfað að verulegu leyti í þágu leyniþjónustu erlends ríkis. Það hlýtur að teljast grafalvarlegt mál. Ég spyr: Hvað mundu núverandi forystumenn Sjálfstæðisflokksins segja, ef það yrði allt í einu upplýst, að kommúnistar á Íslandi hefðu afhent KGB-deild sovjeska sendiráðsins í Reykjavík skrár um helstu trúnaðarmenn Sjálfstæðisflokksins, t.d. varalið Sjálfstæðismanna innan lögreglunnar? Hvarflar að nokkrum manni, að þeir hefðu látið slíkt kyrrt liggja?

Varnaðarorð.

Þangað til forystumenn Sjálfstæðisflokksins reka af sér slyðruorðið verður að taka undir viðvörunarorð stjórnar Sambands ungra Sjálfstæðismanna, undir forystu Borgars Þórs Einarssonar, gagnvart áformum dómsmálaráðherra um að stofna lögformlega íslenska leyniþjónustu í nánu samstarfi við pyntingarmeistara bandarísku leyniþjónustunnar. Til þess eru vítin að varast þau. Og hver er sá frjálslyndi borgari þessa lands, sem ekki tekur heils hugar undir þessi viðvörunarorð núverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, Andra Óttarssonar, gangvart áformum dómsmálaráðherrans? Þann 13. apríl 2004 sagði Andri eftirfarandi á vefsetrinu Deiglunni.com, af gefnu tilefni:
“Friðhelgi einkalífs skiptir ekki lengur máli, heldur eru símhleranir án dómsúrskurðar ekkert mál. Í hverju málinu á fætur öðru er gert ráð fyrir, að réttindi borgara og almennings víki fyrir ráðstjórn og lögreglu”.
Er þetta það sem koma skal, Sjálfstæðismenn?

Sáttaleið?

Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, er um margt virðingarverður stjórnmálamaður. Hann er betur að sér á sínu sviði en flestir kollegar hans og keppinautur og skipulagður í vinnubrögðum. Svo er hann lúsiðinn í þokkabót. Ef þessir mannkostir héldust í hendur við víðsýni, velvild og umburðarlyndi, bæri hann langt af keppinautum sínum. Og nú á hann kjörið tækifæri til að reka af sér orðspor ofstjórnaráráttunnar. Hvers vegna tekur hann nú ekki frumkvæðið að sáttargjörð við stjórnarandstöðuna í þessu hvimleiða hlerunarmáli, í því skyni að kveða niður drauga fortíðar og endurreisa nauðsynlegt traust almennings á löggæslustofnunum og réttarfari lýðveldisins? Hverjum stendur það nær? Hann yrði maður að meiri.