VITJUNARTÍMI

Kosningaúrslitin 1978 – fyrir tæpum 30 árum – voru eins og pólitískur jarðskjálfti, a.m.k. 7.5 á Richter. Það skalf allt og nötraði. Hefðbundin helmingaskiptastjórn Sjálfstæðisframsóknarflokksins var við völd, þá sem nú. Stjórnmálaforystan í landinu bar sýnileg þreytumerki, eftir að hafa hjakkaði í sama farinu árum saman, án árangurs. Undir niðri kraumaði óánægja, sem braust upp á yfirborðið í kosningunum. Tvíflokkur helmingaskiptanna galt afhroð. A-flokkana vantaði aðeins þrjá þingmenn í starfhæfan meirihluta. Það þótti næstumþví bylting. Kosningaúrslitin voru krafa um breytingar. En skilaboð nýrrar kynslóðar komust ekki til skila. Stjórnmálaforystan var ekki vandanum vaxin. Sjáandi sá hún ekki og heyrandi heyrði hún ekki. Þess vegna fór sem fór. Tómt klúður.

Ung kynslóð og óþreyjufull var að hasla sér völl í aðdraganda þessara kosninga. Þar fór fremstur í flokki Vilmundur Gylfason. Hann hafði allt aðra sýn á þjóðfélagið en þeir kerfiskallar, sem sátu á fleti fyrir og vörðu sérhagsmuni hins pólitíska samtryggingarkerfis af gömlum vana. Þeir skildu varla, hvað var á seyði. Ef krafan var ekki um frjálsar ástir, þá var hún a.m.k. um opin prófkjör, frjálsa fjölmiðla, beint kjör forsætisráðherra, vinnustaðasamninga um kaup og kjör, frjálsan opnunartíma verslana (og svokallaðra skemmtistaða) og sitt hvað fleira. Þetta hljómaði róttækt og þar af leiðandi hættulegt. En kerfið varð klumsa. Það stóð þetta áhlaup af sér. “Arkitekt kosningasigursins” var settur utan garðs. Og lífið hélt sinn vanagang.

Um líf og lit.

Vonbrigðin ollu því, að Vilmundur varð viðskila við Alþýðuflokkinn og stofnaði eigið málfundafélag, Bandalag jafnaðarmanna. Þetta var fínn klúbbur með fínar hugmyndir. Undirtektirnar vöktu væntingar, en kosningaúrslitin 1983 ollu vonbrigðum. Bandalagið varð skammlíft, þótt hugmyndir þess væru lífvænlegar. Flestir forystumanna þess gengu til liðs við Alþýðuflokkinn, þar sem hugmyndir brautryðjandans fengu margar hverjar framhaldslíf í þeim ríkisstjórnum, sem Alþýðuflokkurinn gaf líf og lit á árunum 1987 til 1995.

Jarðtenging Íslands við innri markað og samkeppnisumhverfi Evrópu lagði grunninn að gerbreyttu þjóðfélagi. Það tók tímann sinn að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd. Tregðulögmálið (helmingaskiptasamlagið, sem nú væri kallað ohf) lætur ekki að sér hæða. Eftir sérstakt hagsældarskeið í rúman áratug er Ísland komið í fremstu röð ríkustu þjóða heims. EES margfaldaði heimamarkaðinn 300-falt á einu vetfangi. Hagkerfið varð allt í einu nokkrum númerum of stórt. Skuldirnar munu að vísu fylla upp í skóstærðina, hægt en örugglega. Þetta hefur gerst hratt. Ísland er ekki lengur verstöð. Það kallast nú alþjóðavætt þjónustusamfélag í fremstu röð. Breytingarnar hafa gerst svo hratt, að við erum rétt að byrja að átta okkur á því, að eyjan í norðri er orðin að alþjóðavæddu fjölþjóðasamfélagi. Og nota bene: Einhverju mesta ójafnaðarþjóðfélagi Evrópu, þar sem gjáin milli ríkra og fátækra dýpkar hraðar en víðast hvar.

Fyrir komandi kosningar vorið 2007 stendur Íslands farsælda frón frammi á ystu nöf á krossgötum: Viljum við tilheyra hinu norræna velferðarsamfélagi eða rekur okkur – nauðug, viljug – í áttina að hinu ofbeldisfulla villta vestri? Kannski er þetta spurningin, sem skiptir mestu máli í kjörbúðinni vorið 2007: Viljum við snúa á vit Evrópu þrátt fyrir allt, eða bíður okkar hlutskipti fylkis í Ameríku, – númer fimmtíu og eitt – eða í kaupfélagi við Alaska?

Um samhengi hlutanna.

Er eitthvert samhengi í þessu öllu saman? Hugsum um það. Þegar Ísland gekk í NATO, krafðist utanríkisráðherra Íslands, Bjarni Benediktsson, þess, að aðildaríkin viðurkenndu sérstöðu Íslands sem lands án hers og vopna, og að aldrei yrði erlendur her á Íslandi á friðartímum. Þegar Íslendingar gerðu varnarsamning við Bandaríkin 1951, vildu Bandaríkjamenn, að hann yrði án uppsagnarákvæðis. Bjarni Benediktsson, untanríkisráðherra Íslands, svaraði því til, að heldur vildu Íslendingar taka þá áhættu að vera án landvarna, en að sæta slíkum afarkostum. Þess vegna voru gagnkvæm uppsagnarákvæði í varnarsamningnum. Þess vegna getum við sagt varnarsamningnum upp, þökk sé Bjarna.

Þegar við lá, að Ísland yrði innilyksa í hálfsovjesku flokksræðiskerfi helmingaskiptaflokkanna og yrði útilokað frá samrunaferlinu í Evrópu, tók Gylfi Þ. Gíslason, leiðtogi Alþýðuflokksins, af skarið og leiddi okkur inn í fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA). Það hefði að vísu ekki gengið, ef Gylfi hefði ekki á áratug Viðreisnarstjórnarinnar haft frumkvæði að því að aflétta ánauð ríkisforsjár skömmtunarkerfisins, sem helmingaskiptaflokkurinn hafði þröngvað upp á okkur, meira að segja löngu eftir dauða Stalíns.

Vilmundi Gylfasyni voru að vísu mislagðar hendur í fjölmiðlafárinu, en hugmyndir nútímalegrar jafnaðarstefnu um kraftbirtingu markaðarins undir leiðsögn lifandi lýðræðis, vísuðu til framtíðar, sem reyndist ýkjulaus og sönn. Það er sagt, að fáir njóti eldanna, sem fyrstir kveikja þá. Látum vera. Þannig er lífið. Það er ekki þar með sagt, að við þurfum öll að vera sögulegar geðlurður án minnis og markmiðs.

Framundan eru kosningar. Þá ber að kjósa mann og annan. En aftur að samhengi hlutanna. Með stofnun Samfylkingarinnar fyrir fáeinum árum átti gamall draumur að rætast. Þessi draumur um sameiningu jafnaðarmanna er jafngamall hreyfingunni og því löngu tímabært að draga hann ofan úr draumheimum niður á hið jarðneska plan. Því að jafnaðarstefnan snýst ekki um paradís á himnum, heldur um réttlæti á jörðu. Jafnaðartefnan á marga strengi í hörpu sinni. Til þess að ná hinum hreina tóni verður að stilla saman þá strengi alla. Hina hreinu og kláru umbótastefnu Alþýðuflokksins, menningarvitund Alþýðubandalagsmanna og kröfu þeirra um herlaust land. Jafnréttiskröfur Kvennalistans og hugmyndir Bandalags jafnaðarmanna um heiðarlega stjórnsýslu. Í húsi föðurins eru margar vistarverur, eins og þar stendur. En allir, sem þar búa, þurfa að koma að hinu sameiginlega borði, þar sem ráðum er ráðið til lykta.