SALKA VALKA Í SAMFYLKINGUNNITELPAN FRÁ STOKKSEYRI

Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir: Stelpan frá Stokkseyri –
Saga Margrétar Frímannsdóttur, 367 bls..
Bókaútgáfan Hólar, 2006

Þetta er sagan um Sölku Völku í sjávarplássinu, sem settist inn á þing. Sjávarplássið er Stokkseyri, og þessi Salka heitir reyndar Margrét Frímannsdóttir. Mamma hennar var einstæð móðir. Hún hafði smitast af berklum og gat því ekki á þeim tíma annast um dóttur sína og séð þeim báðum farborða. Stúlkan ólst því upp hjá fósturforeldrum sínum á Stokkseyri. Þrátt fyrir lítil efni er bjart yfir bernskuárum í sjávarplássinu. Að íslenskum sið ganga börnin þar að mestu sjálfala. Þau búa við frelsi, en verða snemma að taka þátt í lífsbaráttu hinna fullorðnu. Það er að lokum sá agi, sem kemur að utan.

Hún nýtur takmarkaðrar skólagöngu. Lýkur þó skyldunni og gott betur. Hún giftist snemma sjóara úr plássinu, sextán ára gömul, og byrjar að búa. Hún er lítt skólagengin, tveggja barna móðir og vinnur í fiski. Þetta gæti svo sem verið sagan öll. En hún er fórnfús og hjálpsöm og vill leggja öðrum lið, enda alin upp í þeim anda. Hún virðist hafa veikst af hinni pólitísku veiru, nánast frá blautu barnsbeini, enda Björgvin frændi formaður verkalýðsfélagsins á staðnum í marga áratugi. Hún hefur sterka réttlætiskennd. Það þýðir að vera til vinstri. Á Stokkseyri þýddi það á þessum tíma að vera í Alþýðubandalaginu.

Hún fylgir eftir sannfæringu sinni og er fyrr en varir komin á kaf í pólitík. Aðeins 28 ára gömul er hún orðin oddviti í sinni sveit, fyrsta konan, sem gegndi því virðulega starfi. Þátttaka í sveitarstjórn í sjávarplássi er góður skóli fyrir verðandi pólitíkus. Þorpið er þrátt fyrir allt míkrokosmos, þjóðfélagið í örsmárri mynd. Hafnarstjórnin kennir þér á atvinnuífið, skólinn kennir þér um uppeldismálin, og heilsugæslan um félagsmálin. Smám saman fóru stóru strákarnir í flokknum að taka eftir stelpunni, sem hafði unnið hreinan meirihluta í sinni sveit. Henni var stillt upp í annað sætið í Suðurlandi og var orðin varaþingmaður, áður en hún vissi af. En hún vildi ekki vera stillt og prúð og verma lengur varamannabekkinn. Næst þegar kosið var til þings 1987, ákvað hún að etja kappi við sitjandi þingmann, sem reyndar dró sig til baka, áður en á hólminn var komið. Þetta olli vinslitum við þann mæta mann, Garðar Sigurðsson, úr Vestmannaeyjum. Pólitíkin er ekki alltaf dans á rósum. Og þær stinga, sumar rósirnar, stundum. Þegar stelpan frá Stokkseyri var komin inn fyrir dyrnar á alþingishúsinu, fékk hún að kynnast því fyrir alvöru.

Frásögn Margrétar Frímannsdóttur af veru sinni í þingflokki Alþýðubandalagsins er helst að líkja við sögu konu, sem rýfur margra ára þögn og segir frá linnulausu pólitísku heimilisofbeldi. Þegar Alþýðubandalaginu gefst kostur á að taka þátt í ríkisstjórn haustið 1988, raða strákarnir – Ólafur Ragnar, Svavar Gestsson og Steingrímur J. Sigfússon – sér í ráðherrastólana. Guðrún Helgadóttir, hinn ástsæli rithöfundur, fær að vera forseti sameinaðs þings í sárabætur fyrir að vera hafnað sem menntamálaráðherra. Stelpan frá Stokkseyri fékk ekki neitt. En þegar hún gerði uppsteit, gerðu þeir hana góðfúslega að þingflokksformanni, – en sniðgengu hana samt, eftir sem áður, vandlega. Hún víkur að því víða, að ekki hafi verið á hana hlustað. Að hún hafi verið hunzuð. Að hún hafi verið niðurlægð og lítillækkuð. Og að hún hafi upplifað þessa framkomu hinna heimaríku beturvitrunga í forystu Alþýðubandalagsins sem ólæknandi menntahroka.

Hún komst að því, að Alþýðubandalagið var jafnréttisflokkur aðeins í orði kveðnu, en aldrei þegar á reyndi. Það þótti gott að skreyta sig með góðum kvenkostum, en þeim var ekki treyst fyrir völdum. Vilborg Harðardóttir, Kristín Ólafsdóttir, Sigríður Stefánsdóttir, Svanfríður Jónasdóttir og Guðrún Helgadóttir, allt frambærilegar konur, en aldrei treyst til forystu, þegar á reyndi. Samanburðurinn við Alþýðuflokkinn, sem lyfti bæði heilagri Jóhönnu og Rannveigu í ráðherraembætti, var Alþýðubandalaginu óhagstæður. Og þetta er á þeim árum, þegar Kvennalistinn er að ryðja sér til rúms í pólitíkinni.

2.
Margrét skefur ekki utan af því. Hún segir það hafa verið “heilt helvíti” að sitja þingflokksfundi. Vanvirðan, sem Steingrímur J. Sigfússon hafi sýnt henni “var yfirgengileg”. Meira að segja, eftir að hún hefur skorað Steingrím á hólm í formannskosningum 1995 og haft betur, heldur meirihluti þingflokksins áfram að sniðganga hinn nýkjörna formann. Eiginmaður Margrétar, Dr. Jón Gunnar Ottósson, segir: “Magga átti mjög erfitt uppdráttar á þessum tíma, og henni var sýnd ótrúleg lítilsvirðing.” Og hann bætir við: “Konan mín er mjög sterk, en ég hef aldrei séð hana jafn brotna og þegar hún kom heim af þingflokksfundum, sérstaklega fyrst eftir að hún tók við formennskunni. Stundum var hún grátandi.”

Þetta hljómar óneitanlega eins og sannfærandi lýsing á pólitísku heimilisofbeldi. Þegar ráðherragengi Alþýðubandalagsins hafði klúðrað áframhaldandi ríkisstjórnarþátttöku Alþýðubandalagsins með því að snúast gegn EES samningnum í kosningunum 1991, sem var efnislega að mestu fullfrágenginn í tíð vinstristjórnar Steingríms Hermannssonar, gerðu þeir Margréti, að hennar sögn, ólíft í starfi þingflokksformanns. Að lokum gafst hún upp. Og hún vandaði félögum sínum í þingflokknum ekki kveðjurnar:

“Daginn eftir sagði ég allt. Hvernig mér fyndist framkoma þeirra hafa verið. Hvernig ég hefði fundið þá pota í mig og ýta mér út. Hvernig þeir hefðu vanvirt störf mín og tekið ákvarðanir framhjá mér. Sagði allt sem mér datt í hug að segja. Ég sagði líka, að þeir skyldu láta það ógert að koma til mín og segja, eins og venjan var, að ég hefði staðið mig vel sem þingflokksformaður. Þeir gætu bara átt þær setningar fyrir sig. Ég hæddi þá líka. Sagði þeim, hvaða álit ég hefði á sýndarmennskunni, sem fælist í hverju orði, þegar þeir opnuðu munninn um jafnréttismál. Og ég lét þá vita, að í hvert sinn, sem einhver þeirra myndi ræða stöðu kvenna opinberlega, myndi ég hlæja hátt!”

Það var á allra vitorði á þessum tíma, að Alþýðubandalagið var þverklofið milli tveggja arma. Annars vegar var flokkseigendafélagið, undir forystu Svavars, þar sem Steingrímur J. var erfðaprinsinn. Hins vegar var söfnuður Ólafs Ragnars, formanns flokksins, sem var hins vegar á útleið, þar sem flokksreglur bönnuðu sama manni að gegna formennsku lengur en í átta ár. Baráttan um eftirmann Ólafs á formannsstóli var því fyrirsjáanleg árið 1995. En þótt vitað væri, að Alþýðubandalagið væri sundurleitur flokkur og þungt haldinn af innanmeinum, höfðu menn tæplega gert sér grein fyrir því, að eina óbreytta alþýðukonan í þingflokknum liði beinlínis daglega sálarkvalir í félagsskapnum.

En Margrét lét ekki bugast. Þegar tækifærið bauðst árið 1995 til að standa uppi í hárinu á strákunum, lét hún til skarar skríða og bauð sig fram til formanns gegn erfðaprinsinum, eins og hún nefnir Steingrím Jóhann. Fáir spáðu henni sigri. Þingflokkurinn var á móti henni – allir nema Bryndís Hlöðversdóttir. Svavar Gestsson skoraði á Margréti að draga framboð sitt til baka í nafni flokkshollustunnar. Og fráfarandi formaður, Ólafur Ragnar, studdi hana ekki – fyrr en eftir á, þegar ljóst var, að hún hafði sigrað, að hennar eigin sögn.

Steingrímur þótti þá þegar, og þykir enn, einhver harðvítugasti málflytjandi, sem látið hefur að sér kveða úr ræðustól á Alþingi. Fáir bjuggust við því, að stelpan frá Stokkseyri, “óskólagengin fiskverkakona”, gæti staðið uppi í hárinu á garpinum, þótt sköllóttur væri. En það fór á annan veg. Þau fóru á tuttugu fundi víðsvegar um landið, og með guðshjálp og góðra manna, hélt Stokkseyrarstelpan sínum hlut og reyndar gott betur, þegar talið var upp úr kjörkassanum. Hún fékk 53.5% móti 46% atkvæða Steingríms. Kannski var það öðru fremur, að Steingrímur tapaði þessum slag, en að Margrét ynni hann. Málstaður Margrétar – sameining jafnaðarmanna – reyndist einfaldlega eiga meira fylgi að fagna meðal almennra félagsmanna, þrátt fyrir harða andstöðu flokkseigendafélagsins.

3.
Hinni lítt skólagengnu verkakonu var orðið það ljóst, þegar hér var komið sögu, það sem hinum langreyndu forystusauðum flokksins virtist hulið, nefnilega að Alþýðubandalagið var ekki á vetur setjandi. Kalda stríðinu var lokið, Sovétríkin voru fallin, og fortíð flokksins var í ösku. En flokkurinn var lamaður af innbyrðis ágreiningi, þar sem hver höndin var uppi á móti annarri. Uppgjöri við fortíðina varð ekki lengur frestað. Alþýðubandalagsfólk þurfti að svara því skýrt og skilmerkilega, hvort það ætti ekki heima í stórum fjöldaflokki, sem byggði á hugmyndagrundvelli lýðræðislegrar jafnaðarstefnu. Það varð hlutverk stelpunnar frá Stokkseyri að stýra þessu uppgjöri í sínum flokki.

Hún rífjar upp, að árið 1990, eftir fall Berlínarmúrsins, gerðu þeir Ólafur Ragnar og Jón Baldvin atrennu að sögulegum sáttum, þegar þeir fóru á fundi um landið “á rauðu ljósi”. Margrét segir réttilega, að þetta hafi verið tilraun til að koma á talsambandi milli jafnaðarmanna, sem af sögulegum ástæðum höfðu orðið viðskila hverjir við aðra í átökum liðinnar aldar. Það auðveldaði þetta talsamband, að á árunum 1988 til 1991 störfuðu báðir flokkarnir saman í ríkisstjórn.

Margréti bregst hins vegar bogalistin, þegar hún álasar mér fyrir það “að skara eld að eigin köku” með því að mynda Viðeyjarstjórnina eftir kosningar 1991. Sú stjórnarmyndun snerist um að tryggja framgang EES-samningsins, sem var stærsta framfararspor þess tíma og algerlega nauðsynlegt til þess að brjóta á bak aftur flokksræðisstjórnarfar helmingaskiptaflokkanna. Margrét viðurkennir sjálf, að “margir í þingflokknum (þ.e. þingflokki Alþýðubandalgsins) voru á móti samningnum og vildu greiða atkvæði gegn honum”. Sem þeir og gerðu, þar með talin Margrét og Ólafur Ragnar.

Með þessari afstöðu sinni útilokuðu þau, ásamt með forystumönnum Framsóknarflokksins, framhald vinstristjórnarinnar, þrátt fyrir að stjórnarflokkarnir héldu meirihlutanum eftir kosningar 1991. Bæði Ólafur Ragnar og Halldór Ásgrímsson buðu formanni Alþýðuflokksins forsætisráðherrastólinn, ef hann vildi halda áfram stjórnarsamstarfinu. Þegar mér varð ljóst, að þeir gátu ekki tryggt EES-samningnum þingmeirihluta, hafnaði ég góðu boði. Það er nýstárlegt að kenna það við eigingirni að hafna sjálfum forsætisráðherrastólnum, en láta þess í stað málefnin ráða för. Þetta voru vissulega meiriháttar afglöp hjá forystumönnum Alþýðubandalags og Framsóknar og hafa dregið langan slóða á eftir sér. En það vex enginn af því að kenna öðrum um eigin glöp.

4.
Margrét segir söguna um aðdragandann að stofnun Samfylkingarinnar út frá sínum eigin bæjardyrum, sem seinasta formanns Alþýðubandalagsins. Hún segir á einum stað: “Mér fannst það ætti að vera lýðum ljóst, að ég átti stærstan þátt í því, að Samfylkingin varð til.” Það er ástæðulaust að gera lítið úr þessu. Það var hið sögulega hlutverk stelpunnar frá Stokkseyri að stjórna uppgjörinu við fortíð Alþýðubandalagsins og að leiða meirihluta Alþýðubandalagsfólks í átt til sameiningar jafnaðarmanna, innan vébanda Samfylkingarinnar. Þetta tókst henni, þó ekki áfalla- né affallalaust, þrátt fyrir harða andstöðu áhrifamikilla manna í forystu eigin flokks. Þetta er það sem mun halda nafni Margrétar Frímannsdóttur á loft í sögu hreyfingar jafnaðarmanna á Íslandi.

Vissulega komu þar aðrir við sögu. Margrét segir réttilega, að formenn þeirra flokka, sem hvað harðast hafa tekist á um að ná forystu á vinstri væng íslenskra stjórnmála, þ.e. Alþýðuflokks og Alþýðubandalags, hafi ekki verið vel til þess fallnir að leiða þessar fylkingar saman. Það hlutverk hafi menn orðið að fela fulltrúum nýrrar kynslóðar. Þar fyrir má ekki vanmeta ljósmóðurstörf þeirra Margrétar Frímannsdóttur, Sighvats Björgvinssonar og Guðnýjar Guðbjörnsdóttur við fæðingu hins nýja sameiningarflokks. Þetta gerðist í áföngum á kjörtímabilinu 1995-1999. Fyrsta skrefið var sameining þingmanna Alþýðuflokksins og Þjóðvaka í nýjan þingflokk jafnaðarmanna. Þegar reyndi á næsta skref, í aðdraganda kosninganna 1999, klofnaði þingflokkur Alþýðubandalagsins og óháðra, eins og hann þá hét. Þeir Steingrímur J. Sigfússon, Hjörleifur Guttormsson og Ögmundur Jónasson kusu að fara eigin leiðir, og Kristinn H. Gunnarssson kaus að leita skjóls hjá Framsókn í bili.

Þegar á reyndi, klofnaði því Alþýðubandalagið í tvennt. Þeir sem líta á sig sem lýðræðisjafnaðarmenn, gengu til liðs við Samfylkinguna. Öðrum var meira í mun að varðveita sérstöðu Sósíalistaflokksins og Alþýðubandalagsins og klæða hana í græna liti náttúruverndar. Þessi saga er að gerast fyrir augunum á okkur í dag. Þeirri spurningu er enn ósvarað, hvort þessi þróun festir fjórflokkakerfið áfram í sessi, eða hvort sameinaðri fylkingu jafnaðarmanna tekst að öðlast styrk til stjórnarforystu á nýrri öld, í andstöðu við hið hefðbundna valdakerfi Sjálfstæðisflokksins.

5.
Þessi bók segir sögu konu, sem hófst af eigin rammleik upp af gólfi frystihússins á Stokkseyri til forystu í flokki jafnaðarmanna, þrátt fyrir að við ramman reip væri að draga. Þetta er skemmtileg saga, að minnsta kosti fyrir okkur, sem höfum auga fyrir sögulegri rómantík verkalýðsbaráttunnar, sem Salka Valka Kiljans í sjávarplássinu er tákngervingur fyrir.

Það má hins vegar heita ljóður á ráði höfundar, að þrátt fyrir mikla umfjöllun um stjórnmálamenn, jafnt samherja sem andstæðinga, er umfjöllunin um málefnin sjálf, stefnu- og framtíðarsýn, takmörkuð og yfirborðskennd. Hver er sýn stelpunnar frá Stokkseyri á framtíð jafnaðarstefnunnar á öld alþjóðavæðingar? Hvernig vill hún bregðast við ögrun markaðshyggjunnar, sem fordæmir íhlutun ríkisvaldsins og boðar markaðslausnir á nánast öllum sviðum, einnig í heilbrigðis- og skólakerfi? Margrét sat á annan áratug í fjárlaganefnd og reyndi að standa sig í fyrirgreiðslupotinu, sem lengi hefur verið ær og kýr landsbyggðarþingmanna. En hún gerir hvergi grein fyrir tillögum um, hvernig eigi að bæta fyrir skemmdarverk, sem unnin hafa verið á almannatrygginga- og lífeyriskerfi þjóðarinnar, né heldur hvernig eigi að beita skattakerfinu til að draga úr þeirri sívaxandi mismunun þjóðfélagsþegnanna, sem markaðurinn leiðir af sér. Þögnin um nýjar lausnir í anda nútímalegrar jafnaðarstefnu er óþægileg og veldur vonbrigðum. Hvers vegna eru helstu álitamál samtímans af þessu tagi ekki á dagskrá í pólitísku testamenti Margrétar Frímannsdóttur?

Mér segir svo hugur um, að bókin verði ekki síður lesin vegna hispurslausrar frásagnar höfundar af baráttu hennar við vágestinn mikla, krabbameinið. Það er frásögn, sem mun snerta strengi í brjóstum allra, sem lesa. Eins og allir, sem verða fyrir alvarlegum heilsubresti – þannig að þeir horfast í augu við ásýnd dauðans – jafnvel í blóma lífs, þá sá Margrét líf sitt í nýju ljósi; hún lærði að meta upp á nýtt þetta undursamlega líf, sem okkur er léð skamma stund – lærði að meta meira það, sem máli skiptir og líta fram hjá hinu, sem er hismi eitt og hjóm, þegar að er gáð. Gefum Margréti sjálfri orðið að lokum:
“Áður þótti mér allt svo sjálfsagt, en nú þegar ég hef lært að þakka fyrir lífið, þá finn ég svo vel, hvað skiptir máli. Mér finnst yndislegt að vakna á morgnana, og mér finnst gaman að hlusta á fuglana syngja. Ég veit að þessi orð þykja mörgum klisjukennd og væmin, en ég get ekki lýst tilfinningum mínum á annan veg.”