1.
Ég vísa því á bug, að ég hafi gert mig sekan um ærumeiðandi ummæli um látinn föður kærenda, Sigurjón Sigurðsson, fv. lögreglustjóra.
Í kvöldfréttatíma RÚV sjónvarps 10. október á s.l. ári var rætt við mig um framkomnar upplýsingar um leynilegar hleranir á vegum stjórnvalda, þ.á.m. á símum alþingismanna. Af þessu tilefni sagði ég m.a. eftirfarandi: “Til hverra reporteruðu njósnararnir? Hver var það, sem endanlega tók við upplýsingunum? Var það lögreglustjórinn alræmdi? Og hvað gerði hann við þær?” Það er af og frá, að með þessum ummælum sé verið að gefa í skyn, eins og segir í bréfi lögmanns kærenda (18.10.06) “að fyrrverandi lögreglustjóri í Reykjavík, Sigurjón Sigurðsson, sé þekktur af illum gjörðum og/eða ólögmætum…” . Tilvitnuð ummæli mín í fréttaviðtalinu gefa ekkert slíkt í skyn.
Orð geta haft fleiri en eina merkingu. Oft ræðst það af samhenginu, hver hin raunverulega merking er. Forskeytið al- vísar til þess, sem er almennt, til almennings, sbr. almannarómur. Lýsingarorðið ræmdur er dregið af rómur (sbr. almannarómur). Sá sem er rómaður er ýmist lofaður (sbr. frammistaða hans var lengi rómuð, í merkingunni, hróður hans barst víða), eða a.m.k. umtalaður. Frummerking orðsins alræmdur er því umtalaður meðal almennings, hugsanlega umdeildur, sbr. að vera á milli tannanna á fólki. Þessi merking er m.a. staðfest í íslenskri orðabók, M og M 1992 og íslenskri orðabók Menningarsjóðs, 1990.
Sama orð getur einnig fengið merkinguna illræmdur, en þarf alls ekki að merkja það, nema það megi ljóst vera af samhenginu. Ekkert slíkt vakti fyrir mér. Ef svo hefði verið, hefði ég notað orðið illræmdur til að taka af öll tvímæli. Ég er hreinskiptinn maður að eðlisfari og vanur að taka skýrt til orða. Á þeim tíma, sem umrædd orð féllu í fréttaviðtalinu, vissi ég ekki til þess, að ég eða mín fjölskylda ætti neitt sökótt við umræddan lögreglustjóra. Ég hafði því enga ástæðu til að saka hann um illvirki eða lögbrot. Enda var það ekki í mínum huga.
2.
Málskilning minn á orðinu alræmdur má skýra með eftirfarandi dæmi: Á árunum 2003-2005 þurfti fjölskylda mín að taka til varna í átta dómsmálum vegna forræðisdeilu um barnabarn mitt.
Meðan á þessum málaferlum stóð, sá einn íslenskur fjölmiðill, Dagblaðið, ástæðu til að birta myndskreyttar æsifréttir um málið á ellefu forsíðum. Í þessum samsetningi voru mér persónulega og fjölskyldu minni bornar á brýn flestar þær vammir og skammir, sem blaðamönnum hugkvæmdust: Ég átti að hafa beitt meintum pólitískum áhrifum á embættismenn og dómara til að snúa málum fjölskyldu minni í hag og að hafa valdið því, að íslensk stjórnvöld höfðu að engu skuldbindingar milliríkjasamninga í leiðinni. Persónulegar ávirðingar mínar voru sagðar legio. Þegar ég hugðist leita réttar míns og kæra blaðið fyrir meiðyrði og fá það dæmt til skaðabóta, ráðlögðu virtir lögmenn mér frá því. Þeir sögðu íslenska dómahefð sýna, að sem fyrrverandi stjórnmálamaður yrði ég að sætta mig við að vera umdeildur og sem slíkur þyrfti ég að þola þyngra ámæli en aðrir menn. Ég lét því kyrrt liggja.
Hitt þótti mér verra, að Dagblaðið birti bæði nafn og mynd dótturdóttur minnar og skeytti engu um hugsanlegar afleiðingar þess, svo sem einelti í skóla eða eitthvað þaðan af verra, sem upp kann að koma í viðkvæmum forræðisdeilum.
Okkur var í mun, að barnið biði ekki skaða af þessum deilum og reyndum því að tryggja, að Dagblaðið yrði ekki á vegi barnsins. Eitt sinn, er barnið var statt ásamt ömmu sinni við afgreiðslukassa í stórmarkaði, blasti nafn og mynd barnsins við því á forsíðu blaðsins. Amman brást við með því að snúa blaðinu öfugt. Þá hnippti barnið í ömmu sína og sagði brosandi: “Þetta er allt í lagi, amma mín. Þetta sýnir bara, að ég er orðin alræmd eins og þú”. – Það er af og frá, að barnið sé með þessu orði að lýsa ömmu sinni sem lögbrjót eða illvirkja. Hún var einungis að vísa til þess, að amma hennar er umtöluð – og kannski umdeild. Bragð er að þá barnið finnur. Í þessu litla dæmi var fjöltyngt barn (hún talar fjögur tungumál) að nota orðið alræmdur um ömmu sína í nákvæmlega sama skilningi og ég gerði um lögreglustjórann heitinn: nefnilega sem umtalaða og jafnvel umdeilda persónu. Í þessari merkingu er orðið ekki gildishlaðið. Það felur ekki í sér neina fyrirfram dóma um illvirki eða lögbrot; það felur einungis í sér það mat, að viðkomandi persóna sé umtöluð eða jafnvel umdeild.
3.
Var Sigurjón Sigurðsson umtöluð (nafnkunn, nafntoguð, rómuð) eða jafnvel umdeild persóna? Ég hygg, að flestir sagnfræðingar, sem rannsakað hafa stjórnmálasögu tuttugustu aldar á Íslandi, myndu svara þeirri spurningu játandi. (Sjá: Þór Whitehead: Smáríki og heimsbyltingin. Um öryggi Íslands á válegum tímum. Þjóðmál, haust 2006). Margt bendir til þess, að Sigurjón hafi ekki síst verið umtalaður og/eða umdeildur vegna ferils síns sem stjórnmálamaður á fyrri hluta ævinnar. Því til staðfestingar má t.d. vitna í ritið: Íslenskir nasistar, eftir þá Hrafn og Illuga Jökulssyni (Tákn, bókaútgáfa 1988). Þessi bók er af hálfu höfunda tilraun til að skrifa ágrip af sögu hreyfingar íslenskra þjóðernissósíalista – sem í daglegu tali voru kallaðir nasistar – á millistríðsárunum. Að sögn höfunda var flokkur þjóðernissinna hér á landi sem annars staðar einkum andvígur lýðræði og þingræði og barðist fyrir því að koma á alræðisríki – lögregluríki – hér á landi, að fyrirmynd þýskra nasista.
Sigurjón Sigurðsson kemur víða við sögu í þessari bók. Hann er sagður hafa verið ekki einungis óbreyttur liðsmaður í þessum flokki, heldur einn örfárra lýðræðislega kjörinna fulltrúa hans (í stúdentaráði Háskóla Íslands). Auk þess er hann sagður hafa verið frambjóðandi þessa flokks við bæjarstjórnarkosningar 1938. Sigurjón virðist hafa verið einarður talsmaður sjónarmiða nasista í málgögnum hreyfingarinnar. Hann veittist hart að andstæðingum hreyfingarinnar og fékk á köflum viðbrögð í samræmi við það. Af þessum sökum var Sigurjón mjög umtalaður og umdeildur, – en nota bene sem stjórnmálamaður.
Stjórnmálamenn verða, að sögn, að sæta því að þola meira ámæli andstæðinga sinna en aðrir menn, eftir því sem lögfræðingar ráðlögðu mér af gefnu tilefni, og fyrr er frá sagt. Þessi pólitíska fortíð stjórnmálamannsins kann að hafa fylgt embættismanninum, sem síðar varð og valdið því, að hann var einnig í embætti lögreglustjóra umdeildari en aðrir menn. Þótt ég hafi verið orðinn sendiherra Íslands erlendis, þegar Dagblaðið veittist að mér með móðgandi aðdróttunum og svívirðingum í tilefni af forræðismáli dóttur minnar 2003-05, töldu lögfræðingar, að fortíð mín sem stjórnmálamanns þýddi, að ég yrði að sætta mig við óvægnari opinbera umfjöllun en aðrir menn. Spurningin er þá: Á það bara við um suma, en ekki alla?
4.
Ég vék að því áður, að ég hefði ekki vitað til þess, þegar ég lét orð falla um Sigurjón í fréttaviðtali 10. okt. s.l., að hann hefði gert neitt á minn hlut eða minnar fjölskyldu, sem réttlætti, að ég bæri honum illa söguna. Þar að auki tel ég til vinfengis við ýmsa af hans ætt og veit ekki betur en það sé gagnkvæmt. Af þessum ástæðum hef ég hvergi hallmælt Sigurjóni Sigurðssyni, þótt ég hafi vísað til þeirrar staðreyndar, að hann var umtalaður og umdeildur maður, einkum sem stjórnmálamaður fyrr á árum. Ég vissi ekki til þess, að það þætti ámælisvert að fjalla um sögulegar staðreyndir. Ég hélt, satt að segja, að það heyrði undir grundvallarregluna um tjáningarfrelsi í réttarríki.
Eftir að ég lét tilvitnuð ummæli um Sigurjón falla í fréttaviðtali hefur verið upplýst, að hann var einn þeirra, sem báru ábyrgð á að rjúfa friðhelgi einkalífs æskuheimilis míns með því að láta hlera síma föður míns og annars heimilisfólks. Þetta er upplýst í svarbréfi þjóðskjalavarðar við erindi Ragnars Aðalsteinssonar, hrl. um aðgang að gögnum um símahleranir hjá Hannibal Valdimarssyni (dags. 14.11.06). Mér skilst, að til þess að rof á friðhelgi einkalífs einstaklinga og fjölskyldna þeirra, – eins og óneitanlega felst í símahlerunum á laun, – geti talist réttlætanlegt, verði að liggja fyrir vel rökstuddur grunur um stórfelld glæpsamleg áform viðkomandi, svo sem eins og undirbúning ofbeldisverka eða landráð. Í fylgiskjölum með bréfi þjóðskjalavarðar fylgir bréf dóms- og kirkjumálaráðuneytis, dags. 26. febrúar 1961, undirritað af Baldri Möller til sakadómarans í Reykjavík, vottað m.a. af Sigurjóni Sigurðssyni, þar sem farið er fram á heimild sakadómara til hlerunar á síma föður míns. Rökin eru (1) ótti við, að hann kunni að trufla starfsfrið Alþingis, þannig að (2) öryggi ríkisins geti stafað hætta af. M.ö.o. faðir minn er grunaður um að vera ofbeldisseggur og landráðamaður.
Á þessum tíma hafði faðir minn setið fimmtán ár sem lýðræðislega kjörinn fulltrúi á Alþingi Íslendinga og átti eftir að sitja þar önnur þrettán ár. Hann getur því talist hafa verið einn af hinum stóru fulltrúum þingræðis á Íslandi á öldinni sem leið. Hann var á þessum tíma annar af tveimur leiðtogum lýðræðislega kjörinnar stjórnarandstöðu á Alþingi. Þremur árum fyrr hafði hann setið um skeið sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands, og átti aftur sæti í ríkisstjórn um áratug síðar. Hann hafði á Alþingi samþykkt með atkvæði sínu varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna og var upp frá því fylgjandi varnarsamstarfi vestrænna lýðræðisríkja. Hann var jafnframt á þessum tíma forseti heildarsamtaka vinnandi fólks á Íslandi, Alþýðusambands Íslands. Hann var lýðræðissinnaður jafnaðarmaður að stjórnmálaskoðun og þingræðissinni fram í fingurgóma – öfugt við ýmsa aðra.
Sá maður er að minni hyggju vandfundinn, sem fyrr eða síðar hefur getað lagt trúnað á sakargiftir um, að Hannibal Valdimarsson hafi í stjórnmálastarfi sínu verið ógnun við starfsfrið Alþingis og öryggi ríkisins. Bjarni Benediktsson, þáverandi dómsmálaráðherra, Baldur Möller, þáv. ráðuneytisstjóri, Valdimar Stefánsson, þáv. sakadómari og Sigurjón Sigðurðsson, þáv. lögreglustjóri, virðast hafa verið annarrar skoðunar. Trúðu þeir því sjálfir, að þessar grafalvarlegu og ærumeiðandi aðdróttanir í garð föður míns væru sannar, eða voru þær yfirvarp eitt, settar fram í því skyni að hylma yfir njósnir um pólitíska andstæðinga?
Það tók fjörutíu og fimm ár að draga staðreyndirnar um þessar pólitísku njósnir gegn föður mínum fram í dagsljósið. Enn í dag er óupplýst, hversu lengi þessar hleranir voru stundaðar, og í hvaða tilgangi þær upplýsingar, sem fengnar voru með þessum hætti, voru nýttar, og hverjir fengu þær í hendur. Vonandi tekur skemmri tíma en hálfa öld að fá það upplýst, þrátt fyrir að yfirmaður íslensku leyniþjónustunnar hafi, að sögn Þórs Whitehead, prófessors, í áðurnefndri Þjóðmálagrein, tekið sér það bessaleyfi að farga gögnum embættisins með meir en lítið vafasömum hætti.
Lokaorð:
Ég veit ekki til þess, að ég, eða nokkur annar úr minni fjölskyldu, hafi gert nokkuð á hlut Sigurjóns Sigurðssonar og fjölskyldu hans. Nú er hins vegar upplýst, að Sigurjón bar fyrir sitt leyti ábyrgð á alvarlegum brotum á friðhelgi einkalífs föður míns og æskuheimilis, á forsendum, sem fá engan veginn staðist að dómi sanngjarnra manna. Hver hefur þá misgert við hvern?
Sigurjón Sigurðsson var ekki einasta opinber embættismaður, heldur líka stjórnmálamaður, – rétt eins og ég og faðir minn, – og sem slíkur umtalaður og umdeildur. Stjórnmálamenn njóta engra forréttinda umfram annað fólk varðandi opinbera umfjöllun. Þvert á móti. Réttur þeirra til æruverndar virðist vera minni en annarra. Það er réttlætt í nafni tjáningarfrelsis í lýðræðisríki. En niðjar Sigurjóns gera kröfu til forréttinda f.h. Embættismannsins Sigurjóns Sigurðssonar. Þeir gera kröfu til þess, að ákæruvaldið höfði mál gegn mér fyrir þeirra hönd, í stað þess að þeir geri það sjálfir, þyki þeim ástæða til. Ég hélt satt að segja, að forréttindi embættisaðals af þessu tagi væru fyrir bí. Það kemur nú í yðar hlut, hr. Saksóknari, að svara þeirri spurningu.
Ég hef vanist þeirri hugsun, að réttindum eigi að fylgja skyldur. Þeir sem áskilja sér rétt til að vera jafnari en aðrir fyrir lögunum, taka vonandi á sig skyldur í það minnsta til jafns við aðra. Þess vegna leyfist mér vonandi að spyrja niðja lögreglustjórans, hvort þeir telji sér líka skylt að biðjast afsökunar á misgerðum, sem framdar voru samkvæmt fyrirmælum hans, á laun og að tilefnislausu, gagnvart friðhelgi einkalífs saklausra borgara? Stendur ekki skrifað: Það sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra?