MAGNÚS MAGNÚSSON – MINNING

Að áliðnu hausti árið 1958 – fyrir hartnær hálfri öld – strukum við Bryndís einn góðan veðurdag í dagrenningu um borð í gamla Gullfoss. Við stungum af frá foreldrum og aðstandendum á vit frelsisins. Ég var á leið til Edinborgar að læra til forsætisráðherra. Hún var á leið til Parísar að nema frönsku og lífskúnst. Leiðir okkar skildi í Leith, hinni lágreistu hafnarborg höfuðborgar Skotlands.

Þegar við gengum frá borði niður landganginn, beið þar mikilúðlegur maður og dreif okkur inn í amríska límúsínu, eins og um opinbera heimsókn væri að ræða. Þessi höfðingi hét Sigursteinn Magnússon, umboðsmaður SÍS í Evrópu og ræðismaður íslenska lýðveldisins á Skotlandi. Hannibal hafði þá haft spurnir af laumufarþegum um borð í Gullfossi og beðið gamlan glímufélaga sinn frá Akureyri að líta til með þeim.

Lúðvík Jósefsson, sjávarútvegsráðherra vinstristjórnarinnar á Íslandi (1956-58), hafði fært út fiskveiðilögsögu Íslendinga í tólf mílur þann 1. september þá um haustið. Fyrsta þorskastríð íslenska lýðveldisins við breska heimsveldið var því á forsíðum blaðanna þessi misserin. Í krafti kenningarinnar um að óvinur óvinar míns væri vinur minn, virtist mér skoskt almenningsálit fremur hliðhollt Íslendingum. Ég hafði verið þá um sumarið háseti á flaggskipi íslenska togaraflotans, Gerpi frá Neskaupstað, útgerðarfélagi Lúðvíks og þeirra Norðfjarðarkomma. Ég afhenti ræðismanninum sumarhýruna mína, sem hann tók að sér að varðveita og ávaxta, og úthlutaði síðan eyðslueyri eftir þörfum, eins og nánar segir frá í Tilhugalífi (bls.94-95). Við Bryndís vorum að byrja nýtt líf.

Næstu fjögur árin var Edinborg mitt annað heimili. Tveir Íslendingar settu á þessum árum sterkan svip á háskólasamfélagið í Edinborg. Það voru þeir Hermann Pálsson, lektor í íslenskum fræðum og Páll Árdal, lektor í heimspeki við Edinborgarháskóla. Heimili þessara landa okkar stóðu íslenskum námsmönnum í borginni alltaf opin. Ég held það hafi verið á heimili Hermanns og Stellu, sem ég hitti fyrst Magnús Magnússon, son Sigursteins ræðismanns og Ingibjargar, sem var lafði af Laxamýrarkyni.

Þeir Hermann hittust þá reglulega á síðkvöldum og um helgar til þess að vinna að þýðingum sínum á hinum helstu Íslendingasagna yfir á ensku. Hermann gætti fræðilegrar nákvæmni, en Magnús léði þýðingunni litbrigði hins listræna stíls. Hann átti ekki langt að sækja það. Lífskúnstnerinn og listaskáldið, Jóhann Sigurjónsson, var ömmubróðir Magnúsar (sem þýðir, að hann var systursonur hins annálaða lögreglustjóra Reykvíkinga, Sigurjóns Sigurðssonar, sem er önnur saga).

Þegar fundum okkar bar fyrst saman, var Magnús þegar orðinn þjóðkunnur blaðamaður með Skotum, þótt hann væri innan við þrítugt. Hann hafði lokið prófum í ensku og enskum bókmenntum frá Jesus College í Oxford. Áhugasvið hans var vítt: Saga og bókmenntir, fornleifafræði og óspjölluð náttúra, auk þess sem fuglaskoðun var hans eftirlætis tómstundaiðja. Fjórtán ára gamall hafði hann unnið ritgerðarsamkeppni á vegum The Royal Society for the Protection of Birds um tilhugalíf svartþrasta. Fjörutíu árum síðar var hann kjörinn forseti þessa félagsskapar. Snemma beygist krókur til þess, sem verða vill.

Magnús var eins og samstarfsmaður hans, Hermann Pálsson, rammur Íslendingur. Íslendingseðlið var honum runnið í merg og blóð, þótt hann væri á öðru ári, þegar fjölskyldan fluttist til Skotlands. Þegar hann óx að visku og þroska, varð hann smám saman helsti sendiherra íslenskrar menningar meðal Breta. En hann lét ekki þar staðar numið. Hann tók ástfóstri við sitt annað fósturland, Skotland. Fyrir utan þýðingar á Íslendingasögum yfir á nútímaensku, birtust ekki færri en átján bækur frá hendi Magnúsar.

Framlag hans til að kynna Skotum sameiginlegan menningararf þeirra og norrænna manna frá Víkingaöld var meira en flestra annarra. En hann var einnig mikilvirkur höfundur um sögu, menningu og náttúrufar Skotlands og skosku eyjanna og þeirra þjóða, sem þau lönd byggja. Seinasta stórvirkið, sem ég hef lesið eftir Magnús, er “Scotland – the Story of a Nation”, sem kom út í kilju árið 2001. Þetta er sagnfræði eins og hún gerist best. Allt sem Magnús fór höndum um sem rithöfundur glæddi hann lífi og lit. Hann var andlegur fjörkálfur, sem lék sér að því að hrífa aðra með sér.

Það er ótrúlegt til þess að hugsa að maður, sem kom jafnmiklu í verk og Magnús, skyldi allan tímann hafa haft fyrir lifibrauð jafn lýjandi starf og blaðamennskan er. En það gerði hann með tilþrifum. Hann byrjaði fjölmiðlaferilinn á alþýðlegu blaði, sem hét Scottish Daily Express. Á Skotlandsárum mínum var hann orðinn aðstoðarritstjóri á Scotsman, sem var virðulegt blað, en frekar dauflynt og íhaldssamt. Vikulegir pistlar Magnúsar, “Magnusson on Monday”, hristu gjarnan upp í þeirri vanaföstu íhaldssemi, sem að öðru leyti einkenndi blaðið.

Einu sinni lentum við Magnús meira að segja í ritdeilu á síðum þessa blaðs. Magnús hafði skrifað ádrepu um menningarlegt metnaðarleysi Skota (þeir voru þá að loka leikhúsum og breyta þeim í bingósali) og ögraði Skotum með því að hin örfámenna og fátæka grannþjóð þeirra, Íslendingar, væru sýnu metnaðarfyllri í sinni menningarpólitík en Skotar. Mér fannst Magnús skjalla landa vora um of og að hann byggi til glansmynd af bókaþjóðinni, sem hún risi tæpast undir. Ég benti á, að blómi íslenskra námsmanna sækti menntun sína erlendis, og að aðrar þjóðir (þ.m.t. Skotar) greiddu hana niður fyrir okkur. Vísindi og rannsóknir væru í fjársvelti. Sá hluti þjóðarinnar, sem lyki háskólaprófum væri lítill í alþjóðlegum samanburði, Og þótt útgefnir titlar væru margir miðað við höfðatölu, væri fæst af því merkilegar bókmenntir, enda þættust Íslendingar ekki lengur hafa efni á að þýða sígildar bókmenntir á íslensku.

Endurómur af þessum orðahnippingum barst til Íslands og varð ekki til að auka hróður undirritaðs. Um stund hélt ég að slest hefði upp á vinskap okkar Magnúsar. En þegar ég hitti hann næst í félagsskap Hermanns, sagði hann vingjarnlega og blátt áfram: “Hermann segir mér, að þú hafir mikið til þíns máls. En þá segi ég bara: Oft má satt kyrrt liggja.” – Kannski var Island honum draumsýn. Mér var klakinn bláköld alvara. Eftir á að hyggja finnst mér, að hann hafi haft rétt fyrir sér.

Þótt Magnús hafi orðið þjóðkunnur meðal Skota á ungum aldri, reis frægðarsól hans fyrst sem fjölmiðlamanns, þegar hann tók við stjórn “Mastermind”, hins alræmda sjónvarpsþáttar hjá BBC. Undir stjórn Magnúsar varð þetta einhver vinsælasti sjónvarpsþáttur allra tíma meðal Breta. Magnús stýrði honum hvorki meira né minna en í aldarfjórðung með meistaralegum tilþrifum. Nafn hans var á hvers manns vörum, og hann var undir lokin kominn í dýrlingatölu hjá breskum gáfnaljósum. Það var fyllilega verðskuldað. Sjálfur bjó Magnús yfir djúpri alfræðiþekkingu á breiðu sviði, fyrir utan það að þekkingin var honum aldrei dauður bókstafur, heldur andlegur innblástur, sem hreif og heillaði aðra.

Á ráðherraárum mínum lágu leiðir okkar Magnúsar stundum saman, þegar mikið lá við að auka hróður Íslands í augum útlendinga. Þá var gott að eiga hauk í horni, þar sem Magnús var. Einhverju sinni í fjármálaráðherratíð minni þótti brýnt að heilaþvo lánardrottna Íslands úr fjármálaheiminum með málþingi um bjartar framtíðarhorfur smáþjóðarinnnar í samkeppnissólkerfi hagvaxtarins. Bankastjórunum var boðið til kvöldverðar í stofu Skúla fógeta í Viðey og Magnús var beðinn að messa.

Hann fór með víkingaöldina, landnámið, þjóðveldið, landafundi Ameríku, bókmenntirnar, miðaldirnar, endurreisnina og Einar Ben í fáeinum dæmisögum og með skáldlegum tilvitnunum á innan við stundarfjórðungi. Þetta er það sem Frakkar kalla tour de force, en ég útlegg það sem náðarkraft. Þetta hefði enginn getað leikið eftir honum. Meira að segja bankastjórarnir brugðust við eins og unglingar á bítlablóti. Ég hef heyrt marga snjalla samkvæmisræðumenn um dagana, ekki síst breska, en þar í landi hefur þessi listgrein risið hæst. En engan hef ég heyrt Magnúsi fremri – hingað til.

Að liðnu æviskeiði einnar kynslóðar frá því að ég kvaddi Edinborg, leitaði hugurinn aftur á fornar slóðir. Við Bryndís eyddum tveimur vikum á Edinborgarhátíð þar sem við lögðum við hlustir og létum sjón nema, það sem fyrir augum bar: á leiksviði, tónleikum, myndlistarsýningum og á breiðtjaldinu. Síðan ókum við um skosku hálöndin og sigldum út í eyjar blár með Skotlandsströndum með Víkinga- og Skotlandssögu Magnúsar í farteskinu. Þetta heitir að ferðast með veisluna í farangrinum.

Á heimleiðinni þóttumst við ekki geta gengið hjá garði þessa farandssendiherra norrænnar menningar meðal Skota. Og tókum því hús á Magnúsi og Mamie í Ol’Glasgie. Það varð samfelld síðdegisveisla í ógleymanlegum félagsskap. Stundin varð hraðfleyg við upprifjun gamalla minninga, sem spannaði að vísu ellefu hundruð ár og gervallt sögusvið Víkingaaldar, frá nýja heiminum til væringja í austurvegi að innrásinni í litla England 1066 og allt það. Þá var Hermanns Pálssonar sárt saknað. Nú er röðin komin að okkur að sakna sagnameistarans, sem veitti svo mörgum svo mikið og af svo miklu örlæti, að lengi verður í minnum haft.