BROTTFÖR HERSINS: ÍSLAND OG BANDARÍKIN, EIGUM VIÐ SAMLEIÐ?:

Þann 15. mars s.l. tilkynntu bandarísk stjórnvöld einhliða þá ákvörðun sína að binda endi á veru varnarliðsins hér á landi eftir um sex áratuga nær óslitna dvöl í landinu. Eftir sátu þáv. forsætis- og utanríkisráðherrar Íslands, vígsnautarnir úr Írakstríðinu furðu lostnir og vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið. Þeir höfðu reynt að telja sjálfum sér og öðrum trú um að samningaviðræður væru í gangi, á grundvelli varnarsamningsins frá 1951. Allt í einu stóðu þessir menn uppi eins og glópar frammi fyrir orðnum hlut. Þeir höfðu gert sig seka um rangt stöðumat, óleyfilega trúgirni og dómgreindarbrest.

Einhliða ákvarðanir Bandaríkjastjórnar.

Hið ranga stöðumat fólst í því að loka augunum fyrir því að ákvörðunin var fyrir löngu tekin í Pentagon um heimkvaðningu varnarliðsins. Trúgirnin birtist í því að þessir menn héldu, að þeir væru teknir alvarlega í samningaviðræðum. Svo reyndist ekki vera. Dómgreindarbrestur má það heita að beita hótunum – um uppsögn varnarsamningsins – en standa svo ekki við það, þegar á reyndi. Hótunin reyndist marklaus. Núverandi forsætisráðherra bætti ekki úr skák þegar hann lýsti því yfir, að í varnarmálum ættu Íslendingar “ekki annarra kosta völ” en að leita á náðir Bandaríkjamanna. Það var ekkert “plan-B,” frekar en í Írak. Þar með eyðilagði hann samningsstöðu sína.

Niðurstaðan varð eins og við var að búast, miðað við svona málatilbúnað. Hún var sú hin sama og Bandaríkjamenn höfðu áður tilkynnt einhliða fyrirfram. Fjórum dögum áður en seinasti hermaðurinn kveður og allur varnarviðbúnaður er á brott, ítreka Bandaríkjamenn með pólitískri yfirlýsingu að þeir muni áfram bera ábyrgð á öryggi Íslands, en úr fjarlægð og samkvæmt varnaráætlun, sem á að vera hernaðarleyndarmál. Restin reyndist prútt um fasteignir og þrifnað gestanna sem nú eru farnir.

Það er forystumanna flokkanna og þeirra sem sitja í utanríkismálanefnd Alþingis að meta þessar niðurstöður og kynna þær fyrir þjóðinni, þ.e. hafi þeir haldbetri upplýsingar í höndum hvað nákvæmlega í þessu felst, en birt hefur verið opinberlega. Miðað við þær takmörkuðu upplýsingar sem birst hafa er flestum spurningum sem máli skipta ósvarað: Hverjir taka ákvarðanir um varnarviðbrögð, ef á reynir? Vart er þess að vænta að bandarísk hernaðaryfirvöld framselji skipunarvald yfir bandarískum hermönnum í hendur annarra þjóða? Þannig mætti lengi spyrja. Við hin, sem metum málið í ljósi almennra upplýsinga, hljótum að spyrja okkur sjálf af þessu tilefni: Er þessi niðurstaða í samræmi við íslenska þjóðarhagsmuni? Er það svo, miðað við ríkjandi ástand í heimsmálum að þjóðarhagsmunir Íslendinga, sem vopnlausrar smáþjóðar, fari saman við hagsmuni og hegðun heimsveldisins? Eða getur verið að það sé beinlínis háskalegt fámennri smáþjóð að bindast hernaðarhagsmunum herveldisins með þeim hætti sem hér er ráð fyrir gert?

Ljónið og lambið: Eiga þau samleið?

Til þess að leita svara við þessum spurningum verðum við fyrst að átta okkur á því, að Bandaríkin, sem bjóða heiminum birginn í dag, eru ekki þau hin sömu og voru “vopnabúr lýðræðisins” undir forystu Roosevelts í seinni heimstyrjöldinni. Roosevelt var sjálfur guðfaðir Sameinuðu þjóðann í upphafi. Olíumennirnir frá Texas, sem nú ráða Bandaríkjunum, líta á Sameinuðu þjóðirnar í besta falli sem saumaklúbb, í versta falli sem plágu.

Upp úr stríði beittu Bandaríkin sér fyrir Marshallaðstoðinni til að hraða uppbyggingu úr rústum stríðsins. Leiðtogar Bandaríkjanna skildu þá, að lýðræðislegur stjórnarhættir þrífast ekki, þar sem örbirgð og vonleysi ráða ríkjum. Á tímabili kalda stríðsins leituðu Bandaríkjamenn samstarfs við aðrar lýðræðisþjóðir um að sýna fram á yfirburði lýðræðislegs stjórnarfars umfram alræði fasismans og sovétkommúnismans.

Á þeim forsendum voru Bandaríkin eðlilegur bandamaður annarra lýðræðissinna á grundvelli sameiginlegra gilda : Lýðræði, mannréttindi og réttarríki. Þetta er nú liðin tíð. Þótt hægri-öfgamennirnir, sem nú ráða lögum og lofum í Bandaríkjunum, taki sér gjarnan slík orð í munn, tala verkin allt öðru máli, svo að hinn falski tónn sker í eyru.

Hægriöfgaöfl, sem þrífast á þjóðrembu, trúarofstæki og heimsveldishroka, hafa jafnt og þétt verið að festa sig í sessi í Bandaríkjunum. Þetta endurspeglar þá þróun, að land tækifæranna er nú orðið að mesta ójafnaðarríki meðal hinna þróuðu þjóða heims. Annars vegar er ofurrík yfirstétt, sem ræður lögum og lofum, en hins vegar er blásnauð undirstétt, sem nýtur takmarkaðra mannréttinda, t.d. að því er varðar menntun og heilsugæsu. Á milli öfganna er aðþrengd millistétt, sem sætir versnandi kjörum. Auður yfirstéttarinnar er af stjarnfræðilegri stærðargráðu og völd hennar og áhrif eru eftir því. Þessi yfirstétt ræður ekki aðeins fjölmiðlunum og skoðanamyndun í landinu, heldur hefur hún beinlínis keypt lýðræðið í sína þjónustu. Græðgin er hennar guðstrú; hennar er ríkið, mátturinn og dýrðin. Venjulegt fólk hefur við þessar kringumstæður glatað trúnni á lýðræðið og tekur ekki þátt í því framar.

Hin svokallaða hernaðarkenning Bandaríkjanna frá árinu 2002 er talandi dæmi um hinn ráðandi valdhroka. Samkvæmt kenningunni áskilja Bandaríkin sér rétt til þess að beita hervaldi hvar sem og er og hvenær sem er, ef þeir telja, að það þjóni hagsmunum Bandaríkjanna (les: yfirstéttarinnar). Álit alþjóðasamfélagsins kemur málinu ekki við. Þetta jafngildir því að segja sig úr lögum við alþjóðasamfélagið. Heimsveldið lýsir því yfir, að það þarfnast ekki bandamanna, það þarf bara leppríki. Kína hefur verið skilgreint sem óvinaríki framtíðarinnar. Að mati sumra sérfræðinga hefur ofneyslusamfélagið bandaríska þegar hafið kalt stríð, sem snýst um yfirráð yfir orkulindum og helstu hráefnum jarðarinnar. Heimsveldið er nú í óða önn að endurskipuleggja herstöðvanet sitt um heiminn með hliðsjón af þessum markmiðum. Brottför hersins af Íslandi er liður í þeirri áætlun.

Hættuleg heimsfriðnum.

Til þess að standa við yfirlýst markmið hernaðarkenningarinnar um að Bandaríkin ætli sér að ráða lögum og lofum í krafti hervalds á landi, sjó, í lofti og í geimnum hefur núverandi ríkisstjórn tvöfaldað framlög sín til vígbúnaðar. Bandaríkin verja nú hærri fjárhæðum til vígbúnaðar en allar aðrar þjóðir heims til samans. Á sama tíma er þetta ríkasta þjóðfélag heims á botni listans yfir framlög til þróunaraðstoðar við fátækar þjóðir. Þetta endurspeglar öfgar ráðandi hugmyndafræði, hina svarthvítu heimsmynd, sem lýsir sér í þessum orðum forsetans: Sá sem ekki er með okkur, er á móti okkur.

Heimstyrjöldin gegn hryðjuverkamönnum endurspeglar þetta hugarfar. Skilningur á því upp úr hvers konar jarðvegi hryðjuverkamenn eru sprottnir, viðist afar takmarkaður. Fátækt, hungur, sjúkdómar, ofbeldi, kúgun og vonleysi um að friðsamlegar lausnir skili árangri – það er við þess konar kringumstæður, sem hryðjuverkamenn þrífast. Hátæknihernaður úr háloftunum með allri þeirri eyðileggingu, sem af hlýst, og blóðfórnum saklausra borgara, er til þess helst fallið að auka stuðning við hryðjuverkamenn og fjölga þeim, eins og dæmin frá Afganistan, Palestínu, Líbanon og Írak sýna okkur frá degi til dags.

Stefna bandarískra stjórnvalda í stríðinu gegn hryðjuverkamönnum er vanhugsuð í grundvallaratriðum og hefur þveröfug áhrif á við yfirlýst markmið. Augu bandalagsþjóðanna í NATO eru smám saman að opnast fyrir þessu. Utanríkisráðherrar ýmissa Evrópuþjóða lýsa því nú yfir, hver á fætur öðrum, að þetta sé tapað stríð. Fyrir nokkrum árum reis upp mikill spámaður úr röðum fræðimanna, Samuel Huntington að nafni, og varaði við hættunni af árekstrum siðmenninga, sem gæti tekið við af tvískiptingu heimsins milli hugmyndakerfa kalda stríðsins. Utanríkisstefna Bandaríkjanna virðist þjóna þeim tilgangi helst að gera þessi varnaðarorð að veruleika. Stefna Bandaríkjanna er með öðrum orðum hættuleg heimsfriðnum.

Svo getur hver og einn svarað því fyrir sig, hvort öryggi vopnalausrar smáþjóðar er best borgið í bandalagi við slíkt herveldi.