BANDALAGSÞJÓÐ ÍSLENDINGA Á ÖÐRU FRAMFARASKEIÐI Arnold Ruutel, forseti Eistlands, í opinberri heimsókn á Íslandi

Þann 20. apríl s.l. var þjóðfáni Eista og annarra Eystrasalts- og Austur Evrópuþjóða dreginn að hún í aðalstöðvum NATO í Brussel. Og fyrir þremur dögum var sambærileg athöfn í höfuðstöðvum Evrópusambandsins í höfuðborg Evrópu. Þar með hafði megin markmiðum þessara þjóða um að sameinast á ný þjóðafjölskyldu Evrópu verið náð.

Þessir dagar voru sannkallaðir þjóðhátíðardagar í Tallinn, Riga og Vilnius. Þar með eru Eistar, Lettar og Litháar orðnir bandalagsþjóðir okkar Íslendinga í Atlanzhafsbandalaginu og samstarfsaðilar á Evrópska efnahagssvæðinu. Þessi árangur hefur náðst aðeins þrettán árum eftir að Íslendingar urðu fyrstir þjóða til að viðurkenna endurreist sjálfstæði þessara þjóða í ágúst 1991.Þar með er martröð seinni heimstyrjaldarinnar og hálfrar aldar nauðungarvistar í þjóðafangelsi Sovétríkjanna lokið og framtíðaröryggi tryggt, eins og það best getur orðið í ótryggri veröld.

Max Jakobson, the grand old man finnsku utanríkisþjónustunnar, segir frá því í endurminningum sínum, að árið 1922 hafi “the Economist” í London birt landakort, þar sem Finnland var sýnt sem hluti Sóvétríkjanna. Þegar finnski sendiherrann í London bar fram mótmæli, fékk hann eftirfarandi svar: “Við breytum ekki landakortum út af tímabundnum breytingum”. Það var stutt í heimsveldishrokann þá sem fyrr.
Árið 1938 sagði Neville Chamberlain, þáverandi forsætisráðherra Breta, að Tékkóslóvakía væri “fjarlægt land, sem kæmi Stóra Bretlandi ekki við”. Og árið 1940, um það leyti sem Rauði herinn hernam Eystrasaltslöndin í fyrra sinn, minnti Vyacheslav Molotov, untanríkisráðherra Stalíns, leiðtoga Eystrasaltsþjóða á það, að” tími smáþjóða væri liðinn”. Ummæli þessara manna eru enn í dag þörf áminning um, hversu glámskyggn “stórmenni” samtímans geta verið, frammi fyrir dómi sögunnar.

Hraðfara umbætur.

Það er ekki á margra færi nú að setja sig í spor þeirra manna, sem tóku við stjórn hins nýfrjálsa Eistlands fyrir þrettán árum. Hvernig á að fullnægja þörfum fólks, þar sem enginn á neitt? Þar sem enginn hefur frumkvæði að neinu? Þar sem allt byggist á leyfum yfirvalda og verðlag ræðst af fyrirskipunum – frá Moskvu? Það þurfti löggjöf um vðiurkenningu og verndun eignaréttar. Það þurfti að einkavæða land og ríkiseignir. Það þurfti að gefa verðlag frjálst – án þess að af hlytist óðaverðbólga. Það þurfti nýjan gjaldmiðil í stað verðlausrar rúblu – gjaldmiðil sem nyti trausts.
Þar sem framleiðslan var í lamasessi þurfti að koma á frjálsri milliríkjaverslun, án tolla og viðskiptahindrana. Til þess þurfti bankakerfi, sem ábyrgðist traustan gjaldmiðil.Og það þurfti skattakerfi til að afla tekna fyrir sameiginlegum þörfum (skólar, sjúkrahús, ellilífeyrir, orku- og samgöngukerfi), án þess að skattar væru vinnuletjandi. Það þurfti með öðrum orðum að byrja upp á nýtt: Skapa frá grunni nýtt þjóðfélag frjálsra manna, án þess að allt lenti í stjónleysi, upplausn og óðaverðbólgu. Það hlaut að kosta átök. Þá reynir sem aldrei fyrr á vit, forystuhæfileika og samheldni ólíkra þjóðfélagsafla.

Þeir sem standa í þessum sporum eiga í reynd tveggja kosta völ: Á að fara “hraðferð” – keyra áfram heildstæða umbótaáætlun á sem skemmstum tíma (sjokk – þerapía) eða á að fara leið hægfara umbóta? Ef hraðferðin tekst, verður óhjákvæmilegur sársauki, sem hlýst af svo róttækum breytingum (atvinnuleysi, óðaverðbólga og lífskjaraskerðing), skammær. Þeir sem vilja fara leið hægfara umbóta vona að sársaukinn verði minni, og að hægt sé að koma við lyfjagjöf. En áhættan er sú, að umbótaviljinn dvíni og að úthaldið bresti. Þá er hætt við að sjúklingnum slái niður aftur, og að hálfkarað verk skili ekki tilætluðum árangri.

Eistar völdu hraðferðina. Sársaukinn varð í upphafi mikill, en þeir höfðu úthald, svo að brátt bráði af þeim. Eftir 2-3 fyrstu árin fór nýja kerfið að skila árangri. Frumkvæði og framkvæmdagleði var leyst úr viðjum. Eistneska krónan var bundin við mastur þýska marksins (eftir 1999 við evruna) og stóð af sér verðbólgubálið. Einkavæðingin tókst betur en víðast hvar, því að hagkerfið var strax í upphafi opnað fyrir erlendum fjárfestingum og frjálsum fjármagnsflutningum. Þannig voru reistar nokkrar skorður við einkavinavæðingu forréttindahópa gamla kerfisins.
Verndartollar, niðurgreiðslur og landbúnaðarstyrkir gamla kerfisins voru afnumdir með einu pennastriki. Skattkerfið var eins einfalt og hugsast gat. Tekjuskattur einstaklinga af öllum tekjum – líka fjármagnstekjum – var stilltur á 26% í einu þrepi. Tekjuskattur fyrirtækja er enginn, ef arður er endurfjárfestur. Virðisaukaskattur á neyslu er 18% á breiðan stofn. Ríkisfjármál eru í jöfnuði. Atvinnurekendur greiða 33% launaskatt, sem stendur undir heilsugæslu, velferðarþjónustu og grunnellilífeyri. Á árunum 1998-2002, þegar hagvöxtur var farinn að skila tekjum, var tekið upp þriggja-stoða eftirlaunakerfi, sem að litlum hluta er fjármagnað með sköttum, en að mestu leyti með skylduframlögum og sjálfviljugum sparnaði. Skattaívilnunum er beitt til að örva sparnað og ellilífeyrir ber lægri skatta en aðrar tekjur. Það er komin velferðarhugsun inn í kerfið.

Árangur sem erfiði.

Þótt ríkisstjórnir hafi komið og farið – því að umbætur kosta átök – hafa Eistar haldið fast við upphaflega markaða stefnu og náð betri árangri en flestar aðrar þjóðir, sem upphaflega stóðu í svipuðum sporum. Hagvöxtur hefur verið að jafnaði um 5% á ári frá 1995. Sambærilegum hagvexti eða jafnvel ívið meiri er spáð á næstu árum. Þjóðartekjur á mann árið 2003 voru 5.560 evrur. Erlendar fjárfestingar voru 2003 um 5.2 milljarðar evra (756 milljónir evra á ári) og kveður þar langmest að Svíum og Finnum (70%). Helstu viðskiptaþjóðir eru Finnar, Svíar og Þjóðverjar. Lánstraust þjóðarbúsins er traust (Moody´s: A1). Eistland telst vera samkvæmt alþjóðlegum samanburðartöflum sjötta í röðinni af 155 löndum varðandi viðskiptafrelsi; nr. 22 af 102 löndum varðandi samkeppnishæfni; nr. 33 af 133 löndum varðandi “vandaða stjórnsýslu” (spillingu).

Sjálfir leggja Eistar áherslu á að þeir séu staðráðnir í að viðhalda samkeppnishæfni sinni og hagstæðu viðskiptaumhverfi yfir erlenda fjárfesta. Þeir vita sem er að samkeppnishæfnin getur ekki til langframa byggst á einu saman lágum launum og lágum sköttum, heldur menntuðu og hæfu starfsfólki. Þess vegna hafa þeir lagt miikla áherslu á að ná tökum á upplýsingabyltingunni: Um 40% heimila eiga þegar tölvu, um 70% þeirra eru nettengd og allir skólar eru þegar nettengdir. Um 62% hinna nettengdu sinna daglegum bankaviðskiptum á netinu.
Eistar kalla ríkisstjórn sína “E-stjórn”. Frá og með ágúst 2000 eru ríkisstjórnarfundir pappírslaus samskipti; ráðherrar sitja fyrir framan tölvuskjá og vísa til frumvarpa og skjala á stjórnsýslunetinu. Þetta sparar milljónir í pappírssólund. Þetta endurspeglar líka þá staðreynd að unga kynslóðin var frá upphafi því sem næst allsráðandi í viðskiptum og stjórnsýslu: Forsætisráðherrann Juhan Parts og utanríkisráðaherrann, Kristiina Ojuland, sem er eina konan í ríkisstjórninni, eru jafnaldrar – 38 ára að aldri.

Viðvarandi vandamál.

En þótt unga kynslóðin láti hendur standa fram úr ermum eru Eistar samt “elsta” þjóð Evrópu. Samkvæmt manntali árið 2000 voru íbúar landsins tæplega 200.000 færri en árið 1989. Árið 1934 voru Eistar 992.520, en árið 2000 hafði þeim fækkað í 930.219. Íbúum af rússneksu þjóðerni hefur á sama tíma fjölgað úr rúmlega 92.000 í rúmlega 351.000. Landflóttinn eftir stríð, nauðungarflutningarnir til Síberíu og efnahagsþrengingar þjóðarinnar fram undir það síðasta, hafa tekið sinn toll.
Við þetta bætist að ójöfnuður – sem er óhjákvæmileg afleiðing hins óhefta markaðskerfis – hefur hraðvaxið. Þeir sem stóðu best að vígi við að kaupa fyrirtæki og aðrar eignir í einkavæðingarferlinu, á lágu verði, hafa hagnast vel. Hin vel menntaða unga kynslóð, í þjónustu vaxandi einkageira, er tiltölulega vel launuð. En venjulegt verkafólk og þeir sem starfa í opinberri þjónustu (kennarar, umönnunarstéttir o.fl.), sitja eftir, sem og fjölmennur hópur ellilífeyrisþega. Tallinn blómstrar en landsbyggðin situr eftir. Þrátt fyrir lág laun (um 20-25% af launum í Finnlandi) er atvinnuleysi enn mikið (10% að meðaltali en mun hærra sums staðar á landsbyggðinni). Ójöfnuður af þessu tagi bíður heim spillingu: Mútur, svört afvinnustarfsemi og skattsvik eru enn vandamál í öllum Eystrasaltsríkjunum og í Austur Evrópu. En minnst í Slóveníu og Eistlandi af öllum nýju aðildarríkjunum.

Eistar eru byrjaðir að taka á félagslegum afleiðingum þjóðfélagsbyltingarinnar, sem riðið hefur yfir á undanförnum hálfum öðrum áratug. Á árunum 1998-2002 lögleiddu þeir þriggja-stoða eftirlaunakerfi, sem mun bæta hag eldri kynslóðarinnar umtalsvert, þegar fram í sækir. Laun og skatttekjur fara hækkandi. Opinberi geirinn (ríki og sveitarfélög) spannar nú þegar jafnhátt hlutfall þjóðarframleiðslu og á Íslandi (39% af VLF árið 2003).Áform núverandi ríkisstjórnar um lækkun tekjuskatts einstaklinga úr 26% í 20% í áföngum náði ekki fram að ganga í þinginu – Riigikogu – á s.l. hausti. Eistar eru smám saman að átta sig á því að skattar eru það verð, sem menn verða að greiða, fyrir að lifa í siðmenntuðu samfélagi.

Sambúð og samkeppni.

Í tilefni af inngöngu Eystrasaltsþjóða í Evrópusambandið þann 1. maí s.l. Fara nú fram miklar umræður beggja vegna Eystrasaltsins um samkeppnishæfni hins norræna velferðarríkis, með sín háu laun og háu skatta, í samanburði við hagvaxtartígrana ungu. Sumir spá því að fyrirtæki, hálaunafólk og ellilífeyrisþegar frá Finnlandi og Svíþjóð muni flykkjast yfir sundið til að njóta þar lágra skatta og lægra verðlags.
Kannanir benda til að þetta sé mjög orðum aukið. Í fyrsta lagi vegna þess að þau fyrirtæki, sem byggja framleiðslu sína á láglaunum og lélegu starfsumhverfi, eru mörg hver þegar farin. Og eru þegar farin að kvarta undan hækkandi launum og hóta brottflutningi til Úkraínu, Hvíta-Rússlands eða jafnvel Kína. Hvert ætla þau að flýja næst?
Í öðru lagi munu Eystrasaltslöndin, með inngöngu í Evrópusambandið, verða að uppfylla staðla ESB um vinnuskilyrði og starfsumhverfi. Saga Evrópusambandsins sýnir, að það er hið mikla jöfnunarafl í okkar heimshluta. Það ver verulegum fjármunum til að lyfta hinum fátækari Evrópuþjóðum upp til jafns við þau, sem efnaðri eru (sbr. Spán, Portúgal, S-Ítalíu og Grikkland – en ekki hvað síst Írland). Laun og lífskjör A-Evrópu – og Eystrasaltsþjóða munu fara ört hækkandi á næstu árum. Samkeppnisforskot í skjóli lágra launa og lélegs starfsumhverfis er því ekki varanlegt, heldur tímabundið. Spurningin er bara um það, hversu langan tíma það tekur að jafna metin.

Finnland (og Svíþjóð) hafa sankað að sér verðlaunum á s.l. Árum fyrir að vera “samkeppnishæfasta þjóðfélag heims”, “tæknivæddasta þjóðfélag í heimi”, “óspilltasta þjóðfélag í heimi” og Svíþjóð sem land “örustu tækninýjunga í heimi”. Samkeppnishæfni þessara þjóða byggir því ekki á lágum launum og lágum sköttum, heldur á góðri menntun, sérhæfingu og tæknikunnáttu, rannsóknum og þróun, sem hafa skilað þeim áleiðis í fremstu röð í upplýsinga- og tæknibyltingu, þar sem samkeppnin er hörðust á alþjóðamörkuðum. Samkeppnishæfnin byggir á hárri framleiðni. Tiltölulega háir skattar standa þar undir fjárfestingu í menntun, tæknikunnáttu, starfsþjálfun og tæknivæðingu. Þessi fjárfesting hefur bætt samkeppnisstöðu Norðurlanda, þar sem virðisaukinn er mestur og framleiðniaukningin er til langframa.
——–
Þjóðfélögin vestan og austan Eystrasalts eru á ólíku þróunarstigi. Það hefur til skamms tíma kosti fyrir báða varðandi fjárfestingartækifæri og kostnaðaraðhald. En með samrunaferlinu innan Evrópusambandsins munu þessi þjófðelög nálgast hvert annað óðfluga um lífskjör og þjóðfélagsgerð. Þau munu áfram keppa að því að vera samkeppnishæf markaðsþjóðfélög. En jöfnun tækifæra til menntunar og aukinn félagslegur jöfnuður verður tryggður með sköttum til að fjármagna samfélagsþjónustu, í krafti meirihlutavilja í lýðræðisþjóðfélagi.

Eystrasaltssvæðið hefur alla burði til að verða helsta hagvaxtarsvæði hinnar nýju Evrópu á komandi árum. Eistar hafa haldið vel á sínum spilum við uppbyggingu nýs þjóðfélags, sem risið hefur með undrahraða upp úr rústum fortíðarinnar. Þeir geta því litið björtum augum til framtíðarinnar í samfélagi lýðræðisríkja Evrópu.