BERGUR SIGUBJÖRNSSON – MINNING

Bergur var óvenjulegur maður. Hann var frjáls í hugsun, frjáls andi. Hann var útkjálkamaður með heimssýn, heimsborgari með djúpar rætur í heimahögum. Hann gerðist þjóðvarnarmaður í ærlegu andófi við veru bandarísks hers á Miðnesheiði, enda frá frá Heiðarhöfn á Langanesi. Samt var hann aldrei þjóðernissinni í þeim skilningi, að hann vildi upphefja ágæti eign þjóðar á kostnað annarra. Þess vegna átti hann stutta samleið með þeim , sem byggðu andóf sitt gegn hersetunni á einni saman þjóðrembunni. Hann var ekki þannig maður. Samt var hann einn af þeim.

Að loknu prófi í viðskiptafræði frá Gylfa og Ólafi Björnssyni, hélt hann eftir stríð til Svíþjóðar, þar sem hann las hagfræði. Það var á þeim tíma, þegar Stokkhólmsháskóli var einhver besti hagfræðiháskóli í heimi. Bergur var fínn hagfræðingur. Og hafði alltaf, meðan okkar kynni héldust, ómengaðan áhuga á því sem máli skipti um þjóðfélagið, sem hættir til að fara fyrir ofan garð og neðan hjá þeim sem halda að hagfræði snúist um bókhald.

Ekki svo að skilja: Bergur kunni sitt bókhald og hafði löngum atvinnu af því. Svo sem eins og hver sá sem kann að flaka fisk, en menn vilja fremur sjá í brúnni en á dekkinu, af því að menn vita, að hann kann á sjókort og kompás.
Hann var óvenjulegur maður, fullur af þversögnum. Þjóðvarnarmaður án þess að vera þjóðernissinni; alþjóðasinni án þess að vera rótlaust rekald; fínn hagfræðingur, án þess að vera ginnkeyptur fyrir trúboðskenningum rétttrúnaðar samkvæmt ríkjandi tísku. Hann var praktískur maður sem annaðist bókhald annarra án þess að gleyma því, að bókmenntir skipta meira máli en bókhald.

En af því að hann var svona flínkur hagfræðingur, kom mér á óvart, hvað hann var lítill sósíaldemókrat, þrátt fyrir gott innræti. Því olli Langanesið og landsbyggðarþrákelknin. Ætli Bjartur í Sumarhúsum hafi ekki staðið honum nærri? Þrjóskan og þvergirðingshátturinn, þetta sem þarf til að að lifa af við kröpp kjör. Þess vegna leiddist honum innst inni í Svíþjóð.

Við kynntumst fyrst vorið 1964, þegar ég var nýkominn heim frá námi – frá Svíþjóð. Bergur sat þá uppi með vikublaðið Frjálsa þjóð, hið gamla málgagn Þjóðvarnarflokksins, sem lifði fyrir hans ræktarsemi, þótt flestir, sem þóttust meiri þjóðernissinnar, væru flúnir af hólmi, enda fákunnandi um rekstur. Bergur hélt blaðinu á floti. Það hafði enn á 5ta þúsund áskrifendur um land allt. Þetta var fólk, sem var á móti amerískri hersetu, án þess að hafa gengið í trúfélag með Stalíni. Þetta var ærlegt fólk: Vinstri kratar og vinstri framsóknarmenn og aðrir munaðarleysingjar í hinu íslenska flokkakerfi.

Það var víst Bergur, sem bað mig að tala á fundi herstöðvaandstæðinga í Stjörnubíói síðla vors 1964. Kannski vissi hann ekki, hvað beið hans. Ég var nýkominn heim frá námi. Ég hafði aflært marxismann; ég fyrirleit fordæðuskap Stalínismans og þóttist hafa lært það af harmkvælasögu millistríðsáranna, að lýðræðið ætti að verja sig: Láta hart mæta hörðu.
Þessi ræða fékk dræmar undirtektir í Stjörnubíói vorið 1964.
En Bergur var kjarkmaður. Hann hafði blað og áskrifendur, en vantaði mann með boðskap eftir að upphaflegir aðstandendur blaðsins voru flúnir af vettvangi. Hann bauð mér Frjálsa þjóð, og ég þáði með þökkum. Þar með byrjaði mitt pólitíska heimatrúboð, sem stóð næstu þrjá áratugina eða rúmlega það. Fyrst í stað sá Bergur um bókhaldið, og þar stóð allt eins og stafur á bók.

Hann var ekki endilega sammála því, sem stóð í blaðinu. Enda fremur Langnesingur en sósíaldemókrat. En hann rengdi ekki, að það sem í blaðinu stóð, væri þess virði, að það væri sagt. Og svo sneri hann sér að öðrum málum, þar sem hagfræðingurinn Bergur fékk að njóta sín: Í kjararannsóknarnefnd, í Framkvæmdastofnun ríkisins og hjá Sambandi sveitafélaga á Austurlandi eftir að hann var snúinn heim með Arnljóti.

Ég fór vestur, hann fór austur. Lengi vel var fátt með vinum. Eftir að ég var tekinn við forystu Alþýðuflokksins og fór hundrað fundi um byggðir Íslands að boða fagnaðarerindið, gisti ég stundum að Bergi og Arnljóti. Það urðu ævinlega fagnaðarfundir. En mér duldist ekki, að Austfirðingurinn – eða var það Langnesingurinn – átti ekki lengur samleið með Vestfirðingnum og krataleiðtoganum. En við óskuðum hvor öðrum góðs í torfærum tilverunnar, þótt hvor kysi að fara sína leið.

Bergur var alla tíð trúr uppruna sínum sem frjáls maður. Hann var einskis manns taglhnýtingur eða trússberi. Á yngri árum ekki aðeins sjálfstæður í skoðunum heldur frumlegur, áræðinn, kjarkmikill og æðrulaus. Margur hefur komist af með minna. Mér þótti vænt um þennan áræðna andófsmann, sem ævinlega fór sínar eigin leiðir. Fari hann í friði.