HANNES HAFSTEIN- MINNING

“Ert þú þessi frægi Hannes?” – spurði Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs þegar ég kynnti fyrir henni Hannes Hafstein, aðalsamningamann Íslands í samningum EFTA-ríkjanna við Evrópusambandið um Evrópska efnahagssvæðið. Það sem við köllum EES í daglegu tali. Tónninn gaf til kynna að henni þætti nokkuð til þess koma að taka í höndina á þessum alræmda samningaþjarki Íslands. Þeir eru ekki margir, embættismenn íslenskir, sem forsætisráðherrar í útlöndum leita uppi á alþjóðafundum til þess að mega kasta á þá kveðju. Stjórnmálaforingjum, hverrar þjóðar sem þeir eru, er yfirleitt flest annað betur gefið en örlæti í garð annarra. Þessi saga segir því meira en mörg orð um þau bæði – Gro Harlem og Hannes.

Starf aðalsamningamanns Íslands í EES – samningunum við Evrópubandalagið var hápunkturinn á starfsferli Hannesar Hafsteins. Hafi einhverjir haft um það efasemdir fyrirfram, að Hannes væri réttur maður á réttum stað í því vandasama hlutverki, þá velktist enginn í vafa um það eftirá. Hvorki við, sem bárum pólitíska ábyrgð á samningsgerðinni, né viðsemjendur okkar, hið harðsnúna samningagengi Evrópusambandsins, sem hefur samningatækni að atvinnu alla daga ársins.

Ísland fór í þrígang með forystu fyrir EFTA ríkjunum á samningstímanum, þ.á.m. bæði í upphafi og á endasprettinum. Áður en sest var að samningaborði lak það út í sænsku pressunni að sænski utanríkisviðskiptaráðherrann þáverandi, Ulf Dinkelspiel, væri með böggum hildar yfir því að eiga þjóðarhagsmuni sænska ríkisins undir “litla” Íslandi. Þær raddir þögnuðu fljótlega. “Þessi frægi Hannes” – sem Gro Harlem vildi fá að berja augum – lét ekki að sér hæða.

Hvað var það sem gerði Hannes Hafstein að rómuðum samningamanni fyrir hönd EFTA ríkjanna og Íslands? Var hann svona miklu snjallari lögfræðingur en hið þrautreynda lagaklækjagengi ESB í Brussel? Áreiðanlega ekki. Kunni hann tollskrá Evrópusambandsins betur en höfundar hennar? Varla. Hvað var það þá? Hann vissi einfaldlega flestum öðrum betur hvað skipti máli – og hvað ekki – fyrir umbjóðendur sína. Hann gat verið sveigjanlegur þegar kom að aukaatriðum og kunni að láta það líta út sem fórnfýsi í nafni sanngirni. En þegar kom að aðalatriðum – þessu sem við köllum þjóðarhag – var hann óhagganlegur með öllu svo að jaðraði við ósvífni. Þá dugðu engar fortölur, engar umvandanir, engar skírskotanir. Ekkert hreif. Jafnvel þótt samningamenn samstarfsþjóða, sem sátu okkar megin við borðið, sárbændu okkur í nafni samstöðunnar að sýna sanngirni og slá af ýtrustu kröfum, sat Hannes klossfastur við sinn keip. Því til áréttingar lagði reykjarkófið úr pípu “Hr. Nei”, eins og hann var stundum uppnefndur, fyrir vit viðsemjenda svo að þeim súrnaði í augum og þeir sáu vart handa sinna skil. Ég hef stundum velt því fyrir mér síðar, hvernig farið hefði, ef reykingar hefðu þá þegar verið bannaðar í kanselíum Evrópu. Það er engan veginn sjálfgefið, því þess voru dæmi að menn héldust ekki við í návist við samingamanninn – og báru við heilsufarsástæðum.

Einhverju sinni á lokasprettinum, ofbauð Dr. Frans Andriessen, utanríkisviðskiptakommisar framkvæmdastjórnarinnar, svo þvergirðingsháttur Íslendinga að hann kallaði yfir salinn svo að ekki fór framhjá neinum: “ Þið skuluð ekki halda, Íslendingar, að þið fáið hér allt fyrir ekkert”. Andstæðingar EES – samningsins, þessir sem nú lofa hann og prísa kvölds og morgna og miðjan dag, eignuðu mér ranglega þessi ummæli um að við hefðum fengið “allt fyrir ekkert”. En það sem Adriessen var að skamma okkur Íslendinga fyrir hefur síðar verið skilgreint af fræðimönnum sem “ofbeldishneigð lítilmagnans”. Það skírskotar til þess að almenningsálitið leyfi ekki að Golíat neyti aflsmunar við Davíð – og smáþjóðir geti skákað í því skjólinu. Íslendingar lærðu þessi bellibrögð í þorskastríðum sínum við Breta og beittu þá þessum brögðum með góðum árangri. Það minnir okkur á að viðurkenning 200 mílna lögsögu strandríkja yfir auðlindum sjávar að þjóðarrétti og EES – samingurinn við Evrópusambandið eru stóru tindarnir á vegferð Íslendinga sem sjálfstæðrar þjóðar hingað til, í samskiptum okkar við aðrar þjóðir. Embættismennirnir, sem héldu fram málstað Íslands í samningum við aðrar þjóðir í þessum stórmálum hétu Hans G. Andersen og Hannes Hafstein. Að öðrum ólöstuðum hljóta þeir að teljast bera höfuð og herðar yfir aðra embættismenn í þjónustu Íslendinga á lýðveldistímanum. Þessir menn uxu af verkum sínum. Íslenska þjóðin mun lengi njóta þeirra verka.

Fyrr á þessu ári minntust okkar fyrrverandi bandalagsþjóðir í EFTA, Finnar, Svíar og Austurríkismenn þess að tíu ár voru liðin frá því að þær yfirgáfu EFTA og gengu í Evrópubandalagið árið 1995. Framsögumenn á málþinginu voru allir fyrrverandi samstarfsmenn í EFTA og í samningunum um EES. Þeir voru Franz Vranitsky, fv. kanzlari Austurríkis, Matt Hellström, fv. utanríkisviðskiptaráðherra Svía og Pertti Salolainen, fv. utanríkisviðskiptaráðherra Finna og náinn persónulegur vinur. Fyrir utan framsögumennina brá fyrir mörgum kunnuglegum andlitum úr samningagengjum EFTA – þjóða forðum daga, sem minnti mig á hvað EFTA var eitthvað notalegur klúbbur meðan hann var og hét. Allir heilsuðust (að íslenskum sið) að fyrra nafni og hittust öðru hverju með mökum og gerðu sér glaðan dag. Ósjaldan þáðu menn m.a.s. heimboð hver hjá öðrum. EFTA var, eftir á að hyggja, eins konar holdgervingur hins búddíska mottós um að smátt sé fagurt. Samt munaði heldur betur um EFTA – þjóðirnar sameiginlega á markaðstorgi heimsviðskiptanna. Þær voru fyrirferðarmeiri í viðskiptum við Evrópusambandið á þessum árum en Bandaríkin og Japan til samans. Það munar um minna. En þrátt fyrir þessa búsæld var bírókratíið undir stjórn – og stutt í brosið. Þetta var allt svo lókalt og í mannlegum skala.

Hversu oft hef ég ekki hitt gamla EFTA félaga þessi síðustu ár á málþingum í Evrópu þar sem við löðumst enn hver að öðrum í krafti sameiginlegra minninga um gamla góða daga. Og þannig var það líka á tíu – ára afmælishátíðinni í Helsinki í tilefni af inngöngunni í Evrópusambandið. En af því að margir þessarra EFTA – forkólfa eru nú orðnir fyrrverandi hitt og þetta, höfðu menn tíma til að setjast saman utan við formlega ráðstefnudagskrá til þess að bera saman bækurnar.

Framsögumennirnir fóru að vísu samviskusamlega með rök sín fyrir því af hverju það bar brýna nauðsyn til fyrir þeirra þjóðir að stíga skrefið til fulls og ganga í Evrópusambandið. Og reyndar er það rétt: Þessum þremur (Austurríki, Svíþjóð og Finnlandi) hefur vegnað þar vel. Þetta eru þjóðir sem skara fram úr. Þær eru ekki haldnar neinni uppdráttarsýki. Þær eru flinkar á brimbrettum alþjóðavæðingarinnar og þurfa ekki að kvarta. Samt gat ég ekki að mér gert að stríða mínum gömlu félögum með því að þylja yfir þeim EFTA – statistík: Um hagvöxtinn, þjóðartekjur á mann, hátæknidreifinguna og samkeppnishæfnina og sagði svo: “Top that, laggards!”.

Þá kvað við hljóð úr horni í finnskum baritón: “Þó nú væri að þið Íslendingar getið borið ykkur mannalega. Það er allt af því að þið börðuð í gegn með okkar hjálp – svo rosalega góðan samning í EES. Fenguð þið ekki allt fyrir ekkert? Hvað hét hann aftur þessi Evrópuskelfir ykkar? Kölluðum við hann ekki hr.Nei – hr.Hafstein, var það ekki? Með þess konar þrjóskuhunda við samningaborðið á Evrópusambandið ekki sjens. Við reyndum að apa eftir honum þegar við sömdum um inngöngu okkar í ESB 1995. En við gátum það ekki. Okkur vantaði karakterinn”.

Það tók sig upp gamalt bros. Ég var greinilega í góðum félagsskap. Við lyftum glasi og skáluðum fyrir “hr. Nei” Hafstein aðalsamningamanni. Þeir hafa ekki gleymt honum enn.
Við Bryndís flytjum Ragnheiði, börnum þeirra, barnabörnum og fjölskyldu allri hlýjar samúðarkveðjur um leið og við minnumst hins mæta manns með virðingu og eftirsjá.

Helsinki, 10.ágúst, 2005