ÚKRAÍNA

Ukraína er á krossgötum. Þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnvalda um pólitískan vilja þeirra til að Ukraína skipi sér í raðir evrópskra lýðræðisríkja (með aðild að EU og NATO) eru engar raunhæfar líkur á að það gerist í bráð. Þrettán ár eru liðin frá því að landið lýsti yfir sjálfstæði 1991. Árangurinn er í besta falli ójafn, í versta falli hörmulegur. Um margt svipar þróuninni meira til Rússlands en til Mið- og Austurevrópuríkja eða til Eystrasaltsríkjanna. Ukraína nær ekki framhaldseinkunn á neinn þeirra mælikvarða, sem Evrópusambandið og NATO setja að skilyrði fyrir inngöngu. En þeir eru: Fjölflokkalýðræði með frjálsum kosningum og frjálsum fjölmiðlum; réttarríki með sjálfstæðum dómstólum, opið hagkerfi þar sem ríkir markaðssamkeppni skv. viðurkenndum leikreglum. Ekkert af þessu hefur náð að dafna í Ukraínu, og á sumum sviðum er um að ræða afturför frá umbótatímabilinu í upphafi 1991.

Lýst eftir stefnu

Við þessar kringumstæður er alvarleg hætta á, að Evrópusambandið og Bandaríkin gefi Ukraínu upp á bátinn sem vonlaust tilfelli. Bandaríkjamenn sýndu Ukraínu að vísu mikinn áhuga á árunum 1991-2 til 1996, meðan þeir voru að ná samningum um aftengingu vetnisvopnabúrs Ukraínumanna eða um framsal þess til Rússa.

Bandarísk stjórnvöld báru mikið lof á ábyrgðartilfinningu, framsýni og samningalipurð úkraínskra stjórnvalda í þessum samningum. En gleymdu þeim svo og stóðu ekki við gefin loforð um fjárhagsstuðning í staðinn. Evrópusambandið er undir sömu sök selt. Þann 1. maí n.k. færast eystri landamæri Evrópusambandsins að Hvíta Rússlandi og Ukraínu og lengjast gagnvart Rússlandi (á landamærum Eistlands og Lettlands). Hin nýju landamæri eru sýnileg ytri tákn um sögulegar pólitískar breytingar, sem munu hafa áhrif í stjórnmálum, varnar- og öryggismálum, viðskipta- og efnahagsmálum og varðandi ótal spurningar, sem koma upp um samskipti einstaklinga og um réttindi þvert á landamæri. En það er eins og Evrópusambandið hafi verið svo upptekið af samningunum um stækkunina til austurs að landamærum Ukraínu, að það hafi ekki haft atorku til að hugsa, hvað tæki við handan landamæranna. Eru þessi nýju landamæri endanleg? Er verið að draga upp nýtt “járntjald” milli Evrópu og hins evró-asíska landmassa? Á þá t.d. Ukraína (50 milljóna þjóð) og Kákasuslöndin að tilheyra Asíu? Á að horfa aðgerðarlaust á Ukraínu hverfa aftur inn á áhrifasvið Moskvu, jafnvel þvert á vilja meirihluta íbúanna? Vita menn ekki, að Rússland án Ukraínu og aðþrengt frá Kínverjum í Síberíu, verður aldrei aftur heimsveldi? Gera menn sér ekki grein fyrir, að hugtakið “Greater Middle East” er merkingarlítið án aðildar Tyrklands og Ukraínu (sem liggur að Svarta hafi) að því samstarfi?

Á að gefa Rússum neitunarvald?

Það voru þessar og þvílíkar spurningar sem voru tilefni meiri háttar alþjóðaráðstefnu, sem haldin var í í Kyiv 19.-20. febrúar, s.l.. Að ráðstefnunni stóðu fjölmörg alþjóðasamtök og rannsóknarstofnanir (t.d. The German Marshall Fund, Die Konrad Adenauer Stiftung, The Carnegie Endowment for Peace and Developement, o.fl.) Aðstandendum ráðstefnunnar tókst í fyrsta sinn, að sögn, að ná saman til þátttöku um framsögu og aðild að umræðuhópum fulltrúum bæði stjórnar og stjórnarandstöðu í Ukraínu. T.d. töluðu þarna forsætisráðherrann, Victor Yanukovych, og fyrrverandi forsætisráðherra, Victor Yuschenko, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, utanríkisráðherrann, Gryshchenko og fyrrverandi utanríkisráðherrar, eins og Tarasyuk og Zlenko. Mikilvægi ráðstefnunnar má ráða af þátttöku ræðumanna eins og Kwasniewski, forseta Póllands, Vaclav Havel, fyrrverandi forseta Tékklands, Carls Bildts, fv. forstæðisráðherra Svíþjóðar og Madeleine Albright, fv. utanríkisráðaherra Bandaríkjanna. Margir ræðumanna véku að því, að mikilvægar kosningar væru fyrirhugaðar á árinu og gætu úrslitin varðað miklu um lýðræðið í heiminum. Dæmi: Kosningar í fjölmennasta lýðræðisríki heims, Indlandi, í næstfjölmennustu ríkjsamsteypu lýðræðisríkja, Evrópusambandinu (Evrópuþingskosningar), forsetakosningar í Bandaríkjunum og forsetakosningar í Ukraínu í október. Margir ræðumanna töldu, að úrslit forsetakosinganna í Úkraínu í lok ársins skæru úr um, hvort Úkraína mundi á næstu árum skipa sér í sveit með Evrópu eða dragast aftur inn á áhrifasvæði Moskvu. Fyrsta spurningin var því (ef menn taka trúanlegar yfirlýsingar stjórnvalda um að Úkraínu sækist eftir hvoru tveggja, aðild að NATO og ESB). Hvað þurfa Úkraínumenn sjálfir að gera til þess að koma eigin húshaldi í lag, til þess að af þessu megi verða? Hverjir eru helstu þættirnir í framtíðarstefnu Evrópusambandsins, sem hefur það markmið að laða Úkraínu til samstarfs? Hvernig þurfa bandarísk stjórnvöld að breyta stefnu sinni gagnvart Úkraínu, til þess að auðvelda Úkraínumönnum að rífa sig lausa úr náðarfaðmi Rússa? Loks, hvernig þurfa Bandaríkin og Evrópa að samræma stefnu sína gagnvart Rússlandi Putins til þess að losa um tök Rússa á Úkraínu og til þess að koma í veg fyrir, að Rússar geti beitt neitunarvaldi, þegar á reynir? Þessar spurningar voru ræddar í þaula á ráðstefnunni, þar sem skoðanaskipti heimamanna, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, við utanaðkomandi sérfræðinga, voru bæði fróðlegar og gagnlegar (sjá fylgiskjöl).

Ósanngjörn gagnrýni

En er hinn takmarkaði árangur, sem Úkraínumenn hafa náð á fyrstu þrettán árum umþóttunartímans frá alræðistjórnarfari kommúnista í átt til lýðræðislegri stjórnarhátta vísbending um, að þetta sér vonlaust mál? Það segja hinir svartsýnu. Kuchma forseti taldi þessa gagnrýni ósanngjarna, eins og fram kom í samtali við forsætisráðherra Íslands. Kuchma benti á, að Úkraína hefur verið á rússnesku áhrifasvæði öldum saman og undir stjórn kommúnista frá því eftir fyrra stríð eða í mun lengri tíma en ýmis lönd í Mið- og Austur Evrópu, sem hefðu lent á sovésku áhrifasvæði eftir seinna stríðið. Hið rússneska “mentalitet” ætti því dýpri ítök, sem lýsti sér í vanabundinni gerræðisstjórn og skorti á lýðræðislegum hefðum. Það væri því ósanngjarnt að ætlast til að Úkraínumenn gætu umbreytt hugsunar- og stjórnarháttum á jafn skömmum tíma og t.d. Pólverjar. “Mótiveringin” fyrir því að leita í vesturátt væri því veikari. T.d. væri varla til úkraínsk fjöldkylda, sem ekki ætti ættingja í Rússlandi, og fjöldi Rússa, innan landamæra Úkraínu, væri staðreynd, sem taka yrði tillit til. Auk þess væri Úkraína mjög háð Rússlandi á orkusviðinu. “Rússneska vandamálið” vægi því mun þyngra, þegar kæmi að framtíðarstefnumörkun fyrir Úkraínu. Fjandskapur Rússa gagnvart aðlögun Úkraínu að Evrópu væri mun ákveðnari en hann var í reynd gagnvart fyrrverandi leppríkjum þeirra í Austur Evrópu. Við þetta bættist, að stefna Vesturveldanna gagnvart Úkraínu kæmi Úkraínumönnum fyrir sjónir sem tvílráð, ómarkviss og hikandi. Það ætti bæði við um Bandaríkin og Evrópusambandið. Úkraínumenn gerðu sér vel grein fyrir því, að umbætur byrjuðu heima. Þeir ætluðust hins vegar til skilnings á því, að umbótaferlið gæti tekið lengri tíma en það tók í Austur Evrópu. Auk þess saknaði hann þess, að Vesturveldin styddu við bakið á umbótaöflunum í Úkraínu með jákvæðum aðgerðum. Úkraínumönnum væri í mun að öðlast viðurkenningu Evrópusambandsins á því, að Úkraína væri þegar markaðskerfi. Þeir hefðu vænst þess, þegar landamæri Evrópusambandsins færðust að Úkraínu, að Evrópusambandið byði ákveðna kosti til að koma í veg fyrir, að Úkraínumenn upplifðu hin nýju landamæri sem nýja hindrun – svo að ekki væri talað um “nýtt jarntjald”. T.d. með því að auðvelda milljónum Úkraínumanna, sem þurfa að leita eftir vinnu innan Evrópusambandsins, að geta það (Schengen og Visa), auk þess sem fríverslunarsamningar til að auðvelda markaðsaðgang fyrir úkraínskar vörur mundi vera jákvætt tákn um ssamstarfsvilja í framtíðinni. Úraínumenn gerðu sér grein fyrir, að það tæki þá langan tíma að fullnægja skilyrðum Evrópusambandsins um fulla aðild. Í millitíðinni yrði að finna sértækar lausnir. Þess vegna spurði forsetinn og ráðgjafar hans, sendiherra Íslands rækilega um aðdraganda og inntak EES samningsins og veltu fyrir sér þeirri spuringu, hvort þar væri ekki að finna fyrirmynd, sem gæti átt við stöðu Úkraínu á umþóttunarskeiðinu. Að því er varðaði NATO benti forsetinn á, að Úkraínumenn hefðu lagt fram verulegan skerf til friðargæsluaðgerða á vegum Bandalagsins bæði í Kosovo og Írak, en Úkraína héldi út fjórðu fjölmennustu friðargæslusveit bandalagsþjóða í Írak á eftir Bandaríkjamönnum, Bretum og Pólverjum. Þeir vonuðust eftir stuðningi aðildaþjóða NATO, þ.á.m. Íslands, við einhvers konar “membership action plan” (MAP) á ráðherrafundi í Istanbul.

Samanburður við Mið- og Austur Evrópu.

Á ráðstefnunni í Kyiv var Ron Asmus, fv. aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna í Clintonstjórninni, sem var þá ábyrgur fyrir stækkun NATO, helsti talsmaður “bjartsýninnar” að því er varðaði raunverulega möguleika á aðlögum Úkraínu að bæði NATO og Evrópusambandinu. Hann rifjaði upp, að árið 1991, við fall Sovétríkjanna, hefðu sárafáir áhrifamenn á Vesturlöndum lagt trúnað á það, að innan aðeins þrettán ára yrðu þjóðirnar í Mið- og Austur Evrópu og við Eystrasalt orðnar fullir aðila að NATO og Evrópusambandinu. Rasmus lagði fram tólf síðna skjal undir fyrirsögninni: “A Stragegy for Integrating Ukraine into the West.” Í umræðum um þessa skýrslu voru rifjuð upp ýmis dæmi um skilningsleysi og vantrú ráðandi afla þá í Bandaríkjunum (ríkisstjórn Bush sr.) á getu fyrrverandi leppríkja kommúnista til að standast þau próf, sem þyrfti til að gerast aðilar að samstarfi lýðræðisríkja á jafnréttisgrundvelli. Minnt var á “Chicken-ræðu” Bush sr. í Kyiv, þar sem hann skoraði á Úkraínumenn að hjálpa Gorbachev við að halda Sovétríkjunum saman; ræðu Bakers fv. utanríkisráðherra í Belgrad, þar sem hann flutti Milosjevich sama boðskap og síðari tíma vitneskju um að Bandaríkjamenn lögðu fast að leiðtogum Eystrasaltsríkja að sætta sig við samninga um heimastjórn (Autonomy) innan Sovétríkjanna, fremur en að krefjast fulls sjálfstæðis. Sama máli hefði gegnt í London og París. Þar hefði verið litið á nýfengið sjálfstæði Mið- og Austur Evrópuríkja sem og Eystrasaltríkjanna fremur sem vandamál en lausn. Þýskaland hefði verið upptekið af samningum við Gorbachev um friðsamlega sameiningu Þýskalands. Það hefði því verið lítill áhugi og lítil atorka meðal helstu forystumann Vesturlanda um virka samstarfspólitík með leiðtogum hinna nýfrjálsu ríkja. Nú gætu menn lært af reynslunni. Forystumenn sjálfstæðishreyfinganna í Austur Evrópu og við Eystrasalt hefðu einfaldlega tekið örlög sín í eigin hendur. Þeir hefðu ekki tekið nei fyrir svar. Þeir hefðu knúið dyra, og þeir hefðu ekki skirrst við að bera pólitíska ábyrgð á erfiðum ákvörðunum (t.d. shock therapy), sem hafi kostað þá vinsældir og völd, en verið óumflýjanlegar til að koma þjóðum þeirra á umbótabraut.

Bjartari framtíðarhorfur?

Að því er varðar Úkraínu lýsti Asmus árangrinum hingað til sem “half failure”. Það þýddi, skv. gagnályktun “half Success”. Hann benti á, að eftir framleiðslufall, óðaverðbólgu og fjöldaatvinnuleysi í upphafi, hafi orðið umtalsverð umskipti til hins betra s.l. fjögur ár: Hagvöstur er ör, verðbólga er viðráðanleg, erlendar fjarfestingar fara vaxandi, og efnahagshorfurnar framundan eru tiltölulega bjartar. Það væri fyrst og fremst á pólitíska sviðinu, sem umbóta væri þörf. Hér gætu almannasamtök (NGOs) lagt mikið að mörkum við að efla sjálfstæði fjölmiðla, styðja starf stjórnmálaflokka og afla og dreifa upplýsingum um þróun mála. Aðalatriðið væri að gleyma ekki Úkraínu. Að gefa hana ekki upp á bátinn. Að vera í sambandi við stjórnvöld og stjórnarandstöðuvöld, að bjóða aðstoð eftir þörfum við að efla lýðræði og réttarríki. Margt smátt gerði eitt stórt. Það væri tími til kominn að bjóða ungu fólki í Úkraínu upp á massivt námsmannaprógram í Evrópu og Bandaríkjunum. Það yrði að sýna sveigjanleika. Sérstaklega bæri Evrópusambandinu að gera það í framhaldi af nýjum sameiginlegum landamærum við Úkraínu. Aðalauðlind Úkraínu væri fjöldi velmenntaðs fólks og vel þjálfað og agað vinnuafl. Unga kynslóðin myndi kjósa með Vestrinu, á því væri enginn vafi, ætti hún þess kost. Þessari nýju kynslóð yrði að rétta hjálparhönd. Það væri alls ekki vonlaust að forsetakosningarnar í haust 2004 gætu orðið upphafið að kynslóðaskiptum og stefnubreytingu, sem gæti orðið afgerandi fyrir framtíð landsins. Framtíðin væri auðvitað í höndum þeirra sjálfra. Úkraína stæði nú á krossgötum. Á þeim tímamótum þyrftu lýðræðissinnar í Úkraínu á því að halda sem aldrei fyrr, að þeir ættu vini og bandamenn, sem hægt væri að treysta á Vesturlöndum.

P.s. Undirritaður vekur sérstaka athygli á hjálögðum fylgiskjölum, sem skýra nánar núverandi ástand og lýsa meginþáttum virkrar og jákvæðrar stefnu gagnvart Úkraínu í framtíðinni:

(1) Ukraine in Europe and the World: A View from Ukraine, eftir Oles Lisnychuk og Volodymyr Horbach, Institude of Euro-Atlantic Cooperation Kyiv.
(2) Ukraine: Near Abroad of the European Union? – Overcoming a Curse of Dual- Periphery, eftir Jiri Schneider og Alexandre Vondra, PASS Policy Paper nr. 2, Prague
(3) A Stragedy for Intergrating Ukraine into the West, eftir Ron. D. Asmus, German Marshall Fund of the United States.

Önnur fylgiskjöl:

(1) International Conference: Ukraine in Europe and the World – Feb. 20.- 21. 2004, Kyiv
(2) Ukraine in Europe and the World: A Conference Declaration, Kyiv, Feb. 20-21. 2004
(3) Address by Aleksander Kwasniewski, forseta Póllands
(4) Carl Bildt, fv. Forsætisráðherra Svíþjóðar, “Half the Way-The Year of Elections and Directions
(5) Madeleine Albright, fv. Utanríkisráðherra BNA: Keynote Speech, Ukraine Conference
(6) Ukraine Conference: List of Participants
(7) Ukraine Conference: Biographies