PÉTUR SIGURÐSSON – MINNING

Þegar ég kom fyrst til vetursetu á Alþingi haustið 1982, hafði Pétur setið þar fyrir í heilan áratug. Hann var beitarhúsaformaður í Skjaldbreið – húsvörður á nútímamáli, en þar var að finna skrifstofur þingmanna í forsköluðum timburhjalli, sem áður hafði verið hótel með vafasamt rykti.

Pétur var því þingreyndur maður, þegar fundum okkar bar fyrst saman. En meira máli skipti, að hann var lífsreyndur maður. Hann hafði staðið sína plikt sem sjómaður á yngri árum, staðið fyrir útibúi kaupfélagsins á Grundarfirði, setið bæði í stjórn sjómannafélagsins og frystihússins á staðnum og boðið fram krafta sína í sveitarstjórn í sextán ár, þrjú kjörtímabil í Eyrarsveit (Grundarfirði) og eitt á Kjalarnesi. Fyrir Framsóknarmenn með stórum staf. Því að hann var Framsóknarmaður í húð og hár.

Þessu til viðbótar stóðu þau hjónin, Pétur og Guðríður Kristjánsdóttir, fyrir rekstri vistheimilis að Víðinesi á Kjalarnesi í tæpan áratug. Þar fengu menn inni, sem voru hallari undir Bakkus konung en góðu hófi gegndi og gátu ekki hjálparlaust hætt að drekka, þótt tíminn væri úti. Í Víðinesi eignaðist Pétur marga vini, sem héldu við hann tryggð, meðan lífið entist. Það segir kannski meira um Pétur en þá. Pétur fór nefnilega aldrei í manngreinarálit. Hann var fordómalaus maður. Hann umgekkst vini sína, vistmenn Víðiness, af sömu virðingu (og umhyggju) og okkur, þáverandi utangarðsmenn íslenskra stjórnmála, sem vorum vistaðir á Skjaldbreið undir hans umsjá. Lífið hafði snemma kennt Pétri, að oft má lítið út af bera til að menn ráði því ekki sjálfir í hvorri vistinni þeir lenda.

Það var ekki sjálfgefið í upphafi, að krataforinginn að vestan og þessi hægláti Framsóknarmaður yrðu vinir. Enda gerðist það eiginlega án þess við tækjum eftir því. Pétur naut þingsetunnar betur en við hinir flestir af tveimur ástæðum. Hann var ekki kjörinn til þessarar þingsetu og var því frjáls maður og óháður öllu nema stjórnarskránni. Almenningsálitið (skoðanakannanir) komu honum ekki við. Þar að auki spilltu nefnda-
fundir ekki tíma hans. Þetta þýddi, að hann hafði næði til að brjóta til mergjar þau mál sem efst voru á baugi og til að leita lausna. Rökræður við Pétur voru þvi einatt betri undirbúningur undir ræðuhöld á Alþingi en þingflokks- eða nefndafundir, því að Pétur var nær óbrigðult lesinn í efninu. Ég minnist enn þeirra málfunda með ánægju.

Ég sagði, að Pétur hefði verið Framsóknarmaður með stórum staf. Það þýddi samkvæmt hans pólitísku kokkabók að vera umbótamaður undir hugsjón samvinnuhreyfingar. Hann var m.ö.o. lærisveinn Jónasar frá Hriflu og skoðanabróðir ömmu minnar, Guðríðar frá Strandseljum. Ég hef frá blautu barnsbeini verið hændur að slíku fólki, sem finnur til skyldleika hvert við annað í harðri lífsbaráttu til sjávar og sveita. Þessi hugtök hljóma kannski úrelt – en hugsjónin, sem að baki býr – hún blífur.

Pétur Sigurðsson var maður, sem var trúr æskuhugsjón sinni og sýndi það í verki. Þess vegna erum við mörg, sem minnumst hans í kveðjuskyni með hlýhug og virðingu.