ÞEGAR Á REYNIR

Ég tek eftir því, að vinur minn Sighvatur Björgvinsson, birtir grein á heimasíðu formanns Samfylkingarinnar honum til stuðnings í yfirstandandi formannskjöri. Þar með þykir það ekki tiltökumál, þótt sendiherra fjalli opinberlega um formannskjör í flokki sínum – ef þeir styðja Össur. Þá hlýtur það að gilda jafnt um aðra formannsframbjóðendur. Jafnræðisreglan blífur, ekki satt?

Sighvatur lýsir áhyggjum sínum af því að formannskjör kunni að skaða flokkinn. Þá hefur hann sjálfsagt í huga bitra reynslu af slíkum átökum í Alþýðuflokknum fyrr á tíð. Átökin milli Héðins og Jóns Baldvinssonar og Hannibals og Stefáns Jóhanns enduðu með klofningi. Hreyfing íslenskra jafnaðarmanna galt þeirra um langa hríð. Fleiri dæmi mætti nefna. Slík átök eru víti til að varast.

En ég á aðrar minningar um kosningu milli formannsframbjóðenda, sem urðu til þess að styrkja Alþýðuflokkinn og auka áhrif hans, en ekki öfugt. 1984 bauð ég mig fram gegn sitjandi formanni og lagði valið í dóm trúnaðarmanna flokksins á flokksþingi. Ég hafði betur og sat sem formaður í tólf ár. Ég leiddi flokkinn inn í ríkisstjórn og til áhrifa á landstjórnina á umbrotatímum. Við komum miklu í verk, og Alþýðuflokksmenn eru almennt stoltir af þeim árangri, sem flokkurinn skilaði.

Skaðaði þetta flokkinn? Nei, þvert á móti. En skýringin er að lokum sú, að þeir sem tókust á, höfðu manndóm til að slíðra sverðin og að starfa saman, eftir að flokksmenn höfðu kveðið upp sinn dóm. Fráfarandi formaður, Kjartan Jóhannsson, starfaði með mér af fullum heilindum og á heiður skilinn fyrir það. Sama máli gegnir um Sighvat Björgvinsson. Hann var andstæðingur minn í formannskjörinu, en varð síðar einn af mínum nánustu og bestu samstarfsmönnum.

Það er lögmál lýðræðisins, að einstaklingar sem veljast til forystu í stjórnmálahreyfingu hljóta að starfa saman um það sem sameinar, þótt þeir séu jafnframt keppinautar. Þá reynir á. Þola menn að taka niðurstöðum lýðræðislegra kosninga? Svarið við þeirri spurningu sker úr um, hvort menn verðskulda traust og hafa til að bera þann lýðræðisþroska, sem til þarf. Hafi menn ekki þann þroska til að bera, er eins gott að það komi í ljós fyrir kosningar, svo að þjóðin þurfi ekki að sitja uppi með afleiðingarnar, þar sem á reynir, – í stjórnarráðinu.

Sighvati verður tíðrætt um staðreyndir og vill að fleiri staðreyndir verði leiddar í ljós. Lítum á nokkrar staðreyndir. Árið 1991 bauð Davíð Oddsson, þá vinsæll borgarstjóri, sig fram gegn sitjandi formanni Sjálfstæðisflokksins. Þáverandi formanni, Þorsteini Pálssyni, hafði mistekist að halda saman ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Meirihluti Sjálfstæðismanna á landsfundi treysti því ekki, að honum mundi takast að leiða Sjálfstæðisflokkinn til ríkisstjórnarsamstarfs og stjórnarforystu, og valdi borgarstjórann vinsæla af þeim sökum.

En kjarni málsins er þessi: Þorsteinn Pálsson reyndist hafa þann þroska til að bera að hlíta dómi flokksmanna og starfaði áfram í ríkisstjórn undir forystu hins nýja formanns. Flokkurinn virðist engan skaða hafa borið af. Hann hefur setið í ríkisstjórn óslitið síðan. Voru þeir ekki að halda upp á tíu ára afmæli stjórnarsamstarfs um daginn?

Lítum á nýlega reynslu jafnaðarmannaflokkanna á Norðurlöndum. Mogens Lykketoft mistókst í kosningum fyrir skömmu að leiða danska jafnaðarmannaflokkinn til sigurs og stjórnarforystu. Hann sagði af sér daginn eftir. Tveir frambjóðendur voru í kjöri til formanns. Flokkurinn valdi sér unga konu til forystu, í fyrsta sinn í sögu sinni. Það var hart tekist á. En það hvarflaði ekki að nokkrum manni, að danski jafnaðarmannaflokkurinn hafi beðið skaða af. Eftir er að sjá, hversu vel kvenskörungurinn spjarar sig.

Fyrir fáeinum árum var þrálátt ósætti um forystu norska Verkamannaflokksins. Ósættið skaðaði flokkinn. Flokksmenn tóku af skarið og skiptu um formann. Hinum nýja formanni, Jens Stoltenberg, tókst ekki í fyrstu lotu að endurreisa flokkinn til þeirrar ótvíræðu stjórnarforystu, sem hann hefur lengst af gegnt. Á það reynir í næstu kosningum, hvort honum tekst það ætlunarverk. Mistakist honum, mun hann ekki eiga sjö dagana sæla.

Hér í Finnlandi er Paavo Lipponen að láta af leiðtogahlutverki finnskra jafnaðarmanna eftir tólf ára farsælt starf, þ.á. m. eftir átta ára forystu í ríkisstjórn, sem breytti Finnlandi til hins betra. En honum mistókst í seinustu kosningum að halda stöðu flokksins sem stærsta flokks þjóðarinnar. Stjórnarforystan gekk honum úr greipum. Fimm frambjóðendur bjóða sig fram til að taka við flokksforystunni. Flokksmenn eiga margra kosta völ. Þetta þykir gott hér í Finnlandi. Þær kröfur eru gerðar til frambjóðenda, að þeir geri hreint fyrir sínum dyrum um meginhugmyndir og stefnumál. Svo verður kosið á landsfundi í vor.

Það hvarflar ekki að nokkrum manni, að finnski jafnaðarmannaflokkurinn muni bíða skaða af. Þvert á móti, formannskjörið er tilefni til hugmyndalegrar endurnýjunar og til að skerpa línurnar. Flokkurinn er aftur orðinn, skv. skoðanakönnunum, stærsti flokkur þjóðarinnar.

Mér sýnist yfirstandandi formannskjör ekki snúast um djúpstæðan hugmyndafræðilegan ágreining um markmið eða leiðir. Jafnaðarmenn á Norðurlöndum hafa sýnt það í verki á áratug alþjóðavæðingarinnar, að velferðarríki í anda jafnaðarstefnu er ekki einasta réttlátara og mannúðlegra þjóðfélag en sá uppboðsmarkaður frjálshyggjunnar, sem nú fer hamförum um heiminn. Norræna velferðarríkið hefur staðist dóm reynslunnar. Norðurlöndin öll eru í fremstu röð í heiminum, líka þegar spurt er um hagvöxt, nýsköpun, tæknivæðingu og samkeppnishæfni á heimsvísu. Og þetta er ekki þrátt fyrir velferðarríkið, heldur vegna þess. Með því að standa fast á grundvallarsjónarmiðum jafnaðarmanna um jöfnun tækifæra og félagslegt öryggi á umbrotatímum finna nú sjónarmið jafnaðarstefnunnar æ dýpri hljómgrunn meðal almennings, sem er haldinn ugg á óvissutímum.

Sameinaður jafnaðarmannaflokkur á mikla framtíð fyrir sér, af því að fólk finnur innst inni, að það þarf á slíkum flokki að halda. Um þetta held ég að sé víðtæk samstaða. Þess vegna held ég, að við þurfum ekki að kvíða því, að formannskjör skaði flokkinn. Formannskjörið er spurning um það, hverjum við treystum best til að leiða flokkinn til sigurs og stjórnarforystu. Spurningin er því aðeins um, hvort við treystum fólki til að útkljá það mál eftir sinni bestu samvisku. Og spurningin til frambjóðendanna er bara ein: Hafa þeir manndóm til að hlíta dómi kjósenda án eftirmála og að starfa saman af fullum heilindum fyrir málefnunum sjálfum, eins og ekkert hafi í skorist.
Þá reynir á.