HVAÐ ER SVONA RÓTTÆKT VIÐ AÐ VERA VINSTRI-GRÆN(N)?

VIÐ ÖLL: Íslenskt velferðarsamfélag á tímamótum eftir Steingrím J. Sigfússon, alþm. 224 bls., Salka 2006.

“Það er bjargföst sannfæring mín, að samábyrgt velferðarsamfélag í anda þess besta, sem við þekkjum að norrænni fyrirmynd, sé þróaðasta samfélagsskipan, sem enn hefur litið dagsins ljós á jörðinni… Hvergi í heiminum er betra að búa, hvergi er betra að ala upp börn, hvergi er betra að lifa lífinu og hvergi er betra að verða gamall heldur en í norrænu velferðarsamfélögunum.”
(Steingrímur J. Sigfússon: Við öll, bls. 200)<(i>

Ef maður vissi ekki, að ofangreind tilvitnun er úr stefnuskrárriti formanns Vinstri-grænna, gæti maður haldið, að formaður Alþýðuflokksins forðum daga væri að tala. Eða einhver innmúraður og innvígður eðalkrati af Norðurlöndum, sem hljómaði svona í íslenskri þýðingu. Alla vega er þetta sósíaldemókratískt manifesto – lífsskoðun jafnaðarmanns – í hnotskurn. Samt vill Steingrímur alls ekki gangast við því að vera krati. Hann vegsamar þá samfélagsgerð, sem er skilgetið afkvæmi sósíaldemókratískrar hugmyndafræði og hundrað ára baráttu jafnaðarmannaflokka og verkalýðshreyfinga á Norðurlöndum. En samt vill hann ekki vera við þá kenndur.

VIÐ ÖLL: Íslenskt velferðarsamfélag á tímamótum eftir Steingrím J. Sigfússon, alþm. 224 bls., Salka 2006.

Hvers vegna ekki? Hann vill láta kalla sig róttækan jafnaðarmann. En hvað er svona voðalega róttækt við Steingrím Jóhann? Að vera á móti NATO og her í landi, eftir að herinn er farinn? Er það ekki bara svona dejá vu upp á frönsku – búið mál? En að yfirbjóða búverndarstefnu Framsóknar, sem Halldór Laxness kenndi einu sinni við “Hernaðinn gegn landinu” – búverndarstefnu, sem í alþjóðlegu samhengi heldur helmingi jarðarbúa í heljargreipum örbirgðar – hvað er svona róttækt við það?

Ekkert. Meira um það síðar.

DRAUMURINN UM SAMEININGU JAFNAÐARMANNA.

Draumurinn um sameiningu jafnaðarmanna að norrænni fyrirmynd innan vébanda öflugrar og lifandi grasrótarhreyfingar, sem gæti boðið íhaldinu birginn og keppt við það um stjórnarforystu á eigin forsendum – þessi draumsýn var sem leiðarhnoða hinna bestu sona og dætra í röðum íslenskra jafnaðarmanna á öldinni sem leið. Draumsýn og leiðarhnoða – en hversu þrálátlega gekk það þeim ekki úr greipum á vegleysum og í öngstrætum íslenskra stjórnmála?

Á seinni hluta seinasta áratugar seinustu aldar virtist loksins rofa til. Hin mikla en harmsögulega þjóðfélagstilraun, sem kennd var við rússnesku byltinguna og öfgastefnu rússneskra kommúnista, undir forystu manna eins og Leníns og Stalíns, var liðin undir lok. Kalda stríðinu, sem hófst eftir heimstyrjöldina miklu, og stóð í næstum hálfa öld milli alræðishyggju Sovétkommúnismans og vestrænna lýðræðisríkja, var þar með lokið. Hrun Sovétríkjanna þýddi í raun frelsun fjölmargra þjóða í Mið- og Austur-Evrópu undan nýlenduoki. Þar með lauk seinni heimstyrjöldinni í þeim heimshluta. Það var runninn upp tími til að byrja nýtt líf. Þær hugmyndafræðilegu kennisetningar fortíðar, sem höfðu klofið hina alþjóðlegu hreyfingu jafnaðarmanna og kenndar voru við arfleifð kommúnismans, heyrðu nú sögunni til.

Nú gafst mönnum ráðrúm til að vega og meta árangur af hinni frjálslyndu hugmyndafræði og pólitísku starfi jafnaðarmannahreyfingarinnar á Norðurlöndum og í Evrópu. Árangurinn blasti við. Sú þjóðfélagstilraun hafði tekist jafnvel framar björtustu vonum. Ef marka má tilvitnunina hér að ofan, þá greinir okkur Steingrím Jóhann ekki á um það. Við skyldum því halda að pólitískir endurfundir væru í nánd; og ekkert því til fyrirstöðu að láta drauminn um sameiningu jafnaðarmanna rætast. Við Ólafur Ragnar fórum um landið á rauðu ljósi, skömmu eftir fall Berlínarmúrsins. Tilgangurinn var sá, að það fólk, sem hafði gert hróp hvert að öðru úr pólitískum skotgröfum lungann úr öldinni, mætti nú koma upp úr skotgröfunum og taka upp talsamband á ný.

DRAUMUR OG VERULEIKI.

En það kom bakslag. Ólafur Ragnar og félagar, þ.á. M. Hinn ungi landbúnaðarráðherra í vinstristjórn Steingríms Hermannssonar (1988-91), skildu ekki þá þjóðarnauðsyn, sem bar til þess að tryggja EES-samningnum framgang. Kannski var lærdómskúrfa nýrra tíma of brött. Látum það vera. Eftir að Viðeyjarstjórnin hafði komið EES-samningnum heilum í höfn og þar með lokið sínu hlutverki, náðu gömlu helmingaskiptaflokkarnir, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn, aftur saman um stjórn landsins. Þeir uppskáru í makindum árangurinn af þeirri kerfisbreytingu þjóðfélagsins, sem komið var á við hin erfiðustu skilyrði á fyrri huta áratugarins. Þá gátu þeir flokkar og flokksbrot, sem sækja sinn innblástur sögulega séð í hugmyndafræði jafnaðarstefnunnar, og voru saman í stjórnarandstöðu, farið að tala saman á ný.

Fyrst kom heilög Jóhanna aftur heim með sinn Þjóðvaka. Síðan kom að því, að Alþýðuflokkur, Alþýðubandalag og Samtök um kvennalista legðu sig niður og rynnu saman í vísi að þeim stóra jafnaðarmannaflokki, sem átti að láta drauminn rætast. Allar forsendur fyrir heilsteyptu samstarfi innan vébanda sameinaðrar hreyfingar virtust vera til staðar. Hugsjónir og hugmyndir jafnaðarstefnunnar og jákvæð reynsla af árangursríku uppbyggingarstarfi jafnaðarmanna á Norðurlöndum og í Evrópu átti að duga til að laða til samstarfs alla þá, sem áður höfðu staðið sundraðir. Róttæk sýn á ástand heimsmála og endurskoðun á utanríkisstefnu Íslands á tíð kalda stríðsins var á dagskrá. Það gat rutt brautina. Baráttan fyrir jafnrétti kynjanna rúmast vel undir merkjum jafnaðarstefnunnar. Velferðarríkið íslenska var vanrækt og stóð á veikum grunni, sem kallaði á öflugt uppbyggingarstarf þeirra, sem eiga að slá um það skjaldborg. Það var ekkert að vanbúnaði að sameinast um að láta drauminn rætast.

En þeim var ekki skapað nema að skilja. Hvað gerðist? Fáeinir einstaklingar úr þingflokki Alþýðubandalagsins skárust úr leik. Foringi þeirra heitir Steingrímur Jóhann Sigfússon, og fóstbróðir hans heitir Ögmundur Jónasson, formaður BSRB. Og fleiri fylgdu þeim að málum, menn sem bjuggu yfir mikilli pólitískri reynslu úr skotgrafarhernaði Alþýðubandalagsins fyrr á tíð. Þessir menn og þeir sem hugsuðu á svipuðum nótum, vildu ekki vera með. Þeir vildu vera sér á báti.

TRILLUKARLINN OG STÓRÚTGERÐARMAÐURINN.

Af hverju? Þeir sögðust vera róttækari og ekki eiga heima í stórum (og kannski sundurleitum) krataflokki. Og þau kölluðu sig Vinstri-græn. Þau kenndu sig við vinstrið úr fortíðinni og hina grænu von framtíðarinnar. Í upphafi var þetta bara lítill flokkur, í líkingu við litla systurflokka á Norðurlöndum. Menn ypptu öxlum og sögðu sem svo: Kannski er þetta óhjákvæmilegt. Kannski verður að vera til smáflokkur yst til vinstri – pólitískt athvarf fyrir fólk, sem vill halda árunni hreinni; fólk með sérþarfir; fólk sem vill ekki flekka hendur sínar af málamiðlunum í alvörupólík. Fólk sem vill vera í mótmælahreyfingu – hreyfingu sem fílar vel að vera í eilífri stjórnarandstöðu.

Þetta var þá, árið 1999. En nú er öldin önnur. Hinn pólitíski trillukarl, sem einu sinni var, Steingrímur Jóhann, upprunninn úr Þistilfirðinum, er nú orðinn að stórútgerðarmanni með haffærnisskírteini sem næststærsti flokkur þjóðarinnar og nýja áhöfn, sem er líbbleg og samhent og líkleg til að rótfiska í næstu kosningum, enda með vana menn í brúnni. Það á að vísu eftir að innbyrða trollið og gera að aflanum. En horfurnar virðast alla vega vera býsna bjartar.

Hvað hefur gerst? Hver er skýringin á þessum umskiptum? Skýringin er tvíþætt: Annars vegar skýrist þetta af mistökum Samfylkingarinnar, sem virðist einhvern veginn ekki kunna að reka pólitík á eigin forsendum, né heldur að endurnýja liðskostinn og virkja hæfileikafólk til starfa. Samfylkingarfólk fer gjarnan með það sem betur hljómar, en það er eins og því fylgi engin sannfæring. Og svo sannarlega enginn eldmóður. Það er alveg sama, hverjir gefast upp á að fylgja stjórnarflokkunum að málum: Alltaf gera þeir lykkju á leið sína framhjá garði Samfylkingarinnar. Meira að segja kvenfólkið flykkist frá Samfylkingunni, þótt stuðningur við hana eigi að gefa þeim von um að sjá konu í fyrsta sinn sem húsráðanda í forsætisráðuneytinu. Sá kostur virðist ekki hafa mikið aðdráttarafl. Þær virðast heldur vilja skipa sér í flokk með Þistilfirðingnum, enda er hann með karlmannlegri mönnum, þeirra sem nú sitja á þingi. Með öðrum orðum, það skortir eitthvað á stefnufestu, sannfæringarkraft og trúverðugleika þeirra sem standa í fylkingarbrjósti Samfylkingarinnar; einmitt allt þetta, sem þeir Steingrímur og Ögmundur – þetta nýja tvíeyki íslenskra stjórnmála- virðast hafa til brunns að bera í ríkum mæli.

Hinn partur skýringarinnar er Steingrímur sjálfur. Hann kemur þjóðinni fyrir sjónir sem ærlegur maður. Hann segir það sem hann meinar og virðist meina það sem hann segir. Hann er talinn vera öflugasti ræðumaður þingsins á seinni árum. Ræða hans hljómar sannfærandi, af því að hann er einlægur. Þar að auki talar maðurinn íslensku, sem er meira en sagt verður um marga keppinauta hans, sem lesa upp illa samda heimastíla á bragðdaufri mállýsku skriffinnskunnar. Náttúruverndarsinninn Steingrímur kemur líka fyrir sjónir sem trúverðugur í þeirri rullu. Þetta er maðurinn sem gaf sjálfum sér í afmælisgjöf, fimmtugum, gönguferð um landið þvert og endilangt. Og lá úti undir berum himni, hvernig sem viðraði. Þetta er maður, sem hefur harðan klett að höfðalagi. Hann er ekta. Og það skín í gegn á skjánum. Menn gleyma því jafnvel, að þessi rúmlega fimmtugi maður er búinn að vera hundlengi í pólitík; sitja tæpan aldarfjórðung á þingi og gæti þess vegna setið þar í tuttugu ár í viðbót ef hann nennir. Þetta má heita mikil þrautseigja og aðdáunarvert þolgæði, í ljósi þess að Alþingi er ekki beinlínis skemmtilegasti vinnustaður, sem hugsast getur fyrir fólk, sem er vant því að láta hendur standa fram úr ermum.

RÓTTÆKNI EÐA ÍHALDSSEMI?

En hvað er svona róttækt við það að vera vinstri-grænn? Að vera á móti hernum? Það er nokkuð seint í rassinn gripið, þegar herinn er farinn. Að vera á móti bandarískri heimsvaldastefnu? Það er kannski ekki eins róttækt og það hljómar, í ljósi þess, að Bush Bandaríkjaforseta hefur tekist það, sem engum öðrum hefur tekist hingað til: Að sameina allan heiminn gegn utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Það er varla til sá stjórnmálamaður í Evrópu, eða í afganginum af veröldinni, sem mælir Bush og kumpánum bót, eftir að þeir hurfu af sjónarsviðinu, Aznar, Berlusconi, Oddsson og Ásgrímsson.

Að vera á móti NATO? Já, en Steingrímur er í aðra röndina sannfærður alþjóðasinni, sem vill að alþjóðasamfélagið láti ekki einræðisherrum líðast að kúga og ofsækja sitt eigið fólk. Það gerðist í Kosovo. NATO stöðvaði loks þjóðernishreinsun Milosevich í Kosovo, eftir að Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið höfðu gefist upp. Og eftir að Kanar hafa snúið baki við “vinum sínum” á Íslandi er hyggilegt að vera í NATO og borga iðgjöldin þar enn um sinn. NATO mun að vísu leysast upp í fyrirsjáanlegri framtíð vegna þess að Evrópusambandið getur ekki til langframa liðið það að vera eins konar verkfærakassi bandarískra heimsvaldasinna, sem Kanar grípa til öðru hverju og út úr neyð, til að hreinsa upp eftir sig skítinn vítt og breytt um veröldina. En þá bregður svo við, að Steingrímur er harður á móti Evrópusambandinu, sem er þó eina vonin um að skapa mótvægi við hernaðarofbeldi Bandaríkjamanna, og er raunverulegt friðarafl í heiminum.

Og svona er þetta í hverju málinu á fætur öðru, nánast sama hvar gripið er niður: Steingrímur er einlægur náttúruverndarsinni( og enginn sem rengir það). Á sama tíma er hann forhertur stuðningsmaður landbúnaðarstefnu Framsóknarflokksins. Eins og allir náttúruvísindamenn vita (og Steingrímur er bæði jarðfræðingur að mennt og bóndi að upplagi) á sú stefna sinn hlut í uppblæstri og gróðureyðingu, sem hefur leikið íslenska náttúru svo grátt, að Íslandi er lýst sem “landi í tötrum”.
Steingrímur er í aðra röndina eindreginn alþjóðasinni. Honum rennur til rifja örbirgð meira en helmings mannkyns og vill auka efnahagsaðstoð við þróunarríki rausnarlega. Á sama tíma styður hann búverndarstefnu, sem í alþjóðlegu samhengi lokar mörkuðum ríku þjóðanna fyrir innflutningi á landbúnaðarvörum frá fátækum þjóðum. Fórnarkostnaður hinna fátæku þjóða af þessum sökum nemur margfaldri þróunaraðstoðinni, sem þær þiggja sem ölmusu.
Vinstri-græn bera hag launþega og neytenda fyrir brjósti. Samt styður flokkurinn innflutningsbann og ofurtolla á innflutt matvæli, sem valda því, að íslensk heimili búa við hæsta matvælaverð í heimi. Það kallar aftur á lengsta vinnutíma, sem þekkist á nálægum breiddargráðum. Það hefur aftur þær afleiðingar, að vinnuþrælkun beggja foreldra bitnar á uppeldi barna. Það þykir orðið fréttnæmt, að íslenskir foreldrar kunni ekki lengur að tala við börnin sín eða hafa ekki tíma til þess. Það er trúlega stærsta vandamálið, sem þessi þjóð á við að búa til framtíðar.

Steingrímur fordæmir þá tilhneigingu, sem gætir til fákeppni og einokunar á hinum örsmáa heimamarkaði okkar. Samt greiddi hann atkvæði gegn EES-samningnum, sem innleiddi þó evrópskar samkeppnisreglur á Íslandi og gefur ríkisvaldinu þau tæki sem þarf til íhlutunar, ef markaðshlutdeild einstakra fyrirtækja er talin brjóta í bága við samkeppnisforsendur. Vilji er allt sem þarf til að taka á þessu vandamáli.

Þá má nefna, að Steingrímur fordæmir hina “stalínísku” stóriðjustefnu stjórnvalda, sem byggir á forsjárhyggju ríkisvaldsins og lofsyngur í staðinn sköpunarkraft lítilla og meðalstórra fyrirtækja, sem verða til fyrir frumkvæði og útsjónarsemi einstaklinga í frjálsu markaðskerfi. Samt er það svo, að þótt leitað sé með logandi ljósi í stefnuskrárriti Steingríms, er vandfundin sú tilvitnun, sem viðurkennir yfirburði markaðskerfisins, þar sem það á við. Samt má finna því stað í fræðum Steingríms, að hann viðurkenni núorðið kosti hins blandaða hagkerfis og þá vonandi það hlutverk, sem samkeppni á mörkuðum og fríverslun í alþjóðaviðskiptum þjóna til verðmætasköpunar í velferðarríkinu.

HEIMATILBÚIN HAGFRÆÐI.

Almennt má segja, að veiku punktana í hugmyndafræði Steingríms sé að finna á landamærum hagfræði og stjórnmála. Til dæmis er skýring Steingríms á efnahagslegri velgengni Íslendinga á öldinni sem leið helst til einföld. Skýringar hans eru í stórum dráttum endurheimt sjálfstæðis frá Dönum og meðfædd vinnusemi þjóðarinnar. Auðvelt er að finna mörg dæmi um vinnusamar þjóðir, sem hefur ekki vegnað vel, jafnvel þótt þær heiti að vera pólitískt sjálfstæðar. Aðgangur að fjármagni (t.d. Stofnun Íslandsbanka við upphaf seinustu aldar) og frjáls aðgangur að mörkuðum fyrir útflutningsafurðir skipti sköpum um efnahagsþróun Íslendinga í upphafi 20. aldar, og menntunarstig þjóðarinnar. Maður þarf ekki að vera frjálshyggjumaður til þess að gera sér grein fyrir því, að tollfrjáls aðgangur að mörkuðum (og reyndar opingátt fyrir erlendu fjármagni) hefur skipt sköpum fyrir þær þjóðir, sem brotist hafa frá örbirgð til bjargálna. Þetta á við um okkur Íslendinga. Og þetta á við um Asíumódelið svokallaða. Það eru einmitt Asíuþjóðirnar, sem náð hafa bestum árangri í að útrýma fátækt og bæta lífskjör á okkar samtíð.

Það er hins vega rétt hjá Steingrími, að efnahagsárangur Íslendinga á seinni hluta síðustu aldar var meiri en margra annarra, þrátt fyrir pólitískt skömmtunar- og haftakerfi og viðskiptahömlur í bak og fyrir. Ástæða er til að ætla, að sá árangur hefði orðið enn meiri, ef við hefðum búið við skynsamlega hagstjórn og meira viðskiptafrelsi. En skýringin á því, að okkur tókst samt sem áður að halda uppi tiltölulega miklum hagvexti, er fyrst og fremst sú, að við komumst upp með hömlulausa rányrkju á þeim takmörkuðu auðlindum hafsins, sem okkur var falið að gæta. Útfærsla landhelginnar úr fjórum í tvö hundruð mílur ( blessuð sé minnig Lúðvíks Jósefssonar) framlengdi tímabil rányrkjunnar um skeið. En þar kom, að við urðum að setja okkur sjálf hömlur um sókn í auðlindina og leita leiða til að skjóta fleiri stoðum undir efnahagslega velsæld okkar, þar með talið með stóriðju.

Það má merkilegt heita, að náttúrufræðingurinn Steingrímur hugleiðir hvergi samhengið milli rányrkjunnar á fiskistofnunum og gróðureyðingarinnar af völdum landbúnaðarstefnunnar, en hvort tveggja var til marks um ósjálfbæra þróun.Sjálfbær þróun á þó að heita mantra Vinstri-grænna. Það má t.d. Merkilegt heita, að Steingrímur og félagar hans í Alþýðubandalaginu, studdu aldrei þá kröfu okkar jafnaðarmanna, að rétturinn til nýtingar á fiskistofnunum yrði háður gjaldtöku samkvæmt almennum leikreglum framboðs og eftirspurnar. Þetta var víst partur af byggðastefnu Steingríms. Þetta er enn eitt dæmið, sem bendir til þess, að eitthvað skorti á gerhygli hans um nútímalega hagstjórn í alþjóðavæddum heimi.

ALÞJÓÐAHYGGJA GEGN INNILOKUNARÁRÁTTU.

Í nýútkominni bók eftir Eirík Bergmann, dósent við Háskólann að Bifröst, undir heitinu “Opið land – staða Íslands í samfélagi þjóðanna”, heldur hann því fram, að átakalínurnar í stærstu málum lýðveldissögunnar hafi staðið milli “opingáttarmanna” og “innilokunarsinna”. Hann nefnir hin augljósu dæmi um inngönguna í NATO 1949, varnarsamninginn við Bandaríkin 1951, inngönguna í EFTA 1970 og EES-samninginn, sem klauf þjóðina í andstæðar fylkingar í kosningunum 1991. Í öllum þessum málum hefði Steingrímur og flokkur hans trúlega í skipað sér í fylkingu “innilokunarsinna”.

Það boðar ekki gott um framhaldið. Hnattvæðingin er orðin staðreynd, ekkert síður en loftslagsbreytingar af mannavöldum. Það er rétt hjá Steingrími, að hnattvæðing á forsendum bandarískra og alþjóðlegra auðhringa er varasöm. Það á vissulega við um rányrkju auðlinda, arðrán á fátæku fólki og jafnvel þrælahald; og það á við um þá tilhneigingu fjármagnsins að knýja þjóðríkin til samkeppni um lækkun skatta og launa, að viðlagðri hótun um að ella fari fjármagnið þangað sem betur er að því búið.

Hin réttu viðbrögð við þessari hótun eru hins vegar hvorki einangrun né innilokun. Hin réttu viðbrögð kalla á alþjóðlega eða svæðisbundna samstöðu lýðræðisríkja til andófs við hnattvæðingu fjármagnsins. Hvaða þjóðum hefur vegnað best í hinni hörðu samkeppni hnattvæðingarinnar? Steingrímur svarar sjálfur þeirri spurningu og nefnir til sögunnar hin norrænu velferðarríki. Þau skara nefnilega fram úr flestum öðrum þjóðum á samræmdu prófunum um menntunarstig, samkeppnishæfni, nýsköpun, tækniþróun og jöfnuð og þar af leiðandi um lífsgæði. Hvers vegna hafa þau spjarað sig svona vel? Það er vegna þess að þau hafa á löngum tíma fjárfest í mannauðnum; fjárfest í menntun, rannsóknum, vísindum og öðrum innviðum hins þróaða lýðræðisþjóðfélags. Þess vegna hefur þeim vegnað vel. Það er ekki þrátt fyrir velferðarríkið, heldur beinlínis vegna þess.

Hvaða þjóðir hafa orðið verst úti í samkeppni hnattvæðingarinnar? Það eru þær þjóðir, sem búa við veikt ríkisvald og vanþroska lýðræði; sem búa við vanburðuga og veika innviði, lágt menntunarstig, lélegt heilsufar o.s.fr. Margar þessara þjóða hafa verið í gjörgæslu alþjóðastofnana hins ameríska kapitalisma og orðið, vegna skuldsetningar, að hlíta formúlu Washingtonviskunnar um veikt ríksvald og markaðslausnir á öllum sviðum. Þessar þjóðir hafa fæstar getað nýtt sér tækifæri hnattvæðingarinnar. Afríkuþjóðirnar sunnan Sahara hafa upplifað hnignun og afturför. Þau ríki Suður-Ameríku,sem voru undir járnhæl frjálshyggjutrúboðs Bandaríkjanna, hafa setið föst í efnahagslegri stöðnun og sívaxand misskiptingu auðs og tekna. Þær þjóðir, sem hafa spjarað sig best, ásamt velferðarríkjum Evrópu, eru Asíuþjóðirnar, þar sem ríkisvaldið gegnir veigamiklu hlutverki í efnahagsstarfseminni og áhersla er lögð á menntun, heilbrigði og lausnir, sem byggja á félagslegri samstöðu, t.d. Á vinnumarkaði, í samræmi við góðar og gildar hefðir í menningu bæði Kínverja og Indverja.

Af þessu má margt læra. Kjarni málsins er þessi: Frjálshyggjumódel hægri bylgjunnar, sem upphófst með Reagan og Thatcher, hefur ekki risið undir væntingum og reyndar brugðist hrapalega, þar sem því hefur verið þröngvað upp á þróunarríkin. Velferðarríki Norðurlandanna hafa staðið sig frábærlega. Evrópusambandið hefur unnið kraftaverk við að lyfta lífskjörum fátækra þjóða innan bandalagsins upp á sama stig og hinar þróaðri þjóðir hafa notið. Írland, Spánn, Portúgal, Suður-Ítalía og Grikkland eru dæmi um þetta. Og nú er það sama að gerast í Mið- og Austur-Evrópu og við Eystrasalt. Berið þetta saman við framferði Bandaríkjamanna gagnvart nágrannaþjóðum þeirra í Mið- og Suður-Ameríku. Þar hafa þeir iðulega beitt hervaldi til að steypa af stóli lýðræðislega kjörnum umbótastjórnum og til að halda alls kyns ógnarstjórnum hægri öfgamanna við völd. Suður-Ameríkumenn hafa lært það af biturri reynslu, að í þeirra heimshluta er það tvennt, sem Bandaríkjamenn standa fyrir: Arðrán og ógnarstjórn.

ÞJÓÐARÖRYGGI + VIÐSKIPTAHAGSMUNIR = EVRÓPUSAMBANDSAÐILD.

Það er fráleitt af Steingrími að skilgreina Evrópusambandið sem hluta af því markaðstrúboði, sem hefur höfuðstöðvar sínar í Washington D.C. Það er öfugmæli. Eiginlega má segja, að norræna módelið sé að breiðast út um alla Evrópu. Að vísu er það rétt, að það er ekkert til, sem heitir evrópska velferðarríkið, og þau eru eins misjöfn og þau eru mörg. Engu að síður er ljóst, að aðildarríki Evrópusambandsins lúta ekki formúlu markaðstrúboðsins í Washington. Þau eru þvert á móti valkostur við það módel. Og í alþjóðlegu samhengi eru vonir okkar jafnaðarmanna við það bundnar, að Evrópusambandið verði með tíð og tíma ekki aðeins friðarafl í okkar heimshluta (sem það er), heldur öflugt mótvægi við bandaríska heimsvaldastefnu, þegar á þarf að halda. Að því eigum við jafnaðarmenn að vinna saman – innan Evrópusambandsins.

Það er engin tilviljun, að það eru breskir íhaldsmenn, sem eru hörðustu gagnrýnendur Evrópusambandsins innan frá. Það er heldur engin tilviljun, að Sjálfstæðisflokkurinn er eini hægri flokkurinn í Evrópu, sem lýsir harðri andstöðu við Evrópusambandsaðild og yfirleitt á þeirri forsendu, að Evrópusambandið sé of sósíaldemókratiskt. Vinstri-grænir reyna hins vegar að telja sér trú um, að Evrópusambandið sé partur af hinu ameríska frjálshyggjutrúboði.

Hvort tveggja getur ekki verið rétt. En Evrópusambandið er hinn rétti vettvangur fyrir lýðræðisríki Evrópu til að bregðast við hnattvæðingunni, með kostum hennar og göllum, með samstöðu um það, sem þjóðríkin ein og sér fá ekki við ráðið. Evrópusambandið er ótvírætt friðarafl í okkar heimshluta, sem getur orðið mótvægi við öfgar amerískrar heimsvaldastefnu. Og hið félagslega þjóðfélagsmódel Evrópuríkja er vissulega í grundvallaratriðum frábrugðið amerískum kapitalisma og í reynd valkostur við hann. Af þessum ástæðum er Evrópusambandið kjörinn samstarfsvettvangur jafnaðarmanna. Þess vegna sætir það furðu, að fulltrúar Vinstri-grænna í Evrópustefnunefnd skrifa undir sameiginlega álitsgerð með íhaldinu undir forystu Björns Bjarnasonar. Hvað á svona nokkuð að þýða? Þykjast þau sjá eitthvað róttækt við það?

Sannleikurinn er sá, að gagnrýni Steingríms á Evrópusambandið samanstendur aðallega af sparðatíningi um aukaatriði – jafnvel nöldri – fremur en greiningu út frá pólitískum grundvallarsjónarmiðum og þjóðarhagsmunum Íslendinga. Hræðsluáróðurinn um, að við aðild yrðu Íslendingar að afsala sér forræði yfir fiskimiðunum, hefur verið marghrakinn og nú seinast í vitnisburði fyrir Evrópustefnunefnd. Ég er þess fullviss – og tala af nokkurri reynslu af samningum við Evrópusambandið – að sjávarútvegsmálin verða okkur ekki sá Þrándur í Götu, sem LÍÚ klíkan og kvótaeigendurnir vilja vera láta.

Stóra spurningin um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu er hápólitísk. Það er spurningin um það, hvar Íslendingar vilji skipa sér í sveit í samfélagi þjóðanna í framtíðinni. Svarið við þeirrri spurningu byggir á raunsæju mati á því, hvernig þjóðarhagsmunum okkar verður best borgið út frá sjónarmiðum þjóðaröryggis, viðskiptahagsmuna og pólitískrar samstöðu. Grundvallarhagsmunir Íslendinga sem herlausrar smáþjóðar lúta að því að tryggja, að lög og réttur ráði fremur en valdbeiting í samskiptum þjóða. Þar eigum við samstöðu með Norðarlanda- og Eystrasaltsþjóðum og í vaxandi mæli með Evrópusambandinu sem friðarafli, sem byggir öll samskipti aðildarríkjanna á samningum á grundvelli laga og réttar.

GEGN OKURSAMFÉLAGINU – MEÐ EVRÓPU.

Sú kenning, að slá beri skjaldborg um sjálfstæða peningamálastefnu og íslensku krónuna sem tákn um ímyndað fullveldi ríkisins, er ekki til marks um róttæka hugsun í þágu almannahagsmuna. Öllum má ljóst vera, að krónan hefur ekki verið gjaldgengur gjaldmiðill frá því að verðtryggingin var tekin upp. Krónan er ekki nothæf í lánsviðskiptum til lengri tíma. Hún er hvorki nothæf til vörslu verðmæta né sem reiknieining eða mælikvarði á verðmæti. Einmitt þess vegna urðum við að taka upp verðtrygginguna. Það gerðum við á sínum tíma af illri nauðsyn til þess að kveða niður verðbólguna og varðveita skyldusparnað almennings í lífeyrissjóðum, sem ella hefðu fuðrað upp í verðbólgunni. Þetta var harkaleg aðgerð á sínum tíma, en hún dugði til að bjarga lífeyrissjóðunum og þar með lágmarksafkomuöryggi vinnandi fólks í framtíðinni.

Lífeyrisréttindi, sem byggja á sjóðasöfnun og ávöxtun af fjárfestingu, eru einn helsti styrkleiki íslenska hagkerfisins í samanburði við önnur. Hins vegar eru ófyrirséðar og óæskilegar afleiðingar verðtryggingarinnar sífellt að koma betur í ljós. Verðtryggingin er farin að virka sem snuð, sem firrir ríkisstjórnir og fjármálavaldið ( t.d.bankana) ábyrgð gerða sinna. Þegar hagstjórnarmistök leiða til verðbólgu og vaxtahækkana, er kostnaðinum beint um farveg verðtryggingarinnar inn í höfuðstól skulda landsmanna. Þetta þýðir, að hin skuldugu heimili á Íslandi eru bundin á skuldaklafa lánardrottna áratugi fram í tímann. Heimilin eru orðin veðsett okursamfélaginu. Ef engin væri verðtryggingin, hefðu vextir af lánum rokið upp úr öllu valdi, sem hefði fjótlega leitt til fjöldaatvinnuleysis og eignamissis almennings. Væntanlega myndu kjósendur henda út skussum, sem væru uppvísir að slíkri óstjórn. Þegar ég segi, að verðtryggingin sé orðin að dúsu, þá á ég við, að hún felur afleiðingar óstjórnar, en framlengir skuldafjötra almennings og skerðir lífskjör til langs tíma. Þetta er í reynd hið heimatilbúna séreinkenni íslenska okursamfélagsins.

Fyrirtækin á Íslandi hafa að undanförnu unnvörpum flúið undan hagstjórnarmistökum stjórnvalda og meðfylgjandi óstöðugleika gjaldmiðilsins og leitað skjóls í evrunni. Almenningur í landinum reynir að fara að fordæmi fyrirtækjanna eftir því sem kostur er. Ef krónunni er réttilega lýst sem viðskiptahindrun, þá er verðtryggingarkrónan orðin að tákni um nýtt vistarband og skuldafjötra. Sá sem vill losa um þessa skuldafjötra, og gefa fólki og fyrirtækjum kost á að búa við stöðugleika og öryggi um afkomu sína, hlýtur að taka spurninguna um Evrópusambandsaðild alvarlega. Það er þess vegna ekkert róttækt við stefnu Steingríms og Ögmundar í Evrópumálum. Þvert á móti lýsir afstaða þeirra hefðbundnum heimóttarskap “innilokunarsinna” í nafni misskilinnar þjóðernishyggju, sem endar fyrr en varir í lýðskrumi. Sá sem vill skera upp herör gegn okursamfélaginu, getur ekki afneitað Evrópu.

ALÞINGISKOSNINGAR 2007: HVERRA KOSTA ER VÖL?

Það er merkilegt, hversu skoðanakönnunum fyrir næstu kosningar vorið 2007 svipar saman til kosningaúrslitanna 1978. Þá eins og nú höfðu helmingaskiptaflokkarnir, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn, setið saman í ríkisstjórn – þá að vísu aðeins í fjögur ár, en nú í þrjú kjörtímabil, eða tólf ár. Þá töpuðu stjórnaflokkarnir báðir miklu fylgi, en Framsóknarflokkurinn galt afhroð. Þá fékk Alþýðuflokkurinn svipað fylgi og Samfylkingin er líkleg til að fá nú. Nú lítur út fyrir, að Vinstri-grænir fái ívið meira fylgi en Alþýðubandalagið fékk þá. Fari svo, verður það að teljast meiri háttar pólitískt afrek þeirra fóstbræðra, Steingríms og Ögmundar, sem mæta þá sterkir til leiks í stjórnarmyndunarviðræðum. Hvorn kostinn velja þeir: Tveggja flokka stjórn með Sjálfstæðisflokknum (þjóðlega íhaldsstjórn), sem mun í stórum dráttum viðhalda óbreyttu ástandi. Eða þriggja flokka stjórn með Samfylkingu og þriðja aðila, næði hann máli? Hver gæti verið þriðiji aðilinn: Framsókn, Frjálslyndi flokkurinn eða Íslandshreyfing Ómars og Margrétar? Sagt er, að Steingrímur haldi báðum kostum opnum, en að Ögmundur fari með hið gamla boðorð þeirra feðga, Hermanns Jónassonar og Steingríms Hermannssonar, um að allt sé betra en íhaldið. Um þetta ber að spyrja frambjóðendur Vinstri-grænna í þaula í kosningabaráttunni. Eiga kjósendur ekki rétt á því að vita svörin, áður en þeir ganga að kjörborðinu?

Verði kosningaúrslitin á þessa leið, staðfestir það, að tilraunin um sameiningu jafnaðarmanna hefur enn einu sinni mistekist. Það væri þá eins og ekkert hefði gerst. Árið 1978 fengu A-flokkarnir samtals 28 þingmenn, vantaði fjóra í meirihluta. Niðurstaðan um stjórnarmyndun þá (árið 1978) varð sú, að með gagnkvæmri óvild útilokuðu A-flokkarnir stjórnarforystu hvors annars. Endataflið leiddi því til ríkisstjórnar undir forystu Framsóknarflokksins, þess flokks, sem goldið hafði mest afhroð í kosningunum. Þetta var reyndar ein versta ríkisstjórn lýðveldissögunnar og er þó af nógu að taka til samanburðar. Getur þessi saga endurtekið sig? Ef það er satt, að allt sé leyfilegt í ástum, fótbolta og pólitík, þá leyfist manni ekki að útiloka það.

En það er a.m.k. Einn munur á kosningunum 1978 og kosningunum í vor. Það eru fleiri framboð nú en þá. Það verður að teljast líklegt, að stjórnarflokkana vanti herslumun í að halda meirihluta sínum. Það bendir líka allt til þess, að það vanti talsvert upp á til þess að Vinstri-græn og Samfylkingin geti myndað stjórn. Það þarf ekki að eyða orðum að framboði aldraðra. Það er andvana fætt. Frjálslyndi flokkurinn er á góðri leið með að dæma sig úr leik – og hefur kannski þegar gert það – með lýðskrumi gegn innflytjendum og með því að ala á ótta um atvinnuleysi og kjaraskerðingu í samkeppninni um atvinnuna. Þá stendur eftir hið pólitíska eignarhaldsfélag Framsóknar, sem hefur makað krókinn í makindum valdsins s.l. Tólf ár. Og Íslandshreyfing Ómars og Margrétar. Getur hún fengið nægilega mörg atkvæði frá stjórnarflokkunum báðum, frá þeim kjósendum, sem vilja mótmæla stóriðjustefnu stjórnvalda og vanrækslu velferðarþjónustunnr, til þess að Íslandshreyfingin geti ráðið úrslitum um myndun ríkisstjórnar vorið 2007? Eins og Hannibal gerði með Samtökum frjálslyndra og vinstrimanna 1971?

Burt séð frá föstum liðum eins og venjulega í íslenskri pólitík, virðist þetta vera lykilspurningin um stjórnarmyndunarkosti að loknum kosningum 2007.