En um leið og þið kjósið sjálfum ykkur örlög, mun ákvörðun ykkar ráða miklu um framhald þeirrar stóriðjustefnu, sem ríkisstjórn og þingmeirihluti hefur kappsamlega fylgt fram á undanförnum árum. Það varðar þjóðina alla. Ég ætla mér ekki þá dul að blanda mér í ykkar sérmál,. Reyndar get ég með góðri samvisku sagt, að ég hef tröllatrú á pólitískri dómgreind Hafnfirðinga. Hér er hreinn meirihluti jafnaðarmanna við völd. Hafnfirðingar áréttuðu það í seinustu sveitarstjórnarkosningum, að Hafnarfjörður er höfuðvígi jafnaðarstefnunnar á Íslandi.
Sú var tíð, að við Ísfirðingar gerðum kröfu til þess sæmdarheitis, en linnulaus fólksflótti af landsbyggðinni – ekki síst frá Vestfjörðum – hefur skakkað þann leik ykkur í vil. Og það er eins og enskurinn segir: “If you can´t beat them, join them”.
Sú ákvörðun bæjarstjórnar að leggja málið í ykkar dóm er lofsverð og til fyrirmyndar. Að vísu sýnist okkur, sem horfum á þetta utan frá, að þetta kunni að vera býsna ójafn leikur: Auðhringurinn gegn almannasamtökum. Ef það er rétt, að auðhringurinn hafi þegar eytt 80 – 100 milljónum í að telja ykkur hughvarf, en Sól í straumi aðeins 60 þúsundum, þá sýnist manni þetta minna á glímu Davíðs við Golíat. Allir vita nú samt, hvernig þeirri viðureign lauk. Reyndar treystum við því, að bæjarstjórnin leggi sitt af mörkum til að jafna leikinn með því að auðvelda andstæðingum stækkunar álversins að kynna sinn málstað. Það er lágmarkskrafa í nafni lýðræðis.
Það er ekkert að óttast.
Hafnarfjörður er, eins og allir mega sjá, öflugt og vaxandi bæjarfélag. Bærinn er hluti af kraftmiklu hagkerfi höfuðborgarsvæðisins, sem hefur verið í örum vexti, reyndar svo, að við liggur að þanþolið bresti: Gengissveiflur, verðbólga, okurvextir, sívaxandi skuldsetning heimilanna og þjóðarbúsins og innstreymi erlends vinnuafls, allt er þetta til marks um það. En Hafnarfjörður hefur sérstöðu meðal sveitarfélaga á höfðuborgarsvæðinu. Hann á sér sérstakan karakter, litríka sögu og sál.
Og Hafnarfjörður á sér bjarta framtíð. Hér verða til fleiri störf á ári hverju en samsvarar starfsmönnum álversins. Þessi störf verða til í litlum og meðalstórum fyrirtækjum fyrir framtak og sköpunarkraft fólks. Þau verða ekki til í skjóli GOSPLAN, eins og fimm ára áætlun Sovétsins hét í tíð Stalíns. Það er ekki eins og ykkur séu öll sund lokuð. Þið eigið þvert á móti margra kosta völ. Þið þurfið hins vegar að gera það upp við ykkur, hvort þið takið hótanir álversins alvarlega, og hvernig ykkur þykir vert að svara þeim. Og hversu háan fórnarkostnað þið eruð reiðubúin að greiða fyrir að umbera mengandi stóriðjuver í miðju samfélaginu, á einu besta byggingarlandi bæjarins.
Flestir sem skoða fjárhagshliðina, furða sig á því, hversu litlar tekjur bæjarfélagið hefur haft af álverinu til þessa. Jafnvel þótt þær tekjur margfaldist, eru þær smámunir einir í hinu stærra samhengi. Og fórnarkostnaðurinn, sem verður að inna af hendi í glötuðum tækifærum á öðrum sviðum, er ekki smávægilegur.
Aðalatriðið er: Stækkun álversins er Hafnfirðingum ekki nauðugur einn kostur undir hótun um, að ella pakki hinn erlendi gestur saman með allt sitt hafurtask. Við þekkjum það varðandi sjónarspilið um brottför hersins, að Könum er tamt að segja: Take it or leave it. Hvað tók það langan tíma fyrir fyrrverandi starfsfólk varnarliðsins að finna sér ný störf? Svo lengi sem álverið getur grætt á hagstæðum orkusamningi, sem reyndar rennur ekki út fyrr en 2024, þá fer það hvergi. Og hafnfirskt atvinnulíf hefur sýnt það á undanförnum árum, að það býr yfir nægum sköpunarkrafti til að skapa fjölbreytileg störf við allra hæfi. Það er því ekkert að óttast.
Við erum með tromp á hendi.
Þegar þið gangið að kjörborðinu þann 31. mars, eruð þið ekki aðeins að svara lykilspurningu um framtíð ykkar eigin bæjarfélags. Stóriðjustefna fráfarandi ríkisstjórnar á einnig mikið undir atkvæði ykkar. Það er þess vegna sem stór hluti þjóðarinnar bíður milli vonar og ótta eftir úrslitunum í Hafnarfirði. Það er mikið í húfi.
Ef þið segið já, þá heldur stóriðjustefnan áfram með þeim afleiðingum, sem við þegar þekkjum. Umhverfismat og orkusamningar liggja þegar fyrir, þótt með fyrirvörum sé. Ríkið hefur ekki frekara stöðvunarvald í þessu máli. Og veikburða sveitarfélög munu freistast til þess að fara að fordæmi ykkar, án þess að þjóðin sem slík fái rönd við reist. Afleiðingarnar gætu orðið geigvænlegar, ef við hugsum málið til enda.
Ef þið hins vegar segið nei, þá þýðir það frestun framkvæmda. Það gefur fyrirheit um stefnubreytingu í kjölfar komandi kosninga. Það vekur vonir um, að stöðva megi feigðarflanið, svo að þjóðin fái ráðrúm til að ná áttum, áður en í óefni er komið.
Hver er kjarni þessa máls? Þetta snýst um orkuforðabúr Íslands, verðmæti þess og nýtingu, ekki bara í þágu okkar sjálfra, sem nú lifum, heldur komandi kynslóða. Heimurinn er í orkukreppu. Tími hins ódýra jarðefnaeldsneytis (olíu, kola og gass) er liðinn. Loftlagsbreytingar af manna völdum er viðurkennd vísindaleg staðreynd. Afleiðingar þessara loftslagsbreytinga verða fyrirsjáanlega eitt af stærstu vandamálum jarðarbúa á komandi áratugum. Eftirspurn eftir vistvænni orku fer hraðvaxandi.
Þetta þýðir, að verðmæti orkuforðabúrs Íslendinga verður æ meira eftir því sem tímar líða fram. Tíminn vinnur með okkur. Samningsstaða við orkunotendur mun fara batnandi, sérstaklega þegar sá tími rennur upp, að við getum tengst orkuneti Evrópu með sæstreng. Verð orkunnar getur ekkert farið nema upp á við. Við erum með tromp á hendi.
Sá tími er liðinn, að sölumönnum íslenskra orkulinda leyfist framar að falbjóða orku íslenskra fallvatna og jarðvarma fyrir spottprís. Ásamt með lífsins vatni verður þessi orka eitthvert eftirsóttasta verðmæti, sem fyrirfinnst á jarðarkringlunni. Tíminn og vatnið í myndhverfingu Steins Steinars vinnur með okkur.
Fyrsta hreina orkuhagkerfið í heiminum?
Það er tvennt annað, sem snertir kjarna málsins, sem við verðum að hafa hugfast, þegar við yfirvegum ákvarðanir okkar.
Í fyrsta lagi: Við lifum á tímum hraðfara tæknibyltingar í orkumálum heimsins. Bæði að því er varðar öflun og framboð orku. Þá á ég við þær væntingar,sem eru bundnar við margföldun orkunnar með djupborunum á háhitasvæðunum. Auðvitað er þetta mikilli óvissu undirorpið. Ekki eru allir vísindamenn á eitt sáttir um, að djúpboranir muni tryggja okkur sjálfbæra og vistvæna orku með þessari tækni. Það kunna að vera a.m.k. sjö ár í það, að tilraunaboranir eyði óvissu í þessum efnum. Og eitthvað lengra í það, ef vel tekst til, að þessi tækni skapi ný tækifæri til orkunýtingar, sem er hvort tveggja vistvæn og varanleg. En hvað er einn áratugur til eða frá, þegar taka á ákvarðanir langt fram í tímann um nýtingu á orkuforðabúri Íslands?
Í öðru lagi er ný tækni einnig í sköpun, að því er varðar vistvæna orku til að knýja samgöngutæki, bíla og skip. Á þessari stundu vitum við ekki með vissu, hvaða lausnir muni reynast best, hvort heldur er út frá sjónarmiðum mengunarvarna eða hagkvæmni. Sérstaða íslensks orkubúskapar er sú, að 2/3 orkunotkunar okkar er hrein orka úr innlendum orkulindum. En við þurfum innflutt jarðefnaeldsneyti til að knýja bíla- og skipaflota. Ef yfirstandandi tæknibylting gerir okkur kleift innan tíðar að nota innlenda orkugjafa í því skyni einnig, gæti Ísland orðið fyrsta hreina orkuhagkerfið í heiminum. Það væri vissulega verðugt framlag til heims, sem stendur frammi fyrir orkukreppu og loftslagsvá. En vistvænar lausnir af þessu tagi krefjast mikillar orku. Sú orkuþörf hefur verið metin allt að 10 teravattsstundum á ári, sem er um fimmtungur orkuforðans.
Orkuforðinn uppurinn á áratug?
Annað: Virkjanleg orka á Íslandi hefur verið metin á ca. 50 teravattsstundir á ári. Næstum því til helminga úr vatnsorku og
jarðhita. Þeir virkjunarkostir, sem eru aftastir í röðinni, eru trúlega óhagkvæmastir, hvort heldur metið er á mælikvarða umhverfisverndar eða hagkvæmni.
Af þessu heildarorkumagni þurfum við að taka frá góðan skammt til almenningsnota fyrir vaxandi þjóð. Við þurfum að gera ráð fyrir allt að fimmtungi þessa orkuforða í þágu nýrrar tækni til að knýja farartæki, sem nú valda hvað mestri mengun á Íslandi. Og takið nú eftir: Ef stóriðjustefna fráfarandi ríkisstjórnar nær fram að ganga, eins og allt bendir til, nema stefnubreyting verði knúin fram í næstu þingkosningum, þá munu stóriðjuáformin vegna álbræðslna einfaldlega eyða afganginum af orkuforðanum á næsta áratug.
Til viðbótar við núverandi stóriðju kemur stækkun Norðuráls, Fjarðarál, stækkunin í Straumsvík, álver við Helguvík og enn annað við Bakka á Húsavík og hugsanlega Norsk Hydro í Þorlákshöfn. Ef öll þessi fimm álver verða stækkuð í Straumsvíkurstærð, væri orkuforði Íslands þar með uppurinn. Ísland væri orðið að nýlendu nokkurra álauðhringa, og ekkert væri eftir til ráðstöfunar komandi kynslóða Íslendinga, barna okkar og barnabarna. Þar með hefði núlifandi kynslóð græðgisþjóðfélagsins glutrað niður föðurarfinum og veðsett arfahlut komandi kynslóða upp í topp.
Er þetta sú framtíðarsýn, sem við viljum ljá atkvæði okkar? Er þetta það sem við viljum færa afkomendum okkar í arf? Viljum við láta minnast okkar sem kynslóðarinnar, sem rændi öllum auðlindum lands og sjávar af landslýðnum og færði fáeinum auðkýfingum, erlendum og innlendum, að gjöf um aldir alda? Amen.
Framtíðarlandið.
Í aldarfjórðung hefur íslenska þjóðin verið klofin í afstöðu sinni til eignarhalds á auðlindum sjávar innan íslensku efnahagslögsögunnar. Við jafnaðarmenn knúðum það fram, að sjávarauðlindin er sögð sameign þjóðarinnar að lögum. Hingað til hefur það ekki tekist að innsigla þetta ákvæði í stjórnaskrá lýðveldisins. Veruleikinn er hins vegar orðinn sá, að fiskimiðin eru í reynd komin í einkaeign.
Kannski er ekkert eitt einstakt mál í komandi kosningum eins mikilvægt og það að koma í veg fyrir, að eins fari um orkulindir þjóðarinnar. Þær munu vaxa að verðmæti ár frá ári, eftir því sem tímar líða fram, í ljósi orkukreppu jarðarbúa og með vaxandi eftirspurn eftir vistvænni orku. Og verð orkunnar getur, eins og fyrr sagði, ekkert nema hækkað. En hverjir munu hirða ábatann af arðsemi orkulindanna? Landeigendur? Einkavædd orkufyrirtæki? Erlendir auðhringir? Flest bendir til þess, að ákvarðanir um þessi mál, sem ekki verða aftur teknar, verði knúnar fram á næsta kjörtímabili.
Sú var tíð, að sá sem hér stendur, var það, sem kallað er, eindreginn virkjunarsinni. Ég er hagfræðingur að mennt og hafði þungar áhyggjur af einhæfni íslensks atvinnulífs. Við vorum allt of háðir sjávarútveginum. Við áttum flest okkar egg í einni körfu. Þess vegna var efnahagslífið sveiflukennt og óstöðugt, og atvinnulífið einhæft. Ríkisforsjá og flokksræði réði meiru en góðu hófi gegndi.
Inntakið í öllu mínu pólitíska starfi og okkar íslenskra jafnaðarmanna á s.l. áratugum, var að brjóta á bak aftur þetta flokksræðiskerfi forsjárhyggjunar og leiða þess í stað í lög almennur leikreglur, sem giltu um efnahagsstarfsemina, þannig að frumkvæði einstaklinga og sköpunarkraftur fólks mætti njóta sín.
Hvað á að koma í staðinn?
Við náðum ótrúlegum árangri. Með EES samningnum, sem tók fjögur ár af mínu lífi að leiða til lykta, tókst okkur að jarðtengja íslenskt efnahagslíf við innri markað Evrópu og innleiða almennar samkeppnisreglur, svo að ekki verður aftur snúið. Við meira en hundraðfölduðum íslenskan heimamarkað og gerðum útrás íslenskra fyrirtækja mögulega í skjóli almennra leikreglna innri markaðar Evrópu.
Íslenskt þjóðfélag er orðið óþekkjanlegt frá því, sem áður var. Vægi sjávarútvegsins er miklu minna. Fjármálastarfsemi, sem á sér vaxtarmöguleika fyrst og fremst á erlendum mörkuðum, er orðin jafnoki sjávarútvegsins. Ferðaþjónusta, lyfjaframleiðsla og heilbrigðisþjónusta, hugbúnaðar- og fjarskiptaþjónusta, allt eru þetta nýjar og vaxandi atvinnugreinar.
Þegar spurt er: Hvað á að koma í staðinn fyrir stóriðjuna, þá blasir svarið við allt í kring um okkur. Fjölbreytileg störf í litlum og meðalstórum fyrirtækjum, sem verða til fyrir frumkvæði, framtak, hugvit og sköpunarkraft fólks. Það er það sem á að koma í staðinn. Það er framtíðarlandið.
Þess vegna stend ég hér og skora á ykkur, Hafnfirðinga, að hafna fína deiliskipulaginu og að gefa okkur öllum þar með ráðrúm til að ná áttum, til að móta framtíðarstefnu um nýtingu orkulindanna, þjóðinni allri til hagsbóta í framtíðinni.