HELGI HAFLIÐASON – MINNING

Á árunum upp úr fyrra stríði stóð opinn fiskmarkaður Reykvíkinga, þar sem nú er vinsælasti veitingastaður borgarinnar – Bæjarins besta – við Tryggvagötu. Árið 1922 – árið sem Helgi frændi minn, Hafliðason, fæddist fyrir áttatíu og fjórum árum – byrjaði faðir hans að selja reykvískum húsmæðrum ferskan fisk beint af kerrunni. Þetta var upphafið að Fiskbúð Hafliða, sem alla tíð síðan hefur verið stofnun í bæjarlífinu, hvernig svo sem allt annað hefur velkst og horfið í tímans ólgusjó. Fiskbúð Hafliða var einn af þessum föstu púnktum í tilverunni, sem stóð af sér áreiti tímans.

Faðir Helga var Hafliði Baldvinsson, bróðir Jóns Baldvinssonar, sem var forseti Alþýðusambandsins og þar með formaður Alþýðuflokksins fyrstu tvo áratugina og rúmlega það. Þeir skiptu með sér verkum, þessir bræður að vestan. Annar sá alþýðu manna fyrir hollri næringu við vægu verði; hinn barðist fyrir bættum kjörum hins stritandi lýðs samkvæmt boðorðinu, að verður væri verkamaðurinn launanna.

Eftir að Jón Baldvinsson féll frá, skildi leiðir milli Alþýðusambandsins og Alþýðuflokksins. Þá upphófust flokkadrættir, þar sem bræður börðust, og sér ekki fyrir endann á þeim viðsjám enn í dag. En Fiskbúð Hafliða hélt sínu striki. Allt frá því að byrjað var að selja nýmetið beint af kerrunni upp úr fyrra stríði og til dagsins í dag, hafa menn getað gengið að hollmetinu á sínum stað og við vægu verði.

Fiskbúð Hafliða og Helgi Hafliðason, sem tók við rekstri hennar af föður sínum 1953, eru því í reynd jafnaldrar. Fiskbúð Hafliða hefur verið í eigu fjölskyldunnar í þrjár kynslóðir allt til dagsins í dag. Þriðja kynslóðin tók smám saman við upp úr 1980 og hefur staðið fyrir rekstrinum í 27 ár. En nú hafa orðið kaflaskil í sögu fjölskyldunnar, fyrirtækisins og reyndar í sögu borgarinnar, sem Fiskbúð Hafliða hefur þjónað á æviskeiði þriggja kynslóða. Ættarhöfðinginn er fallinn frá, og fyrirtækið hefur verið selt nýjum eigendum. Fiskbúð Hafliða er ekki lengur í eigu fjölskyldunnar. Framundan eru óvissutímar.

Fiskbúð Hafliða var ekki bara venjuleg fiskbúð. Hún var að vísu besta fiskbúð á Íslandi og þó víðar væri leitað. En hún var annað og meira. Hún var sem fyrr segir fastur púnktur í tilverunni og stofnun í bæjarlífinu. Og svo var hún tengd Alþýðuflokknum og verkalýðshreyfingunni ósýnilegum en órjúfanlegum böndum. Því fékk ég að kynnast, þegar ég var kjörinn formaður Alþýðuflokksins árið 1984. Þar með tók Fiskbúð Hafliða við því hlutverki að halda formanninum á lífi og að halda lífi í formanninum. Þetta voru átakatímar. Atorkan hvergi spöruð. Og sjávarfangið brást ekki, spruðlandi af vítamínum og óþrjótandi orkugjafi. Það má ekki seinna vera en á kveðjustundinni að þakka þeim frændum mínum fyrir vegarnestið.

Reyndar héldu þeir frændur áfram að sjá Bryndísi fyrir veislukosti, jafnvel eftir að Alþýðuflokkurinn hafði ruglað saman reitum sínum við aðra, og við Bryndís vorum sest að um hríð í höfuðborg heimsins, Washington D.C., á bökkum Potomac árinnar. Ekki veit ég, hvernig þeim tókst að koma skötunni, rammkæstri, á leiðarenda til þess að unnt væri að blóta heilagan Þorlák að vestfirskum sið. En það tókst þeim með eftirminnilegum árangri.

Sendiherra hans heilagleika páfans, sem eitt sinn naut þeirra forréttinda að fá að njóta krásanna, gaf út páfabréf, þar sem sagði, að það teldist refsivert athæfi af Íslands hálfu að hafa haldið þessu hnossi, kæstri skötu með vestfirskum hnoðmör, leyndri fyrir hinum siðmenntaða heimi í meira en þúsund ár. En nú teldist þetta fyrirgefið, þar sem gerð hefði verið iðrun og yfirbót, og sendimaður páfans hefði fengið að njóta herlegheitanna og gæti vottað fyrir heimsbyggðinni, að hnossið væri óviðjafnanlegt og ætti ekki sinn líka á byggðu bóli.

Við Bryndís eigum margar og óforgengilegar minningar um samskipti okkar við ættarhöfðingjann, Helga Hafliðason, sem við kveðjum í dag með eftirsjá og söknuði. Hann var maðurinn, sem ævinlega hlýddi kalli, þegar mikið lá við. Hann var maðurinn, sem aldrei lét sig vanta, ef liðs var þörf. Og margar áttum við sameiginlegar gleðistundir, þegar stund var milli stríða, í mannfagnaði eða á ferðum á vit íslenskrar náttúru. Einlægni hans, hlýja og trygglyndi mun ylja okkur um hjartarætur um ókomna daga. Hvíli hann í friði.