FRAMTÍÐARLANDIÐ

Þegar bensínlítrinn við dæluna kostar svipað og sígarettupakkinn í sjoppunni, munu menn finna það á pyngju sinni, að öld olíunnar er liðin.

Þessi tímamót eru þegar farin að gera boð á undan sér. Leitin að nýjum orkugjöfum 21. aldar og nýrri tækni til að nýta þá, er fyrir löngu hafin.

Ný tækni til að framleiða orku úr lífrænum efnum, sem má nýta til að knýja samgöngutæki í staðinn fyrir olíu og bensín, er nú þegar komin í notkun víða um heim. Það krefst mikillar orku. Endurnýjanleg orka, hvort heldur er úr vatnsföllum eða jarðvarma, er þegar orðin meira en gulls ígildi.

Verðmæti slíkrar orku fer vaxandi dag frá degi, og verðið fyrir nýtingu hennar getur aðeins farið upp á við.

Við erum að tala um vistvæna orkugjafa nýrrar aldar.

Við erum að tala um lögmálið um sjálfbæra þróun. Það lögmál segir okkur, að hver kynslóð jarðarbúa megi nýta náttúruauðlindir í sína þágu, að því marki, að hún gangi ekki á höfuðstólinn, sem á að standa undir lífskjörum afkomenda okkar.

Spurningin sem við stöndum nú frammi fyrir – Hafnfirðingar þann 31. mars og Íslendingar allir þann 12. maí – er þessi: Ætlum við að láta skammsýna menn, blindaða af græðgi og eigingirni, ráða för – eða ætlum við að hlýta kalli tímans á nýrri öld?

Ætlum við að sitja föst í viðjum fortíðarinnar með asklok eigingirninnar fyrir himin, eða ætlum við að ganga á vit nýrra tíma undir merkjum sjálfbærrar þróunar og siðferðilegrar ábyrgðar gagnvart móður jörð og börnum hennar í framtíðinni?

Á þessari nýju öld hvarflar ekki að nokkrum manni með sjálfsvirðingu að troða mengandi álveri inn í sjálfa höfuðborg hins nýja Íslands.

Gamla testamentið geymir margar eftirminnilegar dæmisögur um glapræði manna og mistök. Þar stendur: Engin borgarhlið eru svo þröng, að asni klyfjaður gulli, komist ekki inn um þau.

Það yrði heimssögulegur atburður, ef Hafnfirðingar tækju sig til þann 31. mars og afsönnuðu dæmisögu spámanna ritningarinnar og gerðu asnann afturreka – með allt sitt ál og tál.

Virkjanlegt orkuforðabúr Íslands úr bæði vatnsföllum og jarðvarma, mælist við núverandi tækni um 50 teravattstundir. Með sex álverum af Straumsvíkurstærð – Norðurál, Fjarðarál, Straumsvík, Helguvík, Húsavík og Norsk Hydro í Þorlákshöfn – yrði orkuforðabúr Íslands nokkurn veginn uppurið. Búið. Uppselt.

Ísland væri orðið að nýlendu nokkurra álauðhringa. Ekkert væri eftir til ráðstöfunar komandi kynslóða, barna okkar og barnabarna. Þar með hefði núverandi kynslóð græðgisþjóðfélagsins glutrað niður föðurarfinum og veðsett arfahlut komandi kynslóða upp í topp.

Er þetta sú framtíðarsýn, sem við viljum ljá atkvæði okkar?
Er það þetta það sem við viljum færa afkomendum okkar í arf?
Viljum við láta minnast okkar sem kynslóðarinnar, sem rændi öllum auðlindum lands og sjávar af landslýðnum og færði fáeinum auðkýfingum, erlendum og innlendum, að gjöf um aldir alda?

Hvað á að koma í staðinn fyrir stóriðjuna, spyrjið þið.
Svarið er: Fyrsta hreina orkuhagkerfið í heiminum, sem nýtir endurnýjanlega orku til að knýja öll sín samgöngutæki, þar með talinn skipaflotann og heldur gangandi þjóðfélagi þekkingar og hugvits undir merkjum sjálfbærrar þróunar. Það er framtíðarlandið.

Við eigum margra kosta völ í framtíðinni. Það verða langar biðraðir eftir því að fá að nýta hina vistvænu, endurnýjanlegu orku Íslendinga. Verðið getur ekkert nema hækkað. Meira að segja Microsoft og Google eru farin að svipast um eftir framtíðarstað í ljósi orkukreppunnar í Kaliforníu.

Það er ekki bara líffræðilegt siðleysi, heldur hagfræðileg heimska að veðsetja þetta dýrmæta orkuforðabúr og selja á spottprís til mengandi stóriðju, þegar miklu betri kostir blasa við allt um kring.

Látum ekki hræðsluáróðurinn lama okkur. Tökum hótunum auðhringsins með jafnaðargeði, og látum þær ekki á okkur hrína, því að við höfum tromp á hendi og eigum margra kosta völ: Fjölbreytileg störf í litlum og stórum fyrirtækjum, sem verða til fyrir frumkvæði, framtak, hugvit og sköpunarkraft fólks. Það er það sem á að koma í staðinn.

Það er framtíðarlandið.