NÝJA ÁHÖFN Í SEÐLABANKANN. VIÐTAL JAKOBÍNU DAVÍÐSDÓTTUR VIÐ JÓN BALDVIN FYRIR TÍMARITIÐ MANNLÍF

Það hefur ekki farið fram hjá þeim sem á annað borð fylgjast eitthvað með stjórnmálaumræðunni hér landi að hvarvetna er rætt um Evrópumál. Þar sem þrír eða fleiri koma saman ber Evrópusambandið á góma og sýnist sitt hverjum.

Eftirfarandi viðtal tók Jakobína Davíðsdóttir, blaðakona og stjórnmálafræðingur, við Jón Baldvin fyrir tímaritið Mannlíf í mars 2007.

Lengi vel voru andstæðingar aðildar talsvert fjölmennari en nú bregður svo við, þegar samdráttur verður í samfélaginu, að upp rísa fyrrum andstæðingar og tala fyrir því að Íslendingar eigi vitaskuld að hefja samningaviðræður um inngöngu í ESB þannig að allt verði klárt þegar að því komi að þjóðin stígi skrefið stóra yfir til Evrópu.
Þegar Jón Baldvin sagði skilið við stjórnmálin og flutti utan til Bandaríkjanna var langt bil á milli þeirra sem vildu ganga í ESB og hinna sem vildu standa utan við Evrópusambandið. Þeim fer fjölgandi sem áður voru svarnir andstæðingar en standa nú saman með hinum um að stefnan verði tekin á Evrópu.

Það hefur alla tíð verið ljóst hver skoðun Jóns Baldvins er á því, að við Íslendingar göngum í Evrópusambandið. Hefði hann einhverju fengið um það ráðið værum við annað hvort orðin aðilar að sambandinu eða værum að undirbúa inngöngu. Þeir sem eitthvað velta fyrir sér samfélagsmálum og fylgjast með stjórnmálum vita sem er að Jón Baldvin Hannibalsson er einlægur Evrópusinni. Hann hefur aldrei dregið dul á þá skoðun sína að Islendingar eigi heima í Evrópusambandinu.
Sjálfur var Jón Baldvin utanríkisráðherra í svokallaðri Viðeyjarstjórn sem hann myndaði með Davíð Oddssyni. Þeir félagar tóku sér ekki langan tíma í að þrefa um smáræði heldur voru snöggir að setja saman málefnasamning sem þeir unnu síðan eftir í fjögur ár.

Sem utanríkisráherra stýrði Jón Baldvin samningaviðræðum við ESB um myndun Evrópska efnahagssvæðisins, sem nefnist EES í daglegu tali, á árunum 1989-93. Almennt er viðurkennt að EES-samningurinn gerbreytti öllu viðskiptaumhverfi á Íslandi auk þess sem hinn örsmái heimamarkaður náði allt í einu til 350 milljóna manna. Vísast gætum við ekki hugsað okkur hvernig ástandið væri ef við hefðum ekki tekið það örlagaríka skref á sínum tíma.

Jón Baldvin er sestur á helgan stein frá daglegu argaþrasi stjórnmálanna. Hann er eigi að síður jafn pólitískur í hugsun og hann hefur ætíð verið…gott ef áhuginn á stjórnmálum eykst ekki fremur en hitt með aldrinum. Á engan er hallað þó fullyrt sé að fáir Íslendingar þekki málefni Evrópu betur en einmitt Jón Baldvin. Hann er staðfastur Evrópusinni og hefur fylgst náið með þróun mála innan ESB og stækkun þess.
“Þrátt fyrir hávær mótmæli einstakra manna sem börðust hatrammri baráttu gegn aðild, þá velkist enginn í vafa lengur um að það var kórrétt ákvörðun að vera með í EES“, segir hann og bendir á að varla myndi nokkur Íslendingur vilja snúa aftur til fyrri tíma.

Það er ekki á stefnuskrá ríkistjórnarinnar að sækja um aðild á á kjörtímabilinu en menn hafa talað um að taka upp evru þrátt fyrir að við stöndum utan Evrópubandalagsins. Er eitthvað vit í því?

“Nei, það væri lítið vit í því. Það væri platlausn. Með því að taka upp evru, einhliða, í stað krónunnar, værum við að sækjast eftir stöðugleika. Til þess nægir ekki að breyta um nafn á gjaldmiðlinum. Menn verða að geta treyst því, að stjórnvöld héldu fast við evruna þrátt fyrir ytri áföll eða sveiflur í efnahagsumhverfinu. Það traust myndi eftir sem áður skorta og þar með trúverðugleikann. Hann bendir á til samanburðar, þegar Argentína tók upp dollarann sem gjaldmiðil. “Það var skelfilegt og endaði nánast í þjóðargjaldþroti. Þetta var gert með ráðum snillinganna í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Tilgangurinn var að ná niður verðbólgunni. En misvísunin á milli hins öfluga bandaríska hagkerfis og þess argentínska varð alltaf meiri og meiri. Spennan við að halda uppi hágengisgjaldmiðli, eins og dollarinn þá var, þýddi að Argentínumenn urðu ósamkeppnishæfir á alþjóðamörkuðum og áttu að lokum ekki fyrir skuldum.

En voru mistökin ekki falin í því að tímasetningin hjá Argentínu var röng því nú hafa lönd eins og El Salvador og Ekvador tekið upp dollar og gengið ágætlega?

Hann grípur orðið á lofti og svarar: Þeir voru áreiðanlega á vitlausum tíma. Við myndum áreiðanleg líka lenda á vitlausum tíma fyrr en varir, segir Jón Baldvin og hlær.
Hann minnir á að hagfræðin skilgreinir ákveðin lágmarksskilyrði fyrir nothæfan gjaldmiðil ríkis. Frumskilyrði er, að hann verði að vera nothæfur greiðslumiðill og að vera ávísun á verðmæti. Til að njóta viðurkenningar annarra verði hver gjaldmiðill að varðveita í sér verðmæti frá einu tímabili til annars. Þannig öðlast hann viðurkenningu í viðskiptum. Krónan uppfyllir ekkert af þessum skilyrðum.
Einmitt þess vegna urðum við að taka upp verðtrygginguna á sínum tíma.
Lán til langs tíma eru ekki veitt í krónum á Íslandi. Þau eru veitt í verðtryggingarkrónum, sem er þar með er orðin hin raunverulega reiknieining og greiðslumiðill. Verðtryggingin var harkaleg aðgerð á sínum tíma. Hún þjónaði þeim tilgangi að kveða niður óðaverðbólgu, sem hafði sýkt efnahagslífið, og var við það að fara úr böndunum á níunda áratugnum. Verðtryggingin dugði til þess að hemja óseðjandi lánsfjáreftirspurn, því að með verðtryggingunni hættu lán að vera gjöf. Menn urðu framvegis að borga lánin sín fullu verði. Og sparifjáreigendur gátu loks aftur litið glaðan dag. En verðtryggingin var í eðli sínu skammtímaaðgerð. Í opnu og alþjóðavæddu hagkerfi er hún tímaskekkja. Við inngöngu í ESB og með upptöku evru í stað krónunnar, með öllum þeim skuldbindingum sem því fylgir, hyrfi verðtryggingin úr sögunni.

Þótt verðtryggingin hafi verið ill nauðsyn á sínum tíma, hefur hún óæskilegar hliðarverkanir til lengri tíma. Hún verkar orðið sem hálfgert snuð á hagstjórnina. Ef stjórnvöld gera sig sek um alvarleg hagstjórnarmistök sem hafa t.d. í för með sér verðbólguþenslu og okurvexti, þá gerir verðtryggingin stjórnmálamönnum kleift að sópa afleiðingunum undir teppið. Með verðbólgunni hækkar höfuðstóll lánsfjárskuldbindinga, en þetta er ekki sýnilegt og bitnar ekki strax á skuldurum, vegna þess að vextir geta staðið óbreyttir, þótt það komi seinna að skuldadögum. Þetta veldur því líka að svokölluð sjálfstæð peningamálastefna íslenska seðlabankans, sem felst í því að hækka svokallaða stýrivexti bítur ekki; skilar engum árangri eins og reynslan allt frá árinu 2001 hefur kennt okkur. Áhrifin eru reyndar þveröfug á við upprunalegan tilgang. Háir stýrivextir og mikill vaxtamunur milli Íslands og annarra landa hvetur til skammtímafjárfestinga spákaupmanna, sem eygja skjótfenginn gróða í nafni þessa vaxtamunar. Um leið er gengi okkar ónothæfa gjaldmiðils styrkt þannig að krónan er óeðlilega “sterk” í samanburði við aðra gjaldmiðla. Með þessum hætti lokumst við inni í vítahring. Seðlabankinn veigrar sér við að lækka vexti af ótta við, að þá kippi hinir erlendu spákaupmenn að sér hendinni með þeim afleiðingum, að gengið fellur, og verðbólga fer aftur vaxandi. Fyrirtæki jafnt sem almenningur hafa reynt að losa sig úr þessari úlfakreppu með því að sækjast eftir erlendu lánsfé á lágum vöxtum. Þar með taka skuldarar á sig gengisáhættu, en kjósa það frekar af tvennu illu fremur en að verða fórnarlömb innlendrar óstjórnar í gegnum verðtrygginguna.

Nú er þessi leið ekki lengur fær. Það er skollin á alþjóðleg lánsfjárkreppa, sem á rætur að rekja til langvarandi óstjórnar Bush og félaga hans á bandarískum efnahagsmálum. Kannski væri nær að kalla þetta hreinlega bankakreppu. Hinir nýlega einkavæddu bankar á Íslandi eru gríðarlega skuldsettir. Þeir tóku ótæpilega lán í góðærinu, erlend lán á lágum vöxtum, sem þeir endurlánuðu, ýmist verðtryggt eða á háum vöxtum. Þetta var fín gróðamylla, meðan hún entist. En nú er komið að skuldadögum. Hið sama á við um þjóðarbúið, þótt ríkissjóður standi enn sem komið er tiltölulega vel. En lánsfjárkreppa hefur keðjuverkandi áhrif, sem gætir um allt samfélagið, m.a. bitnar hún brátt á tekjum ríkissjóðs. Tekjurnar rýrna, en útgjaldaþörfin vex í kreppu. Þetta, ásamt með skuldastöðu bankanna, rýrir líka lánstraust ríkissjóðs.

Þegar bankarnir nú leita eftir endurfjármögnun þurfa þeir að sæta skuldatryggingarálagi, sem gerir lántökur annað hvort mjög dýrar eða jafnvel óviðráðanlegar. Megnið af umsvifum bankanna eru ekki lengur á Íslandi heldur erlendis. Umsvif þeirra í heild samsvara margfaldri þjóðarframleiðslu Íslendinga. Ef íslenskt heimilisfang og ónothæfur gjaldmiðill reynist þeim vera varanlega fjötur um fót, vekur það upp spurninguna um, hvort þeir taki ekki að lokum þann kostinn að flýja land með því að setja upp höfuðstöðvar í útlöndum.

Segja má, að við stöndum því á nokkrum tímamótum. Við getum ekki mikið lengur búið við afleiðingarnar af misheppnaðri peningamálastjórn Seðlabankans. Útgönguleiðin fyrir fólk og fyrirtæki, sem hingað til hefur verið í því fólgin að leita eftir lánsfjármagni erlendis, hefur nú lokast. Núverandi stjórn Seðlabankans hefur fengið sín tækifæri, en hefur ekki tekist að nýta þau með árangri. Það er því kominn tími til að skipta um áhöfn undir Svörtuloftum og fela stjórnina fagmönnum. Það er á ábyrgð forsætisráðherra og eðlilegast að koma slíkum breytingum til leiðar með breytingu á lögum.

Við vitum ekki á þessari stundu, hversu langvarandi þessi kreppa mun reynast. Stjórn Bush Bandaríkjaforseta, sem hratt kreppunni af stað, er rúin trausti á öllum sviðum. Þangað er engra lausna að leita. Nýr forseti tekur ekki við fyrr en í byrjun næsta árs. Bandaríkin eru venjulega stjórnlaus undir lok valdatíma fráfarandi forseta og í byrjun þess næsta. Þess er því ekki að vænta að viðreisnaraðgerðir nýs forseta fari að hafa áhrif fyrr en líða tekur á næsta ár. Það er óhætt að slá því föstu, að margir hafa ekki burði til þess að bíða svo lengi. Auk þess er íslenska hagkerfið illa í stakk búið til þess að takast á við langvarandi kreppu. Veiðiheimildir í bæði þorski og loðnu hafa verið skornar niður. Það mun bitna með ærnum þunga á landsbyggðarhagkerfinu. Hagkerfið á höfuðborgarsvæðinu er enn með hitasótt eftir ofþensluna og skuldum vafið. Það má því lítið út á bera.

– Og hvað er þá til ráða?

Það eru engar töfralausnir til nú frekar en fyrri daginn. Vandinn er í því fólginn að halda verðbólgu í skefjum, að skapa skilyrði fyrir stöðugleika í efnahagsumhverfinu, sem getur ekki gerst til lengri tíma litið nema með lækkun vaxta. Forystumönnum í atvinnulífinu er æ fleirum að verða þetta ljóst. Við getum ekki lengur búið við óbreytt ástand. Þess vegna væri skynsamlegt nú, einmitt við þessar aðstæður, að taka politíska ákvörðun um að stefna að ESB aðild. Í því fælist mikilvægt aðhald að hagstjórninni. Allar aðgerðir héðan í frá yrðu við það miðaðar að fullnægja settum skilyrðum um inngöngu í ESB og í framhaldi af því aðild að myntsamstarfinu og upptöku evru. Jafnframt þarf að hefja undirbúning að nauðsynlegum breytingum á stjórnarskránni sem að óbreyttu heimilar ekki aðild Íslands að samþjóðlegu samstarfi, sem felst í ESB aðild. Menn eiga ekki að reyna að slá þessari lykilákvörðun á frest með þeim falsrökum að við séum að fást við skammtímavanda, en ESB aðild sé langtímamál, sem leysi ekki vandann nú. Þetta eru falsrök vegna þess að þær umbætur sem við nú þurfum að gera á hagstjórninni, eru nákvæmlega hinar sömu og þarf að gera til að uppfylla skilyrði aðildar. Pólitísk ákvörðun nú um ESB aðild væri því stefnumarkandi til lengri tíma litið og gæfi stjórnvöldum það aðhald, sem nauðsynlegt er til þess að aðgerðir til skamms tíma skili árangri til frambúðar. Ég hef sagt það áður og segi það enn: Íslendingar munu sækja um aðild að ESB þegar forystulið atvinnulífsins hefur endanlega gefist upp á sísífosar puðinu með gjaldmiðil, sem ekki er lengur gjaldgengur í viðskiptum, hvorki innanlands né erlendis. Og þegar þetta forystulið atvinnulífsins hefur gert forystumönnum Sjálfstæðisflokksins það ljóst, að þeir komist ekki upp með það lengur að slá þessari óhjákvæmilegu pólitísku ákvörðun á frest. Tíminn leyfir það ekki mikið lengur. Að lokum þurfa Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin að ná samstöðu um þetta stóra mál. Þetta er reyndar eina málið, sem er af þeirri stærðargráðu, að það réttlæti tímabundið samstarf þessara flokka, sem ella ættu að skiptast á um að veita ríkisstjórnum forstöðu í landinu.

– Sísífosarpuð? Hvernig ber að skilja það?

Það er von þú hváir, segir Jón Baldvin brosandi. Hann rifjar upp að Sísífos hafi verið sögupersóna í grískum goðsögnum. Örlög hans voru í því fólgin að hann var dæmdur til að rogast upp fjallshlíð með stein í fanginu. Hann var ekki fyrr kominn að efstu brún, fyrr en hann rúllaði niður hlíðina aftur á sama stað og í upphafi. Og var dæmdur til að endurtaka leikinn í sífellu, án árangurs. Þetta er saga hagstjórnarinnar á Íslandi og hinnar sjálfstæðu peningamálastefnu Seðlabankans í hnotskurn. Steinninn, sem Sísífos er sífellt að rogast með upp brattann til þess eins að rúlla niður aftur, – sá steinn heitir íslenska krónan. Það eru allir búnir að gefast upp á þessu árangurslausa puði.

Segðu mér þá Jón Baldvin: Hversvegna eru forsætisráðherra og aðrir ráðamenn innan Sjálfstæðisflokksins svona tregir til að ræða um hugsanlega inngöngu í ESB? Hver er draugurinn?

“Það er kannski ekki á mínu færi að upplýsa lesendur um meintan draugagang innan Sjálfstæðisflokksins, segir Jón Baldvin og hlær við. En við getum svosem reynt að setja okkur í fótspor Geirs formanns, enda er það almennt góð regla ef maður vill skilja þá sem eru manni ósammála. Hvað hefði hann að óttast við að skipta um kúrs í Evrópumálum? Sjálfstæðisflokkurinn hefur gert það áður. Sjálfstæðisflokkurinn var í stjórnarandstöðu á móti samningnum um Evrópska efnahagssvæðið á sínum tíma. Nýr formaður, Davíð Oddsson, skipti um stefnu í stjórnarmyndunarviðræðum við mig úti í Viðey á tveimur dögum. Að vísu var það Davið útlátalítið því að hin pólitísku átök um samninginn voru að baki. Þessi átök náðu hámarki fyrir kosningarnar ’91. Þau mæddu mest á mér og mínum flokki, Alþýðuflokknum, meðan Sjálfstæðisflokkurinn sigldi lygnan sjó. Geir getur aftur á móti ekki lokað augunum fyrir því að ákvörðun um að leita eftir inngöng í ESB verður ekki tekin með sitjandi sældinni. Hún mun kosta harðvítug átök og hún mun m.a. þýða það að Sjálfstæðisflokkurinn verður að þora að ganga í berhögg við hagsmunaklíkur eins og t.d. LÍÚ og samtök bænda, sem hingað til hafa talið sér trú um að aðild að ESB samrýmist ekki hagsmunum þeirra. Annað hvort verður hann að sannfæra þessa aðila um, að stöðumat þeirra sé skakkt og andstaðan byggð á vanþekkingu og misskilningi eins og raunin er, eða að hann verður að þora að taka slaginn, í nafni þjóðarhagsmuna. Til hvers eru menn í pólitík? Það verður hver og einn að gera upp við sig. En það er haft fyrir satt að þjóðir fái almennt þá forystumenn sem þær eiga skilið.

Er það ekki gamla grýlan um fiskimiðin sem mönnum hefur verið talin trú um að við munum missa frá okkur? Óttast þeir um að við verðum að deila þeim með öðrum þjóðum Evrópu?

“Jú, þetta er enn ein grýlusagan. Á ensku nota menn hugtakið “four letter word” um orð sem þykja tvíræð, dónaleg eða ekki við hæfi í opinberri umræðu. Þetta er svona “four letter word”: Fish. ‘I hvert skipti sem einhver hefur viti borna umræðu um kosti og galla ESB aðildar, þá endurtaka klíkubræður í sífellu sitt fjögurra stafa orð, nefnilega um fisk. Kvótaeigendurnir hafa talið sér trú um það, að kommisarar í Brussel muni taka af þeim kvótana, gangi Ísland í ESB, og að spænskir togarar muni flykkjast á Íslandsmið í samkeppni við okkar útvöldu kvótakónga. Þá er fiskurinn þeirra allt í einu orðinn fiskurinn okkar! Og það er þjóðin, hinn lögformlegi eigandi fiskistofna í okkar lögsögu, sem á að tryggja þeim einkaréttinn áfram í nafni þjóðarhagsmuna. Með því að endurtaka þetta nógu oft hefur þeim tekist að telja fólki trú um að þetta sé staðreynd.

Það breytir samt sem áður engu um, að þetta er staðleysa. Fyrir þessu er ekki flugufótur. Og ástæðan er einföld: Það eru engir fiskistofnar innan íslensku lögsögunnar sem eru sameiginlegir með ESB, aðrir en þeir sem þegar er um samið. Það ber því enga nauðsyn til að beygja Íslendinga undir reglur hinnar sameiginlegu fiskveiðistefnu ESB. Þetta er með öðrum orðum ekkert vandamál, sem ástæða er til að ætla að verði torvelt að leysa við samningaborðið. Annað eins hefur nú verið leyst í slíkum samningum. Þetta liggur þegar ljóst fyrir. Fulltrúar réttra stjórnvalda í framkvæmdarstjórn ESB hafa staðfest þetta mat með ótvíræðum yfirlýsingum, sem taka af allan vafa. Því er svo við að bæta að allar þjóðir, sem samið hafa um inngöngu í ESB hafa fengið það tryggt, að fullt tillit sé tekið til “brýnna þjóðarhagsmuna”. Fulltrúar ESB hafa enga ástæðu til að rengja það, að forræði yfir fiskveiðiauðlindinni varði brýna íslenska þjóðarhagsmuni. Finnar og Svíar fengu m.a.s. viðurkenningu á því að heimskautalandbúnaður í þeirra löndum nyti slíkrar sérstöðu, að hann nyti styrkja umfram landbúnað í búsældarlegri Evrópulöndum.

Hitt er svo annað mál, að við sitjum uppi með fiskveiðistjórnunarkerfi sem nýlega hefur fengið þann dóm hjá alþjóðlegum dómstóli, að það brjóti í bága við grundvallarreglur um mannréttindi. Það er laukrétt. Núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi stenst heldur ekki til frambúðar tvær grundvallarreglur íslensku stjórnarskrárinnar: Annars vegar jafnræðisregluna um, að allar menn skuli jafnir fyrir lögunum. Og hins vegar grundvallarregluna um atvinnufrelsi manna. Seinast þegar Hæstiréttur fjallaði um þessi álitamál komst meirihlutinn að þeirri niðurstöðu, að kvótakerfið teldist lögmætt sem neyðarráðstöfun til bjargar fiskistofnunum. Það réttlætist m.ö.o af neyðarrétti. En það getur aðeins staðist til skamms tíma. Neyðarréttur getur ekki til langframa vikið til hliðar sjálfum grundvallarreglum sjórnskipunarinnar. Þetta er hins vegar innlent ágreiningsmál, sem okkur ber að leysa innbyrðis og heyrir ekki undir lögsögu ESB. Hins vegar má vel vera, að innlendir aðilar geti leitað eftir úrskurði Evrópudómstólsins um lögmæti þess til frambúðar.

Ertu að segja að við þurfum fyrst að stokka upp kvótakerfið áður en við hefjum viðræður um aðild að ESB?

“Nei, kvótakerfið kemur spurningunni um ESB aðild ekkert við. Hitt er svo annað mál, að óbreytt kvótakerfi fær ekki staðist til frambúðar. Fyrir því eru ýmsar ástæður, þar á meðal þær sem ég rakti áðan um að kerfið samrýmist ekki grundvallarreglum stjórnskipunarinnar. Ókeypis úthlutun veiðiheimilda sem eru mikið fémæti og eru í eigu þjóðarinnar, til útvalinna einstaklinga, fær heldur ekki staðist af, hvort heldur er, hagfræðilegum, (praktískum) eða siðferðilegum ástæðum. Það stenst engin lög að aðilar taki sér vald til þess að selja eða leigja annarra manna eigur í ábataskyni og það án þess að eigandinn fái nokkuð fyrir sinn snúð. Okkur jafnaðarmönnum tókst á sínum tíma að forða því slysi, að kvótarnir yrðu með lögformlegum hætti viðurkenndir sem eign viðtakenda. Við komum ákvæðinu um þjóðareign á auðlindum innan lögsögunnar inn í 1. grein fiskveiðistjórnunarlaganna. Við áréttuðum það sérstaklega síðar, þegar framsalið var leyft í nafni nauðsynlegrar arðsemi, að úthlutun veiðiheimilda bæri að skoða sem nýtingarrétt en ekki lögvarinn eignarrétt og að breytingar á kerfinu gætu undir engum kringumstæðum réttlætt skaðabótakröfur á hendur ríkinu.

Með þessu töldum við okkur hafa tryggt að meirihluti á Alþingi gæti hvenær sem væri afturkallað veiðiheimildirnar, boðið þær upp á markaði eða með öðrum hætti tryggt að eigandinn, þjóðin, fengi réttlátan arð af þessari eign sinni. Því miður hefur þetta mikilvæga mál aldrei verið leitt til lykta eða til rökréttrar niðurstöðu. Kvótakerfið hefur sína kosti og sína galla. Því má breyta á ýmsa lund í ljósi reynslunnar enda hefur það ekki skilað þeim árangri, sem vænst var, fyrir uppbyggingu fiskistofna. En eitt er alveg víst: Ókeypis úthlutun verðmætra almannaeigna til einkaaðila, án þess að greitt sé fyrir nýtingarréttinn, fær ekki staðist til frambúðar. Auðvitað er viss hætta á því að meðhöndlun kvótaeigenda á veiðiheimildum sínum, sem birtist m.a. í því að bankakerfið samþykkir ónýttar veiðiheimildir sem veð fyrir skuldum eða að kvótaeign, sé skipt á milli hjóna við hjúskaparslit, eða að þeir eru látnir ganga að erfðum milli kynslóða, leiði til þess smám saman skv. hefðarétti, að þessi takmarkaði nýtingarréttur verði viðurkenndur sem lögvarinn eignarréttur. Til þess að bægja þeirri hættu frá þarf að koma ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum sínum inn í stjórnarskrána. Þar að auki verður innan tíðar að láta á það reyna fyrir dómsstólum, hversu lengi þetta óréttláta kerfi geti staðist í skjóli tímabundins neyðarréttar.

Aðspurður um hver verði þá réttur þeirra sem hafi keypt kvóta dýrum dómum, svarar Jón Baldvin að þeir verði bara að spyrja sjálfa sig hvort þeir hafi ekki borgað heldur mikið fyrir nýtingarréttinn því þeir eignuðust þetta aldrei. Þjóðin á fiskistofnana” svarar Jón Baldvin stutt og laggott.

Verða svo allir hamingjusamir við inngöngu í ESB, eða hvað?

“Því fer áreiðanlega víðs fjarri enda vandséð hvernig auka megi hamingju Íslendinga sem lýsa sjálfum sér þráfaldlega í skoðanakönnunum sem hamingjustu þjóð í heimi. Ég veit ekki til þess að það sé nokkkuð um hamingjuna í Rómarsáttmálanum. Enda skulum við forðast í lengstu lög að ýkja kosti aðildar umfram það sem álykta má um af staðreyndum eða af reynslu annarra þjóða. Sjálfur er ég sannfærður um að það er unnt að tryggja bættan hag íslenskra bænda innan ESB. Reynsla annarra þjóða sýnir líka að þjóð með vanþróað samgöngukerfi eins og við erum megi búast við því að fá verulega fjármuni til að byggja upp innviði samfélagsins eins og samgöngukerfi óneitanlega er. Hið frábæra hraðbrautakerfi Spánar, sem margir Íslendingar hafa kynnst af eigin reynd, er lýsandi dæmi um þetta. Spánn var reyndar aftur í grárri forneskju á flestum sviðum eftir áratuga óstjórn fasistans Franco en hefur tekið stórstígum breytingum í framfaraátt eftir inngöngu í ESB. Eitt af því sem Íslendingar ættu að gera nú þegar og ekki slá á frest er að afla haldgóðra upplýsinga af reynslu þeirra þjóða sem gengið hafa í ESB á seinustu áratugum. Þar getum við lært margt og mikið af reynslu annarra Norðurlandaþjóða, ekki síst Finna, sem telja sig hafa styrkt stöðu þjóðar sinna verulega með aðild að ESB. Þeir mæla það ekki bara á hagvaxtarmælikvarða, með sterkari stöðu á erlendum mörkuðum, lækkun verðlags og auknum stöðugleika í krafti evrunnar heldur einnig með auknu öryggi í samskiptum við hið risavaxna grannríki í austri sem oft hefur sett þeim harða kosti. Ef til vill gætum við lært hvað mest að reynslu Íra sem eru trúlega besta dæmið um gríðarlega jákvæð áhrif ESB aðildar fyrir smáþjóð sem áður var meðal fátækustu þjóða Evrópu en er núna í fremstu röð á mörgum sviðum.

Það sem við getum sagt með góðri samvisku um áhrif ESB aðildar á almannahag, ekki síst í ljósi reynslu annarra þjóða, er eftirfarandi: Við munum losna við óviðráðanlegar og ófyrirsjáanlegar sveiflur gjaldmiðils, sem reynslan sýnir að ekki er lengur gjaldgengur í viðskiptum, hvorki innanlands né erlendis. Við getum gert okkur vonir um verulega lækkað vöruverð og aukinn verðstöðuleika. Við vitum með vissu að vextir á lánum munu lækka verulega frá því sem nú er. Við vitum með vissu að viðskiptakostnaður mun lækka verulega og að það mun stuðla að meiri hagvexti en ella væri. Og við getum gert okkur vonir um að erlendar langtímafjárfestingar geti aukist í skjóli aukins stöðugleika og trausts gjaldmiðils.

Svo er annað: Síðastliðna hálfa öld hafa Bandaríkjamenn annast varnir Íslands í verktöku. Bandaríkin eru herveldi á útþensluskeiði. Þeir eru kerfisbundið að byggja upp herstöðvanet sem hefur að markmiði að tryggja þeim forræði yfir auðlindum annarra þjóða og að umkringja Kína sem þeir hafa skilgreint sem framtíðaróvin. Þessi árasargjarna útþenslustefna mun verða kveikiþráðurinn í hernaðarátökum vítt og breitt um veröldina á næstu áratugum. Það er hættulegt fyrir fámenna og herlausa þjóð að vera í aftaníossi þessa herveldis. Það samrýmist ekki okkar þjóðarhagsmunum sem byggja á því að alþjóðleg deilumál séu leyst á grundvelli laga og réttar. Evrópusambandið, aftur á móti, er friðarafl í heiminum.

Öll starfsemi ESB byggir á þeirri grunnforsendu að leysa deilumál milli þjóða með samningum og á grundvelli laga og réttar. Þess vegna sýnir reynslan að smáþjóðir sjá sínum hag vel borgið með samstarfi innan ESB. Við eigum heima í slíku samstarfi. ESB aðild okkar er því líka öryggismál rétt eins og hjá Finnum eða t.d. Eystrasaltsþjóðum. ESB aðild Íslands er því líka leið til þess að losa þjóðina úr banvænu faðmlagi Ameríkana. ESB mun fyrr eða síðar í framtíðinni annast sameiginlegar varnir og öryggi aðildarþjóða. Það öryggis- og varnarbandalag mun að lokum leysa NATÓ af hólmi. Það samrýmist nefnilega ekki þjóðarhagsmunum Evrópuríkja til frambúðar að vera áhrifalausir undirverktakar Ameríkana í ofbeldisverkum þeirra vítt og breitt um heiminn eins og t.d. nú í Afganistan og Írak. – Þetta er í stórum dráttum það sem reynsla annarra þjóða kennir okkur um það sem gæti áunnist við inngöngu í ESB.

En hver er fórnarkostnaðurinn? Við verðum að borga klúbbgjaldið sem verður áreiðanlega hærra en það sem við nú reiðum fram við rekstur EFTA og í þróunarsjóð ESB. Þeim fer nú ört fækkandi sem flokka missi sjálfstæðrar peningastefnu, afnám krónunnar og flutning Seðlabankans til Frankfurt til fórnarkostnaðar. Er einhverju að fórna? Sumir myndu jafnvel ganga svo langt að segja, að farið hafi fé betra. Ég tek ekki undir það. Engu að síður má líta svo á að traustur gjaldmiðill og aðild að sameiginlegri peningastefnu ESB teljist fremur til kosta við ESB aðild en galla.

-Gabriel Stein hagfræðingur sagði í samtali við Viðskiptablaðið fyrir skömmu að hann yrði ekki hissa á að Egill Skallagrímsson rísi uppúr gröf sinn til þess eins að höggva í hausinn á Evrópusinnum. Hann segir einnig að menn muni ekki virða undanþágu Íslendinga hvað varðar fiskveiðilögsögu okkar. Hvað segir þú um þessi ummæli?

„Því er fljótsvarað. Þessum andstæðingi Evrópusambandsins og spunameistara verður ekki kápan úr því klæðinu að vekja Egil Skallagrímsson upp frá dauðum, þar sem hann hefur hvílt í friði í gröf sinni í a.m.k. 1100 ár, og virkja afturgönguna, sem málaliða gegn Evrópu. Egill var sem kunnugt er fyrsti útrásarvíkingurinn sem haslaði sér völl víða um lönd sem öll eru gengin í ESB fyrir utan Noreg, sem hann herjaði á með harðfylgi. Það er nákvæmlega ekkert mark takandi á þessum ummælum enda liggja fyrir staðfestar yfirlýsingar frá réttum aðilum innan ESB um hið gagnstæða að því er varðar fiskveiðilögsöguna. Ég eyddi fjórum árum ævi minnar í samninga við ESB. Ég leyfi mér að efast um að þessi maður byggi á meiri reynslu en ég í þeim efnum.

-Hvað tekur það að þínu mati langan tíma að semja við ESB um inngöngu Íslands?

“Það þarf í sjálfu sér ekki að taka svo langan tíma. Ástæðan er sú að við erum nú þegar með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu eins konar aukaaðilar að ESB. Ég hef orðað það svo að við séum í ESB að um það bil tveimur þriðju (2/3) hlutum. Megnið af löggjöf okkar á mörgum sviðum t.d. að því er varðar viðskipti og umhverfismál kemur nú þegar frá ESB. Við erum fullgildir aðilar að innri markaði ESB, hinu svokallaða fjórfrelsi, eða öllu sem lítur að vöruviðskiptum, þjónustu, fjármálaþjónustu og vinnumarkaði fyrir utan margvíslega samninga og tengslanet á sviði vísindarannsókna, skólamála og í menningarsamstarfi. Það sem mun taka meiri tíma lýtur fyrst og fremst að því sem við þurfum að gera sjálf á heimavettvangi til að undirbúa aðildina. Við þurfum að vinna að því kerfisbundið frá og með deginum í dag að uppfylla þau skilyrði sem sett eru fyrir inngöngunni. Það er ærið verkefni og mun taka tímann sinn en allt það starf t.d. að því er varðar hagstjórnina verður mun markvissara og árangursríkara, ef hin pólitíska ákvörðun um að stefna að aðild liggur þegar fyrir. Þar með vitum við hverju við þurfum að breyta í eigin ranni og höfum sérstaka hvatningu til að fylgja þeim verkefnum eftir innan settra tímamarka. Þar að auki mun það taka tímann sinn að ná fram tilskildum breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins sem nauðsynlegar eru til að heimila ESB aðild. Þetta er stærsta verkefni íslenskra stjórnmála nú og í fyrirsjáanlegri framtíð. Það er ekki lengur eftir neinu að bíða.

-Nú hefur heyrst að þið Bryndís hafið keypt hús á Spáni: Eruð þið persónulega gengin í ESB?

Í fyrsta sinn lætur svarið eitthvað á sér standa. Hann dreypir á köldu kaffinu og svarar síðan eftir rækilega yfirvegun: Ég er í föðurætt upprunninn af norður Ströndum. Þar hafa menn það fyrir satt að fiskimenn frá Baskahéruðum Spánar hafi haft þar nokkra viðlegu og skotist með nánar óútskýrðum hætti inn í ættir mínar. Eins og um fleiri Vestfirðinga má því segja að nokkuð sé á huldu um hreinræktun stofnsins. Alla vega er ég viss um það að Hannibal og Finnbogi Rútur bróðir hans voru líkari Böskum en Mörlandanum bæði að upplagi og í útliti. Ætli það sé ekki eitthvað af þessu Baskablóði í mér líka? Og svo er annað: Þar sem þú ekur eftir hraðbrautum Andalúsíu, sem allar eru byggðar fyrir styrki frá ESB, kemurðu að skilti sem vísar á kastalaþorpið í Salobrena þar sem fornt varnarvirki Mára gnæfir við himinn efst á kletti út við ströndina. Nánari athugun leiddi í ljós að elsti hluti virkisins er frá tíð Púnverja, með öðrum orðum Karþagómanna, sem ríktu yfir stórum hluta Pýreneaskagans hér á öldum áður.. Varnarvirkið á klettinum, sem nú er orðið að minjasafni, var með öðrum orðum hluti af hervirkjum forföður míns Hannibals í stríði hans gegn Róm á þriðju öld fyrir Kristburð. Það er svona 10 mínútna gangur frá húsinu hennar Bryndísar að virkisveggjum Hannibals. Ætli það megi ekki leggja út frá þessari sögu eitthvað á þá leið að ég sé bara kominn heim til mín?