SJÁLFSHJÁLPARBÓK HANDA (HUGSANDI) KJÓSENDUM

Hörður Bergmann: Að vera eða sýnast: gagnrýnin hugsun á tímum sjónarspilsins. 154 bls. Skrudda 2007.

Málflutningsrit eða rökræðubókmenntir eru fásénar í íslenskri bókaflóru. Gagnrýnin hugsun – það að lýsa efasemdum um viðtekna venjuhugsun, virðist varla eiga heima í íslenskri umræðuhefð. Hefðin sú er mestan part ad hominem, þ.e.a.s. við hneigjumst til að hjóla í höfundinn sjálfan fremur en hugmyndir hans. En um hvað snúast umvandanir höfundar þessarar bókar?

Þær snúast um að afhjúpa vanahugsun, sem stenst lítt eða ekki, þegar nánar er að gáð. Hún snýst um að afhjúpa sjónarspilið og sýndarveruleikann, sem valdhafar, hagsmunaaðilar, atkvæðabraskarar og kaupahéðnar búa til, af því að það hentar þeim. Hér er reynt að kryfja heilaspuna og viðburðastjórnun valdhafanna og bera glansmynd þeirra saman við veruleikann, eins og venjulegt fólk kann að upplifa hann. Þetta er þörf hugarleikfimi á kosningaári, þegar kjörbúðaauglýsingar ráðandi flokka hellast yfir okkur, samkvæmt samkomulagi nýgerðu um allt að 28 milljónir pr. flokk (nota bene milljónirnar koma allar úr vösum skattgreiðenda, þannig að þeim er sjálfum ætlað að borga herkostnaðinn).

Óhjákvæmilega snýst þetta mikið um fjölmiðla. Þeir eru tengiliðir milli hagsmunaaðilanna (forstjóra og flokksformanna, sölumanna og hönnuða sýndarveruleikans) og almennings (neytenda, kaupenda, kjósenda og skattgreiðenda). Hér áður fyrr voru dagblöðin í eigu flokkanna. Hvert dagblað fór með sinn fjórða part af sannleikanum, þannig að þeir sem lásu þau öll, fengu sæmilega heildarmynd af því, sem var á dagskrá. Nú eru fjölmiðlarnir í eigu kaupahéðnanna sjálfra. Þeim er öllum stýrt – líka ríkisfjölmiðlinum – af mönnum, sem eru í nánum tengslum við stjórnarflokkana og forstjóraveldið. Sú skoðun, að fjölmiðlar í frjálsu samfélagi eigi að gegna sama hlutverki og skáldið eða listamaðurinn, nefnilega að vera alltaf í stjórnarandstöðu, er ósköp umkomulaus í okkar samfélagi. Fjórða valdið í okkar litla og einsleita samfélagi er mestan part framlenging framkvæmda- og forstjóravaldsins. Það er með þetta eins og annað á hinum örsmáa heimamarkaði, að tilhneigingin til fákeppni eða einokunar er ráðandi.

En skyldi þetta vera öðruvísi í útlöndum? Tökum dæmi. Þremur mánuðum eftir innrás Bandaríkjamanna og Breta inn í Írak sýndu allar bandarískar sjónvarpsstöðvar sviðsetta glæsimynd, þar sem forseti Bandaríkjanna og yfirmaður hátækniheraflans kom fljúgandi um borð í flugvélamóðurskip í fullum herklæðum orrustuflugmanns og tilkynnti þjóðinni með atbeina allra fjölmiðlanna: “mission accomplished” – fullnaðarsigur unninn. Allt í kringum þetta sjónarspil var fullkomin ósannindi. Pólitíska valdið (Hvíta húsið), þ.e. reppaflokkur Karl´s Rowe setti sjónarspilið á svið. Þeir notuðu ameríska herinn og flotann í flokkspólitískum tilgangi, og fjölmiðlakórinn, allur eins og hann lagði sig, lét misnota sig: Þúsundir sjónvarpsstöðva, útvarpsstöðva. Dagblaða og tímarita – allt var þetta lagt undir lygina. Almenningur var varnarlaus og lét auðveldlega blekkjast. Vinsældir forsetans mældust yfir 80%. Og svona gekk þetta daginn út og inn næstu árin, þangað til staðreyndirnar um hrakför hinna vígfúsu innrásarþjóða varð ekki lengur dulin. Fjölmiðlarnir gátu ekki lengur logið upp í opið geðið á sannleikanum. Það vakti athygli, af því að það er svo óvenjulegt, að virtustu dagblöð Bandaríkjamanna, New York Times og Washington Post, fundu sig til þess knúin að biðja lesendur sína afsökunar, eftir að ljóst var, að þau höfðu verið misnotuð af valdhöfunum í meira en tvö ár. En eftir stendur: Þau þorðu ekki að bera sannleikanum vitni, af því að það var óvinsælt og hefði kostað þau bæði auglýsingatekjur og óþægindi. Svo að ekki sé nú talað um bandarískar sjónvarpsstöðvar, sem líta á sig sem almannatengslaútibú frá ameríska hernum og flytja helst engar fréttir frá útlöndum, nema þaðan sem ameríski flugherinn er að útbreiða lýðræði með sprengjuárásum.

Hörður heldur þessu hraksmánarlega dæmi um fjölmiðlafúsk samtímans til haga. Og hann tekur fjölmörg önnur dæmi af sama toga úr músarholu íslenskrar fjölmiðlatilveru. Því að eðlið er hið sama, þótt veruleikinn sé smærri í sniðum. Nú líður varla sá dagur, að ráðherrar birtist ekki á sjónvarpsskjám eða í myndmáli blaða, þar sem þeir eru að útdeila peningum almennings í hitt og þetta vinsældajukk: Ljóskan í Menntamálaráðuneytinu kemur færandi hendi og afhendir háskólastýrunni í Vatnsmýrinni þrjá milljarða upp á krít. Það er klippt á borða og skrifað undir samninga um úthlutun fjármuna almennings, allt að tvö kjörtímabil fram í tímann, og fjölmiðlarnir dansa með, láta misnota sig og taka þannig þátt í að afvegaleiða almenningsálitið, sem er varnarlaust fyrir svona skrumi. Veruleiki almennings er hins vegar sá, að það er talið glæpsamlegt athæfi að gefa út innistæðulausar ávísanir. Samt láta ráðherrarnir þessum blankótékkum rigna yfir lýðinn, og má vart á milli sjá, hver er stórtækastur, enda svínvirkar þetta með dyggilegri aðstoð fjölmiðlanna. Stundum er þessi pólitíska misnotkun fjölmiðla svo heimuleg, að fjölmiðlunum er vorkunn að kunna ekki að vara sig. Fyrir nokkrum mánuðum varð kona fyrsti utanríkisráðherra Íslands. Hún byrjaði á að láta varnarmálin frá sér, af því að þau voru þá eina verkefni ráðuneytisins, sem var vandasamt. Það fluttist yfir til forsætisráðuneytisins. Svo lagðist frúin í ferðalög. Hún birtist sjónvarpsáhorfendum, helst hvítklædd, í hitabeltisumhverfi með krúttleg börn og þeldökk á arminum og hvítklæddar stöllur úr ferðaklúbbi hennar í baksýn. Þar að auki er sagt hún hafi breytt íslensku friðargæslunni í ljósmóðurhjálp í Afganistan. Hvernig skyldu konur í Afganistan hafa farið að, áður en ljósmóðurhjálpin barst frá Lómatjörn? Með þessu sjónarspili (sem er sjálfsögðu hannað af auglýsingastofu á kostnað skattgreiðenda) er reynt er að búa til þá ímynd, að kvenlegar áherslur setji nú svip sinn á utanríkisstefnu lýðveldisins. Og Mogginn spilar með og skrifar fjálglega leiðara um glansmyndina.