HIÐ OPNA ÞJÓÐFÉLAG OG ÓVINIR ÞESS

Eiríkur Bergmann Einarsson: OPIÐ LAND – Ísland í samfélagi þjóðanna. 138 bls. Skrudda 2007.

Eins og heiti bókarinnar bendir til, leitast höfundur við að skýra og skilgreina stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna á hraðfara breytingaskeiði, sem kennt er við hnattvæðingu. Sjálfur tekur hann afdráttarlausa afstöðu út frá grundvallarsjónarmiðum: Hann vill opna landið upp á gátt og lítur á hnattvæðinguna fremur sem tækifæri en ógnun.

Höfundur ræðir stöðu Íslands sem jaðarríkis eða aukaaðila að Evrópusambandinu. Hann ræðir fumkennd viðbrögð íslenskra ráðamanna við einhliða ákvörðun Bandaríkjastjórnar um heimkvaðningu varnarliðsins. Hann ræðir um land óttans – Bandaríkin undir Bush – og að hve litlu haldi hernaðaryfirburðir Bandaríkjamanna koma í herför þeirra gegn hinum ósýnilega óvini. Hann ræðir um fjölmenningarþjóðfélag og viðbrögð hinna ríku þjóðfélaga Vesturlanda við innstreymi fátæks fólks í leit að atvinnu og bættum kjörum. Og spyr, hvað sé til ráða? Þá fjallar hann um afleiðingar búverndarstefnunnar fyrir bæði bændur og neytendur. Hann ræðir um stöðu ísl-enskunnar í sívaxandi alþjóðasamskiptum og um hermennskuleiki íslenskra friðargæsluliða, sem koma frá hinu herlausa landi. Loks ræðir hann um úrelt sendiráð, sem að hans mati hefur dagað uppi í veröld, sem stjórnast af hraðsamskiptum á veraldarvefnum.

“Opingáttarmenn gegn innilokunarsinnum.”

Flest vekja þessi viðfangsefni upp spurningar, sem kalla á svör, sem enn eru ófundin eða lítill samhugur er um. Hefðbundin orðræða sjálfstæðisbaráttunnar flíkar hugtökum eins og þjóðríki og fullveldi. En er hægt að kalla ríki fullvalda, sem hefur í hálfa öld boðið út varnir ríkisins til verktaka í Washington? Og þykist standa utan við Evrópusambandið, en fær samt sent í pósti 80% af þeirri löggjöf, sem Evrópusambandsríki eins og Svíþjóð, yfirtekur frá Brussel? Ríki sem er upp á aðra komið um varnir landsins og innra öryggi, er samkvæmt skilgreiningu ekki fullvalda. Ríki sem hefur framselt löggjafarvald í hendur fjölþjóðastofnunar, sem ríkið á ekki aðild að, er skv. skilgreiningu ekki fullvalda Við aðstæður sem þessar er það ómótmælanlegt, að aðild Íslands að Evrópusambandinu mundi styrkja fullveldi ríkisins, en ekki veikja það.

Er það rétt, að inntakið í hagstjórnarhugmyndum 19. og 20. aldar um markaðsbúskap, atvinnu- og verslunarfrelsi innan ríkis og þvert á landamæri, hafi í reynd ekki fest rætur á Íslandi fyrr en á allra seinustu árum? Er það rétt, sem Guðmundur Hálfdanarson, sagnfræðingur, hefur manna best sýnt fram á, að á Íslandi hafi ekki þróast frjálslynd þjóðernisstefna, heldur hafi þjóðernissinnað íhald ráðið för? Að frelsishugmyndir frjálslyndisstefnunnar hafi að vísu náð til þjóðríkisins, en síður til einstaklinganna, sem mynda það? Og að ríkisforsjá og forræðishyggja hafi þess vegna átt miklu sterkari ítök í hugmyndaheimi ráðandi afla og meðal stjórnmálaflokka til hægri og vinstri, en tíðkast annars staðar?

Er það rétt, að á Íslandi hafi hinar pólitísku átakalínur í stærstu málum þjóðarinnar ekki staðið milli hægri og vinstri (og þaðan af síður milli grárra og grænna), heldur milli “opingáttarmanna annars vegar og innilokunarsinna hins vegar”? Hver voru þau stórmál, sem helst skiptu þjóðinni í flokka á öldinni, sem leið? Aðildin að Atlantshafsbandalaginu (NATO) 1949, varnarsamningurinn við Bandaríkin 1951, aðildin að EFTA 1970, samningurinn um evrópska efnahagssvæðið , sem olli mestum deilum fyrir kosningarnar 1991. Og spurningin um aðildina að Evrópusambandinu í framtíðinni mun væntanlega fylgja sömu átakalínum.

Meira að segja deilumál á borð við stöðu íslenskrar tungu, straum innflytjenda til landsins, boð og bönn um viðskipti með landbúnaðarvörur og fjárfestingar í sjávarútvegi, – allt snýst þetta meira og minna um þennan átakaás. Hörðustu átökin og þau, sem vekja mestan tilfinningahita standa milli þeirra, sem aðhyllast alþjóðahyggju og fjölþjóðasamstarf annars vegar og hinna, sem óttast það eða gjalda við því varhug hins vegar. Milli þeirra sem eygja ný tækifæri í hnattvæðingunni og hinna, sem líta á alþjóðavæðinguna fyrst og fremst sem ógn, sem þjóðerni og þjóðríki stafi hætta af.

Goðsögnin um Sjálfstæðisflokkinn.

Fjölmiðlum þótti það einna helst fréttnæmt við útkomu þessarar bókar, að höfundurinn teldi andstöðu forystumanna Sjálfstæðisflokksins við aðild Íslands að Evrópusambandinu vera stílbrot á hefðbundinni utanríkisstefnu flokksins á lýðveldistímanum. En er það svo? Máli sínu til stuðnings nefnir höfundurinn, að Sjálfstæðisflokkurinn hafði forystu um aðildina að NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin og studdi aðildina að EFTA og EES –samninginn undir lokin, þótt jafnaðarmenn gegndu ótvíræðu forystuhlutverki varðandi tvö síðastnefndu málin.

En hver er munurinn á verndarstefnu Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna í landbúnaði og að því er varðar erlendar fjárfestingar í sjávarútvegi? Og eins má spyrja um ríkisforsjá og pólitíska forræðishyggju í hagstjórn, sem lýsti sér í haftabúskap og leyfisveitingafargani lengst af á 20. öld. Því fer fjarri, að Sjálfstæðiflokkurinn hafi verið andstæðingur ríkisforsjár og haftabúskapar eða frumkvöðull að markaðsbúskap innan lands eða að fríverslun í milliríkjaviðskiptum. Þegar undirritaður beitti sér fyrir afnámi leyfisveitingavalds ríkisins í útflutningsversluninni snemma á tíunda áratugnum, kom harðasta andstaðan gegn auknu viðskiptafrelsi frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í atvinnulífinu. Forverar Sjálfstæðisflokksins, þau stjórnmálaöfl, sem síðar runnu saman við stofnun hans 1929, innleiddu haftabúskapinn á árum fyrra stríðs og héldu honum við í kjölfar stríðsins.

Það er mesti misskilningur, að vinstri stjórn Hermanns Jónassonar á kreppuárunum hafi fundið upp haftabúskapinn, þótt sú stjórn hafi að vísu beitt innflutningshöftum og verndartollum, eins og nær allar ríkisstjórnir gerðu á þeim tíma með viðbrögðum sínum við heimskreppunni. Sjálfstæðisflokkurinn ýmist leiddi eða sat í ríkisstjórnum frá og með Þjóðstjórninni frá 1939 til 1956. Við lok seinni heimstyrjaldarinnar gafst kjörið tækifæri, vegna mikilla gjaldeyrisinneigna þjóðarbúsins í lok stríðsins, til að uppræta haftabúskapinn og innleiða markaðsbúskap og frelsi í utanríkisviðskiptum. Leiðtogar Sjálfstæðisflokksins gerðu ekkert slíkt. Þeir mynduðu nýsköpunarstjórnina undir eigin forystu 1944, en á hugmyndafræðilegu forræði kommúnista og hertu enn á ríkisforræði og forsjárhyggju. Þeir klúðruðu tilraun til kerfisbreytingar fyrir miðja öldina, sem kennd er við dr. Benjamín Eiríksson, ekki einasta vegna erfiðra ytri aðstæðna, heldur einnig vegna þess að skilningur forystumanna Sjálfstæðisflokksins á mikilvægi markaðsbúskapar var takmarkaður, svo að hugur fylgdi lítt máli.

Það er söguleg staðreynd, að stærstu skrefin frá ríkisforsjá og haftabúskap og í átt til markaðsbúskapar og viðskiptafrelsis voru tekin undir forystu jafnaðarmanna, annars vegar á Viðreisnarárunum, (1960-1971) og síðar á tíma vinstri stjórnar Steingríms Hermannssonar (1988-1991) og fyrir áhrif EES- samningsins (1989-1994). Frumkvæði Sjálfstæðisflokksins að NATO- aðild og varnarsamningi við Bandaríkin á tímabili kalda stríðsins var einkum réttlætt með ótta við útþenslustefnu Stalíns og ógnarstjórn hans, – og byggði á andkommúniskri hugmyndafræði fremur en eðlislægri alþjóðahyggju.

Þrátt fyrir að hafa grætt á stríðinu var Ísland á þessum árum þiggjandi Marshallaðstoðar frá Bandaríkjamönnum. Skilyrði fyrir veitingu Marshallaðstoðar var, að ríkin sem þáðu aðstoðina legðu af haftabúskap stríðsáranna og tækju upp markaðsbúskap og opnuðu hagkerfi sín smám saman fyrir frjálsum viðskiptum. Undir forystu Sjálfstæðismanna knúðu Íslendingar fram undanþágur frá þessum skilyrðum og sátu fastir við sinn haftakeip. Stjórnmálaforystan var almennt þeirrar skoðunar, að efnahagslögmál, sem kynnu að gilda úti í hinum stóra heimi, giltu ekki á Íslandi. Sjónarmið af þessu tagi hafa reynst furðu lífseig meðal forystumanna, sem kenna sig bæði við hægri og vinstri.

Davíð Oddsson: Yfirlýstur Evrópusinni.

Þegar undirritaður beitti sér fyrir myndun Viðeyjarstjórnarinnar að loknum kosningum vorið 1991, var það gert í þeim tilgangi að tryggja gildistöku EES-samningsins, en efni samningsins og inntak var að mestu umsamið 1989-91, þ.e. í tíð vinstri stjórnar Steingríms Hermannssonar. Ástæðan fyrir þessari stjórnamyndun var m.ö.o. sú, að forystumenn Framsóknarflokks og Alþýðubandalags, þeirra á meðal Steingrímur Hermannsson og Ólafur Ragnar Grímsson, höfðu í kosningabaráttunni snúist gegn þessu stærsta umbótamáli vinstristjórnarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn í stjórnarandstöðu, undir forystu Þorsteins Pálssonar, var andvígur EES-samningnum og boðaði í staðinn tvíhliða samning um bættan markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir, – sem reyndar stóð ekki til boða.

Þegar hér var komið sögu hafði ég ekki kynnst nýjum formanni Sjálfstæðisflokksins neitt persónulega. Mér var hins vegar kunnugt um, að Davíð hafði leitt starf aldamótanefndar Sjálfstæðisflokksins, sem lýsti jákvæðri afstöðu til Evrópusambandsins í skýrslu árið 1989. Mér var einnig kunnugt um, að í bókinni Ísland – Arvet fra Tingvellir, sem kom út í Svíþjóð árið 1990, lýsti Davíð afar jákvæðri afstöðu til Evrópusambandsaðildar, í viðtali við Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor. Eiríkur Bergmann vitnar í bók sinni í eftirfarandi ummæli Davíðs:

“Mín skoðun er sú, að hvað sem öðru líður, verði stærsta pólitíska verkefni okkar á næstu árum, hvernig við gætum okkar eigin hagsmuna í breyttum heimi; við verðum að laga okkur að þeirri staðreynd, að meirihlutinn af viðskiptum okkar er við Evrópubandalagið; ég hef opinberlega lagt til, að við sækjum um aðild.”

Það lá m.ö.o. fyrir, áður en Viðeyjarstjórnin var mynduð, að nýkjörinn formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, var yfirlýstur Evrópusinni. Ég taldi mig því geta treyst því, að Davíð Oddssyni væri ekkert að vanbúnaði að styðja EES-samninginn, eins og kom á daginn, þótt flokkur hans hefði í stjórnarandstöðu lýst andstöðu við samninginn. Ég hafði heldur ekki neina ástæðu til að ætla annað en að formaður Sjálfstæðisflokksins væri reiðubúinn til að vinna að fullri Evrópusambandsaðild, ef pólitísk skilyrði sköpuðust fyrir því í framtíðinni. Þess vegna var Viðeyjarstjórnin mynduð.

Andstaðan við EES: Örlagarík mistök.

Það er fróðlegt í ljósi kenningar Eiríks um átakalínurnar milli “opingáttarmanna” og “innilokunarsinna” að skoða afstöðu flokkanna til EES-samningsins og Evrópusamstarfsins með ráðandi arfleifð stjórnmálaflokkanna í huga. Sú staðreynd virðist nú gleymd og grafin, að EES-samningurinn var að mestu, að því er varðar sjálft inntak samningsins, fullfrágenginn í tíð vinstristjórnar Steingríms Hermannssonar. Það sem helst olli viðsjám og flokkadráttum, t.d. fjárfestingarréttur útlendinga og frjáls för launafólks, yfirgnæfði öll önnur mál í kosningabaráttunni vorið 1991. Það sem út af stóð og var til lykta leitt síðar, varðaði einkum stofnanaumgjörð samningsins, stjórnun og lausn deilumála. Sjálfstæðisflokkurinn lét með öðrum orðum aldrei brjóta á sér í þeirri hörðu baráttu, sem þurfti að heyja til að sannfæra þjóðina um ágæti EES-samningsins. Áhrifamenn úr röðum sjálfstæðismanna eins og t.d. Eyjólfur Konráð Jónsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, var ásamt fleirum harður andstæðingur samningsins.

Vinstristjórnin, sem bar stjórnskipulega ábyrgð á samningsniðurstöðunni, hélt velli í kosningunum vorið 1991. Vinstristjórnin hefði því væntanlega setið áfram við völd kjörtímabilið 1991-1995, ef forystumenn Framsóknaflokks og Alþýðubandalags hefðu ekki í kosningabaráttunni snúið baki við EES-samningnum. Það voru mikil pólitísk mistök, sem dregið hafa langan slóða á eftir sér. Stjórnmálaþróunin hefði trúlega orðið öll önnur en hún varð. Davíð Oddsson hefði orðið að láta sér leiðast í stjórnarandstöðu. Örlög Framsóknarflokksins hefðu getað orðið öll önnur og þekkilegri en nú er orðið. Og samruninn á vinstri væng hefði trúlega tekist betur á grundvelli vaxandi gagnkvæms trausts í stjórnarsamvinnu.

Hvers vegna sneru þeir Steingrímur Hermannsson og Ólafur Ragnar Grímsson baki við EES-samningnum? Von um ávinning í atkvæðum á kostnað samstarfsaðilans, Alþýðuflokksins , í þingkosningunum, er ein skýringin. Hin er sú, að innilokunarafstaðan var auðvitað í stíl við fortíð Alþýðubandalagsins, og Framsóknarflokksins reyndar líka, sem hafði meira að segja snúist gegn aðildinni að EFTA 1970. Með því að styðja EES-samninginn staðfastlega hefðu þessir forystumenn fengið tækifæri til að rjúfa heimóttarhefð flokka sinna. Þetta hefði styrkt stöðu þessara flokka og veikt þá ímynd Sjálfstæðisflokksins, að honum einum væri treystandi fyrir hagstjórninni og til að gæta hagsmuna atvinnulífsins. Þar með hefðu þessir flokkar líka fengið tækifæri til að sækja lengra inn á miðjuna og skapa forsendur fyrir samstarfi vinstriflokkanna í framtíðinni. Öllu þessu klúðruðu þeir í von um skammtímaatkvæðaumbun.

En hvað með þá kenningu Eiríks, að andstaða Sjálfstæðisflokksins í formannstíð Davíðs við aðild Íslands að Evrópusambandinu, sé pólitískt stílbrot í ljósi fortíðar flokksins á lýðveldistímanum? Hversu vel grunduð er goðsögnin um Sjálfstæðisflokkinn sem hinn stefnufasta málsvara markaðsbúskapar og fríverslunar? Hefur Sjálfstæðisflokkurinn fylgt “opingáttarhefðinni” gegn þeim innilokunarsinnum, sem hefur staðið ógn af opnun hagkerfisins og af of nánu fjölþjóðlegu samstarfi?

Völdin valdanna vegna.

Gleymum því ekki, að Sjálfstæðisflokkurinn er eins konar regnhlífarsamtök sérhagsmunahópa. Hann keppti löngum við Framsóknarflokkinn um atkvæði bænda í sveitum landsins með því að yfirbjóða búverndarstefnu bændaforystunnar. Eða hvers vegna var Sjálfstæðisflokkurinn andvígur EES-samningnum, meðan hann var í stjórnarandstöðu við vinstristjórn Steingríms Hermannsonar á árunum 1988-91? Að einhverju leyti má skýra það með hentistefnu stjórnarandstöðuflokksins. Meginskýringin er þó sú, að þessi stefna var fengin að láni frá LÍÚ, sem var allan tímann afar tortryggið á EES-samninginn, og vildi helst engu til fórna að fá fram viðurkenningu á grundvallarreglunni um fríverslun með sjávarafurðir.

Eiríkur minnir á, að römm þjóðernishyggja er hluti af pólitískri arfleifð Sjálfstæðisflokksins, svo sem nafn flokksins á að undirstrika. Lengst af á lýðveldistímanum keppti Sjálfstæðisflokkurinn við Framsóknarflokkinn um stjórnarforystu og völd í ríkiskerfinu á grundvelli hinnar frægu helmingaskiptareglu milli einkageirans og atvinnureksturs á snærum samvinnuhreyfingarinnar. Ríkisvaldið var stjórntæki í höndum þessara flokka til að úthluta gæðum og skipta hlunnindum. Þetta stjórnarfar einkenndist af ríkisforsjá í nafni flokksræðis. Flest var bannað, nema það sem var sérstaklega leyft. Og leyfunum var oftast úthlutað samkvæmt helmingaskiptareglunni.

Hvers vegna skipti Davíð Oddsson um skoðun á aðild Íslands að Evrópusambandinu, eftir að hann var tekinn við flokks- og stjórnarforystu? Eiríkur hefur ekki almennilega skýringu á því, en vill rekja það að einhverju leyti til presónulegra samskipta okkar Davíðs í Viðeyjarstjórninni. Nefnilega að Davíð hafi snúist öndverður við, þegar við jafnaðarmenn kváðum upp úr um það á árinu 1994, að við vildum, að Ísland fylgdi samstarfsþjóðum okkar í EFTA, og þá sérstaklega Svíum og Finnum, inn í Evrópusambandið árið 1995. Að Davíð Oddsson hafi ekki viljað una því, að við mörkuðum stefnuna fyrir hönd ríkisstjórnar hans (eins og við höfðum gert í EES málinu) og því brugðist harkalegar við en ella. Þetta er ekki mjög trúverðug skýring. Miklu nærtækari er sú skýring, að Davíð hafi talið sig hafa ástæðu til að óttast, að jákvæð afstaða til Evrópusambandsaðildar gæti leitt til klofnings í Sjálfstæðisflokknum og þar með stofnað lykilstöðu flokksins í valdakerfinu í hættu. Hefði hann getað fengið stórútgerðina i LÍÚ, búverndardeildina og landsbyggðararminn til að spila með í slíkri pólitík? Það var satt að segja ekki mjög líklegt.

Eitt af mörgum ágreiningsmálum milli flokkanna í Viðeyjarstjórninni snerist um hvort draga ætti úr innflutningsvernd og ríkisstyrkjum til landbúnaðar, sem var á dagskrá í samningalotum, sem nú eru kenndar við Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO). Formaður Sjálfstæðisflokksins reyndist vera með öllu ósveigjanlegur í stuðningi við búverndarstefnuna. Hann vildi ekki gefa Framsókn höggstað á Sjálfstæðisflokknum með neinum tilslökunum í því efni í þágu lækkaðs vöruverðs til neytenda. Með þessari afstöðu sinni tók Davíð sér stöðu innan hefðbundinnar afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Á viðreisnarárunum fékk Gylfi Þ. Gíslason engu tauti komið við landbúnaðararm Sjálfstæðiflokksins undir forystu Ingólfs frá Hellu, að því er varðaði hið ríkisstyrkta landbúnaðarkerfi og útflutningsbæturnar. Bjarni Benediktsson viðurkenndi, að hann réði einfaldlega ekki við það.

Davíð Oddsson skildi eðli Sjálfstæðisflokksins sama skilningi og Bjarni. Tilgangur flokksins er einfaldlega að halda völdum – valdanna vegna. Til þess að þjóna því markmiði verður að halda helstu sérhagsmunahópunum saman, án þess að það kosti flokkinn fjöldafylgi. Þetta snýst ekki nema að litlu leyti um hugmyndir; það snýst um völdin – kjáninn þinn! Goðsögninni um Sjálfstæðisflokkinn sem málsvara markaðsbúskapar og viðskiptafrelsis er hins vegar ætlað að breiða yfir veruleikann. Hannes Hólmsteinn sér um hugmyndafræðina, en Davíð sá um það sem máli skipti: Völdin valdanna vegna.

Pólitískar forsendur Evrópusambandsaðildar.

Þessi dæmi sýna, að “innilokunarleiðin” á rík ítök í Sjálfstæðisflokknum. Hugarfar ríkisforsjár í atvinnulífinu í krafti flokksræðis er forystumönnum flokksins, mörgum hverjum, runnið í merg og bein. Fyrirtækin eiga að styðja flokkinn til þess svo að njóta fyrirgreiðslu hans, þegar á þarf að halda. Þeir sem ekki hlíta þessum leikreglum, fá að kenna á því. Baugur – beware. Því eru þröng takmörk sett, hversu langt flokkurinn getur gengið í frjálsræðisátt. Þess vegna fer vel á því, að flestir forystumanna flokksins eru heimalningar úr lögfræðingastétt, þótt það hafi breyst með formannskjöri Geirs Haarde. Kannski í því felist dulítil skilaboð, að breytinga kunni að vera að vænta í framtíðinni? Pólitísk arfleifð Davíðs Oddssonar felst einkum í þrennu: Einarðri andstöðu við aðild Íslands að Evrópusambandinu, fylgispekt við bandaríska utanríkisstefnu og kröfunni um sjálfstæða peningamálastjórn. Í því felst að framselja ekki í annarra hendur ákvörðunarvaldið um gengi gjaldmiðilsins sem neyðarúrræði, þegar allt annað hefur brugðist í hagstjórninni.

Þessi arfleið er fyrirsjáanlega að syngja sitt síðasta í náinni framtíð. Bandaríkin hafa snúið við okkur bakinu. Innlend peningamálastjórn hefur brugðist. Innlend stjórnvöld munu ekki ná aftur valdi á gengisskráningunni. Markaðsöflin hafa þar tekið völdin, og fyrirtækin flýja á náðir evrunnar í von um þann stöðugleika, sem þeim er nauðsynlegur. Og þá er stutt í það, að forstjóraveldið, forysta fyrirtækjanna og samtaka atvinnulífsins, knýi á um það, að Ísland stígi lokaskrefið inn í Evrópusambandið. Hefur ekki meirhluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins samkvæmt skoðanakönnunum lengi verið þeirrar skoðunar, að óska beri eftir samningaviðræðum? Var ekki Þorsteinn Pálsson, forveri Davíðs Oddssonar á formannsstóli Sjálfstæðisflokksins, að boða þá stefnu í ræðu á ársfundi Samtaka iðnaðarins? Spurningin er ekki lengur um, hvort Sjálfstæðisflokkurinn muni gera þau sjónarmið að sínum, heldur aðeins – hvenær?